Aðalfundarboð

Samtök eigenda sjávarjarða
Pósthólf 90
780 Hornafjörður

11. mars 2013.

Aðalfundarboð

Aðalfundur Samtaka eigenda sjávarjarða, Ses, verður haldinn fimmtudaginn 21. mars 2013 á Hótel Sögu (Radisson, SAS hótel) í salnum Keilir á 2. hæð Bændahallarinnar í Reykjavík og hefst hann kl. 15:00 og er þetta bréf fundarboð.
Fram fara venjuleg aðalfundarstörf.
Væntum við þess að sem flestir mæti og sýni þar með samstöðu í þessu mikilvæga máli.
Stjórn Ses.


Ágæti félagi
Sendum þér hér með gíróseðil vegna árgjalds til Samtakanna fyrir árið 2012 að upphæð kr. 4.500. Þar sem rukkun fór inn á heimabanka um leið og seðlarnir voru prentaðir þá eru þegar margir búnir að greiða. Þökkum við hröð viðbrögð.

Við vonum að félagsmenn bregðist vel við og greiði félagsgjöldin sem fyrst, þau eru einu tekjur samtakanna og án þeirra er ekkert hægt að gera.
Frá síðasta aðalfundi hefur stjórnin haldið nokkra stjórnarfundi auk annarra samskipta. Mörg bréf hafa verið send til nefnda Alþingis með athugasemdum við lagafrumvörp. Upplýsingum var komið til stjórnlagaráðs um eignarrétt sjávarjarða sem lagafyrirmæli eru um.

Sem fyrr hefur stjórnin reynt að kynna málstað samtakanna, bæði innanlands og utan. Nú síðast eða 21. mars 2012, voru samtökin boðuð á fund hjá Evrópusambandinu á Íslandi og fengu samtökin ágætis tækifæri til að kynna hagsmunamál sín þar. Þann 15. febrúar s.l. komu samtökin upplýsingum um eignarréttarhagsmuni sína í sjávarauðlindinni til tveggja aðalfulltrúa Evrópusambandsins á fundi um makrílstofnin.

Á árinu 2011 og 2012 hafa samtökin sent nokkur bréf til sjávarútvegsráðherra og til nefndarsviðs Alþingis þar sem skorað er á stjórnvöld að virða skýran rétt sjávarjarða og vísað er til laga um eignarrétt sjávarjarða, sem svo kemur í ljós að er einnig varinn af ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópuráðsins sem Íslendingar samþykktu 1953.
Sjávarútvegsráðherra hefur ekki svarað bréfunum en ljáði loks máls á því að fulltrúar samtakanna fengju fund í ráðuneytinu um lögleg hagsmunamál sín.
Fundur var með þremur fulltrúum sjávarútvegsráðuneytisins 18. febrúar 2013. Þar voru eignarréttindi sjávarjarða rædd og krafa gerð um að stofnsett yrði nefnd til að skilgreina þennan eignarrétt í auðlindinni í samræmi við niðurstöðu nefndar um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða.

Samtökin hafa margítrekað, bæði við ráðherra og Alþingi, að álit hefur komið frá Mannréttindadómstól Evrópu um að eigendur sjávarjarða eiga eignarrétt í sjávarauðlindinni. Þetta er ráðandi álit og því verður ekki breytt af íslenskum aðilum, hvorki alþingismönnum, embættismönnum eða dómurum:

3. Álit dómstólsins
„Ennfremur er það niðurstaða dómsins að réttur kæranda til þess að stunda fiskveiðar í netlögum úti fyrir sjávarjörðinni sem um ræðir hafi lögformlega stofnað til „eignar“ í skilningi 1. gr. samningsviðauka 1“.

Á síðasta ári hafa fulltrúar samtakanna verið boðaðir bæði til sjávarútvegsnefndar Alþingis og til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis til skýrslugjafar. Þeir hafa átt fund með formanni og varaformanni atvinnuveganefndar Alþingis.
Samtökin lögðu tvisvar fram lögbannsbeiðni á nýtt frumvarp til laga um stjórn fiskveiða. Sýslumaður sinnti ekki beiðnunum, vísaði þeim frá og kom vægast sagt með afar vafasaman rökstuðning fyrir því. Það er spurning hvort það þurfi að leggja aftur inn lögbannskröfu núna vegna nýja kvótafrumvarpsins.

Á fjölmennum aðalfundi samtakanna haustið 2008, nokkru eftir hrun, kom fram það álit nokkurra fundarmanna að eigendur sjávarjarða segðu jarðirnar formlega úr lýðveldinu. Nú heyrist ítrekað aftur þetta sjónarmið frá mörgum og er það orðið háværara í ljósi þess að hart er sótt að lagalegum eignarrétti sjávarjarða til náttúruauðlinda sem tilheyra jörðunum. Ef af yrði fengju jarðirnar sína landhelgi og fiskveiðilögsögu út að miðlínu og fulla eignarhlutdeild í svo nefndum deilistofnum. Engin fyrirmæli eru um það í lögum eða samningum sem menn hafa undirgengist að þetta sé ekki framkvæmanlegt eða bannað. Það eru mannréttindi eigenda sjávarjarða að geta slitið sig frá þeim aðilum sem sýna þeim valdníðslu og yfirgang. Margt mælir með því að þetta verði gert.

Undanfarið hafa samtökin sent inn fjölda umsagna við frumvörp til laga og þingsályktunartillögur sem að einhverju leyti koma inn á eignarrétt sjávarjarða. Ennfremur kom stjórnin tvisvar sinnum upplýsingum skriflega til Stjórnlagaráðs. Nokkrar umsagnir hafa verið gerðar við nýtt frumvarp til laga um stjórnarskrá, þingsályktunartillögu um skilgreiningu auðlinda og athugasemdir voru gerðar við nýtt kvótafrumvarp og vísað til eignarréttar sjávarjarða sem lagafyrirmæli eru um. Í nýju kvótafrumvarpi vísar sjávarútvegsráðherra til sömu laga um almenningsrétt til sjávarauðlindarinnar utan netlaga og sjávarjarðir vísa til með eignarrétt sinn innan netlaga. Eins og mál liggja nú fyrir í byrjun mars 2013 virðist nokkuð óljóst hvort í nýju stjórnarskrárfrumvarpi (uppkasti að sjálfri stjórnarskránni), auðlindakaflanum, sé tekið tillit til löglegra eignarréttinda sjávarjarða sem Mannréttindadómstóll Evrópu hefur gefið það álit sitt á að séu lögformleg eignarréttindi.

Ítrekað hefur verið bent á að rétturinn til sjávarins, sem er stjórnarskrárvarin og lagafyrirmæli eru um, er mikið réttlætismál og eitt stærsta byggðamál síðari tíma. Málarekstur Ses er kostnaðarsamur og fyrir liggur að halda verður áfram með málið. Samtökin treysta því á að félagsgjöldin skili sér.
Þeim sem vilja gerast félagsmenn, og styðja þar með baráttu Samtakanna, er bent á heimasíðu félagsins; www.ses.is Heimasíðan er svo einnig með hinar ýmsu upplýsingar.

Með bestu kveðjum, f.h. Samtaka eigenda sjávarjarða.

Ómar Antonsson, formaður
ses.netlog@gmail.com
omarantons@gmail.com

Scroll to Top