Sjávarútvegsmál
Samþykkt á 28. flokksþingi framsóknarmanna.
(Birt með fyrirvara um prentvillur.)
Atvinna og efnahagur:
Sjávarútvegsmál
Framsóknarflokkurinn leggur áherslu á eftirfarandi í sjávarútvegsmálum:
- Að rannsóknir verði stórefldar með auknu fjármagni og þekking á hafinu þar með aukin. Líta þarf á vistkerfið í heild og taka verður allar ákvarðanir um nýtingu auðlinda hafsins út frá hugsanlegum áhrifum nýtingarinnar á vistkerfið í heild.
- Að áhrif veiðarfæra á vistkerfi hafsins verði rannsökuð.
- Að litið verði sérstaklega til rannsókna á hinum miklu breytingum sem eru að verða vegna hlýnunar andrúmsloftsins og eyðingar ósonlagsins og hugsanlegra áhrifa þess á vistkerfi og nýtingu auðlinda hafsins.
- Að veiðigjaldið sem innheimt er á grundvelli nýtingar á auðlindum hafsins verði nýtt til nýsköpunar og atvinnuþróunar í sjávarbyggðum svo það skili sem mestum ávinningi til framtíðar fyrir byggðalögin. Ráðstöfun fjármunanna verði í höndum heimamanna, og nýttar verði núverandi stofnanir eins og atvinnuþróunarfélögin sem eru starfandi um land allt til að fjárfesta í framtíðinni.
- Að gerð verði úttekt á úthlutun á byggðakvóta m.t.t. vægis fiskvinnslufyrirtækja í atvinnulífi byggðarlaganna og reynslu einstakra byggðalaga af framkvæmdinni. Í úttektinni verði skoðað hvort til séu betri leiðir en byggðakvóti til að styrkja byggðalög í vanda.
- Að útræðisréttur strandjarða verði virtur á ný og staðfestur í fiskveiðilögum.
- Auka þarf áherslu á rannsóknir og þróun í fiskeldi.
- Að starfsskilyrði land- og sjóvinnslu verði jöfnuð. Gera þarf sömu kröfur til sjóvinnslu og gerðar eru til landvinnslu.
- Að unnið verði að því að koma í veg fyrir brottkast afla.
- Að gerð verði heildarúttekt á kostum og göllum íslenska fiskveiðistjórnunarkerfisins og það borið saman við önnur stjórnkerfi fiskveiða, s.s. í Færeyjum, Noregi, Kanada og Evrópusambandinu.
- Unnið verði áfram að vísindaveiðum á hrefnu og sem fyrst hafnar veiðar á öðrum hvaltegundum undir vísindalegu eftirliti.
- Unnið verði að því að einfalda og lágmarka kostnað útgerðar og fiskvinnslu vegna eftirlits opinberra aðila með starfsemi þeirra.
- Útgerðum verði auðveldað að kanna nýjar veiðislóðir og nýta fiskistofna á djúpslóð, t.d. með ívilnun aflaheimilda á því svæði.