Auðlindabölið á Íslandi – Eignir teknar af sjávarjörðum.

Grein í Morgunblaðinu.

Eftirfarandi grein er svar Samtaka eigenda sjávarjarða við leiðara í DV 17. janúar 2006 eftir Björgvin Guðmundsson, ritstjóra sem bar heitið „Mikilvægi eignarréttarins”.

Í útdrætti úr leiðaranum segir: „Aukin velferð á Íslandi í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar er ekki síst að þakka betur skilgreindum eignar- og nýtingarrétti í sjávarútvegi”.

Hér er einfaldlega ekki farið með rétt mál. Þegar lög um stjórn fiskveiða voru sett 1990 þá var ekkert tillit tekið til eignarréttar í auðlindinni sem fyrir var og tilheyrir sjávarjörðum, svo nefnd netlög sem eru hluti sjávarins næst landi og eru álitinn frjósamasti og gjöfulasti hluti hafsins. Hluti landsmanna, þ.e. eigendur sjávarjarða, var því sviptur eignum sínum og velferð án dóms og laga og réttur þeirra fenginn öðrum með ólöglegum hætti og án umboða og heimilda. Stjórnarskrá Íslendinga er skýr í þessu sambandi og segir í 72. gr. hennar: „Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir”. Þessu stjórnarskrárákvæði var engan veginn fylgt við setningu laga um stjórn fiskveiða og braut löggjafinn því stjórnarskrána og stjórnarskrárbundin réttindi borgaranna. Það er svo sannarlega kominn tími til að á þessu verði gerðar úrbætur og leiðréttingar og mönnum skilað eign sinni.

Eigendur sjávarjarða eru tiltölulegir eigendur sjávarauðlindarinnar. Þeir eiga netlögin sem eru hluti fiskveiðilögsögunnar og landhelginnar. Bæði lífríkið og sjórinn sjálfur er á ferðinni á milli netlaga og ytra svæðis þar sem íslenska ríkið fer með umráð. Auðlindin er því óskipt sameign eigenda netlaga og íslensku þjóðarinnar sem á ytra svæði.

Sjávarjarðir eiga einnig sérnýtingarrétt, samkvæmt heimildum, á svæði sem nær langt út fyrir netlög. Sem eitt dæmi má nefna að í riti Ólafs Olaviusar, sem gerður var út af dönsku stjórninni á árunum 1775-1777, til að athuga skilyrði til aukinnar sjósóknar á Íslandi, er getið um að nokkrum jörðum á Langanesi tilheyrðu ákveðin fiskimið út að 1½ danskrar mílu (11 km) fjarlægð frá strönd og á 20-30 faðma (50 metra) dýpi.

Eins og áður sagði er hafsvæðið næst strönd álitið frjósamasti og gjöfulasti hluti hafsins. Í því sambandi er vísað í 7. og 8. heimildamyndaflokka BBC „Hafið bláa hafið, The Blue Planet”, þar sem sýnt er fram á mikilvægi hafræmunnar næst landi. Ennfremur er vísað í ummæli Dr. Veerle Vandewerd, framkvæmdastjóra alheimsáætlunar um varnir gegn mengun hafsins frá landi. Hún segir: „Skilgreind standsvæði eru einnig hýbýli 90% fiska og skeldýra”. Dr. Kathy Sullivan, geimfari og könnuður í Explorers Club segir: „Strandsvæðin skipta miklu máli fyrir fiskveiðar og eru mikilvægar fiskuppeldisstöðvar. Umhverfisgæði almennt taka mið af ástandi strandsvæðanna sem eru lungu og lifur jarðarinnar”.

Íslenskar rannsóknir sem kynntar hafa verið í meistaraprófsritgerð Gróu Þóru Pétursdóttur, líffæðings á Hafrannsóknarstofnun, sýna að mikill munur er á vexti þorsks eftir svæðum. Þorskur sem hrygnir á fjörusvæðinu næst landi vex hraðar og er lengri og þyngri og í betra ástandi en jafngamall fiskur sem hrygnir utar og dýpra.

Þetta sýnir hversu gífurlega mikilvæg netlögin eru, sem eru í einkaeign, og hvað þau leggja mikil verðmæti til sameiginlegrar auðlindarinnar.

Það er í raun ekki deilt um eignarrétt á sjávarauðlindinni. Hann er skýr samkvæmt heimildum og lögum og sönnunargögn eru tæmandi. Það sem hefur hins vegar gerst er að stunduð hafa verið ótrúlega óvönduð vinnubrögð á Alþingi og að sett hafa verið lög sem brjóta í bága við önnur lög sem fyrir voru og eiga að tryggja eignarrétt borgaranna.
Þess vegna er sérkennilegt að heyra formann Rannsóknarstofnunar í auðlindarétti við Háskólan í Reykjavík, eins og kemur fram í leiðaranum, segja á aðalfundi Landssambands íslenskra útvegsmanna í lok október á síðasta ári að aflaheimildir væru grundvöllur veðsetningar, hefðu gengið að erfðum og af þeim væri greiddur erfðafjárskattur. Aflaheimildir væru því eign í skilningi eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar.

Hér er um grundvallarmisskilning að ræða. Það sem þarf að kryfja til mergjar er að sjálfsögðu hvernig aðilar hafi eignast þessar eignir. Hver afsalaði þeim í upphafi og hvaða umboð og heimildir hafði sá aðili til að ráðstafa eigninni. Hvernig er eignin tilkomin? Það þarf að rekja vandamálið til upphafsins eins og tíðkast í öllum málum þar sem eignarheimildir sem ganga á milli manna eru ekki ljósar og þeir axli ábyrgð sem ábyrgð bera. Ef einhver hefur selt eitthvað, eða gefið eitthvað, sem hann á ekki, þá hefur sá aðili, hingað til, þurft að standa klár á sínum málum frammi fyrir lögreglu og dómstólum.

Síðan segir í leiðaranum: „En engri íslenskri ríkisstjórn hefur hingað til hugkvæmst að nota aðferð Mugabes forseta Zimbabwe, að taka jarðir af eigendum þeirra og skipta þeim upp á milli annarra. Það tíðkaðist í þjóðnýtingarstefnu kommúnismans, sem allir vita hvaða árangri skilaði.“

Um þetta er það að segja að það sem Mugabes gerði í Zimbabwe var að skila eignum sem hvítir nýlenduherrar höfðu sölsað undir sig með ólögmætum hætti fyrir rúmri öld síðan. Segja má að hér hafi á vissan hátt verið farið offari af svörtum heimamönnum. Þetta er hins vegar ekki ósvipað því hvernig sjálft Alþingi Íslendinga hefur hegðað sér. Þar hugkvæmdist nefnilega íslenskri ríkisstjórn að nota miklu verri aðferðir við það að ráðstafa eignum borgaranna án umboða og heimilda. Þar notaði löggjafarvaldið, Alþingi, aðferð sem oft er nefnd Auðlindabölið, aðferð sem löggjafarvaldinu í Zimbabwe hugkvmdist ekki að nota og hefði auk þess ekki liðist að nota. Einn þekktasti fjármálamaður heims, George Soros ritaði grein um Auðlindabölið “The Resource Curse” og birtist grein þessi í þýðingu í viðskiptablaði Morgunblaðsins 24. júlí 2003. Morgunblaðið birti síðan leiðara um Auðlindaböl 26. júlí 2003. Í greininni kemur fram að spilltir ráðamenn komast upp með að ræna borgaranna og stela auðlindum þeirra.

Það er því víðar en hjá Mugabe í Zimbabwe sem slæmt ástand viðgengst í mannréttinda- og eignarréttarmálum. Hér á landi er greinilega tíðkuð þjóðnýtingarstefna í augljósri mynd þar sem Alþingi hefur svift eigendur sjávarjarða réttinum til þess að ráðstafa og nýta eign sína. Jafnvel í Austur-Evrópu er nú leitað leiða til þess að skila fyrri eigendum þeim eignum sem forðum voru teknar ólöglega og án heimilda og umboða af borgurunum undir fyrrum stjórn kommúnista.

Eigendur sjávarjarða hafa gert þá kröfu að þeim verði greitt fyrir afnot af nýtingu eignar sinnar í auðlindinni í kringum Ísland, sem þeim sjálfum hefur verið bannað að nýta. Þessu hafa íslensk stjórnvöld hafnað.

Í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða segir: „Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar”. Eigendur sjávarjarða og hluta fiskveiðilögsögunnar og landhelginnar eru hluti íslensku þjóðarinnar.
Það er krafa eigenda sjávarjarða, að ábyrg íslensk stjórnvöld, þ.e. löggjafarvaldið á Alþingi, virði eignarrétt þeirra til auðlindarinnar og setji ný lög til leiðréttingar á þeim gömlu og að auðlindinni verði skilað til löglegra eigenda hennar.

Minna má á heimasíðu Samtaka eigenda sjávarjarða, www.ses.is

Ómar Antonsson, formaður Samtaka eigenda sjávarjarða,
Horni, 781 Hornafirði.

Sími 478 2577, 892 0944.

Scroll to Top