Umræður á Alþingi – Útræðisréttur strandjarða

Fyrirspurn á Alþingi 23. febrúar 2005.

Útræðisréttur strandjarða, fyrirspurn 23. febrúar 2005.

Fyrirspyrjandi Sigurjón Þórðarson, 524. mál. — Þskj. 798.

Bráðabirgðaútgáfa.

[13:39]

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson):
Herra forseti. Ég hef beint eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. landbúnaðarráðherra: Hefur ráðherra beitt sér fyrir því að útræðisréttur strandjarða verði virtur að nýju? Og hvernig hefur hann beitt sér ef hann hefur á annað borð beitt sér í málinu?Fyrirspurnin varðar réttindamál bænda og landeigenda og ætti því að vera eitt af þeim málefnum sem hæstv. ráðherra beitti sér fyrir. En það verður að segjast eins og er, því miður, að ég hef ekki orðið var við það að ráðherra hafi beitt sér með neinum hætti í málinu. Það er æ undarlegra í því ljósi að fyrir liggur flokkssamþykkt Framsóknarflokksins í málinu sem hljóðar svo:„Útræðisréttur strandjarða verði virtur á ný …“Frá upphafi hafa fjölþættar sjávarnytjar fylgt jörðum á Íslandi, bæði innan landamerkjajarðanna, þ.e. innan netlaga, hafsvæði sem liggur 115 metra út frá stórstraumsfjöruborði og síðan almennur réttur til sjósókna. Ríkisstjórn kvótaflokkanna, Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks hafa reynt að gera þennan rétt að engu. Með lögum um stjórn fiskveiða hafa flokkarnir ekki einungis komið í veg fyrir að jarðirnar hafi getað nýtt sér almennan rétt til sjósóknar heldur einnig gengið á einkarétt og einkalönd jarðanna og við það verður ekki unað. Það er æðiundarlegt að verða vitni að því að flokkur sem hefur löngum kennt sig við að vera málsvari bænda skuli ganga svo fram fyrir skjöldu að ganga á einkalönd bænda með því að svipta þá rétti til sjósóknar í einkalöndum sínum eða 115 m út frá stórstraumsfjöruborði.Þau rök sem hafa verið færð fyrir að taka umrædd réttindi af sjávarjörðum eru eitthvað á þá leið að um sé að ræða fórnarkostnað fyrir kvótakerfið. Því kvótakerfi hefur ekki mátt hrófla við og hafa menn þá jafnvel gengið á réttindi og einkalönd bænda í því efni að halda kvótakerfinu óskertu. En það er umhugsunarefni að þetta kerfi hefur í engu skilað og það að fórna einkalöndum bænda án þess að nokkrar bætur komi fyrir er með ólíkindum fyrir kerfi sem hefur skilað helmingi minni afla á land og þorskstofninn er umtalsvert minni. En því miður virðist kvótakerfið vera svo heilagt hjá Framsóknarflokknum, enda er sjálfur formaður flokksins guðfaðir kerfisins, að ekki megi hrófla við því með nokkrum hætti heldur eigi að ganga á lögboðinn eignarrétt bænda og mér finnst það með ólíkindum.

[13:41]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):
Hæstv. forseti. Ég segi eins og maðurinn að þetta mál er ekki á mínu forræði. Í rauninni ætti ég ekki að svara svona dónalegri ræðu sem hér var flutt og ódrengilegri, því vissulega er hún ódrengileg.Ég get sagt frá því að ég hef setið aðalfund og flutt ræðu yfir þessum aðilum og átt með þeim ágætar stundir. Þeir hafa heimsótt mig og farið yfir sín mál og hugsjónir í baráttu sinni. Þetta er náttúrlega ekki bara spurning, þetta er eignarréttarmál sem heyrir þá kannski þess vegna undir hæstv. fjármálaráðherra frekar en þann sem hér stendur. Þetta er sjávarútvegsmál hvað kvótann varðar. Þetta er vissulega heilmikið nýtt deilumál sem gaus upp fyrir nokkrum árum og ekki einfalt mál og getur tekið langan tíma.Nú í nokkurn tíma hafa eigendur jarða sem land eiga að sjó og eiga þar með ákveðinn veiðirétt í netlögum deilt um það við ríkið hvort þær almennu takmarkanir sem felast í útræðisrétti og fiskveiðum og fram komu í lögum um stjórn fiskveiða, nr. 38/1990, séu andstæðar stjórnarskrá. Það er ekki verið að deila um þetta við landbúnaðarráðherra heldur ráðherra sem þetta heyrir undir.Mér er kunnugt um að í undirbúningi séu málaferli á hendur ríkinu um viðurkenningu á þessum meinta rétti strandjarða til að stunda útræði. En séu málaferli fram undan hvað þetta varðar er þess vegna kannski ekki eðlilegt að einn ráðherra úr ríkisstjórn, þótt hann sé vinur allra og ekki síst bændanna, sé að tjá sig á því stigi með sterkum orðum úr ræðustól þegar málið heyrir ekki einu sinni undir hann.Hvað viðkemur fyrirspurn þingmannsins er rétt að taka fram að í landbúnaðarráðuneytinu hefur ekki verið unnið sérstaklega að því að fá viðurkenningu á útræðisrétti strandjarða. Ég hef hlustað á rök þeirra og farið yfir þau og við höfum alltaf gert okkur grein fyrir að þetta væri ekki okkar mál og ekki á okkar forræði.Bændasamtökin hafa hins vegar verið með menn í þessu og lögmenn sem þeim ber fyrir stéttarbræður sína um land allt. Gengið hefur verið út frá því að lög nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, ásamt síðari breytingum, standist stjórnarskrá og að í þeim sé ekki gengið með ólögmætum hætti á eignar- eða atvinnuréttindi eigenda strandjarða. Þetta er sem sé stóra málið í þessu deiluefni og við það verða menn auðvitað að eiga á hinum rétta vettvangi.Einnig skal bent á að hugsanlegt deilumál og lagasetning um það með hvaða hætti eigendur strandjarða nýta veiðirétt sinn í netlögum á nytjastofnum sjávar öðrum en ferskvatnsfiskum heyrir undir sjávarútvegsráðherra eins og ég hef nefnt og kannski eignarrétturinn undir hæstv. fjármálaráðherra. Kannski er lítið um það að segja en ef til vill flytur hv. þm. Sigurjón Þórðarson þetta til að geta haldið eina dæmalausa ræðu um Framsóknarflokkinn með ásökunum og fúkyrðum. Það hefur hann stundað hér, hæstv. forseti, og er ekkert við því að segja. Það eru hans mannréttindi í þingsal. Ég veit ekki hvort hann græðir á því, því það borgar sig eins og kemur fram í flestum málum að vera drengilegur og málefnalegur í umræðum. Það skilar yfirleitt mestum árangri.

[13:45]

Jón Gunnarsson:
Herra forseti. Kötturinn sagði: Ekki ég. Ekki á mínu forræði þó að ég sé vinur bændanna, sagði hæstv. landbúnaðarráðherra.Hlunnindi jarða hafa verið mikils virði í gegnum tíðina og það má segja þeim mun meira virði eftir því sem dregið hefur úr hefðbundnum landbúnaði. Ýmis hlunnindi þessara jarða hafa fært auknar stoðir undir þann rekstur sem fram fer á jörðunum og nægir þar að nefna veiðirétt í ám og vötnum. Til forna voru það aldeilis hlunnindi að hafa útræðisrétt frá sjávarjörðum en þessi hlunnindi hafa verið tekin í burtu af þeim bændum sem eiga þessar jarðir með lögum um stjórn fiskveiða. Ég ætla bara að lýsa þeirri von minni að hæstv. landbúnaðarráðherra reyni í þessu máli að vera skjöldur og sverð þessara bænda, ekki síður bænda sem búa á sjávarjörðum en annarra bænda því að þeir sögðu mér að hæstv. ráðherra teldi sig eiga að gæta hagsmuna bænda. Því hljóta þessir bændur að vera þar í hópi líka.

[13:47]

Jóhann Ársælsson:
Hæstv. forseti. Kannski er sú skýring á því að hæstv. ráðherra telji þetta ekki í sínum verkahring að hann mun vera alinn upp nokkuð langt frá sjó. (Gripið fram í.) Ég hygg að þeir bændur sem eiga land að sjó skilji vel það sem hér er verið að tala um. Mér finnst hæstv. landbúnaðarráðherra eiga að hafa vakandi auga með öllum hlunnindum og öllum réttindum bænda og hafa á því skoðun hvernig farið er með bændur við aðra lagasetningu en þá sem vill þannig til að heyrir undir ráðuneyti hans. Ég get ekki séð annað en að það sé fullkomlega í hans verkahring að fylgjast með þessum hlutum og hjálpa bændum við að ná rétti sínum ef þeir telja á sér brotið, sem sannarlega er. Lögin um stjórn fiskveiða hafa óumdeilanlega tekið réttindi frá eigendum sjávarjarða. Á því er enginn vafi.

[13:48]

Jón Bjarnason:
Herra forseti. Ég tel að hæstv. landbúnaðarráðherra ætti að beita sér sem stjórnsýslulegur umboðsmaður þessa málaflokks landbúnaðar og bænda. Til er fjöldi jarða þar sem útræðisréttur var jafnnýttur og beitarréttur. Ég er sjálfur uppalinn við það á þeirri jörð þar sem ég fæddist. Þar var jöfnum höndum róið til sjávar og beit nýtt á landi. Það var gríðarlegur styrkur í mörgum landshlutum ef hægt var að nýta þetta saman. Það er alveg hægt við núverandi kvótakerfi, þó svo það sé bölvað, með því að úthluta ákveðnum tonnafjölda á jörð, á býli, gera það að skyldu að viðkomandi yrði að búa á jörðinni og nytja hlunnindin sjálfur þaðan. Sá réttur sofnaði ef hann nýtti þau ekki sjálfur eða jörðin færi í eyði en fylgdi henni sem slíkur eins og önnur jarðargæði. Þetta finnst mér ósköp einfalt mál og ætti að vera hægt að sameinast um.
[13:49]

Björgvin G. Sigurðsson:
Virðulegi forseti. Svar ráðherra endurspeglaði togstreituna sem er í þessum málum milli ráðuneyta og hve mikilvægt er að sameina landbúnaðarráðuneytið, sjávarútvegsráðuneytið og iðnaðarráðuneytið í eitt atvinnuvegaráðuneyti til að hlutirnir gangi eðlilega fyrir sig í stjórnkerfinu en þvælist ekki fyrir ráðherrum í jafnmikilvægu máli og þessu.Um leið harma ég það hve lítils áhuga og skilnings virtist gæta á þessu grundvallarmáli hjá hæstv. landbúnaðarráðherra. Þetta tilheyrir og á að tilheyra grundvallarréttindum jarðanna, þ.e. að þeim fylgi útræðisréttur, og ég skora á ráðherrann að herða upp hugann þó að togstreitan sé uppi milli ráðuneytanna og hlutirnir þvælist þar fyrir mönnum og berjast með bændunum í þessu máli. Þetta er mikilvægt hagsmunamál fyrir þá sem eiga þarna hlut að máli. Því skora ég á hann að taka sér tak.
[13:50]

Magnús Þór Hafsteinsson:
Virðulegi forseti. Ég verð að lýsa yfir undrun á viðbrögðum hæstv. landbúnaðarráðherra. Það er eins og hann kveinki sér undan þessari umræðu. Hann ætti miklu frekar að fagna því að hafa fengið þessa fyrirspurn því að hún gefur honum alveg glimrandi tækifæri til að lýsa yfir eindregnum stuðningi við sjálfsagðar og eðlilegar kröfur eigenda sjávarjarða.Ég vil fá að nota þessar örfáu sekúndur sem ég hef til að lýsa eindregnum stuðningi við baráttu þeirra. Þetta eru sanngjarnar og réttlátar kröfur sem þeir eiga samkvæmt ævafornum lögum þessa lands. Á því er enginn vafi. Það væri ekkert mál að koma því þannig fyrir að þeir endurheimtu þennan sjálfsagða rétt, búa til reglur í kringum það umhverfi. Þetta gæti orðið til þess að sveitir landsins með ströndum fram mundu ná vopnum sínum á nýjan leik og fengju að blómstra. Þessar byggðir byggðust upphaflega upp á því að menn nýttu þar náttúruauðlindir og hafið var ein af þeim auðlindum. Þessu ætti hæstv. landbúnaðarráðherra að gera sér fulla grein fyrir.
[13:51]

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson):
Herra forseti. Ég var sakaður um að flytja ódrengilega og dónalega ræðu en það kom ekki fram í máli hæstv. landbúnaðarráðherra hvað hafði verið dónalegt og ódrengilegt. Það væri fróðlegt að fá það gefið upp því að ég vil gjarnan bæta mig og fá þá fram hvað var svona dónalegt. Ég sé það ekki. Var það þegar ég vitnaði t.d. í flokkssamþykkt Framsóknarflokksins, að útræðisréttur strandjarða verði virtur á ný? Mér finnst með ólíkindum að hæstv. ráðherra skuli kveinka sér undan þessari umræðu, sérstaklega í ljósi þess að hæstv. ráðherra flutti efnismikla ræðu um útræðisrétt strandjarða á fundi eigenda sjávarjarða. Þar kom fram að hann tekur eindregið undir að þetta skipti verulega miklu máli, þetta væri mikið byggðamál. Þess vegna tel ég að hæstv. ráðherra ætti að leggja áherslu á að ná þessum rétti aftur fyrir bændur í landinu.Hvað það varðar að saka mann um dónaskap, ég átta mig ekki á því. Ég hefði miklu frekar viljað heyra hæstv. ráðherra lýsa hér yfir stuðningi við baráttu bændanna, að hann ætlaði að leggja þeim lið í því að ná fram réttindum sínum. Eftir því sem ég kynni mér þetta mál betur tel ég einsýnt að verið sé að brjóta eignarrétt á bændum. Það liggur í hlutarins eðli þegar verið er að svipta þá hlunnindum innan netlaga.
[13:53]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):
Hæstv. forseti. Sumir eru orðnir svo frjálslyndir að þeir vita ekki í hverju þeirra eigin dónaskapur liggur. Þeir verða að fara yfir og lesa sínar ræður sjálfir.Ég get sagt eftir þessa umræðu að ég get aftur á móti í meginatriðum tekið undir ræðu hv. þm. Magnúsar Þórs Hafsteinssonar sem er flokksbróðir hv. þingmanns. Í meginatriðum get ég tekið undir þá ræðu, þá sýn og þá hugsjón sem hann setti fram. Það liggur fyrir að sumir bændur eru í útræði frá jörðum sínum, trillukarlar eru t.d. í fiskveiðikerfinu (Gripið fram í.) í dag. (Gripið fram í.) Aðrir eru þar ekki. Það liggur líka fyrir að menn eiga veiðirétt og netlagnir í sjónum í dag, útræðisjarðir. En deilan snýst um það að þeir vilja komast inn í núverandi fiskveiðistjórnarkerfi. Það er deila við hæstv. sjávarútvegsráðherra, ekki þann sem hér stendur, og hana heyja þeir auðvitað á þeim vettvangi. Sjálfsagt leita þeir samninga.Ég get sagt það hér að auðvitað liggur öll sú fyrirgreiðsla fyrir. Allar þær upplýsingar sem þeir biðja um og eiga samstarf um við landbúnaðarráðuneytið eru þeim látnar í té til að þeir geti farið yfir sín mál. Bændasamtökin hafa tekið samstarfið í fóstur og vinna í því. Þeir hafa veiðirétt sinn í netlögnum. Sumir eru í kvótakerfinu frá útræðisjörðum og aðrir vilja komast inn í það. Um þetta snýst deilan og stefnir kannski í að fari fyrir dómstóla. Ég hef svo sem lítið meira um málið að segja á þessu stigi. Ég get tekið undir að vissulega mundi þetta styrkja sjávarjarðirnar hringinn í kringum landið sem búsetujarðir og kraftmiklar jarðir ef þeir næðu þessum rétti sínum. Þarna er við lagaflækjur að eiga og lögfræðingar beggja vegna sitja yfir því. Kannski stefnir þetta mál fyrir dómstóla til úrskurðar.

Scroll to Top