Grein eftir Jón Bjarnason birt 17.09.03 í Bæjarins besta

„Orð skulu standa“

Í fyrstu grein laga um stjórn fiskveiða stendur: „Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.“ Vinstrihreyfingin – grænt framboð krefst þess að markmið laganna standi og nýtingaréttur sjávarbyggðanna sé virtur. Sanngirni í skiptingu þjóðarauðs og vistvæn sjónarmið í veiðum og vinnslu ráði ferð í íslenskum sjávarútvegi. Framsal eða brask með kvóta verði óheimil. Sjávarjarðir fái skilgreindan útræðisrétt.

Löndun og vinnsla í heimabyggð

Með því að byggðatengja hluta fiskveiðiréttindanna tryggjum við framtíð sjávarplássanna og atvinnuöryggi fiskverkafólks og sjómanna. Búseta við sjávarsíðuna hefur byggst upp vegna nálægðar við gjöful fiskimið og íbúum þeirra ber réttur til að nýta þau. Fiskveiðistjórnun sem beitt er til styrkingar búsetu verður að fela í sér byggðatengingu auðlindarinnar og kröfu um að aflinn fari til vinnslu í byggðunum sem njóta þessara réttinda.

Með því að efla strandveiðiflotann og auka fullvinnslu og bæta nýtingu þess hráefnis sem kemur að landi treystum við búsetu í sjávarbyggðunum. Þannig getum við einnig stuðlað að bættri umgengi við auðlindina og notkun vistvænna veiðarfæra.

Vistfræði og veiðarfæri

Það er fyrir löngu tímbært að taka aukið mið af líffræðilegum forsendum við stjórn fiskveiða og val á veiðarfærum. Sorgleg er sú staðreynd að sáralitlar rannsóknir liggja fyrir sem byggja má líffræðilega stjórnun fiskveiða á. Vitað er um vistfræðileg áhrif mismunandi veiðiaðferða og veiðarfæra en deilt er um hver þau áhrif eru. Afar brýnt er að stórauka rannsóknir á þessum þáttum.

Háskólasetrið á Ísafirði má efla til þessara verkefna og yrði það eitt sérsviða þess á landsvísu. Til þess að svo megi verða er nauðsynlegt að Háskólasetrið á Ísafirði fái sjálfstæði og eigin fjárhag til að sinna þessum verkefnum. Væri vel til fallið að hluti þess fjár sem nú fæst fyrir meðafla fiskiskipaflotans renni til Háskólasetursins á Ísafirði til þessara verkefna.

Vinstri-Grænir leggja til að línuívilnun verði einn liður í endurskoðun til vistvænni veiða. En mikilvægt er að sú aukning veiðiheimilda verði byggðatengd og auki atvinnuöryggi sjómanna, beitningamanna og annars landverkafólks, svo og fiskvinnslunnar í viðkomandi byggðarlögum. Framseljanlegur kvóti, sem flakka má með milli verstöðva þó aukinn sé með línuívilnun, eykur lítið öryggi byggðanna.

Trollveiði uppsjávarfisks

Við verðum að huga betur að vistvænni umgengni við auðlindir okkar
Hvaða vistfræðilegar forsendur liggja fyrir sem réttlæta það að „trolla“ uppsjávarfisk eins og nú er gert? Dæmi eru um að opin á þessum stóru trollum nálgist stærð tveggja fótboltavalla.

Engar óyggjandi rannsóknir liggja fyrir um áhrif þessara stóru flottrolla á lífríkið eða sundurgreint magn þess meðafla sem berst að landi og fer beint í bræðslu. Í tali manna eru nefnd þúsundir ef ekki tugir þúsunda tonna af bolfiski sem meðafla á trollveiðum uppsjávarfisks á ári.

Í einni höfn á Austurlandi var skip nýverið að landa 1.500 tonnum af kolmunna. Á bryggjunni var látið að því liggja að a.m.k. 50-75 tonn væri bolfiskur sem hvergi er talinn í kvóta og fer í bræðslu. Enginn getur fullyrt neitt. Og svo bítumst við um nokkur hundruð tonn í byggðakvóta eða línuívilnun. Á sama tíma er Strandamönnum meinað að ná sér í síld til beitu sem þeir hafa gert áratugum saman. Það er ekki heil brú í svona vinnubrögðum og þeim verður að breyta.

Loforð og efndir

Allt of margir létu glepjast af óljósum kosningaloforðum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks nú fyrir kosningar. Taugaveiklun í herbúðum þessara flokka og óskammfeilni í loforðum var meiri en nokkur dæmi eru um. Á Siglufirði var lofað jarðgöngum alveg fram á síðasta dag fyrir kosningar, leikið á tilfinningar fólks í erfiðri stöðu. Á Vestfjörðum var lofað línuívilnun, sem kæmi til framkvæmda í haust, sem nánast engar líkur eru á að staðið verði við.

Kjósendur máttu sjá þetta fyrir. Hverjum getur í alvöru dottið það í hug að forysta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks breyti í grundvallaratriðum því rangláta fiskveiðistjórnunarkerfi sem við nú búum við, kerfi, sem hefur tryggt þeim áframhaldandi stjórnarsetu? Þeir sem tóku þátt í þeim blekkingarleik fyrir kosningar eiga hér sömu ábyrgð og forysta þessara flokka. Það breytir litlu þótt einstakir frambjóðendur tali fyrir annarri stefnu í sjávarútvegsmálum og byggðamálum en forysta þessara flokka gerir. Það er forystan og þeir hagsmunahópar sem að henni standa sem ráða ferð.

Það var kosið um sjávarútvegsmál í kosningunum fyrir fjórum árum og lofað bót og betrun. Hvað hefur gerst?
Núverandi kvótakerfi hefur verið fest enn frekar í sessi. Tilfærsla aflaheimilda og samþjöppun veiðiheimilda hefur aldrei verið meiri en þessi ár. Kvótasetning smábátaflotans, fækkun daga hjá dagabátum, eru verk þessarar ríkistjórnar.

Mun ríkisstjórnin falla í haust?

Það er lofsvert að halda fund um sjávarútvegsmál og láta í ljós óánægju sína eins og gert var á Ísafirði sunnudaginn 14. september. Þar var þess krafist að stjórnmálamenn standi við orð sín. Það ætti samt að vera okkur öllum ljóst, að aðeins í kosningum getum við breytt stöðu mála. Reynist svo að þessi ríkisstjórn styðjist við falskan meirihluta og hafi þingmenn dug til að standa við sannfæringu sína eins og hún birtist kjósendum fyrir síðustu kosningar, ætti að vera í lófa lagið að fella þessa ríkisstjórn strax í haust. Að því skulum við vinna.

Jón Bjarnason,
þingmaður Vinstri-Grænna í Norðvesturkjördæmi.

Scroll to Top