Starfshópur um endurskoðun laga um fiskveiðistjórnun

Björn Erlendsson, ritari í stjórn SES, var valinn fyrir hönd félagsins til setu í starfshóp um endurskoðun laga um fiskveiðistjórnun

Þau gleðilegu tíðindi urðu nýlega að Jón Bjarnason, ráðherra ákvað að heimila Samtökum eigenda sjávarjarða að eiga fulltrúa í starfshópi um endurskoðun laga um fiskveiðistjórnun. Björn Erlendsson, ritari í stjórn SES var fyrir hönd félagsins valinn í starfshópinn.

Með þessu undirstrikar ríkisstjórnin að hún vinnur í anda samvinnu við hagsmunaaðila til að leysa umfangsmikið deilumál. Þessi samvinnuhugsun er nú á tímum allsráðandi í þroskuðum vestrænum ríkjum eins og Kanada og Noregi þar sem mikil áhersla er lögð á að draga fulltrúa allra hagsmunaaðila að borðinu, líka þögla meirihlutans.

Það eru auðvitað aldrei allir sammála en að lokum ná menn niðurstöðu þar sem menn hafa fengið að segja sína skoðun og hlustað hefur verið á þá.

Þeir sem eru hræddir við skoðanaskipti vilja ákveða hlutina í völdum hóp á sem skemmstum tíma og oftar en ekki eru þeir með óhreint mjöl í pokahorninu.

Útræðisréttur sjávarjarða er frumbýlisréttur og hlunnindi eins og æðardúnstekja og varið í lögum. Þess vegna er brýnt að seinni tíma lög sem alþingismenn hafa samþykkt um fiskveiðistjórnun komi ekki í veg fyrir þessi réttindi landsbyggðarfólks séu nýtanleg eins og nú er staðan.

Frumbyggjar Íslands t.d á Vestfjörðum byggðu jarðir sínar á sjósókn og má sem dæmi um mikilvægi möguleikans til sjósóknar taka verðmat jarða. Sambærilegar jarðir að stærð og landgæðum voru t. d metnar, annars vegar jörð sem ekki átti land að sjó var metin á 12 hundruð að fornu mati en sjávarjörðin var metin á 60 hundruð að fornu mati. Af þessu verðmati voru og eru síðan borgaðir skattar.

Réttindi eigenda í Netlögum eru ljós og í þessum mikilvægasta hluta hafsins sem á Íslandi var ákveðinn árið 1281 eru fyrstu drög að strandsvæðaskipulagi, hugsanlega á heimsvísu.

Þegar þessi réttur eigenda sjávarjarða verður endurheimtur úr klóm auðlindabraskara mun það hafa mjög jákvæð áhrif á strandsamfélög og næra og styrkja nærsamfélöginn þar sem þessi réttur fer ekki neitt frekar en önnur hlunnindi jarða. Þetta tryggir einnig stöðu Íslands mun betur í samningum við ESB þar sem ESB er með yfirlýsta stefnu um að þeir virði eignarréttinn.

 

Scroll to Top