Búið er að stefna íslenska ríkinu

Á aðalfundi SES 15. desember 2006 kynnti Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður félagsins, stefnu á hendur íslenska ríkinu sem hann hefur unnið fyrir félagið. Stefnan var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 14. desember 2006.


Stefna

Nr. 1 Lagt fram í Héraðsdómi
Reykjavíkur  14 /12 2006.

Ómar Antonsson
Horni í Nesjum
781 Hornafirði

GERIR KUNNUGT: Að hann þurfi að höfða mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur gegn íslenska ríkinu til viðurkenningar á eignar- og nýtingarrétti stefnanda sem eiganda sjávarjarðarinnar Horns I í Hornafirði yfir netlögum jarðarinnar og eru gerðar eftirfarandi

DÓMKRÖFUR:

AÐALKRAFA
Stefnandi gerir þær kröfur á hendur stefnda, íslenska ríkinu, AÐALLEGA að viðurkennt verði  með dómi
að til eignarlands jarðarinnar Horns I í Hornafirði teljist landsvæði allt innan netlaga jarðarinnar og teljist netlögin sjávarbotn 115 metrar út frá stórstraumsfjöruborði, og
að stefnandi, eigandi jarðarinnar, fari með öll venjuleg eignarráð innan netlaga, sem teljist óaðskiljanlegur hluti jarðarinnar og
að eignarréttur stefnanda nái jafnt til hafsbotnsins í netlögum og þess sem neðan og ofan hafsbotnsins er, svo og að eignarrétti þessum fylgi einkaréttur, þar á meðal í atvinnuskyni, til fiskveiða, dýraveiða og fuglaveiða, svo og önnur nýting náttúrauðlinda í netlögum jarðarinnar, þ.e. í sjónum, á hafsbotni, undir hafsbotni og í loftrýminu fyrir ofan netlög jarðarinnar.

Jafnframt er þess krafist að viðurkennt verði með dómi, að það sé ekki skilyrði þess að stefnandi nýti, þar á meðal í atvinnuskyni, auðlindir í netlögum jarðarinnar, þar á meðal með fiskveiðum, að hann hafi fengið almennt veiðileyfi samkvæmt 4. gr. l. um stjórn fiskveiða nr. 38/1990, veiðiheimild skv. 2. mgr. 7. gr. sömu laga og/eða sérstakt leyfi til grásleppuveiða skv. 7. gr. l. nr. 79/1997 um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

VARAKRAFA
Stefnandi gerir þær dómkröfur TIL VARA á hendur stefnda, íslenska ríkinu, að viðurkennt verði með dómi að til eignarlands jarðarinnar Horns I í Hornafirði teljist landsvæði allt innan netlaga jarðarinnar og teljist netlögin sjávarbotn 115 metrar út frá stórstraumsfjöruborði, og að stefnandi hafi sem eigandi jarðarinnar Horns I  einkarétt, þar á meðal í atvinnuskyni, til fiskveiða, dýraveiða og fuglaveiða í netlögum jarðarinnar, þ.e. í sjónum, á hafsbotni og í loftrýminu fyrir ofan netlög.

Jafnframt er þess krafist að viðurkennt verði með dómi, að það sé ekki skilyrði þess að stefnandi nýti auðlindir í netlögum jarðarinnar, þar á meðal með fiskveiðum, að hann hafi fengið almenn og sérstök leyfi svo sem til  fiskveiða samkvæmt lögum á hverjum tíma, nú almennt veiðileyfi samkvæmt 4. gr. l. um stjórn fiskeiða nr. 38/1990, veiðiheimild skv. 2. mgr. 7. gr. sömu laga og/eða sérstakt leyfi til grásleppuveiða skv. 7. gr. l. nr. 79/1997 um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

I. ÞRAUTAVARAKRAFA
Orðrétt sama krafa og varakrafan með þeirri breytingu að í stað orðanna ,,115 metrar” komi orðin ,,60 faðmar”.

II. ÞRAUTAVARAKRAFA
Orðrétt sama krafa og varakrafan með þeirri breytingu, að við texta kröfugerðarinnar í fyrri málsgrein bætist nýr málsliður svohljóðandi: ,,Einkarétturinn til fiskveiða miðist þó við netlög, sem teljast sjávarbotn yst frá stórstraumsfjöruborði út að dýpi, þar sem selnót stendur grunn 20 möskva djúp að fjöru og komi þá flár upp úr sjó.”

MÁLSKOSTNAÐARKRAFA
Þá er krafist málskostnaðar alls án tillits til þess hvernig málið fer samkvæmt framlögðum reikningi eða að mati dómsins úr hendi stefnda.

MÁLSÁSTÆÐUR OG ÖNNUR ATVIK

Um aðalkröfuna
Aðalkrafan er í þremur aðalliðum og miðar við að eignarráð stefnanda yfir netlögum jarðarinnar Horns séu þau sömu og yfir öðrum hlutum jarðarinnar, en í því felst að nýtingarheimildir stefnanda séu þær sömu í netlögum jarðarinnar og yfirráðin yfir fastalandi jarðarinnar. Þá felst í aðalkröfunni að krafist er viðurkenningar á því að breidd netlaga reiknist frá stórstraumsfjöruborði og nái 115 metra út í sjóinn og séu netlögin óaðskiljanlegur hluti aðliggjandi lands. Þá felst í kröfunni að í dómsorði skuli tekið fram að eignarréttur stefnanda í netlögum nái til hafsbotnsins, þess sem er neðan hafsbotnsins, sjávarins yfir hafsbotninum, auðlinda í sjónum innan netalaga, þar á meðal hvers kyns fisktegunda, svo og til náttúruauðlinda í loftinu yfir netlögum. Sá eignarréttur, sem krafist er viðurkenningar á, er háður almennum takmörkunum á eignarréttindum í netlögum, sem leiða af lögum hvers tíma, svo sem um skipulag, byggingamál, náttúruvernd o.s.frv., en stefnandi telur ekki nauðsyn bera til að taka það fram í kröfugerðinni sjálfri fremur en þegar krafist er viðurkenningar á eignarrétti að landi. Þess utan telur stefnandi ókleift að rekja slíkar almennar takmarkanir á eignarrétti lögum samkvæmt vegna þess að slík lög sæta sífellt endurskoðun og breytingum og réttarástandið því síbreytilegt. Augljóst megi hins vegar telja að almennar takmarkanir á eignarréttindum landeigenda nái jafnt til fasta landsins og til netlaganna, enda sé um takmarkanir að ræða sem samræmist eignarréttarákvæði stjórnarskrár. Stefnandi tekur fram, að telji stefndi, að stefnandi hafi verið sviptur þeirri heimild eignarréttar yfir netlögum, sem felst í að veiða þar fisk, þá sé ekki um almenna takmörkun eignarréttar að ræða, heldur sviptingu réttarins til að njóta þeirrar heimildar. Telur stefnandi það jafngilda eignarnámi án þess að skilyrði eignarnáms um almannaþörf og fullar bætur séu uppfyllt. Þá byggir stefnandi á að skerðing, sem felst í því að banna eiganda eignar að njóta tiltekinnar heimildar eignarréttar og heimila öðrum nýtingu sömu heimildar, teljist ekki undir neinum kringumstæðum til almennra takmarkana eða skerðinga á eignarrétti. Með því að útiloka hagnýtingu stefnanda á auðlindum í netlögum, þar á meðal fiskiauðlindinni, er jafnframt vegið að atvinnuréttindum hans og þau skert í andstöðu við atvinnufrelsisákvæði 75. gr. stjórnarskrárinnar. Stefnandi hefur og hefur haft réttmætar væntingar þess efnis, að hann yrði hvorki sviptur eignarréttindum sínum né atvinnuréttindum nema gætt væri stjórnarskrárákvæða um skýra heimild, almannaþörf og bætur.

Vakin er á því athygli að þar sem gerð er almenn takmörkun á hreindýraveiðum landeigenda eins og i l. nr. 64/1994 á landi sínu, þá koma bætur fyrir í formi arðs af veiðum leyfishafa. Almenni löggjafinn hefur því ekki treyst sér til að banna landeigendum hreindýra veiðar bótalaust og talið það andstætt eignarréttarákvæði stjórnaskrár.

Í aðalkröfu er miðað við að netlögin miðist við 115 metra breitt svæði út frá stórstraumsfjöru. Er þá haft í huga að í öllum settum lögum frá 1923 er miðað við að netlög teljist 115 metrar. Áður eða allt frá 1849 var miðað við 60 faðma. Þegar tekið var upp metramál þótti eðlilegt að miða við hinn nýja mælikvarða, en ekki munar neinu sem nemur á 115 m. og 60 föðmum. Í I. þrautavarakröfu er miðað við 60 faðma í stað 115 metra. Þá kemur og til mála að miða við ákvæði Jónsbókar um breidd netlaga og er það gert í II. þrautavarakröfu. Brýna nauðsyn ber til að dómstólar taki afstöðu til marka netlaga og eignarréttar eigenda sjávarjarða yfir þeim með hliðsjón af því að stefndi telur sig nú hafa heimildir til að hleypa hverjum sem er inn í netlögin til fiskveiða að uppfylltum tilteknum leyfaskilmálum og án leyfis eiganda netlaganna. Með því að stefna réttindum stefnanda í slíka óvissu getur það reynst honum örðugt að halda uppi rétti sínum og fá lögregluyfirvöld til að halda uppi lögum og reglu að þessu leyti.

Við gerð aðalkröfunnar er haft í huga, að stefnandi hefur verulegra hagsmuna að gæta af því að fá viðurkenningu á eignarumráðum sínum yfir netlögum jarðarinnar Horns með öllum gögnum og gæðum eða landsnytjum. Stefndi hefur með afstöðu sinni til kröfu stefnanda stefnt eignarrétti landeigenda yfir netlögum jarða í slíka óvissu að nauðsyn ber til að dómstólar taki afstöðu til réttinda þessara.

Um varakröfu
Varakrafan er þrengri en aðalkrafan að því leyti að þar er aðeins krafist viðurkenningar á að netlög jarðarinnar Horns teljist 115 metrar út frá stórstraumsfjöruborði og að í netlögum hafi stefnandi einkarétt á fiskveiði, dýraveiði og fuglaveiði í netlögum, þ.e. í sjónum, á hafsbotni og í loftrými fyrir ofan netlögin. Með veiði er í varakröfum og í aðalkröfu átt við veiði hvort sem er til eigin nota eða í atvinnuskyni. Jafnframt er krafist viðurkenningar á að allt svæðið innan netlaga jarðarinnar Horns teljist til eignarlands jarðarinnar og innan merkja hennar.

Um I. þrautavarakröfu
Þrautavarakrafa hin fyrri er efnislega sú sama og varakrafan nema miðað er við að netlög séu 60 faðmar út frá stórstraumsfjöruborði og er þá tekið mið af veiðitilskipuninni frá 1849. Dómstólar telja nokkra óvissu ríkja um hvaða lagaskilgreiningu á netlögum beri að beita og er tekið tillit til þess í þrautavarakröfum I og II.

Um II. þrautavarakröfu
Þrautavarakrafa hin síðari er efnislega sú sama og varakrafan nema miðað er við að netlög teljist yst sjávarbotn frá stórstraumsfjöruborði út að dýpi, þar sem selnót stendur grunn 20 möskva djúp að fjöru og komi þá flár uppúr sjó. Hér er tekið mið af skilgreiningu Jónsbókar á netlögum. Skilgreining þessi er frábrugðin skilgreiningunni frá 1848 og síðar sem ætíð tekur mið af breidd netlaga án tillits til dýpis. Skilgreining Jónsbókar tekur hins vegar aðeins tillit til dýptar sjávar og ræður dýpt fyrir landi jarðar breidd netlaga. Dregið hefur verið í efa hvort þessi Jónsbókarskilgreining netlaga að því er fiskveiðar varðar hafi nokkurn tíma verið úr gildi felld og ber þá að miða  við hana í dómi í máli þessu.

Krafa sameiginleg öllum kröfunum
Hvort sem fallist verður á aðalkröfu, varakröfu eða I. eða II. þrautavarakröfu er gerð krafa um viðurkenningu á, að það sé ekki skilyrði þess að stefnandi nýti auðlindir í netlögum einkum með fiskveiðum, að hann þurfi að afla sér sérleyfa til fiskveiða og veiða með bát eða skipi, svo sem áskilið er í lögum um stjórn fiskveiða eða lögum um veiðar í landhelgi Íslands. Með kröfu þessari er lögð áhersla á að stefnandi hefur um aldabil einn mátt nýta auðlindir í netlögum jarðar sinnar, enda þau óaðskiljanlegur hluti jarðarinnar. Verði honum gert að afla sér almenns og sérstaks leyfis og veiðiheimildar til fiskveiða í netlögunum og sérstaks leyfis til grásleppuveiða svo og báts af tiltekinni stærð, þá er réttarstaða hans sú sama og stefndi telur réttarstöðu hvers þess sem hefur slík leyfi og eignarréttur stefnanda og einkaréttur til nýtingar innan netlaga á eigin jörð að engu gerður.

JÖRÐIN HORN I
Stefnandi er eigandi jarðarinnar Horns I í Hornafirði. Jörðin er ein stærsta jörðin í fyrrum Nesjahreppi og hlunnindarík, svo sem trjáreki, selveiði og dún- og eggjatekja í eyjum, sem jörðinni fylgja. Þá var útræði Nesjabænda úr Hornsvík suðaustur af bænum fram á nítjándu öld. Hefur útræði verið stundað frá Horni til okkar daga. Heimildir frá upphafi átjándu aldar eru um að á Horni hafi til forna verið 20 verskálar og munnmæli eru um að Norðlendingar hafi haft verstöð í tóftunum í kömbunum undir Kambhorni.

Að austan ráða landamerkjum jarðarinnar hreppamörk Lóns og Nesja, en að vestan liggja mörkin milli Þinganess og Horns við Kambslæksmynni fyrir innan Almannaskarð.

Jörðin varð bændaeign árið 1903 er landshöfðingi afsalaði jörðinni til ábúanda jarðarinnar skv. heimild í lögum nr. 54/1901 um sölu þjóðjarða.

Jörðin Horn (I og II) var í óskiptri sameign stefnanda og bæjarfélagsins Hafnar í hlutföllunum 2/3 á móti 1/3, en eigendur skiptu jörðinni með sér með eigendasamkomulagi hinn 19. janúar 1993 og komu þá í hlut Hafnar m.a. Mikley, Hellir, Þinganessker, vestasti hluti Austurfjara, Hvanney og austasti hluti Suðurfjörutanga, en að öðru leyti kom öll jörðin í hlut stefnanda. Verður lagður fram uppdráttur af landi jarðarinnar við þingfestingu málsins.

Í fasteignamati jarðarinnar 1916 segir m.a.

Útræði er allgott, skammt frá bæ í Hornshöfn og stuttróið.

Í fasteignamati jarðarinnar 1932 segir m.a.

Útræði vetrarvertíð stutt róið.

Í fasteignamötum og hlunnindaskýrslum á síðustu öld er selveiði talin meðal hlunninda jarðarinnar.

AFSTAÐA ÍSLENSKA RÍKISINS
Hinn 13. september 2004 ritaði lögmaður Samtaka eigenda sjávarjarða bréf stílað á sjávarútvegsráðherra og var þar gerð grein fyrir að eignarréttindi eigenda sjávarjarða yfir netlögum hafi með lögunum um stjórn fiskveiða verið skert andstætt eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar án þess þó að réttindin hafi verið tekin eignarnámi. Sjávarútvegsráðherra svaraði bréfi þessu hinn 21. september 2004 og segir m.a í svarbréfinu, að það sé misskilningur í bréfi lögmannsins að eignarréttindi landeiganda yfir netlögum hafi verið skert. Síðan segir:

Ekkert í gildandi lögum eða reglum sviptir eiganda einkarétti til fiskveiða innan netlaga jarðar sinnar. Hins vegar er þess krafist að hann hafi tilskildar  aflaheimildir hverju sinni.

Svo virðist sem ráðherrann hafi ekki gert sér grein fyrir að með fiskveiðistjórnarlögunum var fiskveiðilandhelgi skilgreind með þeim hætti að hver sá sem hefur tilskilin leyfi getur fiskað í netlögum annarra án leyfis. Þá skortir greinargerð frá ráðherranum um það á hvern hátt eigendur sjávarjarðar geti nýtt fiskveiðar á sama hátt og áður í netlögum jarða þar sem skilyrði leyfis eða heimilda eru með þeim hætti, að eigendur sjávarjarða geta ekki uppfyllt þau án þess að stofna til stórfelldra og óeðlilegra fjárfestinga í búnaði og aflaheimildum. Eigandi sjávarjarðar hefur þegar sætt refsingu fyrir að veiða í eigin netlögum (HR 28. apríl 2004 í málinu nr. 455/2004). Skv. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 79/1997 um fiskveiðilandhelgi Íslands telst hafsvæðið frá fjöruborði að ytri mörkum efnahagslögsögu Íslands til fiskveiðilandhelgi þess. Falla netlög því innan fiskveiðilandhelgi þess segir í héraðsdómi þeim sem áfrýjað var til Hæstaréttar og staðfestur var í hæstaréttarmálinu nr. 455/2004. Sömu skilgreiningu er að finna í 2. gr. laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða. Af fyrrgreindum héraðsdómi, sem staðfestur var án athugasemda í Hæstarétti, verður ráðið að íslenska ríkið telur sig geta heimilað hverjum sem er, sem hefur tilskildar heimildir og leyfi til að veiða í fiskveiðilandhelginni, að veiða fisk innan marka eignarlanda sjávarjarða, þ.e. í netlögum jarðanna. Lögð er á það áhersla, að skv. gildandi lögum eins og Hæstiréttur hefur túlkað þau, hafa eigendur sjávarjarða verið sviptir eignarréttindum sínum innan netlaga, en þeir geta til jafns við aðra sóttu leyfi til að veiða m.a. innan marka jarða sinna. Þeir geta ekki útilokað aðra frá því að veiða í netlögum jarða sinna hafi þeir tilskilin stjórnvaldsleyfi og tiltekna stærð veiðiskipa.

Í fyrrgreindu bréfi sjávarútvegsráðherra segir að óvissa ríki um ytri mörk netlaga þegar að fiskveiðum kemur. Í fyrrgreindum héraðsdómi segir að ákvæði 23. kapítula Jónsbókar um afmörkun netlaga, sem miðist við sjávardýpi hafi ekki verið felld úr gildi með ákvörðun löggjafans, þótt þau hafi ekki verið tekin uppí útgáfu lagasafns 1919 og eftir það.  Kröfugerð í máli þessu er því þannig háttað að dómstólar verða að taka afstöðu til afmörkunar netlaga að því er fiskveiðar varðar og er því haldið opnu hvort afmörkunin miðast við dýpi skv. Jónsbókarákvæðinu, 60 faðma skv. tilskipun um veiði á Íslandi  frá 1849 eða 115 metra skv. síðari tíma löggjöf.

Stefnandi leggur á það áherslu, að ekki skiptir máli við mat á kröfugerð í máli þessu á hvern hátt hann nýtir netlög jarðar sinnar nú eða hefur nýtt þau. Enn síður skiptir máli um úrslit málsins hvernig hann hyggst nýta þau í framtíðinni. Stefnandi nýtur lögverndaðs eignarréttar yfir netlögum jarðar sinnar og nýtingarhættir breyta engu þar um.

ÞRÓUN ÍSLENSKS RÉTTAR UM NETLÖG OG EIGNARUMRÁÐ Í NETLÖGUM
Svo langt sem íslenskar heimildir ná hafa það verið lög hér á landi, að hluti hverrar jarðar sem að sjó liggur skuli vera netlög, en það er svæðið sem liggur í sjó frá stórstraumsfjöruborði og út í sjó meðfram ströndinni. Hefur breidd svæðis þessa ýmist tekið mið af tiltekinni fjarlægð frá stórstraumsfjöruborði eða tilekinni dýpt miðað við stórstreymi.

Í Grágásarhandritinu Staðarhólsbók segir, að hver megi veiða að ósekju utan netlaga, en þar eru netlög utast í sæ er selnet stendur grunn, tuttugu möskva djúpt, af landi eða af skeri og komi flár upp úr sjánum að fjöru þá er þinur stendur grunn.

Í texta Konungsbókar segir um sama efni (212. kap.)

þar eru netlög utast er selnet stendur grunn tuttugu möskva djúpt að fjöru og komi þá flár upp.

Um rétt landeiganda í netlögum segir (Landabrigðisþáttur 55):

og veiðar allar á hann í netlögum svo og í fjörunni. Hann á og fyrir utan netlög og fyrir innan         almenning hvala og viðu og allt það er þar flýtur, það sem eigi eiga aðrir menn áður. … Og hann á  … og allt það er þar flýtur í netlögum, hvort sem net er lagt af landi eða af skeri. … En fyrir utan netlög á hver maður veiði sína.

Texti Jónsbókar 1281 um netlög er efnislega samhljóða texta Konungsbókar, en í rekabálki 2 segir m.a.:

Allir menn eiga at veiða fyrir utan netlög at ósekju. En þat eru netlög, yzt, er selnót stendur grunn 20 möskva djúp at fjöru, og komi þá flár upp úr sjó. … Landeigandi á … ok veiðar allar í netlögum og í fjörunni.

Einkaréttur landeiganda til fiskveiða og veiða sjávarspendýra miðaðist því við netlög þannig skilgreind. Ekki er ágreiningslaust hvernig skilja beri skilgreininguna “tuttugu möskva djúpt” og hafa skýringar náð allt frá 6,85 metrum (Páll Vídalín: Skýringar yfir fornyrði lögbókar) til 2,862 metrar (Lúðvík Kristjánsson: Íslenzkir sjávarhættir). Vegna þess hve óljós breidd netlaga er samkvæmt ákvæðum Grágásar og Jónsbókar hefur á seinni öldum verið farin sú leið í löggjöf að skilgreina netlög sem svæði meðfram landi að tiltekinni breidd frá stórstraumsfjörumáli talið. Í fyrstu var miðað við 60 faðma (112,98 m.), en eftir upptöku metrakerfisins var miðað við 115 metra.

Almennt sammæli er um að telja netlög að fornu og nýju frá stórstraumsfjörumáli og hefur ekki tekist að sýna framá, að sú skýring sé ekki sú rétta, enda hefur tíðkast allt frá árinu 1849 að miða við stórstraumsfjörumál, en það ár tók gildi hér á landi með Tilskipun um veiði á Íslandi frá 20. júní 1849. Í tilskipuninni var ekki aðeins tekin afstaða til netlaga að því er varðar einungis ,,dýraveiði og fugla” heldur til breiddar netlaganna almennt og þar með til fiskveiða. Sést þetta af því að ákvæðið um að netlög jarðar skuli vera 60 faðmar frá stórstraumsfjörumáli er í 3. gr. tilskipunarinnar, sem fjallar um hvað teljist ,,rétt landamerki jarðar”. Skilgreiningin er því ekki takmörkuð við ,,dýraveiði og fugla”, eins og haldið hefur verið fram, enda segir í 3. gr. tilskipunarinnar:

Ef jörð liggur að sjó, á eigandi veiði á haf út, 60 faðma frá stórstraums-fjörumáli, og eru það netlög hans.

Þetta skýrist og betur af ákvæði 21. gr. tilskipunarinnar, þar sem segir m.a.:

Með þessari tilskipun er allt það aftekið, sem lög hafa verið híngaðtil um fuglaveiði og dýraveiði og selveiði, en allar greinir laganna um fiskveiði, sem ekki er breytt i þessari tilskipun, og um hvalveiði, skulu fyrst um sinn standa óraskaðar.

Í þessu felst að ákvæði Jónsbókar um einkarétt landeiganda til að veiða fisk og hval í netlögum halda enn gildi sínu og hafa ekki verið afnumin.

Í Tilskipun fyrir Ísland 12. febrúar 1872 um síldar- og upsaveiði með nót er heimilað að veiða með herpinót í netlögum annars manns gegn gjaldi, sem ákveðið er í tilskipuninni. Með ákvæðinu um lögmælt gjald er á það lögð áhersla að jarðareigandi fer með eignarráð í netlögum og aðrir geta ekki veitt þar nema gegn því að gjalda jarðareigandanum fyrir veiðina. Er þetta ekki ósvipað ákvæði höfundalaga um rétt útvarpsstofnana til að birta áður útgefið verk án sérstaks leyfis en gegn fyrirfram ákveðnu gjaldi. Breidd netlaga er ekki skilgreind í tilskipuninni, enda talið óþarft þar sem talið var að búið væri að ákveða hana með ákvæðum veiðitilskipunarinnar frá 1849 og er þetta staðfesting þess að talið hafi verið 1872 að breidd netlaga hefði verið skilgreind í veiðitilskipuninni 1849 og því ekki ástæða til að endurtaka þá skilgreiningu.

Næst gerist það að sett eru lög nr. 39/1914 um beitutekju og þar segir:

Netlög eru 60 faðmar á sjó út frá stórstraumsfjörumáli.

Í lögum þessum er lagt bann við beitutekju í netlögum án leyfis ábúanda jarðar og er með því viðurkenndur einkaréttur landeiganda til hvers kyns beitutekju í netlögum. Skilgreining laganna á netlögum er ekki takmörkuð við lögin heldur er hún almenn.

Í vatnalögum nr. 15/1923 er reyndar ekki fjallað um netlög í sjó, en þar eru ákvæði um netlög í stöðuvötnum og eru þau 115 metra út í vatn og skal miða við lágflæði í vatni. Hér er tekið mið af lagareglum um netlög í sjó. Hefur bakkaeigandi öll eignarráð í netlögum vatns.

Árið 1954 voru sett lög nr. 63/1954 um fuglaveiðar og fuglafriðun. Í þeim er gert ráð fyrir að netlög séu hluti landareignar.  Þar segir að landeigandi eigi fuglaveiðar á haf út, 115 metra frá stórstraumsfjörumáli ,,og eru það netlög hans”.

Í l. nr. 76/1970 um lax- og silungsveiðar eru netlög skilgreind í 1. gr. sem sjávarbotn 115 metra út frá stórstraumsfjöruborði landareignar. Í 1. mgr. 14. gr. laganna segir að ekki megi veiða lax í sjó og ekki silung utan netlaga. Í 6. mgr. 14. gr. er nánar fjallað um silungsveiðar landeiganda í netlögum.

Í l. nr. 73/1990 um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins segir að íslenska ríkið sé eigandi allra auðlinda á, í eða undir hafsbotninum utan netlaga og að netlög merki ,,í lögum þessum” sjávarbotn 115 metra út frá stórstraumsfjöruborði landareignar. Í 2. gr. laganna segir að enginn megi leita að efnum til hagnýtingar utan netlaga nema með skriflegu leyfi ráðherra. Með þessu er lögð áhersla á ótakmörkuð eignarráð landeiganda að þessu leyti í netlögum og að hann þurfi ekki að leita leyfis til að hagnýta umræddar auðlindir í netlögum.

Í lögum nr. 64/1994  um vernd, friðun, og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum eru netlög skilgreind sem ,,hafsvæði 115 m út frá stórstraumfjörumáli landareignar” og landareign er skilgreind sem jörð eða annað landsvæði sem háð er beinum eignarrétti. Í 6. mgr. 8. gr. laganna segir að þar sem firðir, vogar eða sund, sem ekki eru 230 m á breidd, skipti landareignum, eigi landeigendur veiðirétt út að miðlínu.   Skv. lögum þessum eru villt dýr að meginstefnu friðuð, en þó er heimilt að aflétta friðun tímabundið vegna tjóns sem dýrin valda, sbr. 3. mgr. 7. gr. laganna. Í 14. gr. laganna er ráðherra heimilað að leyfa veiðar úr hreindýrastofninum. Þá segir að eignarréttur að landsvæðum, þar sem hreindýr halda sig veiti ekki leyfi til veiða á hreindýrum. Þess í stað er veiðileyfishöfum gert að greiða sérstakt leyfisgjald og rennur það að hluta til landeigenda, sbr. reglugerð nr. 487/2003 um skiptingu arðs af hreindýrum. Um er að ræða undanþágu frá 2. mgr. 8. gr. laganna sem áskilja landeigendum einum dýraveiðar á landaregnum þeirra og rástöfunarrétt veiðanna.

Í lögum nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu auðlinda í jörðu segir í 1. gr. að lögin taki til ,,auðlinda í jörðu, í landi, í botni vatnsfalla og stöðuvatna og í sjávarbotni innan netlaga.” Í 2. gr. segir að eignarland merki ,,í lögum þessum” landsvæði þar með talið innan netlaga í stöðuvötnum og sjó, sem er háð einkaeignarrétti þannig að eigandi landsins fer með öll venjuleg eignarráð þess innan þeirra marka sem lög segja til um á hverjum tíma. Netlög merkja í lögunum sjávarbotn 115 metra út frá stórstraumsfjöruborði landareignar. Hér er kveðið á um að netlög séu hluti landareignar.

Í lögum nr. 44/1999 um náttúruvernd eru í 47. gr. ákvæði um leyfi til efnistöku af eða úr hafsbotni utan netlaga og um slíkt leyfi fer eftir ákvæðum laga nr. 73/1990 um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins.

Um efnistöku á landi eða af eða úr hafsbotni innan netlaga fer eftir 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr.  73/1997 svo og lögum nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Af lögum þessum leiðir að um réttindi yfir netlögum gildi sömu reglur og um réttindi eiganda yfir fastalandi.

Í lögum nr. 13/2001 um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis segir að lögin taki til leitar, rannsókna og vinnslu kolvetnis og flutnings þess eftir leiðslukerfi utan netlaga í landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunni Íslands. Í 3. gr. laganna segir að íslenska ríkið sé eigandi kolvetnis skv. 1. gr., þ.e. kolvetnis utan netlaga. Með lögum þessum er kveðið skýrt á að kolvetni innan netlaga falla undir eignarumráð landeigenda.

Í jarðalögum nr. 81/2004 er eignarland skilgreint sem landsvæði sem er háð einkaeignarrétti þannig að eigandi landsins fari með öll venjuleg eignarráð þess innan þeirra marka sem lög segja til um á hverjum tíma. Sagt er að fasteign merki afmarkaðan hluta lands ásamt lífrænum og ólífrænum hlutum þess, réttindum sem því fylgja og þeim mannvirkjum sem varanlega eru við landið skeytt. Þá segir að netlög merki í lögunum vatnsbotn 115 m útfrá stórstraumsfjöruborði landareignar. Augljóst er af lögunum að netlögin teljast hluti jarða og eru óaðskiljanlegur hluti þeirra og eignarumráð yfir þeim full og ótakmörkuð.

Netlög eru og skilgreind í vatnalögum nr. 20/2006 og l. nr. 58/2006 um fiskrækt.

Í l. nr. 57/2006 um eldi vatnafiska er í  2. mgr. 13. gr. neyðarréttarregla þess efnis að rekstrarleyfishafa skv. lögunum sé skylt vegna missis eldisfisks úr fiskeldisstöð m.a. að gera allt sem hann getur til að veiða slíkan fisk í 200 metra fjarlægð frá stöðinni “án tillits til réttar eigenda sjávarjarða í netlögum.” Hér er vegna neyðarréttarsjónarmiða utanaðkomandi aðila heimilað án sérstaks leyfis að fara í netlög sjávarjarðar og veiða misstan fisk. Í þessu ákvæði felst sú afstaða löggjafans að eignarréttur eigenda sjávarjarða í netlögum sé fullur og óskertur þar  á meðal til fiskveiða.

Í lögum nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði segir í 7. tl. 3. gr. m.a. að eignarland sé “landsvæði, þar með talið í netlögum í … sjó, sem er háð einkaeignarrétti þannig að eigandi landsins fer með öll venjuleg eignarráð þess innan marka sem lög segja til um á hverjum tíma.” Skv. 1. mgr. 15. gr. laganna er eigendum sjávarjarða heimilað að veiða silung í netlögum einstakra sjávarjarða. Í 1. mgr. 16. gr. er heimilað að takmarka eða banna veiðar sjávarfiska framan við árósa straumvatna. Hafi takmörkun eða bann á veiðum innan netlaga í för með sér fjárhagslegt tap tiltekins landeiganda skal bæta tjónið að fullu. Netlög eru skv. tl. 30 í 3. gr. laganna skilgreind sem 115 metrar frá stórstraumsfjöruborði. Af ákvæðum þessum er ljóst að löggjafinn lítur svo á að miða skuli netlög vegna fiskveiða við 115 metra fjarlægð frá landi og löggjafinn lýsir því skýrt og skorinort yfir að eigendur sjávarjarða fari með öll eignarráð í netlögum. Hnykkt er á þessari afstöðu í 31. gr. laganna þar sem segir að veiða megi göngusilung í netlögum sjávarjarða á færi, stöng og í lagnet.

Af framangreindu leiðir:

Allt frá því að Tilskipun um veiði við Ísland var sett árið 1849 til þessa dags hafa netlög verið skilgreind sem svæði meðfram landi sem nær 60 faðma út frá stórstraumsfjörumáli og síðar 115 metra. Jafnframt er kveðið á í lögum, að þetta svæði með landinu, netlögin, sé hluti jarðar og sé háð eignarrétti jarðareiganda, síðast í jarðalögum nr. 81/2004 og lögum nr. 61/2006 um lax-g silungsveiði.
Þar sem skilgreiningar netlaga og ákvæði um eignarrétt landeiganda að netlögum eru í sérlögum þá eru eignarheimildir yfirleitt skilgreindar í hverjum sérlögum fyrir sig í samræmi við viðfangsefni þeirra. Hér að framan hefur verið getið um þessar heimildir landeiganda í netlögum: fiskveiði, (1281 og 1849), síldar- og ufsaveiði (1872),  beitutekja (1914), fuglaveiðar (1954), allar auðlindir í, á eða undir hafsbotninum (1990), auðlindir í sjávarbotni innan netlaga (1998 ), efnistaka af eða úr hafsbotni (1997 og 1999), kolvetni og að lokum öll venjuleg eignarráð (2004 og 2006). Þannig kveða lög á um, að allar hugsanlegar auðlindir í sjónum, á hafsbotni og undir hafsbotni svo og í lofti yfir netlögum, að engri undanskilinni, séu í eignarráðum landeiganda.
Í lögum um lax- og silungsveiði frá 2006 er því slegið föstu, að eigendur sjávarjarða fari með öll eignarráð í netlögum. Hafi afstaða Alþingis verið á einhvern hátt óskýr í fyrri löggjöf er hún það ekki lengur.

LÖG UM FISKVEIÐI OG FISKVEIÐILANDHELGI
Í lögum nr. 81/1976 um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands er fiskveiðilandhelgin ekki skilgreind heldur vísað til þess á hvern hátt hún er ákveðin í reglugerð nr. 299 frá 15. júlí 1975.

Í lögum nr. 41/1979 um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn segir að landhelgi Íslands skuli afmörkuð með línu sem alls staðar er 12 sjómílur frá grunnlínu sem dregin er milli tiltekinna staða. Í 2. gr. laganna segir að fullveldisréttur Íslands nái til landhelginnar, hafsbotnsins innan hennar og loftrýmisins yfir henni.

Í 2. gr. laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða segir að til fiskveiðilandhelgi Íslands teljist „hafsvæði frá fjöruborði að ytri mörkum efnahagslögsögu Íslands eins og hún er skilgreind í lögum nr. 41 1. júní 1979, um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn.“ Þá segir í 2. gr. laga nr. 79/1997 um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands að fiskveiðilandhelgin teljist „hafsvæðið frá fjöruborði að ytri mörkum efnahagslögsögu Íslands eins og hún er skilgreind í lögum nr. 41 1. júní 1979, um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn.“ Ákvæði tveggja síðast greindu laga eru því samhljóða. Í báðum tilvikum er talað um að fiskveiðilandhelgin teljist frá fjöruborði. Samkvæmt þessu eru netlögin innan fiskveiðilandhelginnar og eru því að hluta í einkaeign. Augljóst verður að telja að í fyrrgreindum lögum sé verið að skilgreina landhelgi út frá fullveldisréttarsjónarmiðum, en ekki eignarréttarsjónarmiðum. Skv. fullveldisréttinum getur löggjafarvaldið sett almennar reglur með lögum um meðferð náttúruauðlinda í netlögum. Felist í þeim takmarkanir á þeim réttindum sem þeir, sem reglurnar beinast að, þarf að meta hvort um almennar takmarkanir sé að ræða sem, sem ekki eru í andstöðu við mannréttindaákvæði stjórnarskrár. Fari slíkar reglur hinsvegar í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar um vernd eignaréttar og um atvinnufrelsi.  Hefði það verið ætlun löggjafans að afnema eignarráð landeiganda yfir netlögum að hluta eða öllu leyti eða að takmarka atvinnufrelsi eigenda sjávarjarða, hefði það viðhorf þurft að koma skýrt fram sem eignarnámsheimild með ákvæði um bætur. Jafnframt verður að lesa þessi ákvæði eins og önnur lagaákvæði með hliðsjón af því að gildissvið laganna takmarkast af rétthærri réttarreglum s.s. reglum stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttar. Ekkert bendir til að ætlunin hafi verið að  afnema eignarréttindi landeigenda að netlögunum að hluta eða öllu leyti með ákvæðum þessum og verður að ætla að það hefði komið fram í lagatextanum eða a.m.k. í undirbúningsgögnum að lagasetningunni, ef svo hefði verið. Ekkert í hinni nýju löggjöf, undirbúningsgögnum hennar eða umræðum á Alþingi, gefur til kynna að markmið hinnar nýju löggjafar sé að svipta eigendur sjávarjarða lögmæltum og aldagömlum einkarétti til fiskveiða í netlögum. Verði því haldið fram af stefnda að túlka megi lög á þann veg að í þeim felist takmarkanir eða afnám á réttindum eigenda sjávarjarða í netlögum þá verða slíkar íþyngjandi réttarheimildir að vera skýrar og standast skilyrði lögmætisreglunnar. Stefnandi og aðrir eigendur sjávarjarða höfðu ekkert tilefni til að hafa uppi athugasemdir og mótmæli gegn hinni nýju löggjöf, enda varð ekki af henni ráðið að í henni fælist svipting réttinda og ráðstöfun sömu réttinda til annarra óviðkomandi, sem hefðu viðeigandi leyfi stjórnvalda. Minnt er á að ef stefnandi hefði aflað sér  viðeigandi leyfa til fiskveiða hefði honum verið heimilt að veiða fisk í netlögum jarðar sinnar til jafns við aðra með samsvarandi leyfi, þannig að réttur hans á eigin jörð hefði verið sá sami og annarra óviðkomandi.

Sá skilningur, að eignarréttur landeiganda yfir netlögum, eins og sá réttur hefur verið skýrður hér að framan, skýrist enn frekar þegar litið er til lagasetningar þeirrar frá síðari árum, þar sem því er lýst hvað eftir annað, að eigandi landsins fari með öll eignarráð í netlögum. Fjölmörg lög, þar sem þessu er lýst, eru yngri en þau lög um fiskveiðilandhelgi, sem tilraun kann að verða gerð til að túlka þannig, að þau hafi afnumið eignarráð landeigenda á netlögunum og einkum einkarétt þeirra til fiskveiða í netlögum, allt bótalaust. Minnt er á að slík túlkun óljósra lagareglna getur ekki komið í stað skýrra lagaheimilda, sem áskildar eru þegar un íþyngjandi réttindasviptingu eða réttindaskerðingu er að ræða.

Í lögum nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða er við það miðað, að réttur til fiskveiða   fiskveiðilandhelgi Íslands geti einungis fylgt skipum, sem uppfylla viss skilyrði m.a   skipanna. Veiðiréttindin fylgdu skipunum,  en réttindin voru síðar gerð framseljanleg og ganga nú kaupum og sölum á markaði, en kaupandi verður þó að vera eigandi fiskiskips. Réttindi þessi hafa því nú einkenni eignarréttar og hafa fræðimenn haldið því fram, að  handhafar þeirra verði ekki sviptir réttindunum án eignarnámsbóta.

Í netlögum þarf ekki báta eða skip, sem uppfylla skilyrði l. nr. 38/1990, til fiskveiða. Þær aðferðir sem notaðar hafa verið eru m.a. að tína upp fisk á fjörunni eftir að sjór fellur frá og á það t.d. við um hrognkelsi, sem eru stungin með haka eða öðru áhaldi. Kræklingur hefur verið plægður frá landi o.s.frv.  Þá hefur fiskur verið veiddur frá landi með netum eða nótum án þess að bátur komi þar við sögu. Að lokum hafa verið notaðir smábátar til veiða í netlögum, en þeir bátar uppfylla ekki stærðaskilyrði l. nr. 38/1990. Ef fallist  væri á að réttur landeigenda til fiskveiða hafi verið afnuminn með lögum um fiskveiðar og aflaheimildir þá yrði slíkt afnám að birtast með skýrum hætti í settum lögum, sem stæðust ákvæði stjórnarskrár. Réttur landeiganda til netlaga og þar með til fiskveiða í netlögum nýtur verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar. Vernd eignarréttinda er meðal mannréttinda. Mannréttindum í stjórnarskrá verða almennt ekki settar skorður eða þau afnumin nema til þess sé heimild í stjórnarskránni sjálfri eða með því að breyta viðeigandi stjórnarskrárákvæði. Í eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar er að finna heimild til eignarnáms, en til þess þarf lagaheimild og komi fullar bætur í stað eignarinnar. Stefndi getur ekki borið fyrir sig slíka eignarnámsheimild og ekki hafa verið boðnar fram bætur. Réttur landeiganda er því ótvírætt í höndum hans og hann hefur ekki verið sviptur þeim rétti. Dómstólar eru gæslumenn mannréttinda og stefnandi getur ekki leitað réttar síns nema fyrir dómstólum, svo sem lög mæla fyrir um, en réttur talsmaður íslenska ríkisins hefur hafnað viðurkenningu á rétti stefnanda.

Enda þótt stefndi líti svo á að stefnanda sé óheimilt að veiða í netlögum jarðar sinnar án þess að fá til þess almennt og sérstakt leyfi stjórnvalda og nota farkost af tiltekinni stærð, þá telur stefndi að öðrum en eigendum jarðarinnar sé heimilt að veiða í netlögum jarðarinnar. Stefndi gefur út leyfi til þeirra sem eiga báta eða skip af tiltekinni stærð og uppfylla skilyrði um veiðireynslu til að veiða fisk m.a. í netlögum jarðar stefnanda, enda lítur stefndi svo á að fiskveiðilandhelgin nái upp í harða land þar á meðal upp í harða land jarðar stefnanda án tillits til lagaskilgreininga á mörkum jarðar til sjávar. Sé afstaða stefnda sú, sem hér er lýst, verður ekki komist hjá því að álykta að stefndi brjóti gegn eignarréttarákvæði stjórnaskrárinnar annars vegar með því að leyfa óviðkomandi för um netlög í einkaeign og hins vegar með því að heimila óviðkomandi nýtingu náttúruauðlinda í netlögum í einkaeign, einkum fiskveiðar. Eigendur sjávarjarða hafa þar með verið sviptir eignarumráðum yfir hluta jarða þeirra.

Stefndi getur ekki borið fyrir sig að það hafi verið markmið með hinni nýju fiskveiðilöggjöf að vernda fiskstofna og einkum uppeldisstöðvar þeirra við land þar sem stefndi virðist heimila hverjum þeim sem hefur viðeigandi leyfi að veiða fisk í netlögum annarra. Eina breytingin, sem varðar fiskveiðar í netlögum, er sú að óviðkomandi koma í stað eigenda sjávarjarða og veiða innan merkja jarðanna.

Stefndi getur ekki borið fyrir sig að hann gæti hagsmuna almennings eða sinni almenningsþörf með því að koma í veg fyrir að eigendur sjávarjarða fiski í netlögum jarða sinna. Þvert móti heimilar stefndi hverjum þeim, sem hefur viðeigandi leyfi, að fiska í netlögum annarra.

Nái kröfur stefnanda ekki fram að ganga hefur verið komið í veg fyrir rétt hans til að njóta eigna sinna í friði. Hyggist hann selja jörð sína verður hann að gera grein fyrir að ekki sé á þinglýstar eignarheimildir um jörðina að treysta þar sem verið geti að þau merki jarðarinnar sem skilgreind eru í lögum, t.d. jarðalögum, og byggt hefur verið á í rúm 800 ár, hafi verið breytt eða þau afnumin, enda þótt slík breyting hafi ekki verið þinglesin eða birt í Stjórnartíðindum eða Lögbirtingablaði.

Á því er byggt að sérhverjir þeir hagsmunir sem krafist er viðurkenningar á í máli þessu séu eign í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. 1. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, þar með talið rétturinn til fiskveiða í netlögum.

Stefnandi telur sig ekki njóta jafnræðisákvæðis 65. gr. stjórnarskrárinnar. Netlög jarða, sem land eiga að vötnum og ám, eru skv. síðari tíma löggjöf þau sömu og netlög sjávarjarða. Eigendur fyrrgreindu jarðanna hafa ekki verið sviptir réttindum sínum í netlögum og þeim er ekki skylt að þola veiðar óviðkomandi í netlögum jarða sinna.  Í þessu felst brot á jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrár og samsvarandi ákvæðis í mannréttindasáttmála Evrópu.

Þá telur stefnandi sig ekki njóta réttlátrar málsmeðferðar fyrir stjórnvöldum og fyrir dómi. Þegar handhafar eignarréttar eru sviptir eignum sínum skal setja annað hvort almenn lög eða sérlög, sem heimila eignarnám tiltekinna eignarréttinda. Viðkomandi stjórnvald tekur síðan ákvörðun um hvort nota skuli heimildina. Sé slík ákvörðun tekin gefst eignarnámsþola kostur á að gæta réttar síns fyrir stjórnvöldum og koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Stjórnvaldið kveður síðan upp rökstuddan úrskurð, sem eignarnámsþoli getur lagt fyrir dómstóla og leitað ógildingar á úrskurðinum. Stefnandi nýtur ekki þessara réttinda. Farið var aftan að honum með löggjöf þar sem ekki er minnst á netlög hvorki í lagatexta eða í undirbúningsgögnum löggjafarinnar. Hvorki alþingismenn né rétthafar sáu eða gátu séð við því, að með lögum var verið að svipta eigendur sjávarjarða eignarréttindum þeirra í netlögum, enda er áskilnaður um skýrleika íþyngjandi lagareglna ekki uppfylltur. Ekkert mat fór fram á vegum löggjafans á því hvort almenningsþörf krefðist þess, að greind réttindi eigenda sjávarjarða yrðu af þeim tekin. Það er ekki hlutverk dómstóla að framkvæma þetta mat á fyrsta stigi, enda þótt dómstólum beri að gæta þess að slíkt mat hafi farið fram og við það hafi verið gætt réttra sjónamiða. Er hér um brýnt brot á ákvæði 70. gr. stjórnarskrárinnar um réttláta málsmeðferð og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um sama efni.

TILVÍSUN TIL HELSTU LAGAÁKVÆÐA
Stefnandi vísar m.a. til eftirtaldra lagaákvæða og réttarreglna, sem hann byggir málatilbúnað sinn á: jafnræðisákvæðis 65. gr. stjórnarskrárinnar og 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, ákvæðis 70. gr. stjórnarskrár og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð, eignarréttarákvæðis 72. gr. stjórnarskrárinnar, eignarréttarákvæðis 1. gr. 1. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, atvinnufrelsisákvæði 75. gr. stjórnarskrárinnar, l. nr. 41/1979 um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn, l. nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða, l. nr. 79/1997 um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, ákvæða Jónsbókar 1281 um netlög, tilskipun um veiði á Íslandi 20. júní 1849, tilskipun fyrir Ísland 12. febrúar 1872 um síldar- og upsaveiði með nót, l. nr. 39/1914 um beitutekju, vatnalög nr. 15/1923, l. nr. 63/1954 um fuglaveiðar og fuglafriðun, l. nr. 76/1970 um lax- og silungsveiðar, l. nr. 73/1990 um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum á hafsbotni, l. nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, l. nr.  57/1998 um rannsóknir og nýtingu auðlinda í jörðu, l. nr. 44/1999 um náttúruvernd, skipulags- og byggingalög nr. 73/1997, l. 13/2001 um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis og jarðalög nr. 81/2004, vatnalög nr. 20/2006, lög nr. 58/2006 um fiskrækt, lög nr. 57/2006 um eldi vatnsfiska og lög nr. 61/2006 um lax og silungaveiðar.

ÁSKILNAÐUR
Stefnandi áskilur sér rétt til að höfða sérstakt mál á hendur stefnda, íslenska ríkinu, annars vegar til viðurkenningar á óbreyttum rétti hans sem eiganda sjávarjarðarinnar Horns til einkaréttar til fiskveiða á sérgreindum miðum utan netlaga, sem tilheyrt hafa jörðinni í ómuna tíð, og hins vegar til viðurkenningar á hlutdeild jarðarinnar Horns sem sjávarjarðar í sjávarauðlindinni í heild. Óumdeilt er að tiltekin fiskimið hafa um aldir tilheyrt einstökum jörðum, einni  eða fleiri, og haft einkarétt til fiskveiðar á þeim miðum og útilokað að aðrir gætu veitt á þeim miðum. Stefnandi telur rétt þennan ekki hafa fallið niður. Um réttinn til hlutdeildar í sjávarauðlindinni minnir stefnandi á, að nytjastofnar á Íslandsmiðum eiga m.a. uppruna sinn í netlögum sjávarjarða eins og Horns. Með l. nr. 85/2002 var samþykkt að leggja á veiðigjald fyrir veiðiheimildir, sem veittar eru á grundvelli laga um fiskveiðistjórnun. Stefnandi telur sig eiga hlutdeild í auðlind þessari og áskilur sér rétt til að höfða mál til viðurkenningar á rétti sínum til þeirrar hlutdeildar.

HELSTU GÖGN
Stefnandi mun m.a. leggja fram eftirfarandi gögn við þingfestingu máls þessa:
Þinglýsingarvottorð um Horn I
Eigendasamkomulag um skiptingu Horns 19. janúar 1993 m. uppdrætti og         bréfi ráðuneytis,
Landamerkjaskrá Horns 26. apríl 1898,
Kafli um Horn í Byggðasögu Austur-Skaftafellssýslu
Kort af legu Horns,
Afrit af fasteignamati Horns 1916.
Afrit af fasteignamati Horns I og II 1932,
Skýrsla um hlunnindi í Nesjahreppi 1921,
Skýrsla um hlunnindi í Nesjahreppi 1944,
Kaupsamningur um jörðina 1904,
Bréf lögmanns 13. sept. 2004 til sjávarútvegsráðherra,
Bréf til Alþingis 27. júlí 2001,
Bréf til Alþingis 4. feb. 2002,
Bréf til landbúnaðarráðherra 19. feb. 2002,
Bréf til sjávarútvegsnefndar 21. mars 2002,
Bréf til umhverfisráðherra 4. febrúar 2003,
Bréf til Evrópusambandsins 7. nóv. 2002,
Bréf til forsætisráðherra 6. júní 2003,
Bréf til sjávarútvegsnefndar 1. júlí 2003,
Bréf til Evrópusambandsins 28. júní 2003,
Bréf til landbúnaðarnefndar 1. júlí 2003,
Bréf til sjávarútvegsráðherra 11. ágúst 2003,
Bréf sjávarútvegsráðherra til Ragnars Aðalsteinssonar 21. sept. 2004

SKÝRSLUR FYRIR DÓMI
Stefnandi áskilur sér rétt til að koma fyrir dóm og gefa aðilaskýrslu. Jafnframt er áskilinn réttur til að leiða vitni fyrir dóm til skýrslugjafar allt eftir því sem varnir stefnda kunna að gefa tilefni til.

FYRIRKALL
Fyrir því stefnist hér með Einari K. Guðfinnssyni, kt. 021255-4679, sjávarútvegsráðherra, til heimilis að Vitastíg 17, 740 Bolungarvík, en með starfstöð að Skúlagötu 4, Reykjavík,  til að mæta fyrir hönd stefnda, íslenska ríkisins, fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, sem háður verður kl. 10 árdegis  fimmtudaginn 14. desember 2006 í dómhúsi réttarins við Lækjartorg í Reykjavík, til þess þar og þá að sjá skjöl og skilríki í dóm lögð, á sókn sakar að hlýða, leggja fram gögn og til sakar að svara og dóm að þola í ofangreinda átt.

Fallið verður frá stefnufresti.

Sæki stefndi ekki þing við þingfestingu málsins má búast við að útivistardómur gangi í málinu.

Reykjavík, 12. desember 2006,
Ragnar Aðalsteinsson hrl
Mér birt f.h. stefnda, íslenska ríkisins,

en stefndi hefur falið mér að sækja þing
við þingfestingu málsins. Afrit stefnu
þessarar hefur verið afhent mér.

Fallið er frá stefnubirtingarfresti.
Reykjavík, 14. desember 2006

Scroll to Top