Úr ræðum þingmanna (ráðherra) á Alþingi.

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins vill að farið sé að íslenskum lögum, í stað þess að sýna aðgerðarleysi gegn lögbroti á eigendum sjávarjarða eins og flestum öðrum þingmönnum er tamt. Hann kemur að kjarna málsins í baráttu SES við ríkisvaldið í eftirfarandi setningu  „Ríkið fer þarna fram í valdi þess að vera hinn sterki og þeir sem eiga jarðirnar verða fyrir bótalausu eignarnámi vegna þess að þeir geta ekki varist ríkisvaldinu“. Þetta ber vott um kjark og heiðarleika viðkomandi þingmanns.

Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður Framsóknarflokksins og núverandi sjávarútvegs- , landbúnaðar-, umhverfis- og auðlindaráðherra rennur einnig blóðið til skyldunnar og í erindi á Alþingi bendir hann á nauðsyn þess að koma þessum málum á hrein og hann segir meðal annars  “ …er ákaflega mikilvægt að Alþingi og ráðuneyti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins hafi eitthvert frumkvæði að því og hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd taki það til sín strax á næsta hausti. Það er ákaflega mikilvægt að þetta verði gert og samræmt þarna markmið jarðalaga og eins markmið laga um eignarrétt íslenska ríkisins á auðlindum hafsbotnsins, og það skilgreint“.

Nú stjórnar Sigurður Ingi þessu ráðuneyti og mun því örugglega sjá til þess að þetta mikilvæga mál verði farsællega til lykta leitt. Fyrr en þessu máli er lokið mun réttlát og lagaleg skipulagning strandsvæða ekki vera möguleg og öll leyfi yfirvalda til atvinnustarfsemi í netlögum og nágrenni þeirra byggð á veikum grunni og munu lenda í uppnámi þegar eigendur sjávarjarða fá sinn lögvarða rétt til baka.

 

133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

útræðisréttur strandjarða.

140. mál

[15:20]

Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Útræðisréttur strandjarða er forn réttur sem ríkið hefur tekið bótalaust af eigendum jarðanna. Ríkið fer þarna fram í valdi þess að vera hinn sterki og þeir sem eiga jarðirnar verða fyrir bótalausu eignarnámi vegna þess að þeir geta ekki varist ríkisvaldinu.

Þetta minnir mig að hluta til á það sem gerist í framkvæmd ríkisins á þjóðlendulögunum. Þar fer ríkið líka fram í krafti þess að vera hinn sterki gegn þeim sem erfitt eiga með að verja sig. Ég fullyrði t.d. varðandi þjóðlendulögin að þeir þingmenn sem samþykktu þau á sínum tíma á hinu háa Alþingi gerðu sér aldrei grein fyrir því að ríkið mundi fara fram með því offorsi sem ríkið hefur gert og taka eignarlönd og lönd sem menn hafa þinglýsta pappíra fyrir og þinglýsta kaupsamninga af mönnum bótalaust, eins og gert var með útræðisrétt strandjarða.

139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

skeldýrarækt.

201. mál

[18:36]

Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

…………en það gerir það ekki og torveldar það reyndar að nokkru leyti.

Í umræðu hér síðustu daga um sjávarútvegsmál hefur verið rætt um það að hluti af svokölluðu veiðigjaldi eða auðlindarentu greinarinnar renni að einhverju leyti aftur til þeirra landsvæða þar sem auðlindarentan verður til. Ég tel það til bóta þó að ekki sé sama hvernig útfærslan á því er. En hér er einmitt verkefni þar sem slíkir fjármunir gætu komið að og veitir ekki af að koma fjármunum til atvinnusköpunar á því svæði. Í tillögum okkar framsóknarmanna í sambandi við sjávarútveginn og veiðileyfagjaldið hefur það einmitt verið tiltekið að hluti af þessu gjaldi eigi að fara til nýsköpunar í sjávarútvegi og síðan hafa verið tilteknir fleiri hlutir eins og til dæmis fiskeldi og rækt og þá ekki síst skeldýrarækt, kræklingarækt eða því um líkt. Það er ákaflega mikilvægt að við getum sett slíkan grundvöll undir uppbygginguna að einhverjir fjármunir séu líklegir.

Það hefur komið fram í umfjöllun að menn rugli saman eldi og ræktun. Áður fyrr, vegna þess að ekki voru til um það lög, var farið með kræklingarækt og aðra rækt eins og fiskeldi sem er allt annar hlutur.

Einnig hefur það komið til tals í nefndinni að skilgreiningar skorti, til dæmis hvað varðar eignarland og netlög. Samtök eigenda sjávarjarða hafa gagnrýnt það harðlega hvernig farið er með þau og verið er að tala um svæði sem tilheyra mörgum sjávarjörðum. Fulltrúar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins hafa að nokkru leyti vísað athugasemdum samtakanna á bug og lagt annað mat á þetta og meðal annars bent á að skilgreiningar séu fyrir hendi í öðrum lögum. Sem dæmi má nefna að bæði Bændasamtökin og Samtök eigenda sjávarjarða gagnrýndu skilgreininguna á hugtakinu netlög og lögðu samtökin til að skilgreiningu frumvarpsins yrði breytt til samræmis við skilgreiningu laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum. Á móti kom fram hjá fulltrúum ráðuneytisins að skilgreining frumvarpsins væri orðrétt í samræmi við skilgreiningu á þessu hugtaki í ýmsum öðrum lögum og með skilgreiningunni sé stefnt að samræmi. Það er kannski ofsögum sagt.

Skilgreiningar á netlögum hafa gegnum tíðina verið mismunandi. Þær skilgreiningar koma fram í gildandi löggjöf, til dæmis í Jónsbók, og í lögum settum af Alþingi, bæði fyrir og eftir lýðveldisstofnun. Margar þessar skilgreiningar standa óbreyttar frá fornu fari og hefur Alþingi hingað til ekki séð tilefni til að gera breytingar á þeim. En í ljósi þessarar gagnrýni frá Samtökum íslenskra eigenda sjávarjarða, Bændasamtakanna og fleiri er ákaflega mikilvægt að Alþingi og ráðuneyti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins hafi eitthvert frumkvæði að því og hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd taki það til sín strax á næsta hausti. Það er ákaflega mikilvægt að þetta verði gert og samræmt þarna markmið jarðalaga og eins markmið laga um eignarrétt íslenska ríkisins á auðlindum hafsbotnsins, og það skilgreint.

Aðrir hlutir sem ég gagnrýndi í frumvarpinu þegar það kom fyrst fram var………..

 

Scroll to Top