Umsögn Samtaka eigenda sjávarjarða um stjórnarfrumvarp til laga um veiðigjöld

Nefndasvið Alþingis,
sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd,
Alþingi, 101 Reykjavík.
nefndasvid@althingi.is

149. löggjafarþing 2018–2019.
Þingskjal 144  —  144. mál.
Stjórnarfrumvarp til laga um veiðigjald.

Hornafirði, 19. október 2018

Efni: Umsögn Samtaka eigenda sjávarjarða um stjórnarfrumvarp til laga um veiðigjöld.

 Samtök eigenda sjávarjarða hefur fjallað um stjórnarfrumvarp til laga um veiðigjöld, sem lagt hefur verið fyrir 149. löggjafaþing Íslendinga 2018 – 2019.

Við leyfum okkur að vísa í grundvallarreglur laga sem virtar eru á Vesturlöndum: Prior tempore potior jure (lengri gerð: Qui prior est tempore, potior est jure – sá sem fyrr er í tíma gengur framar lögum).  Réttur manna ræðst af tímaröð; sá sem er fyrri til öðlast meiri rétt. 

Eignarréttur sjávarjarða til sjávarauðlindarinnar og útræðisréttur í því sambandi er fyrr í tíma en réttur íslenska ríkisins og gengur framar lögum. Einnig eru Jónsbókarlögin frá 1281 þar sem kveðið er á um netlög, framar í tíma en netlagaskilgreiningin í Veiðitilskipuninni frá 1849 og síðari skilgreiningar og því rétthærri.

Í 8. gr. frumvarpsins, sérákvæði, er talað um auðlindagjald af sjávargróðri. Sjávargróður vex að mestu leiti innan netlaga sjávarjarða en þau ná út á 6,88 metra dýpi á stórstraumsfjöru (Jónsbók 1281).

8. gr. þarf að skýra betur með eignarétt í netlögum í huga. Ekki þurfa landeigendur að greiða auðlindagjald af grasi á túnum sínum og því ætti sama að gilda um sjávargróður í netlögum sem eru hluti landareingar sjávarjarða og oftast í einkaeign.

Einnig verður að skilgreina „veiðarnar“ á sjávargróðrinum betur þar sem ríkisvaldið hefur enga heimild til að leyfa þær „veiðar“ innan netlaga sjávarjarða, ekki frekar en að leyfa veiðar á nytjastofnum þar, nema á þeim jörðum sem ríkið á sjálft.

„8. gr. Sérákvæði. Veiðigjald fyrir hvern hval er sem hér segir: i) langreyður 50.000 kr., ii) hrefna 8.000 kr. Veiðigjald á sjávargróður er sem hér segir: 500 kr. á hvert landað tonn klóþangs, hrossaþara og stórþara (blautvigt). Þessar fjárhæðir taka breytingum samkvæmt vísitölu neysluverðs frá septembermánuði 2015 fram að ákvörðunardegi skv. 4. gr.“

Við vísum í álit og viðurkenningu Mannréttindadómstóls Evrópu hvað viðvíkur eignarréttindum sjávarjarða og eru upplýsingar um það í meðfylgjandi skjölum.

Eigendur sjávarjarða eru borgarar íslenska lýðveldisins og eiga sín mannréttindi þar.  Eigendur sjávarjarða eru ekki jafnir fyrir lögunum.  Þeir geta ekki sætt sig við að eignarréttur þeirra sé algjörlega hundsaður og að ekki sé minnst á hann í stjórnarfrumvarpi til laga af þeim aðilum sem unnið hafa drengskaparheit að stjórnarskrá Íslands.

Þess er hér með krafist, að eignarréttur sjávarjarða til sjávarauðlindarinnar verði virtur í þessum lögum um veiðigjöld og þeir fái sína löglegu hlutdeild metna í veiðigjöldunum.

Virðingarfyllst,

f.h. Samtaka eigenda sjávarjarða
Ómar Antonsson, formaður

Meðfylgjandi:
Ses – Atvinnuveganefnd glærur 31. okt. 2011
Ses – Auglýsing samtakanna 27. mar. 2014
Ses – Firðir og flóar eru vagga ….. Mbl. 14. des. 2017
Ses – Firðir og flóar – búsvæði ….. Mbl. 3. jan. 2018
Ses – Grunnsævið gulls ígildi  Mbl. 13. apr. 2008

Afrit:  Hr. Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
kristjanj@althingi.is

Upprunaskjal.

Scroll to Top