Sjávarútvegsnefnd 4. febrúar 2002

Réttindi sjávarjarða til útræðis

Samtök eigenda sjávarjarða
Pósthólf 90
780 Hornafirði

Alþingi Íslendinga,
sjávarútvegsnefnd
Einar K. Guðfinnsson, formaður
Austurstræti 8 – 10
150 Reykjavík

4. febrúar 2002

Málefni: Réttindi sjávarjarða til útræðis og eignarhlutdeildar í landhelginni og sjávarauðlindinni.

Stjórn Samtaka eigenda sjávarjarða hefur ítrekað minnt á meginmarkmið félagsins sem eru:

  • Að fá útræðisrétt sjávarjarða virtan á ný og staðfestan í lögum um stjórn fiskveiða.
  • Að vinna að því að eignarréttindi sjávarjarða innan netlaga, sem og tiltöluleg eignarhlutdeild í sjávarauðlindinni í heild, verði virt og í heiðri höfð.

Þessi markmið voru kynnt sjávarútvegsnefnd Alþingis með bréfi dagsettu 27. júlí 2001og öllum alþingismönnum með bréfi dagsettu 16. október 2001. Jafnframt óskuðu Samtökin eftir því að nefnd sú, sem starfaði á síðasta ári að endurskoðun laga um stjórn fiskveiða, tæki óskir Samtakanna inn í tillögur sínar.

Endurskoðunarnefndin tók málið til umfjöllunar og fékk Skúla Magnússon, lektor, til þess að gera álitsgerð um kröfur Samtaka eigenda sjávarjarða. Meirihluti nefndarinnar hafnaði síðan kröfum Samtakanna og byggði niðurstöðu sína á álitsgerð Skúla Magnússonar, lektors.

Samtök eigenda sjávarjarða telja, að þótt margt sé ágætt í álitsgerð Skúla Magnússonar, lektors, þá orki annað tvímælis og sumt sé beinlínis ekki rétt. Í ljósi þess var leitað til Más Péturssonar, hrl., og hann beðinn að gefa lögfræðilegt álit á réttarstöðu eigenda sjávarjarða og kröfugerð samtaka þeirra og fjalla á faglegan hátt um þau atriði í álitsgerð Skúla Magnússonar, lektors, sem orkuðu tvímælis eða kynnu að vera röng.

Álitsgerð Más Péturssonar, hrl., liggur nú fyrir og fylgir hér með. Þar er á augljósan hátt sýnt fram á það að sjónarmið Samtaka eigenda sjávarjarða eru réttmæt.Það er eindregin áskorun okkar að þess verði gætt á Alþingi, í umfjöllun um stjórn fiskveiða og við lagasetningar í því sambandi, að eignarréttindin verði í heiðri höfð og að útræðisréttur jarða verði virtur á ný og staðfestur í fiskveiðilögum.

Virðingarfyllst,
f.h. Samtaka eigenda sjávarjarða

______________________________
Ómar Antonsson,formaður

Meðfylgjandi er:
1) Álitsgerð Más Péturssonar, hrl. til Samtaka eigenda sjávarjarða.
2) Afrit af bréfi til alþingismanna frá 16. október 2001

Scroll to Top