Bréf til utanríkisráðherra

Eignarréttindi sjávarjarða í sjávarauðlindinni.


Hr. Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, utanríkisráðuneytinu,
Rauðarárstíg 25,
105 Reykjavík.

13 . október 2010.

Eignarréttindi sjávarjarða í sjávarauðlindinni.

Ég vísa í grein þína í Fréttablaðinu 11. október 2010 „Við tryggjum ekki eftir á“, þar sem þú segir að þú leggir mikla áherslu á að samtök þeirra sem eiga mikilla hagsmuna að gæta komi ríkulega að undirbúningi samnings um aðild að Evrópusambandinu og að það gildi um bændur jafnt sem aðra.

Samtök eigenda sjávarjarða voru stofnuð 2001 og voru stofnaðilar um 500 (margir þeirra bændur).

Áhersluatriði sem samþykkt voru á aðalfundi samtakanna eru eftirfarandi:

  • Að fá útræðisrétt sjávarjarða virtan á ný og staðfestan í gildandi lögum um stjórn fiskveiða.
  • Að vinna að því að eignarréttindi sjávarjarða innan netlaga, sem og tiltöluleg eignarhlutdeild í sjávarauðlindinni í heild, verði virt og í heiðri höfð.

Samtökin eru einu eigendur sjávarauðlindarinnar samkvæmt lögum.

Lagafyrirmæli eru frá Alþingi um eignarrétt eigenda sjávarjarða í sjávarauðlindinni og í stjórnarskránni er ákvæði um friðhelgi eignarréttarins.  Mannréttindadómstóll Evrópu hefur komið með eftirfarandi orðrétt bindandi álit sitt:

„Ennfremur er það niðurstaða dómsins að réttur kæranda til þess að stunda fiskveiðar í netlögum úti fyrir sjávarjörðinni sem um ræðir hafi lögformlega stofnað til „eignar“ í skilningi 1. gr.  samningsviðauka 1“.

Auk þess þarf að gæta að því í allri umfjöllun að samkvæmt lögum og mannréttindasáttmálum má ekki mismuna fólki vegna eigna eða þjóðernis.

Samtökin hafa þegar verið í sambandi við Evrópusambandið.  Þau rituðu bréf til Franz Fischler, sjávarútvegsráðherra sambandsins 7. nóvember 2002 og áttu síðar fund með honum og til Timo Summa, sendiherra sambandsins 1. febrúar 2010 og áttu svo einnig fund með honum.

Þar sem samtökin eiga mikilla eignarréttarlegra hagsmuna að gæta þá er óskað eftir því að þú komir því í kring að þau geti komið ríkulega að undirbúningi samnings við Evrópusambandið í sambandi við sjávarauðlindina.

Virðingarfyllst,

f.h. Samtaka eigenda sjávarjarða   (heimasíða:  www.ses.is).

________________________________
Ómar Antonsson, formaður

Scroll to Top