Samtök eigenda sjávarjarða
(Association of Coastal Property Owners)
PO Box 90,
780 Hornafjördur,
Iceland.
Hr. Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegsráðherra,
sjávarútvegsráðuneytinu,
Skúlagötu 4, 101 Reykjavík.
sigurdur.ingi.johannsson@anr.is
Hornafirði, 11. febrúar 2014.
Ég vísa í bréf mitt til þín, dags. 7. janúar 2014.
Fram hefur komið í fjölmiðlum að undanfarið hafa farið fram samningaviðræður um makrílstofninn og makrílveiðar á Norður-Atlantshafi milli Evrópusambandsins, Noregs, Íslands og Færeyja.
Það hefur verið upplýst í fjölmiðlum að þeir menn sem þátt hafa tekið í þessum samningaviðræðum, sem sagt er að séu á vegum Íslendinga, séu a.m.k. tveir þeir Sigurgeir Þorgeirsson, ráðuneytisstjóri í sjávarútvegsráðuneytinu, titlaður í fréttum sem formaður íslensku samninganefndarinnar og Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna. Ekki er vitað um fleiri. Kolbeinn virðist taka þátt í þessum viðræðum eingöngu fyrir hönd aðila sem nýta auðlindina en ekki fyrir hönd eignaraðila. Ekki er vitað á hvaða forsendum honum er heimilað að koma að þessum viðræðum.
Eins og skýrt hefur verið út fyrir sjávarútvegsráðherra, þá er íslenska ríkið ekki eitt eigandi sjávarauðlindarinnar við Ísland og hefur ekki eitt allan ráðstöfunarrétt yfir auðlindinni. Eigendur sjávarjarða eru þar einnig hlutaðeigendur og má í því sambandi t.d. vísa í lög og í álit Mannréttindadómstóls Evrópu en þar segir: 3. The Courts´s assessment:
“Moreover, the Court finds that the applicant´s right to engage in fishing in the net zone adjacent to the coastal property in question constituted a “possession” within the meaning of Article 1 of protocol No. 1”.
Þetta álit byggir á ákvæði í mannréttindasáttmála Evrópuráðsins, en Ísland hefur staðfest og undirritað samning um sáttmálann. Vísað er í það sem haft er eftir Eiríki Tómassyni, prófessor í lögum við Háskóla Íslands (sem nú er hæstaréttardómari) á 7. fundi nefndar (samkvæmt fundargerð) um endurskoðun á fiskveiðistjórnunarkerfinu, 19. febrúar 2010:
“Formaður (Guðbjartur Hannesson, innskot skýrsluritara) spyr hvernig langtímaafnotaréttur hefur verið skilgreindur og hvort hugmyndir úr annarri auðlindalöggjöf séu yfirfæranlegar á fiskveiðilöggjöfina m.t.t. afnotaréttar. Fram kom að eigendur sjávarjarða hafa réttinda að gæta. ET sagði netlög skapa eignarrétt, en ríkið má samt sem áður setja skilyrði um veiðar innan þeirra. Ef þessi réttur yrði innkallaður til ríkisins þyrfti að greiða bætur fyrir.
Rætt var um hversu vandasamt það er að skilgreina eign og afnot og þá sérstaklega að teknu tilliti til þess atvinnuréttar sem getur skapast af eignarrétti eða afnotarétti”.
Ennfremur er vísað í skilgreiningar eignarréttarsérfræðinga, m.a. Gauks Jörundssonar, fyrrverandi dómara við Mannréttindadómstól Evrópu, þar sem kemur fram að vatn (sjór) sem yfir landi liggur telst til fasteignarinnar og er því sjórinn í netlögum eign viðkomandi jarðar.
Vatn og sjór, þ.m.t. lífríkið, er á hreyfingu milli innra og ytra svæðis og því er um óskipta sameign að ræða.
Ofangreindir tveir aðilar, þeir Sigurgeir og Kolbeinn, hafa hvorki umboð né heimildir til að ræða alfarið veiðirétt makrílsstofnsins í sjávarauðlindinni umhverfis Ísland. Þeir eru hvorki fulltrúar né málssvarar eigenda sjávarjarða. Um fullkomið ábyrgðarleysi er að ræða að þeir séu í umboðslausum viðræðum og taki ákvarðanir á fundum með erlendum aðilum vegna hagsmuna í sjávarauðlindinni umhverfis Ísland án þess að hagsmunaaðilar eignarréttinda séu nærstaddir.
Makríll fer á milli ytra svæðis í íslenskri landhelgi og netlaga í einkaeign. Hann er því svo nefndur flökkustofn. Á sama hátt fer makríll á milli efnahagslögsögu Evrópusambandsins, Noregs, Færeyja og Íslands. Á þeim grundvelli byggir Ísland kröfu sína um hlutdeild í stofninum.
Samtök eigenda sjávarjarða setja fram þá ósk til sjávarútvegsráðherra, að hann sjái til þess að látið verði af þessum viðræðum þar til réttir og löglegir aðilar hafa verið skipaðir í þær.
Virðingarfyllst,
f.h Samtaka eigenda sjávarjarða
Ómar Antonsson, formaður.
Meðfylgjandi:
- Auglýsing 3. október 2003.
- Bréf, dags. 7. nóvember 2002 til Dr. Franz Fischler, Commissioner for Agriculture, Rural Development and Fisheries.
Translated copy from the Icelandic sent to:
- Mr. John Spencer, Adviser, at the Directorate General for Maritime Affairs and Fisheries (DG MARE). EU’s negotiator on mackerel. E-mail: edward-john.spencer@ec.europa.eu
- Mrs. Elisabeth Aspaker, Norwegian Minister of Fisheries, PO Box 8118 Dep., N 0032, Oslo, Norge. E-mail: postmottak@nfd.dep.no
- Mr. Jacob Vestergaard, Fareo Islands´ Minister of Fisheries. E-mail: fisk@fisk.fo