Umsögn vegna frumvarpa til laga um stjórn fiskveiða

Samtök eigenda sjávarjarða.
Pósthólf 90,
780 Hornafirði.

Alþingi nefndasvið,
101 Reykjavík.
nefndasvid@althingi.is

Hornafirði, 10. febrúar 2021.

Umsögn vegna frumvarpa til laga um stjórn fiskveiða, mál nr. 418 og 419.

Hér með er komið á framfæri eftirfarandi atriðum hvað viðvíkur eignarrétti sjávarjarða til sjávarauðlindarinnar. Gerð er krafa um að réttur þessi verði hafður til samræmingar við setningu nýrra laga og breytingu á lögum um stjórn fiskveiða. Hluti ofangreindra frumvarpa til laga snýst um grásleppuveiðar. Grásleppa veiðist víða í netlögum og á grásleppan sína heimalóð í netlögum alveg frá upphafi. Þetta er því fiskur sem að stórum hluta er eign eigenda sjávarjarða. Veiðiréttur á honum er eign eiganda netlaga.

Undirritaður vísar til þess að frumvörp þessi minnast ekkert á, ganga alveg gegn og taka ekkert tillit til stjórnarskrárvarinna eignarréttinda sjávarjarða sem fyrirmæli eru um í lögum, en sjávarjarðir eiga belti sjávar næst landi í sjávarauðlindinni, sjá sem dæmi auglýsingu, og upplýsingar sem þar er að finna um lagafyrirmæli, frá 27. mars 2014, sem nefndasviði Alþingis hefur nokkrum sinnum verið sent afrit af, álit Mannréttindadómstóls Evrópu um eignarrétt sjávarjarða, úrtak úr fundargerð frá starfshópi um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða frá 7. fundi nefndarinnar 19. febrúar 2010 og minnisatriði vegna fundar með formanni stjórnarskrárnefndar 4. júlí 2005. Orðrétt segir í áliti Mannréttindadómstóls Evrópu: „Ennfremur er það niðurstaða dómsins að réttur kæranda til þess að stunda fiskveiðar í netlögum úti fyrir sjávarjörðinni sem um ræðir hafi lögformlega stofnað til „eignar“ í skilningi 1. gr. samningsviðauka 1“. Álit þetta er bindandi og því verður ekki breytt af íslenskum stjórnvöldum eða dómstólum.

          Margítrekað hefur íslenskum stjórnvöldum verið bent á þennan grundvallareignarrétt sjávarjarða, en hann hefur samt verið algjörlega hundsaður s.l. tæplega 4 áratugi. Auk þess eiga sjávarjarðir atvinnurétt svo nefndan útræðisrétt, sem Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hefur viðurkennt í öðru máli. Þingmenn Alþingis hafa lagt drengskap sinn við stjórnarskrá Íslands m.a. um það ákvæði hennar að eignarrétturinn sé friðhelgur og ekki megi svipta borgarana honum nema ákveðin skilyrði séu uppfyllt. Slík skilyrði eru ekki uppfyllt við setningu þeirra laga sem getið er um í frumvörpum þessum. Alþingismenn hafa ekki lagalegt umboð eða heimildir til að setja lög um fiskveiðiauðlindina án þess að fullt tillit sé tekið til þeirra sem fyrir eiga eignarhlutdeild í auðlindinni.

          Eigendur sjávarjarða eru því ekki jafnir öðrum borgurum þessa lands fyrir lögunum, sbr. 65. gr. stjórnarskrárinnar.

          Netlög sjávarjarða eru þinglýst eign, í ljósi atvika er eignarréttur tvímælalaus, og enginn vafi leikur á því að eigendur sjávarjaðra eru réttir og löglegir eigendur en verða ólöglega sviptir áfram eign sinni með frumvarpi þessu og eignin afhent öðrum til notkunar. Samkvæmt Jónsbókarlögum frá 1281 sem eru í fullu gildi, er dýptarviðmið netlaga 4 faðmar eða 6,88 metrar á stórstraumsfjöru. Allir mega sjá að brotið er gegn löglegum grundvallar mannréttindum eigenda sjávarjarða.

          Eigendur sjávarjarða leitast við að verja eignarrétt sinn, sem er þinglýstur og viðurkenndur í lögum og Mannréttindadómstóll Evrópuráðsins segir að eignarréttur þessi sé lögformlega í samræmi við eignarréttarákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu. Eigendur sjávarjarða eiga því sjálfstæða hagsmuni, sem þeir eru bærir um að fylgja eftir.

          Eigendur sjávarjarða eiga þá eign sem nefnd er netlög sem er hluti landhelginnar, fiskveiðilögsögunnar, þ.e. sjávarauðlindarinnar. Eign þessari hefur aldrei verið afsalað af eigendum sjávarjarða og látinn í hendur annarra. Þessi réttur er forn og hefur löglega fylgt sjávarjörðum frá ómunatíð. Eigendur sjávarjarða hafa aldrei heimilað íslenskum stjórnvöldum að ráðstafa eign þessari á nokkurn hátt. Slíkar ráðstafanir, hvort sem er með fyrri lögum eða með fyrrgreindu frumvarpi til laga eru því ólöglegar og heimildarlausar með öllu.

          Með frumvörpum þessum er brotið gegn lögvörðum eignarrétti eigenda sjávarjarða. Augljóst er að um mikilvægan eignarrétt er að ræða á verðmætri hlutdeild í sjávarauðlindinni, sem ekki verður tekinn af eigendum nema almenningsþörf krefjist þess, þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir. Á meðan löglegar heimildir og umboð Alþingis eru ekki fyrir hendi krefjast eigendur sjávarjarða þess að fá að njóta eigna sinna í friði í samræmi við 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu, sem samþykktur var af Íslandi 18. maí 1954.

          Umræða hefur farið fram um veðsetningar á veiðiheimildum. Þess ber að geta að eigendur sjávarjarða hafa heimild, samkvæmt lögum til að veðsetja þann hluta eignar sinnar í sjávarauðlindinni sem eru netlög og veiði þar í samræmi við þau. Netlög eru hluti fiskveiðilögsögunnar og landhelginnar, samkvæmt lögum.

          Meðfylgjandi skjal:
          Auglýsing, dags. 27. mars 2014.

          Nokkrar upplýsingar sem nefndasviði alþingi hefur nokkrum sinnum verið sent afrit af. Til upplýsinga er vísað í eftirfarandi skjöl:

  1. Álit Mannréttindadómstóls Evrópu 2. desember 2008, mál nr. 40168/05.
  2. Úrtak úr fundargerð 7. fundar starfshóps um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða 19. febrúar 2010.
  3. Minnisatriði vegna fundar með formanni stjórnarskrárnefndar 4. júlí 2005.
  4. Bréf, dags. 22. janúar 2008 til Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna frá Samtökum eigenda sjávarjarða.
  5. Bréf, dags. 11. júní 2009 til sjávarútvegsnefndar Alþingis frá Samtökum eigenda sjávarjarða.
  6. Bréf, dags. 23. október 2009 frá lögmannstofunni Réttur til sjávarútvegsráðherra.
  7. Bréf, dags. 8. júlí 2010 til sjávarútvegsráðherra frá Samtökum eigenda sjávarjarða.
  8. Bréf, dags. 27. september 2010 til sjávarútvegsráðherra frá Samtökum eigenda sjávarjarða.
  9. Bréf, dags. 13. október 2010 til utanríkisráðherra frá Samtökum eigenda sjávarjarða.
  10. Svar við fyrirspurn í 421. máli á Alþingi.
  11. Bréf, dags. 19. febrúar 2011 til fulltrúa Evrópusambandsins frá Samtökum eigenda sjávarjarða.
  12. Bréf, dags. 29. apríl 2011 til sjávarútvegsráðherra frá Samtökum eigenda sjávarjarða.

        Heimasíða Samtaka eigenda sjávarjarða er: www.ses.is

        Eignarréttur eigenda sjávarjarða, er glöggur og skýr og sönnunargögn alveg tæmandi, sbr. m.a. álit Mannréttindadómstóls Evrópu. Verið er að undirbúa lög með frumvörpum ólöglega og án heimilda.

        Farið er fram á að fullt tillit verði tekið til eignarréttinda sjávarjarða við setningu nýrra laga um stjórn fiskveiða og löglegra eignarréttinda þeirra verði getið í lögunum.

Virðingarfyllst,

Ómar Antonsson, formaður, f.h Samtaka eigenda sjávarjarða

omarantons@gmail.com

 

22. janúar 2021
Frá nefndasviði Alþingis.

Ágæti viðtakandi.
Atvinnuveganefnd Alþingis sendir yður til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða (atvinnu- og byggðakvótar o.fl.), 418. mál.

Þess er óskað að undirrituð umsögn berist eigi síðar en 10. febrúar 2021 nk. á netfangið

nefndasvid@althingi.is

Ef engar athugasemdir eru þarf ekki að senda sérstaka tilkynningu þess efnis.
Þingskjalið er hægt að sækja á vef Alþingis: https://www.althingi.is/altext/151/s/0625.html

22. janúar 2021
Frá nefndasviði Alþingis.

Ágæti viðtakandi.
Atvinnuveganefnd Alþingis sendir yður til umsagnar frumvarp til laga breytingu á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og lögum um stjórn fiskveiða (veiðistjórn grásleppu, sandkola og hryggleysingja), 419. mál.

Þess er óskað að undirrituð umsögn berist eigi síðar en 10. febrúar 2021 nk. á netfangið

nefndasvid@althingi.is

Ef engar athugasemdir eru þarf ekki að senda sérstaka tilkynningu þess efnis.
Þingskjalið er hægt að sækja á vef Alþingis: https://www.althingi.is/altext/151/s/0626.html

Upprunaskjal

Scroll to Top