Bréf til Jónínu Bjartmarz, umhverfisráðherra.
Samtök eigenda sjávarjarða.
Pósthólf 90,
780 Hornafirði.
Umhverfisráðherra
Jónína Bjartmarz
Skuggasundi 1
150 Reykjavík
Reykjavík, 27. júlí 2006
Efni: Kæra Samtaka eigenda sjávarjarða vegna ákvörðunar Skipulagsstofnunar um að fyrirhugað þorskeldi AGVA ehf. í Hvalfirði skuli undanþegið umhverfismati.
Samtök eigenda sjávarjarða hafa kynnt sér umfjöllun Skipulagsstofnunar um fyrirhugað þorskeldi í Hvalfirði og Stakksfirði. Samtökin lýsa furðu sinni á úrskurði Skipulagsstofnunar og gera kröfu um að fyrirhugaðar framkvæmdir í Hvalfirði fari í umhverfismat.
Ástæður
Hvalfjörður er tiltölulega djúpur og lokaður fjörður með óvenju fjölskrúðugu lífríki, bæði fjörðurinn sjálfur og nágrenni hans. Í hann falla gjöfular laxveiðiár, á strönd hans er víða öflugt æðarvarp og á firðinum sjálfum er fjölskrúðugt fuglalíf. Hann er á vissum tímum nk. forðabúr fjölmargra fugla. Þá er fjörðurinn vinsælt ferðamannasvæði og mun gegna vaxandi hlutverki á því sviði í framtíðinni.
Hvaða hefur stórfellt kvíaeldi með tilheyrandi umferð og raski mikil áhrif á lífríkið? Hvað með mengun frá slíkum stöðvum? Hvað með mengun frá þeirri umferð og athöfnum sem þessu fylgir? Hvaða áhrif hefur það þegar eldisþorskur sleppur úr kvíunum? En það mun örugglega gerast þarna sem annars staðar. Hvað með áhrif á uppbyggingu ferðaþjónustu? Hvaða áhættu er verið að taka gagnvart stórfelldum hlunnindum eins og laxveiði o. fl.? Hvað gerist þegar fjörðinn leggur, en slíkt gerist?
Ofangreindum spurningum og mörgum fleirum er ósvarað og sumum þeirra kann að vera erfitt að svara, en við gerum þá kröfu að vandað sé til alls undirbúnings og fyrirhugaðar framkvæmdir sæti umhverfismati.
Jafnframt gerum við kröfu til þess að haft verði samráð við alla sem málið varðar, þ.e. landeigendur, sérfróða aðila og stofnanir, en þessu er ábótavant í umfjöllun Skipulagsstofnunar.
Við minnum á að þótt sjálfar eldisstöðvarnar séu staðsettar utan netlaga, þá er verið að hefja stórfellda starfsemi á landamerkjum lögbýla og á hafsvæði sem er sameign sjávarjarða og íslenska ríkisins. Málið hlýtur því að koma landeigendum verulega við, því er fráleitt annað en haft verði fullt samráð við þá.
Upplýsingar til umhverfisráðherra vegna eignarréttar sjávarjarða í sjávarauðlindinni.
Vegna undirbúnings fyrirtækisins Agva ehf um þorskeldi í Hvalfirði og Stakksfirði á Reykjanesi vilja samtökin upplýsa um eftirfarandi stöðu eignarréttinda.
Fyrir það fyrsta þá getur umhverfisráðuneytið í samstarfi við Skipulagsstofnun ríkisins ekki ráðskaðst með eignarrétt sjávarjaðra en hann er eftirfarandi samkvæmt lögum:
- Eigendur sjávarjarða eiga eignarréttarlega hlutdeild í sjávarauðlindinni og beinan eignarrétt að fiskveiði í netlögum sem er varinn af 72. gr. stjórnarskrárinnar.
- Eigendur sjávarjarða eiga rétt til veiða í fiskhelgi utan netlaga og á hefðbundnum miðum, sem jafna má til afréttarréttinda og er því eignarréttarlegs eðlis og varinn af 72. gr. stjórnarskrárinnar.
- Útræði/heimræði og útræðisréttur, er einnig varinn af 75. gr. stjórnarskrár, enda jafnframt atvinnuréttarlegs eðlis.
- Sjórinn og sjávarbotninn í netlögum er víða mikilvæg uppeldisstöð og þar er oft mikil fiskgengd. Lífríkið og sjórinn innan og utan netlaga er ein hreyfanleg og óskipt heild. Þetta staðfestir séreignarhlutdeild sjávarjarða í sameign íslensku þjóðarinnar sem nefnd er í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða.
Sjávarjarðir á Íslandi eiga og hafa frá ómunatíð átt hlutdeild í sjávarauðlindinni. Eignarhlutdeild þessi byggist í fyrsta lagi á netlögum, sem er ákveðið svæði í einkaeign í sjó út af landi (samanber meðal annars 3. kapítula rekabálks Jónsbókar frá 1281, 3. gr. tilskipunar um veiði á Íslandi frá 20. júní 1849, 1. gr. laga nr. 39/1914 um beitutekju, 4. og 5. gr. vatnalaga nr. 15/1923, 14., 72., 77., og 96. gr. laga nr 76/1970 um lax og silungsveiði, 1. og 2. gr. laga nr. 73/1990 um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, 1. gr. laga nr. 64/1994 um fuglaveiðar, 1. og 2. gr. laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu og 1. gr. laga nr. 13/2001 um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis). Í öðru lagi eiga sjávarjarðir fornan atvinnurétt, svokallað útræði/heimræði, sem metið hefur verið í fasteignamati og einnig hvalveiðiréttindi.
Fiskveiðilandhelgi Íslands, sem miðast út frá landi, víðast út frá landi sem er í einkaeign, nær einnig yfir netlög og er því þessi séreignarréttur hluti af landhelginni, sbr. 1. gr laga nr. 41/1979 um landhelgi Íslands. Hafið og lífríkið í netlögum, ásamt öllum gögnum og gæðum, fylgir sjávarjörðum og er eign eigenda sjávarjarða. Einn frjósamasti hluti hafsins er í netlögum og er lífríkið ásamt sjónum sjálfum á hreyfingu milli netlaga í einkaeign og ytra svæðis þar sem ríkið fer með umráð. Auðlindin er því óskipt sameign.
Vísað er til þess, að með lögum um stjórn fiskveiða hefur eigendum sjávarjarða verið einhliða meinað að nýta þessa eign sína, án þess að fullt verð hafi komið fyrir, samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar og án þess að friðunarástæður eða önnur haldbær lagarök fyrir takmörkun eignarréttinda séu fyrir hendi.
Þess ber að sérstaklega að geta að umhverfisráðuneytið er ekki málssvari eignarréttinda sjávarjarða.
Í ljósi ofangreindra upplýsinga þá getur umhverfisráðuneytið ekki heimilað þorskeldi í sjónum umhverfis Ísland án samráðs við meðeigendur. Grundvallaratriði er að virða eignir annarra.
Það er krafa Samtaka eigenda sjávarjarða að umhverfisráðuneytið fari að lögum og alþjóðalögum og virði mannréttindi og eignarrétt íslenskra ríkisborgara. Það er krafa samtakanna að umhverfisráðuneytið hafi samráð við eigendur sjávarjarða og hlutaðeigendur sjávarauðlindarinnar áður en heimildir eru veittar fyrir starfsemi hvað viðvíkur lífríkinu og sjónum umhverfis landið.
Virðingarfyllst,
f.h. Samtaka eigenda sjávarjarða
______________________________
Ómar Antonsson, formaður
Afrit sent sjávarútvegráðherra.