Sjávarjarðir og réttur þeirra (Árni Snæbjörnsson)
Á liðnu ári hefur stjórn Samtaka eigenda sjávarjarða, SES, haldið starfi sínu áfram við að kynna málstað samtakanna, bæði innanlands og utan, og bent á að réttur bújarða til sjávarins er mikið réttlætismál, ásamt því að vera eitt stærsta byggðamál síðari tíma. Mál samtakanna hafa verið kynnt fyrir Evrópuráðinu, sjávarútvegsráðherra o.fl. Þótt kynningarstarfið hafi ekki borið þann árangur, sem vænst var, þá er það nauðsynlegur þáttur í því að efla skilning á málstað samtakanna. Einn liður í kynningarstarfinu er heimasíða samtakanna. Þar er ýmislegt fræðsluefni, auk þess sem nýjum félögum gefst þar kostur á að skrá sig í samtökin.
Samtökin hafa látið vinna skrá yfir allar jarðir á Íslandi sem liggja að sjó. Hún er nauðsynleg vegna starfsins framundan og til þess að skilgreina hversu margar jarðir hér á landi eiga hlut að máli. Við gerð hennar komu oft upp álitamál um hvernig bæri að skrá jarðir, t.d. jarðir sem búið er að skipta upp. Þrátt fyrir ýmis álitamál um skráningu, þá gefur hún ótvíræða niðurstöðu um að mjög margar jarðir eiga land að sjó, eða alls um 2240 jarðir hér á landi.
Á liðnu ári gerðu samtökin athugasemdir við þrjú frumvörp á Alþingi. Frumvörp þessi eru: Endurskoðun laga um lax- og silungsveiði, nr. 8/2005, endurskoðun laga um fiskeldi og endurskoðun laga um fiskrækt. Þrátt fyrir að í ofangreindum frumvörpum hafi verið fjallað um atriði sem snerta beint hagsmuni tengda sjávarjörðum, þá er þeirra hagsmuna hvergi getið hvað þá að tekið sé tillit til þeirra sjónarmiða í þessum lögum. Stjórn SES hefur margsinnis bent á að sífellt þarf að minna á rétt sjávarjarða, því allt of oft er réttur þeirra á ýmsum sviðum sniðgenginn.
Stjórn samtakanna tók þá ákvörðun á síðasta ári að styðja kæru Ragnars Aðalsteinssonar, hrl., til Mannréttindadómstóls Evrópuráðsins vegna máls Björns Guðna Guðjónssonar um grásleppuveiðar í netlögum á jörð hans. Vonir eru bundnar við að Mannréttindadómstóllinn muni taka það mál fyrir. Á aðalfundi SES árið 2003 var stjórn samtakanna veitt heimild til þess að stefna íslenskum stjórnvöldum og fara fram á að réttur sjávarjarða til útræðis verði virtur á ný og eignarréttarleg hlutdeild sjávarjarða í óskiptri sjávarauðlindinni verði virt. Ragnar Aðalsteinsson, hrl. hefur á síðasta ári undirbúið stefnuna og verður hún lögð fram á fyrrihluta árs 2006.
Á aðalfundi samtakanna, sem haldinn var 29. desember sl., fjallaði Ragnar um framvindu mála og ítrekaði að í lögum allt frá þjóðveldisöld og síðar væri réttur strandjarða til sjávarins augljós að hans mati. Hann benti á að óeðlilegt væri að stjórnvöld hefðu tekið, án sérstaks dóms, eignarsvæði sjávarjarða og bannað löglegum eigendum veiðar á sinni eign, en afhent veiðiréttinn öðrum aðilum sem engin eignarréttindi ættu á viðkomandi svæði. Slíkt stæðist ekki lög né mannréttindasáttmála. Hann sagði að grásleppumálið á Ströndum hefði tapast vegna þess að dómstólar hefðu bundið sig eingöngu við túlkun á lögum um stjórn fiskveiða og framkvæmd þeirra í þrengsta skilningi, en í þeim lögum væri ekkert tillit tekið til eignarréttar sjávarjarða í auðlindinni. Hann gagnrýndi það að í raun hefði Hæstiréttur ekki tekið efnislega afstöðu í umfjöllun sinni um það mál, heldur einfaldlega tekið, athugasemdalaust, undir niðurstöðu héraðsdóms án efnislegrar umfjöllunar. Hann taldi að eftir að væntanleg stefna samtakanna hefur verið lögð fram, sem verður á næstu mánuðum, þá mundi það taka dómsstóla um eitt til tvö ár að komast að niðurstöðu. Hann taldi að niðurstaða Mannréttindadómstólsins í grásleppumálinu mundi hafa ótvíræð áhrif á málarekstur SES gegn íslenska ríkinu.
Aðalfundurinn 29. desember sl. var vel sóttur og urðu góðar umræður um verkefnin framundan. Fram kom að sótt er að rétti landeigenda á ýmsum öðrum sviðum og minnt var á að breytt viðhorf til verðmæta lands gera það enn brýnna að halda landsréttindum á lofti. Sérstaklega þarf að gæta að landsréttindum þegar ný lagafrumvörp eru lögð fram og voru nefnd dæmi á því sviði. Við afgreiðslu reikninga kom fram að tekjur samtakanna eru eingöngu bundnar við árgjald félagsmanna. Stjórnin lagði því áherslu á að félagsmenn skiluðu þeim fljótt og vel og minnti á að þótt um 500 félagsmenn séu í SES þá vantar dálítið upp á skil á árgjöldum. Á aðalfundinum var samþykkt að hækka árgjald til SES í kr. 3.500, en það hefur verið óbreytt frá upphafi eða kr. 3.000.
Stjórn SES skipa: Ómar Antonsson, Horni, formaður, Björn Erlendsson, Reykjavík, ritari, Sigurður Filippusson, Dvergasteini, gjaldkeri. Meðstjórnendur eru: Bjarni Jónsson, Reykjavík og Pétur Guðmundsson, Ófeigsfirði.
Minna má á heimasíðu Samtaka eigenda sjávarjarða, www.ses.is /ÁS