Eigendur sjávarjarða hyggjast sækja rétt sinn til útræðis

Frá því að landið byggðist hafa fjölþættar sjávarnytjar fylgt jörðum á Íslandi. Bæði innan landamerkja jarðanna, þar með talið innan netlaga, sem og réttindi í almenningum á landi og í sjó. Með þéttbýlismyndun og atvinnuháttabreytingum hafa ýmsir ekki sætt sig við hina rótgrónu og gömlu eignarréttarreglu jarðanna, bæði til lands og sjávar, og nytjar samkvæmt henni. Smátt og smátt hefur réttur jarða verið skertur með ýmsum hætti og stundum með lagasetningu. Þetta hefur oft gerst með þeim hætti að ekki hefur verið um  beinar mótaðgerðir að ræða hverju sinni. Jafnframt finnst mörgum landeigendum erfitt að fá viðurkenningu yfirvalda á því að fyrir viðkomandi takmarkanir komi fullt verð frá þeim sem tóku eignina. Þannig hafa jarðirnar og eigendur þeirra glatað ýmsu af því sem alltaf hefur verið talið til verðmætra hlunninda.

Samtök eigenda sjávarjarða (Ses) voru stofnuð árið 2001, en markmið þeirra er að fá réttinn til útræðis frá sjávarjörðum virtan á ný og staðfestan í landslögum svo og að eignarréttarleg hlutdeild í sjávarauðlindinni verði virt. Undanfarin ár hefur málsstaður Samtakanna verið kynntur, innanlands sem utan, með viðtölum, fundarhöldum, bréfaskriftum og eftir öllum tiltækum leiðum, auk viðræðna við stjórnvöld og Alþingi. Samtök eigenda sjávarjarða hafa því margreynt þá leið að um þessa eðlilegu kröfu samtakanna verði samið. Á það hefur ekki verið fallist. Þá má m.a. minna á að Bændasamtök Íslands, sem eru heildarsamtök bænda, hafa með formlegum hætti, allt frá árinu 1970, ályktað um málið og óskað eftir viðurkenningu á rétti sjávarjarða.

Framvinda þessara mála var m.a. rædd á aðalfundi samtakanna í nóvember 2003. Þar var það samþykkt að aðeins væri einn kostur eftir í stöðunni, þ.e. að stefna ríkinu og að eignarréttinum verði skilað til löglegra eigenda.

Í febrúar 2004 var samið við Ragnar Aðalsteinsson, hrl. um að hann tæki málið að sér fyrir hönd. Ses gegn ríkinu. Hann skrifaði sjávarútvegsráðherra bréf og óskaði eftir formlegum viðræðum um lausn þessa máls og að sjávarjarðir fengju hlutdeild í auðlindagjaldinu. Erindinu var hafnað. Þar með var ekkert annað eftir en stefna gegn ríkinu, til að byrja með, og mun fyrsta mál þess efnis verða lagt fram snemma árs 2005.

Samtök eigenda sjávarjarða héldu aðalfund sinn hinn 10 desember sl. Þar fjallaði Ragnar Aðalsteinsson, hrl. um kröfugerð samtakanna. Hún byggir á því að eignar- og útræðisréttur sjávarjarða innan netlaga, réttur þeirra til ákveðinna fiskimiða utan netlaga svo og tiltölulegur réttur þeirra til sjávarauðlindarinnar í heild, verði viðurkenndur og virtur. Í máli hans kom m.a. fram að ákvæði um netlög hefðu gilt allt frá “Grágás” til okkar tíma, en netlög eru í raun landamerki jarðanna til sjávarins. Að samkvæmt íslenskum lögum væri það landeigandi sem hefði allan rétt til hlunnindanytja á sínu lögbýli. Auk þess hefðu ákveðin mið oft fylgt jörðum, en landeigandinn var sá aðili sem gat leyft eða bannað veiðar. Alþekkt var að utansveitarmenn gátu ekki róið til fiskjar í ákveðnum firði nema með leyfi landeigenda.

Hann minnti á að grunnsævið innan netlaga væri mikilvægur uppeldisstaður fyrir fiska, fiskur er einnig á hreyfingu á milli svæða innan sem utan netlaga. Netlögin eru hluti af stærri heild, því er um sameign á fiskiauðlindinni að ræða. Hann minnti á að útræði var talið til hlunninda jarða og skráð í fasteignamati og af því eru greidd gjöld. Vandinn er sá að með kvótalöggjöfinni í sjávarútvegi þá hefur ríkið tekið rétt frá sjávarjörðum, án þess að greiða fullt verð fyrir samkvæmt eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Þau rök sem nefnd eru að við setningu sk kvótalaga í sjávarútvegi hafi bændur, jafnt við aðra, getað sótt um kvóta byggðan á fyrri veiðireynslu standast ekki, því eignarrétturinn var til staðar, hann verður ekki tekinn bótalaust. “Með þessu er verið að flytja réttinn frá bændum til annarra,” sagði Ragnar.

Aðalfundurinn 10. desember sl. var vel sóttur og urðu góðar umræður um verkefnin framundan. Við afgreiðslu reikninga kom fram að tekjur samtakanna eru eingöngu bundnar við árgjald félagsmanna. Stjórnin lagði því áherslu á að félagsmenn skiluðu þeim fljótt og vel.

Í framhaldi af aðalfundinum hafði Ingólfur Arnarsson, doktor í hagfræði frá sjávarútvegsháskóla Noregs í Tromsö, samband við Ses og lýsti yfir áhuga á samvinnu. Hann upplýsti m.a. að ef lög um fiskveiðistjórn hefði verið sett í Noregi hefði það aldrei verið látið viðgangast þar að eignarréttur sjávarjarða yrði ekki virtur.

Stjórn Ses skipa: Ómar Antonsson, Horni, formaður. Björn Erlendsson, Reykjavík, ritari. Sigurður Filippusson, Dvergasteini, gjaldkeri. Meðstjórnendur eru: Bjarni Jónsson, Reykjavík. Pétur Guðmundsson, Ófeigsfirði.

Minna má á heimasíðu Samtaka eigenda sjávarjarða, www.ses.is /ÁS

Scroll to Top