Umræða á Alþingi um útræðisrétt strandjarða.

Umræða um útræðisrétt strandjarða
132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mar. 2006.

Útræðisréttur strandjarða.
491. mál
[14:16]

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson):
Frú forseti. Ég hreyfi hér við máli sem skiptir landsbyggðina og bændur landsins mjög miklu og ég hef áður spurt hæstv. landbúnaðarráðherra þessara spurninga. Hann brást hinn versti við og vildi vísa málinu frá sér, vísaði m.a. á hæstv. sjávarútvegsráðherra og jafnvel fjármálaráðherra. Svo heit kartafla var þetta að hann vildi alls ekki koma nálægt henni.

Þetta er spurning sem varðar hvort virða ætti útræðisrétt strandjarða. Ef allt væri með felldu þá væri þetta spurning sem sjálfstæðismönnum væri annt um að svara, þ.e. hvort virða ætti eignarréttinn. Það er verið að böðlast við að færa eignarrétt á hinum og þessum hlutum, m.a. á vatni og meira að segja í föstu og fljótandi formi, en ég vil spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra: Hyggst hann virða útræðisrétt, beita sér fyrir því að útræðisréttur strandjarða verði virtur á ný? Ef þessari spurningu yrði svarað játandi yrði það örugglega lyftistöng fyrir margar byggðir landsins og ég tala ekki um í okkar ágæta kjördæmi, Norðvesturkjördæminu og menn mundu taka því fagnandi ef svarið yrði já. Ég býst ekkert endilega við að fá skýrt svar. Það verður örugglega út og suður eins og hæstv. ráðherra er oft tamt að svara. Það koma sjaldnast skýr svör þegar verið er að ræða um erfðafræðina eða styrki. En það má reyna hvaða svör við fáum.

Það mátti lesa athyglisverða grein um málið á síðum eins dagblaðanna í vikunni, á sunnudaginn eftir Ómar Antonsson, þar sem hann líkti þessu ástandi sem nú ríkir við algera eignaupptöku, að með kvótalögunum sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið vörð um hafi eignarrétturinn verið tekinn af bændum. Ég vil fá skýr svör um hvort menn ætla að láta hér við sitja eða hvort virða eigi eignarrétt bænda í þessum málum. Mér finnst að menn ættu að sjá sóma sinn í því.

Ég er á því að þetta sé ekki mál sem mundi raska kvótakerfinu svo mjög, þessu kerfi sem kvótaflokkunum er svo annt um, en þó virðast þeir vera hræddir við einhverjar glufur ef menn fái að sækja þorsk eða hrognkelsi í fjöruborðið hjá sér þá geti það mögulega orðið sú þúfa sem velti úr sessi þessu óréttláta kerfi. Ég segi bara að farið hefur fé betra, ef sú verður raunin.

132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mar. 2006.

Útræðisréttur strandjarða.
491. mál
[14:19]

Sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson):
Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr mig spurningar:
„Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að útræðisréttur strandjarða verði virtur að nýju?“
Í umræðu um þessi mál er því stundum haldið fram að með lögum um stjórn fiskveiða frá árinu 1984 hafi strandjarðir verið sviptar rétti umfram aðra. Það er hins vegar vafasöm fullyrðing. Frá upphafi byggðar hér á landi voru veiðar utan netlaga öllum heimilar. Þegar ákveðið var í upphafi árs 1984 að taka upp nýja skipan við stjórn fiskveiða var ákveðið hér á Alþingi að veiðiheimildir skyldu bundnar við fiskiskip en ekki jarðeignir, hafnir eða byggðarlög. Hafi jarðeigendur gert út báta á þeim tíma sem lagður var til grundvallar við úthlutun veiðiheimilda þá hafa þeir fengið úthlutun í samræmi við aflareynslu báta sinna. Ekkert er því til fyrirstöðu að bændur rói frá jörðum sínum og það viðurkennt að þeir einir geti stundað veiðar innan netlaga jarða sinna, hafi þeir til þess nauðsynlegar veiðiheimildir eða fiskveiðirétt að öðru leyti. Annað mál er að hér virðist ekki ljóst hver netlög séu þegar til fiskveiða koma. Það hafa gengið dómar sem gera það að verkum að spurningin um hver þessi netlög séu er enn þá uppi að því er mér sýnist og þegar ég fer yfir ræðu hv. þm. Sigurjóns Þórðarsonar þá er mér alls ekki ljóst nákvæmlega hvaða útræðisrétt hv. þingmaður er að tala um. Er hann að tala almennt um að eigendur strandjarða hafi sérstakan fiskveiðirétt í landi okkar eða er hv. þingmaður að tala um að þessi fiskveiðiréttur nái eingöngu til veiða innan netlaga?

Það er alveg ljóst að þeir sem hafa gagnrýnt þessi mál út frá sjónarhóli eigenda sjávarjarða hafa beitt alveg tvenns konar rökum. Það hefur m.a. komið fram í málflutningi tiltekinna lögfræðinga að þeir hafa haft uppi algerlega tvö sjónarmið í þessum efnum. Annars vegar eru þeir sem hafa sagt sem svo: Það er þannig að þeir sem eru eigendur strandjarða eða sjávarjarða eiga rétt til veiða innan netlaga sinna alveg án tillits til þess hvort þeir eru með grásleppuleyfi eða hvort þeir eru með kvóta eða annan fiskveiðirétt. Svo eru aðrir sem halda því fram að þetta sé brot á mannréttindum og að þetta sé eignaupptaka vegna þess að bændur á sjávarjörðum eigi miklu víðtækari atvinnuréttindi en sem þessu nemur. Þetta er það sjónarmið sem mér sýnist menn halda mjög fram núna, þ.e. að eigendur sjávarjarða í landinu eigi almennan fiskveiðirétt út frá jörðum sínum og það sé þá ekki bundið við netlögin. Þetta er auðvitað miklu stærra mál sem gæti haft veruleg áhrif, eins og hv. þingmaður sagði áðan, ef menn gætu átt sjálfstæðan rétt langt umfram fiskveiðirétt innan netlaga sinna.

Það var hins vegar athyglisvert að hv. þingmaður talaði um eignarrétt í þessu sambandi og hann lítur greinilega þannig á að rétturinn til fiskveiða sé þar með eignarréttur. Hann er ekki að tala um atvinnuréttindi, eins og til að mynda prófessor Sigurður Líndal hefur talað um í þessu sambandi. Hann er að tala um miklu víðtækari réttindi. Hv. þingmaður talaði algerlega fortakslaust og án þess að hafa neina fyrirvara á því að um eignarrétt í þessu sambandi (SigurjÞ: Ætlarðu að svara þessu eða ekki?) og ég hef verið að svara spurningunni, hv. þingmaður. Hv. þingmaður telur hins vegar að líki honum ekki svarið og sé ekki sammála því þá sé það ekki svar. En hv. þingmaður verður að átta sig á því að það kunna að vera uppi álitamál í þessum efnum og ég var einfaldlega að rukka hv. þingmann um að hann reyndi t.d. að útskýra fyrir mér þessa einföldu spurningu sem ég hélt a.m.k. að menn ættu að geta gengið út frá að væri forsendan í umræðunni, hvort við værum að tala um fiskveiðirétt sem hv. þingmaður talar algerlega undanbragðalaust um sem eignarrétt, en það eru nokkur tíðindi í þessari umræðu að eignarrétturinn, sem hann kallar svo, nái ekki bara til veiða í netlögum heldur sé líka hinn almenni veiðiréttur ef menn eiga sjávarjarðir. Ég tel því að það sé ekki ástæða til að breyta þeirri framkvæmd sem hefur verið og svarið verður þá væntanlega mjög skýrt, er það ekki, hv. þingmaður? Ég tel að þau lög sem núna gilda geri það að verkum að þeir sem séu eigendur sjávarjarða hafi ekki sjálfstæðan fiskveiðirétt umfram það sem almenn lög og reglur kveða á um.

132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mar. 2006.

Útræðisréttur strandjarða.
491. mál
[14:24]

Jón Bjarnason:
Frú forseti. Réttur strandjarða til að nýta fiskveiðihlunnindi fyrir löndum jarðanna hefur verið til staðar öldum saman og búskapur og búseta í landi hefur byggst jöfnum höndum á lands- og sjávargæðum. Ég tel að ekkert eigi að vera því til fyrirstöðu að strandjarðir fái viðurkenndar veiðiheimildir sem séu bundnar við jörðina, bundnar við búsetu á jörðinni, nýttar af þeim sem þar búa, óframseljanlegar. Séu þær ekki nýttar af viðkomandi ábúanda sofni sá réttur og bíði þangað til annar komi. Það er útilokað að hugsa sér að þarna sé um einhvern framseljanlegan rétt að ræða. Mér finnst þetta vera hinn eðlilegi réttur, að sá sem býr á jörðinni megi stunda sjóinn upp að einhverju ákveðnu marki, (Forseti hringir.) ákveðin aflahlutdeild en óframseljanleg, frú forseti.

132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mar. 2006.

Útræðisréttur strandjarða.
491. mál
[14:25]

Össur Skarphéðinsson:
Frú forseti. Ég var hissa á að heyra þetta afdráttarlausa svar hjá hæstv. sjávarútvegsráðherra. Þetta virðist opinbera enn einn ágreininginn innan ríkisstjórnarinnar vegna þess að Framsóknarflokkurinn hefur tekið alveg afdráttarlaust af skarið í þessum efnum. Hann telur að það eigi að virða útræðisrétt strandjarða.
Ég er þeirrar skoðunar líka. Ég er þeirrar skoðunar að hér sé um að ræða fornan rétt sem menn hafi nýtt sér og hann eigi að vera bundinn við þessar jarðir. Hann á að vera bundin við búsetu og hann á ekki að vera framseljanlegur. Þetta finnst mér. Mér finnst jafnframt að það komi vel til greina að setja einhvers konar takmarkanir á það hvers konar útvegur er stundaður frá slíkum jörðum og hversu aflmikill hann er en rétturinn er fyrir hendi. Hann var tekinn af mönnum með kvótakerfinu og ég tel að hægt sé að færa full rök fyrir því að þar hafi eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar verið brotið. Það þyrfti ég að gera í miklu lengra máli. En ég tel sem sagt að þennan rétt, útræðisrétt strandjarðanna, eigi að virða.

132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mar. 2006.

Útræðisréttur strandjarða.
491. mál
[14:26]

Magnús Þór Hafsteinsson:
Virðulegi forseti. Á leið minni til þings í morgun ók ég í gegnum jörðina þar sem ég ólst upp að stórum hluta, þar sem afi minn og amma bjuggu en frændfólk mitt byggir í dag. Þetta er Innri-Hólmur í Innri-Akraneshreppi við norðanverðan Hvalfjörð, jörðin þar sem Hvalfjarðargöngin koma upp. Í fjörusteinunum voru tvær trillur að veiða, stórar trillur, ein stór netatrilla og síðan ein línutrilla að mér sýndist. Þá varð mér hugsað til þess hvers vegna ættingjar mínir ættu ekki neinn rétt til að nýta þessa náttúruauðlind. Það hefur flætt fiskur inn í Hvalfjörð á undanförnum árum. Hvar er til að mynda frumbyggjarétturinn í þessu öllu saman? Af hverju má fólk sem á sjávarjarðir, jarðir sem liggja að sjó og þá jafnframt oft og tíðum að fiskimiðum, ekki að fá rétt til að nýta þessar náttúruauðlindir?

Auðvitað var þetta ekkert annað en eignaupptaka og þjófnaður sem átti sér stað þegar kvótalögin voru samþykkt á sínum tíma. Þessi eignaupptaka og þjófnaður hefur verið færður í verk kerfisbundið allar götur síðan þá en að sjálfsögðu er kominn tími til að hnekkja þessu og virða hin fornu réttindi. Að sjálfsögðu. Og það verður gert um leið og við verðum búin að sparka núverandi ríkisstjórn frá völdum.

132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mar. 2006.

Útræðisréttur strandjarða.
491. mál
[14:27]

Jóhann Ársælsson:
Hæstv. forseti. Hér áður áttu stórbændur útræðið. Nú eiga sjóbændur útræðið. Rétturinn var tekinn af öllum öðrum. Hann var tekinn af þeim sem eiga sjávarjarðir en hann var líka tekin af þeim sem búa við ströndina og höfðu haft rétt til að stunda sjóinn í gegnum tíðina frá því að stórbændaveldinu var hnekkt á sínum tíma. Að stjórnvöld á Íslandi skyldu ekki gæta jafnræðis þegar þessu fiskveiðikerfi var komið á verður mönnum ævinlega til skammar í sölum Alþingis. Það er það sem vantar inn í þetta fiskveiðistjórnarkerfi, að koma á einhverju jafnræði til að nýta þessa auðlind og þá eiga þeir sem búa við ströndina, eiga sjávarjarðir og vilja nýta sjósóknina að fá að sitja við sama borð til að nýta hana, en ekki að búa við slíkt lokað einokunarkerfi sem lokar fyrir alla nýliðun eins og við búum núna við.

132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mar. 2006.

Útræðisréttur strandjarða.
491. mál
[14:29]

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson):
Frú forseti. Það er að mörgu leyti sorglegt að heyra fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, hæstv. ráðherra taka hér til máls, flokks sem einhvern tíma kenndi sig við einkaframtak að hann skuli vera hér í þeim sporum að meina mönnum að bjarga sér, meina mönnum að róa út frá jörðum sínum og reyna að koma í veg fyrir að þeir nýti eignarlönd sín.
Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að þessu máli má skipta í tvennt: Annars vegar réttinn til að nýta eignarlöndin, 115 metra út frá stórstraumsfjöruborði og síðan rétt til að sækja enn lengra, frá fornu fari. Ég er á því að það sé lágmarkið að Sjálfstæðisflokkurinn virði að bændur geti veitt í fjöruborðinu hjá sér. Mér finnst það vera alveg út úr öllu korti að menn séu að bera við einhverju kerfi, kvótakerfi, einhverju haftakerfi til þess að meina mönnum að nýta eignarlönd sín. Mér finnst það með ólíkindum. Þetta kerfi var fundið upp til fiskverndar og til að byggja upp fiskstofna en raunin hefur verið önnur. Niðurstaðan er sú að þorskaflinn er helmingi minni nú en fyrir daga kerfisins þannig að árangurinn er enginn og það á að nota þetta kerfi sem afsökun í að berja á fólki sem vill bjarga sér í hinum dreifðu byggðum landsins. Mér finnst það vera ömurlegt spor sem hæstv. ráðherra er í.
Hann nefnir hér að kvótinn hafi verið bundinn á fiskiskip. Þetta er alveg með ólíkindum og það má velta því upp vegna þess að við erum að ræða landbúnaðarmál hvort kvótinn í landbúnaði eigi að vera bundinn traktorum. Eigum við ekki að fara að tala um þessi mál af einhverri skynsemi og reyna að finna einhverja lausn á þessu í stað þess að vera bundinn í kvóta bæði á höndum og fótum?

132. löggjafarþing — 79. fundur,  8. mar. 2006.

Útræðisréttur strandjarða.
491. mál
[14:31]

Sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson):
Virðulegi forseti. Það getur vel verið að útræðisrétturinn yrði bundinn við traktorana á jörðunum. En þessi umræða hefur að mínu mati varpað ljósi á það, þegar menn ræða málið án upphrópana og sleggjudóma, að jafnvel þeir sem tala um þennan útræðisrétt séu ekki alveg vissir í sinni sök þegar kemur að því að reyna að ræða þetta út í hörgul.
Fyrst töluðu menn þannig að þetta væri tiltölulega einfalt mál, útræðisrétt án hliðsjónar af því hvort við værum að tala um útræðisrétt innan netlaga eða hvort við værum að tala almennt um fiskveiðirétt út frá jörðum. Þannig gæti t.d. maður, sem ætti fyrirtækið Lífsval, keypt jörð sem lægi vel við sjó. Hann fengi þar með rétt til almennra fiskveiða í landinu. Auðvitað kom það í hug hv. þingmanna sem hér voru að tala að slíkt mundi ekki geta gengið heldur yrði að setja inn einhverjar aðrar reglur sem gerðu það að verkum að útræðisrétturinn yrði þegar í stað takmarkaður. Það sem hv. þingmenn voru að tala um var mjög takmarkaður fiskveiðiréttur, fiskveiðiréttur eins og hv. þm. Jón Bjarnason var að tala um, sem væri bundinn við búsetuna, bundinn við tiltekna sókn eða, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði, bundinn við veiðarfæri eða aðra hluti.

Um leið og við fórum að ræða þessi mál af alvöru, sem við þurfum auðvitað að gera. Þegar til umfjöllunar eru stórmál sem lúta bæði að eignarréttinum og atvinnuréttinum og stöðu einstakra jarða þá verðum við að gera þær kröfur til hv. þingmanna að þeir leggi á sig að hugsa þessi mál til enda, þótt ég viti að stundum er það erfitt fyrir menn sem gera fyrst og fremst út á það í stjórnmálum, að tala með gaspurslegum hætti og vilja ekki koma að kjarna málsins.

En það sem blasir við og stendur upp úr (SigurjÞ: Þú vilt engu breyta.) er að hv. þingmenn (Forseti hringir.) Sigurjón Þórðarson, Jón Bjarnason og Össur Skarphéðinsson hafa allir litið þannig á að (Forseti hringir.) fiskveiðiréttur sé eignarréttur. Það eru hin stóru pólitísku tíðindi í þessari umræðu. Ég tók eftir því að hv. þm. Jóhann Ársælsson skautaði fram hjá því, sem von var.

Scroll to Top