Til alþingismanna 16. október 2001

Réttindi sjávarjarða til útræðis

Samtök eigenda sjávarjarða.
Pósthólf 90,
780 Hornafirði.


16. október 2001

Til alþingismanna.

Málefni: Réttindi sjávarjarða til útræðis og eignarhlutdeildar í landhelginni og sjávarauðlindinni.

Við viljum vinsamlegast vekja athygli ykkar á því að 5. júlí sl. stofnuðu eigendur sjávarjarða á Íslandi til formlegs félagsskapar. Félag þetta hlaut heitið „Samtök eigenda sjávarjarða“. Stofnaðilar voru um 500.

Markmið samtakanna er:
§ Að fá útræðisrétt sjávarjarða virtan á ný og staðfestan í gildandi lögum um stjórn fiskveiða.
§ Að vinna að því að eignarréttindi sjávarjarða innan netlaga, sem og tiltöluleg eignarhlutdeild í sjávarauðlindinni í heild, verði virt og í heiðri höfð.

Við vekjum athygli ykkar á; 1) Að frá ómunatíð hafa sjávarjarðir á Íslandi átt rétt til útræðis bæði innan sem utan netlaga jarða. 2) Að sjávarjarðir eiga tiltölulegan eignarrétt í óskiptri sjávarauðlindinni. Með vísan til hreyfinga sjávar og samgangs jurta- og dýralífs milli strandsvæða og dýpri sjávar. Auk þess er netlagasvæðið hluti af landhelginni. 3) Að flestum útræðisjörðum tilheyra einnig ákveðin sjávarmið. 4) Að Alþingi hefur ekki haft löglegt umboð eða heimild til að ráðstafa þessum eignarréttindum með lagasetningum. 5) Að ekki er vitað til þess að eigendur þessara réttinda hafi afsalað þeim.

Hvað varðar þessi eignarréttindi er vísað í 72. gr. íslensku stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttar og 1. gr. 1. viðauka Mannréttindasáttmála Evrópu, um að menn hafi rétt til að njóta eigna sinna í friði, sem fulltrúar íslenska lýðveldisins undirrituðu 19. júní 1953, sem gekk í gildi gagnvart Íslandi 3. september 1953 og var síðan tekin upp í stjórnarskrá lýðveldisins 1994.

Þegar lög voru fyrst sett um stjórn fiskveiða árið 1983, fyrst og fremst í þeim tilgangi að stuðla að verndun nytjastofna, var reiknað með því að þau yrðu tímabundin. Forn eignarréttindi geta ekki horfið með setningu laga um stjórn fiskveiða. Ekki var við þá lagasetningu farið að lögum um framkvæmd eignarnáms nr. 11 frá 1973. Nú hafa mál þróast svo, að ákveðnir aðilar hafa, að því er virðist „eignast“ réttinn til fiskveiða í sjó við Ísland án þess að eiga þennan rétt í raun. Staðreyndin er sú að þessi réttur er, að hluta til, í eigu annarra aðila, eða eigenda sjávarjarða eins og fyrr er greint frá.

Bent skal á að Bændasamtök Íslands hafa beitt sér í máli þessu og skal minnt á ályktun Búnaðarþings sem er eftirfarandi: „Búnaðarþing 1999 fer þess á leit við stjórn B.Í. að hún leiti leiða til að fá útræðisrétt strandjarða virtan á ný og staðfestan í fiskveiðilögum“.

Sjónarmiðum Samtaka eigenda sjávarjarða var komið á framfæri við nefnd þá sem starfaði að endurskoðun laga um stjórn fiskveiða. Nefndin tók ekki tillit til sjónarmiða Samtakanna. Fram hefur komið að mál þessi verða á dagskrá Alþingis á næstunni. Það er eindregin ósk Samtaka eigenda sjávarjarða að eignarréttindi þeirra séu virt og að Alþingi Íslendinga sjái til þess að við endurskoðun laga um stjórn fiskveiða verði þessi mál leiðrétt í samræmi við rétt til eigna og íslensk lög.

Virðingarfyllst,
f.h. Samtaka eigenda sjávarjarða.
____________________________
Ómar Antonsson, formaður

Scroll to Top