Feneyjarnefndin um stjórnarskrárbreytingar

Athyglisverða frétt um athugasemdir Feneyjarnefndarinnar um stjórnarskrárbreytingar er að finna á vef RÚV.

Í athugasemdum Feneyjarnefndarinnar segir m.a:

„Þarf að skýra hugtakið þjóðareign.“

„Hvað varðar frumvarp um náttúruauðlindir og frumvarp um umhverfisvernd er sérstaklega bent á að skýra þurfi tengsl frumvarpanna tveggja. Þá þurfi að skýra hvað sé átt við með hugtakinu þjóðareign og hver tengsl þess séu við hefðbundinn eignarrétt.”

Eignaréttur eigenda sjávarjarða á Íslandi hefur verið ráðstafað án aðkomu eigenda og þeir sviptir löglegum eignarrétt sínum án nokkurra bóta og í beinu trássi við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Hugtakið þjóðareign gagnvart hefðbundnum eignarrétti þarf að skýra betur og ekki í síst gagnvart lögvörðum eignarrétti sjávarjarða.

Frétt RÚV í heild sinni:

Feneyjanefndin fagnar markmiðum en kemur með ábendingar – 09.10.2020 – 21:26

Feneyjanefndin, ráðgjafanefnd Evrópuráðsins um stjórnskipunarmál, birti í dag álit sitt á fjórum frumvörpum til stjórnarskipunarlaga, sem íslensk stjórnvöld óskuðu eftir í vor. Nefndin fagnar markmiðum frumvarpanna en tekur ekki afstöðu til þess hvort betra sé að fara þá leið að gera afmarkaðar breytingar á stjórnarskránni á tveimur kjörtímabilum eða að taka í notkun glænýja stjórnarskrá.

Eins og segir í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins minnir Feneyjanefndin á að tillögur stjórnlagaráðs hafi verið bornar upp í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem samþykkt hafi verið að drögin yrðu grundvöllur nýrrar stjórnarskrár. Þess vegna þurfi að gefa þjóðinni sannfærandi skýringar á nálgun stjórnvalda og öllum meiriháttar breytingum frá tillögum stjórnlagaráðs. 

Of mikið vald í hendur löggjafans

Bent er á það sérstaklega að þær breytingar sem eru lagðar til á kafla um forseta lýðveldisins og hlutverk framkvæmdavaldsins séu jákvæðar og samræmist alþjóðlegum viðmiðum. Þó þurfi að betrumbæta hluta þeirra; með ákvæði um ráðherraábyrgð sé til dæmis of mikið vald framselt í hendur löggjafans og einnig sé gert ráð fyrir of miklu sjálfstæði ríkissaksóknara. 

Feneyjanefndin fagnar ákvæði um breytingar á þjóðaratkvæðagreiðslu en bendir á nokkur atriði sem þarf að útfæra nánar. Til dæmis er bent á að nauðsynlegt sé að sjá til þess að Alþingi geti ekki samþykkt lög að nýju sem hafa verið felld í þjóðaratkvæðagreiðslu, að minnsta kosti ekki á sama kjörtímabili.

Þarf að skýra hugtakið þjóðareign

Hvað varðar frumvarp um náttúruauðlindir og frumvarp um umhverfisvernd er sérstaklega bent á að skýra þurfi tengsl frumvarpanna tveggja. Þá þurfi að skýra hvað sé átt við með hugtakinu þjóðareign og hver tengsl þess séu við hefðbundinn eignarrétt. Tryggja þurfi að hægt verði að bera ágreining um gjaldtöku og nýtingu auðlinda í ábataskyni undir dómstóla. 

Ýmislegt virðist svo þurfa að skýra nánar í frumvarpi um umhverfisvernd, að mati nefndarinnar. Til dæmis segir að ekki séu nógu skýr hugtökin „varúð“ og „langtímasjónarmið byggð á sjálfbærni“. Þá þurfi að skýra betur ábyrgð einstaklingsins og samábyrgð á umhverfisvernd og útskýra nánar hverjar skyldur ríkisins séu í þessum efnum. 

Á vef Stjórnarráðsins segir að forsætisráðuneytið vinni nú úr ábendingum Feneyjanefndarinnar „með það fyrir augum að unnt verði að taka ákvörðun á næstu vikum um framlagningu frumvarpanna á vettvangi formanna stjórnmálaflokkanna“.

HILDUR MARGRÉT JÓHANNSDÓTTIR, Fréttastofa RÚV.

 

 

 

Scroll to Top