Tillaga samþykkt á aðalfundi 2007

Aðalfundur

Samtaka eigenda sjávarjarða 2007

Tillaga samþykkt á aðalfundi SES 12. desember 2007

Aðalfundur Samtaka eigenda sjávarjarða, haldinn í Reykjavík 12. desember 2007, skorar á íslensk stjórnvöld að sjá til þess að réttur sjávarjarða til nýtingar á fiskistofnum innan netlaga verði að fullu virtur, ásamt því að sjávarjarðir fái eðlilega hlutdeild í óskiptri sameiginlegri auðlind utan netlaga. Skorað er á stjórnvöld að ganga nú þegar til samninga við Samtök eigenda sjávarjarða um að gera eignarréttindi þeirra til sjávarins virk á ný.

Greinargerð;

Frá því að Samtök eigenda sjávarjarða voru stofnuð, árið 2001, hafa kröfur eigenda sjávarjarða um réttinn til þess að nýta eigin auðlind ítrekað verið kynntar fyrir stjórnvöldum og almenningi. Hingað til hefur það engum árangri skilað og er málið nú rekið fyrir Íslenskum dómsstólum. Þrátt fyrir frávísanir dómsstóla í fyrstu lotu er málinu hvergi lokið. Verði ekki viðhorfsbreyting hjá Íslenskum stjórnvöldum stefnir í áframhaldandi málarekstur sem er bæði tímafrekur og kostnaðarsamur fyrir borgarana. Óásættanlegt er að eigendur sjávarjarða skuli þurfa að standa í málarekstri til þess að freista þess að endurheimta réttindi sín til þess að nýta auðlind í eigin landi, auðlind sem metin var í fasteignamati margra jarða og auðlind sem eigendur höfði nýtt frá upphafi byggðar. Því verður vart trúað að það sé vilji og ætlun stjórnvalda að löglegur réttur sjávarjarða til útræðis verði til framtíðar einskis virtur og í raun ólöglega afnuminn af löggjafarsamkomunni.

Sent til ríkisstjórnar Íslands og alþingismanna.

Scroll to Top