Lög
Landssamtaka eigenda sjávarjarða
1. gr.
Félagið heitir; Landssamtök eigenda sjávarjarða. Félagssvæðið er allt landið. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.
2. gr.
Félagar geta þeir orðið sem; a) eiga og/eða nytja sjávarjarðir; b) eru áhugamenn um hlunnindarétt jarða.
3. gr.
Tilgangur félagsins er:
- Að fá útræðisrétt sjávarjarða virtan á ný og staðfestan í gildandi lögum um stjórn fiskveiða.
- Að vinna að því að eignarréttindi sjávarjarða innan netlaga, sem og tiltöluleg eignarhlutdeild í sjávarauðlindinni í heild, verði virt og í heiðri höfð.
4. gr.
Tekna til starfsemi félagsins skal aflað með; a) félagsgjöldum sem ákveðin eru á aðalfundi félagsins hverju sinni; b) öðrum þeim aðferðum sem stjórn félagsins telur árangursríkar, enda sé slík ákvörðun kynnt á næsta aðalfundi félagsins.
5. gr.
Stjórn félagsins skipa allt að sjö menn og skulu þeir kosnir á aðalfundi félagsins. Stjórnin skiptir með sér verkum eftir að stjórnarkjör hefur farið fram. Á sama hátt skal kjósa tvo skoðunarmenn reikninga og varamenn þeirra. Velja má sérstakan framkvæmdarstjóra ef þurfa þykir, ella hafi stjórnin á hendi allar framkvæmdir félagsins hverju sinni. Stjórnarfundir teljast löglegir ef þrír stjórnarmenn mæta til fundar.
6. gr,
Aðalfund skal halda árlega á þeim tíma sem best hentar hverju sinni, samkvæmt ákvörðun stjórnar félagsins. Á aðalfundi gerir stjórnin grein fyrir störfum félagsins á liðnu ári og leggur fram tillögur til verkefna næsta árs.
Hún skal einnig leggja fram endurskoðaða reikninga félagsins og úrskurðar aðalfundur niðurstöður þeirra.
Á milli aðalfunda skal halda aukafundi eftir því sem stjórn félagsins telur þörf á, einnig ef minnst 10% félagsmanna óskar þess.
7. gr.
Tillögur til lagabreytinga skal tilkynna með aðalfundarboði. Einnig skal boða meiriháttar framkvæmdaáætlanir með aðalfundarboði.
8. gr.
Atkvæðisrétt á fundum félagsins hafa allir félagsmenn sem greitt hafa árgjald.
Aðalfund skal boða með þeim hætti sem best hentar hverju sinni og með minnst tíu daga fyrirvara.
9. gr.
Lögum félagsins má aðeins breyta á aðalfundi og þarf til þess a.m.k. 2/3 hluta atkvæða fundarmanna.
Þannig samþykkt, eftir breytingar, á aðalfundi Samtakanna 29. maí 2021