Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis,
bréf til allra nefndarmanna,
Nefndasvið Alþingis,
150 Reykjavík.
Reykjavík, 10. mars 2013.
Vísað er í tölvu svarpóst (feitletrað) frá Álfheiði Ingadóttur fyrir hönd stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, dagsett 7. mars 2013.
…………………
„Tillaga meirihlutans er skýrari að því leyti að í henni er fylgt lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu nr. 57/1998 1998, þar sem segir að sjávarbotninn innan netlaga, fylgi eignarhaldi á sjávarjörðinni sjálfri:
…………………….
Fyrra orðalag mátti túlka á þann hátt að eignarhaldi sjávarjarða fylgdi ekki aðeins botninn innan netlaga heldur einnig nytjastofnar sjávar og aðrar auðlindir hafsins innan netlaga.
Með tillögunni er þannig fylgt gildandi lögum og enginn réttur af mönnum tekinn. Tekið er fram í nefdnaráliti og skýringum með 35. gr. að deilur sem uppi kunna að vera um eignarhald og óbein eignarréttindi leysast ekki með nýrri stjórnarskrá heldur aðeins fyrir dómstólum. Að öðru leyti vísa ég til skýringa við ákvæðið, sjá bls. 59 í meðf. áliti á þingskjali 1112:“ …..
Við (SES) vísum í skýrslu sem Skúli Magnússon, dósent í lögum við Háskóla Íslands, vann fyrir Sjávarútvegsráðuneytið að beiðni nefndar um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða, dagsett 4. september 2001.
Heiti skýrslunnar er „Um stjórnskipulega vernd fiskveiðiréttar sjávarjarða.“
Þetta er löng skýrsla og því aðeins gripið niður í tvær greinar.
Gr. 2.6. Niðurstaða um heimildir eigenda sjávarjarða til veiða úr nytjastofnum innan netlaga jarða sinna.
„Samkvæmt því sem að framan greinir njóta landeigendur ótvírætt einkaréttar til fiskveiða innan netlaga sinna. Samkvæmt fordæmum hæstaréttar verða netlög jarða ekki ákveðin með hliðsjón af fjarlægðarreglu veiðitilskipunar fyrir Ísland frá 1849 eða síðari lagasetningu sem miðast við 115 metra frá stórstraumsfjöruborði þegar um er að ræða fiskveiðirétt. Verður því enn sem fyrr að ákveða netlög í þessu sambandi á grundvelli dýptarreglu 2. kapitula rekabálks Jónsbókar.“
Gr. 3. Verður fiskveiðiréttur landeiganda í netlögum takmarkaður með áskilnaði um veiðiheimildir samkvæmt lögum nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða?
„Fiskveiðiréttur eiganda í netlögum sjávar fyrir landi hans felur í sér sjálfstæð fjárhagslega verðmæt réttindi. Þessi réttindi eru þó svo nátengd umráðum og afnotum viðkomandi fasteignar að þau má kalla fasteignatengd. Réttindi sem þessi teljast ótvírætt til eignarréttar í skilningi 72. Gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. 10 gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995. Nægir því til stuðnings að benda á að almennt er viðurkennt að veiðiréttur í ám og vötnum, sem tengdur er fasteignum með sambærilegum hætti, njóti verndar eignaréttarákvæðis stjórnarskrárinnar.“
Það er nákvæmlega þannig sem þetta er, að nytjastofnar og aðrar auðlindir hafsins innan netlaga tilheyra sjávarjörðum og hafa gert síðan Jónsbókarlögin voru sett árið 1281. Hvort sem ykkur líkar það betur eða verr þá eru nytjastofnar sjávar óskipt sameign eigenda sjávarjarða og þjóðarinnar.
Það er mjög furðulegt afstaða hjá nefndarmönnum að grundvallarlöggjöf eins og stjórnarskrá skuli aðlöguð að umdeildum lögum eins og „kvótalögunum“ eða lögum nr. 57/1998, sem þið vísið í. Væri þá ekki nær að miða við Jónsbókarlöginn frá 1281 sem hafa dugað vandræðalaust í meira en 700 ár.
Breytingartillagan er fljótfærnislega unnin. Það er ekki hægt að setja afturvirk lög, lög sem eru í andstöðu við Jónsbókarlögin, sem eru meginreglur.
Það er sorglegt til þess að hugsa hvað nefndarmenn eru illa upplýstir um íslensk lög. Þið hefðuð betur gefið ykkur tíma til að hlusta á það sem við höfðum fram að færa þegar fulltrúar okkar komu fyrir nefndina sem þið berið ábyrgð á, í stað þess að sýna þeim hroka. (Þetta á aðeins við formann nefndarinnar).
Við erum í langan tíma búnir að iðka svokallað „samtal“ við yfirvöld í þessu landi með litlum árangri. Það vaknaði von þegar félagshyggjuflokkarnir komust til valda en niðurstaðan í samskiptum við þá er sýnu verri en við forverana.
Samkvæmt gildandi íslenskum lögum er eignarréttur sjávarjarða á öllum auðlindum innan netlaga lögvarinn, þar með talið fiskar, skeldýr og þari. Það er krafa eigenda sjávarjarða að stjórnarskrá lýðveldisins verði í samræmi við það.
Virðingarfyllst,
f.h. Samtaka eigenda sjávarjarða
Ómar Antonsson, formaður,