Frumvarp til breytinga á lögum um þjóðlendur

Allsherjar- og menntamálanefnd,
Alþingi við Austurvöll,
101 Reykjavík

Efni: Frumvarp til breytinga á lögum um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta nr. 58/1998.

Æðarræktarfélag Íslands, Æðarverndarfélag Snæfellinga og Æðarvé, félag æðar- bænda í Dalasýslu og A – Barðastrandasýslu eru hagsmunasamtök æðarbænda m.a. við Breiðafjörð þar sem eru hundruð eyja, hólma og skerja. Æðarvarp er á hátt á 400 jörðum kringum landið og stór hluti æðarvarps er á eyjum, hólmum og í skerjum.

Þar sem frumvarp til breytinga á þjóðlendurlögum er komið til sérstakrar umræðu hjá allsherjarnefnd áður en það gengur til þriðju og síðustu umræðu á Alþingi telja hagsmunasamtök æðarbænda tilefni til að koma að eftirfarandi athugasemdum sem varða 5. gr. frumvarpsins. Félögin taka undir þau sjónarmið sem komu fram í umræðum á Alþingi um að nauðsynlegt sé að fara betur yfir frumvarpið áður en það verður tekið til síðustu atkvæðagreiðslu.

Upphaflegur tilgangur þjóðlendulaganna var að leysa úr ágreiningi sem hafði í áratugi ríkt um eignarrétt á tilteknum landsvæðum, þ.e. afréttum og almenningum. Yfirleitt var um landsvæði að ræða sem lágu inn til landsins og talið mikilvægt að skera úr um hvað af þessum svæðum lægju utan eignarlanda og teldust þar af leiðandi þjóðlenda. Hvergi í greinargerð með frumvarpi til breytinga á gildandi þjóðlendulögum eða í umræðum er að finna röksemdir fyrir því að til séu eyjar, hólmar og sker í sjó sem geti legið utan eignarlanda og teljist af þeim sökum þjóðlenda. Enginn ágreiningur hefur verið fram að þessu um að eyjar, hólmar og sker í sjó eða almenningum stöðuvatna séu háð einkaeignarrétti.

Í 61. kap. landsleigubálks Jónsbókar segir að eyjar og sker fylgi því landi er næst liggur og í 6. kap. landsbrigðabálks Jónsbókar segir að við sölu jarða skuli, ef eyjar liggi fyrir landi, kveða á um þær við kaupin. Ekki er hins vegar í Jónsbók fjallað beinlínis um netlög, þar sem eyjar eða sker liggja fyrir landi. Samkvæmt 3. gr. tilskipunar um veiði á Íslandi frá 20. júní 1849 skal ef eyjar eða hólmar liggi undir jörð mæla lóðhelgi (netlög) 60 faðma í allar áttir frá eyjum og hólmum. Ef skemmra er milli eyja, hólma eða lands en 120 faðmar skal miðlína ráða. Í lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum segir að netlög fylgi eyjum, hólmum og skerjum í sjó. Ætla verður að sömu reglur gildi um netlög við eyjar, hólma og sker í sjó sem háð eru beinum eignarrétti einstaklinga eða lögaðila, þar með talið sveitarfélaga eða ríki, og um netlög fasteigna sem liggja að sjó, bæði hvað varðar inntak eignarráða yfir þeim og ytri mörk.1

Lög um landmerki nr. 41/1919 og lög um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001 byggja á því að eyjar og sker fylgi jörð án sérstakrar tilgreiningar eða sjálfstæðra landamerkja. Eyjar og sker hafa við lögskipti orðið sjálfstæðar eignir og stofnaðar með opinberri skráningu. Hlunnindi tengd eyjum og skerjum sem og í netlögum eru metin hluti fasteignarmats jarðarinnar sem þau tilheyra. Einkaréttarlegur ágreiningur kann að vera uppi um hver eigandi einstakra eyja og skerja sé en úr slíkum ágreiningi er breyttum þjóðlendulögum ekki ætlað að skera.

Umrædd breyting þjóðlendulaga byggir á þeirri forsendu að eyjar, hólmar og sker kunni að liggja utan eignarlanda. Eins og rakið var hér að framan þá eru þær forsendur ekki fyrir hendi nema þá mögulega þar sem þjóðlenda nær í sjó fram. Séu eyjar, hólmar og sker undan landsvæði sem úrskurðað hefur verið þjóðlenda eru líkindi fyrir því að þau séu hluti þjólendunnar nema annar færi fram sönnur fyrir eignarrétti sínum.

Það er mikið hagsmunamál félagsmanna að horfið sé frá þessum breytingum á þjóðlendulögunum og þeim verði ekki att út í tímafreka og kostnaðarsama vinnu við að lýsa hvaða eyjar og sker séu hluti viðkomandi jarða. Komi til þess hlýtur það að byggja á því að gert sé sennilegt með laga- og landfræðilegum rökum að eyjar, hólmar og sker finnist utan eignarlanda og þar af leiðandi sé nauðsynlegt að skera úr um mörk eignarlanda og með svo íþyngjandi og kostnaðarsamri málsmeðferð fyrir landeigendur. Í greinargerðinni með frumvarpinu er eins og áður segir engin slík umfjöllun og reyndar fullkomlega óljóst hvaðan þessi nýji skilningur á íslenskum eignarrétti er ættaður.


Æðarræktarfélag Íslands
Guðrún Gauksdóttir, formaður
info@icelandeider.is
gudrungauks@gmail.com

Æðarverndarfélag Snæfellinga
Ásgeir Gunnar Jónsson, formaður
asgeir.gunnar.jonsson@gmail.com

Æðarvé, Dalasýsla og A – Barðastrandasýsla
Helga María Jóhannesdóttir, formaður
skaleyjar@gmail.com

_____________________________________
1 Tryggvi Gunnarsson: ”Landamerki fasteigna” í Afmælisrit, Gaukur Jörundsson sextugur, Reykjavík 1994, bls. 535 – 536.

Upprunaskjal

Scroll to Top