Umræður um útræðisrétt strandjarða á Alþingi ( óyfirlesið )
133. löggjafarþing 2006–2007.Þskj. 140 — 140. mál.
Fyrirspurn
til iðnaðarráðherra um útræðisrétt strandjarða.
Frá Sigurjóni Þórðarsyni.
Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að útræðisréttur strandjarða verði virtur að nýju?
Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson):
Frú forseti. Ég beini eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. byggðamálaráðherra og formanns Framsóknarflokksins:
Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að útræðisréttur strandjarða verði virtur að nýju?
Hér er um mjög mikilvægt byggðamál að ræða og ég vil benda á að t.d. á Ströndum hafa jarðir ýmis gæði, t.d. æðarrækt og sauðfjárrækt, en ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins hefur svipt eigendur sjávarjarða réttinum til að nýta jarðirnar, rétti til að nýta grásleppumið sem eru í eignarlandinu. Ég vil því spyrja hvort hæstv. byggðamálaráðherra ætli að snúa blaðinu við og leyfa fólkinu að nýta eignarlönd sín, en útræðisréttur sjávarjarða snýr einnig að því að bændur geti nýtt nálæg fiskimið eins og þeir hafa gert frá þjóðveldisöld, en nú hefur nýi Framsóknarflokkurinn einhverra hluta vegna svipt þá þeim réttindum.
Ég hef áður borið þessa spurningu upp, m.a. hér á Alþingi við hæstv. landbúnaðarráðherra og hann brást hinn versti við og taldi ákveðinn dónaskap vera fólginn í að spyrja slíkrar spurningar. Mér finnst það ekki. Mér finnst þetta snúast um hvort fólk fái raunverulega að bjarga sér á landsbyggðinni fyrir ofríki stjórnvalda.
Ég hef einnig spurt núverandi hæstv. félagsmálaráðherra sömu spurningar og hann virtist ekkert gera sér grein fyrir því hversu mikilvægt byggðamál þetta væri. Þetta er afar mikilvægt mál og það er mjög sérstakt að Framsóknarflokkurinn hafi daufheyrst við kröfum eigenda sjávarjarða fram á þennan dag. Þeir hafa þurft að leita á náðir dómstóla, ekki einungis hér á Íslandi — þar sem þeir hafa því miður ekki fengið jákvæðar niðurstöður — heldur hafa þeir þurft að fara núna til Evrópu, til sjálfs Mannréttindadómstóls Evrópu til þess að leita ásjár hvort þeir fái að nýta eignarlönd sín. Mér finnst þetta vera hið furðulegasta mál einmitt í ljósi þess að í flokkssamþykktum Framsóknarflokksins er þetta ein af samþykktunum. Samt sem áður vilja ráðherrar Framsóknarflokksins ekki beita sér og finnst þessi samþykkt flokksins í rauninni ekki vera mikilvæg og það kemur fram í svörum þeirra hér.
Auðvitað vitum við hvað liggur hér að baki. Framsóknarflokkurinn er hræddur við að verði bændum leyft að nýta eignarlönd sín muni það að einhverju leyti raska kvótakerfinu sem Framsóknarflokkurinn hefur staðið vörð um. (Forseti hringir.) Ég vil því beina þeirri spurningu til hæstv. byggðamálaráðherra hvort hann ætli að virða eignarlönd bænda.
Iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson):
Hæstv. forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn frá hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni. Hann beinir þeirri spurningu til mín hvort ég hyggist sem iðnaðarráðherra beita mér fyrir því að útræðisréttur strandjarða verði virtur að nýju.
Það er alveg rétt sem kom fram í máli hv. þingmanns, það er samþykkt stefnumið á flokksþingi Framsóknarflokksins að vinna að því að útræðisréttur strandjarða verði virtur. Um er að ræða afar forn réttindi jarðareigenda sem eiga sér m.a. stoð í rekabálki Jónsbókar og veiðitilskipun frá árinu 1849. Hins vegar rekast þessi réttindi á sjónarmið um nýtingu og verndun fiskstofna og það er nauðsynlegt að horfa til þess líka.
Það má ekki gleyma því að miklar breytingar hafa orðið á heimildum eigenda fasteigna til nýtingar á eignum sínum með breyttum lifnaðarháttum og breyttu atvinnulífi. Ýmis lagaákvæði takmarka rétt fasteignareigenda til notkunar á landi sínu og koma þar til sjónarmið, m.a. skipulag, umhverfisvernd, verndun fugla og dýra og fleira. Þessar takmarkanir þykja réttlætanlegar í nútímaþjóðfélagi út frá sjónarmiðum um verndun og skynsamlega nýtingu. Ákvæði sem þessi geta vissulega orðið til þess að bótaréttur stofnast en slíkt verður að meta í hverju tilviki.
Kunnugt er að uppi hafa verið deildar meiningar meðal lögfræðinga um það hvort með lögum um stjórn fiskveiða hafi verið gengið of nærri stjórnarskrárvörðum eignar- og atvinnuréttindum þeirra bænda sem land eiga að sjó. Einnig liggur fyrir að eigendur sjávarjarða hafa af þessu tilefni stofnað samtök sem hafa þann tilgang m.a. að fá útræðisrétt sjávarjarða virtan á ný.
Mér vitanlega hefur ekki reynt á túlkun þessa beinlínis fyrir dómstólum en Hæstiréttur hefur með dómi frá árinu 2004 staðfest heimild löggjafans til að vernda nytjastofna í fiskveiðilandhelginni og stuðla að hagkvæmri nýtingu þeirra með því að banna landeigendum veiðar úr þeim innan netlaga sem utan, nema með sérstöku leyfi.
Verndun og nýting fiskstofna er hins vegar málefni sem heyrir undir sjávarútvegsráðuneytið. Af þeirri ástæðu, í fjölskipaðri ríkisstjórn, er ekki unnið að breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu í iðnaðarráðuneytinu.
Jón Bjarnason:
Frú forseti. Útræðisréttur strandjarða er hluti af möguleikum íbúa landsins til að nýta auðlindir þess sér til atvinnusköpunar. Um aldaraðir hefur farið saman það búskaparform meðfram ströndum landsins að bændur hafa samtímis nýtt gæðin til landsins og til sjávarins. Ég er uppalinn við það að þá var til helminga stundaður sjór og landbúnaður.
Það að gefa strandjörðum rétt til ákveðins útræðis finnst mér bara skýlaus krafa sem þess vegna byggðamálaráðherra ætti að beita sér fyrir. Þetta er réttur sem fylgir jörðinni, réttur sem fylgir búsetuskyldu, réttur sem ekki er hægt að selja frá jörðinni eða leigja, heldur einungis nýta af þeim sem á og (Forseti hringir.) situr jörðina á hverjum tíma. (Forseti hringir.) Þennan rétt, frú forseti, þurfum við að standa vörð um og endurvekja.
Magnús Þór Hafsteinsson:
Virðulegi forseti. Hér er verið að ræða mál sem er á margan hátt mjög mikilvægt, þ.e. að þessi forni réttur bænda til að nýta auðlindir sínar sé virtur. Að sjálfsögðu tek ég fyllilega undir með hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni í þessum efnum.
Svör hæstv. ráðherra koma hins vegar ekki á óvart. Það er greinilega enginn vilji hjá ríkisstjórnarflokkunum til að virða þessi fornu réttindi bænda og það ber að harma. Ég hygg að þetta málefni verði til umræðu í kosningunum á vori komanda. Þetta snýst um grundvallarmál.
En afstaða ríkisstjórnarinnar kemur alls ekki á óvart. Hún stendur mjög dyggan vörð um það að halda þessum nýtingarrétti á höndum örfárra einstaklinga og útilokar að sama skapi almenning, þjóðina, frá því að fá að nýta þessar sjálfsögðu auðlindir sem tilheyra landsbyggðinni. Þetta er stefna sem ber mjög að harma. Það er alveg sjálfsagt mál og eðlilegt að þetta verði allt saman tekið til endurskoðunar og það verði gerðar úrbætur í þessum efnum um leið og ný ríkisstjórn tekur við á vori komanda.
Jón Gunnarsson:
Frú forseti. Útræðisréttur strandjarða er forn réttur sem ríkið hefur tekið bótalaust af eigendum jarðanna. Ríkið fer þarna fram í valdi þess að vera hinn sterki og þeir sem eiga jarðirnar verða fyrir bótalausu eignarnámi vegna þess að þeir geta ekki varist ríkisvaldinu.
Þetta minnir mig að hluta til á það sem gerist í framkvæmd ríkisins á þjóðlendulögunum. Þar fer ríkið líka fram í krafti þess að vera hinn sterki gegn þeim sem erfitt eiga með að verja sig. Ég fullyrði t.d. varðandi þjóðlendulögin að þeir þingmenn sem samþykktu þau á sínum tíma á hinu háa Alþingi gerðu sér aldrei grein fyrir því að ríkið mundi fara fram með því offorsi sem ríkið hefur gert og taka eignarlönd og lönd sem menn hafa þinglýsta pappíra fyrir og þinglýsta kaupsamninga af mönnum bótalaust, eins og gert var með útræðisrétt strandjarða.
Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson):
Frú forseti. Það var sorglegt að hlýða hér á hæstv. byggðamálaráðherra. Auðvitað ber þó að þakka honum fyrir að koma hreint fram, koma eins og hann er klæddur til dyranna. Hann segir okkur frá því að hann ætli í rauninni ekki að virða þennan rétt, og að honum finnist það réttlætanlegt. Ég vil að hann skoði hug sinn og spyrji sig hvort það sé réttlætanlegt með einhverri verndun fiskstofna að svipta bændur réttinum til að nýta eignarlönd sín sem ná 115 metra út í sjó. Er í lagi með svona hugsanagang?
Ég get ekki séð að það sé hægt að finna einhverja stoð eða einhver rök fyrir því að þetta snúist um vernd fiskstofna, að svipta menn leyfi til grásleppuveiða í eignarlöndum sínum, svo að dæmi sé nefnt, eða veiða þar á krók eða í net. Þetta er í rauninni hrein og klár della.
Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem hæstv. byggðamálaráðherra kemur hreint fram, heldur hefur hann áður komið fram með sína byggðastefnu. Það gerði hann fyrir tveimur árum. Þá skrifaði hann í Borgfirðingabók að hér ætti að mynda einhvers konar borgríki. Orðrétt segir í þessum skrifum hæstv. byggðamálaráðherra, með leyfi forseta:
„Íslenska sveita- og þorpasamfélagið er úr sögunni. Í stað þess er hér risið nokkurs konar borgríki, samfélag sem ber mjög ólík einkenni og lýtur allt öðrum lögmálum.“
Þetta er hinn nýi Framsóknarflokkur. Það er ágætt að bændur landsins viti að ef þeir merkja við B-ið í næstu kosningum eru þeir sömuleiðis að skrifa undir það að vera áfram sviptir eignarrétti sínum. Það er alveg stórundarlegt að Framsóknarflokkurinn sé kominn í þá stöðu (Forseti hringir.) að ráðast svo gegn hagsmunum bænda.
Iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson):
Hæstv. forseti. Það reiknast til misskilnings að ruglast á lýsingu í riti og stefnulýsingu eða óskalista. (SigurjÞ: Á ég að halda áfram með hana?)Það er mikill munur á því hvort menn eru blindir á staðreyndir og eru kannski að harma þær eða hvort menn hvetja til tiltekinnar þróunar. Ég hef reynslu sem íslenskukennari og þekki þetta vandamál hjá nemendum.
Það er hins vegar talsverður samhljómur í því sem hér hefur komið fram um viðhorf til þessara fornu réttinda strandbænda. En ég vísa aftur til þess sem ég sagði um lögformleg rök og stjórnsýsluaðstæður í fjölskipaðri ríkisstjórn.