Afstaða óbyggðanefndar til framkominna sjónarmiða Samtaka eigenda sjávarjarða

Reykjavík, 11. mars 2020

Minnisblað til allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis
vegna frumvarps um breytingu á þjóðlendulögum
(317. mál á 150. löggjafarþingi)

Allsherjar- og menntamálanefnd óskaði eftir afstöðu óbyggðanefndar til framkominna sjónarmiða Samtaka eigenda sjávarjarða um ákvörðun eignamarka í tilefni af frumvarpi um breytingu á þjóðlendulögum sem er til umfjöllunar hjá nefndinni.

Samantekt um afstöðu óbyggðanefndar til umsagnar Samtaka eigenda sjávarjarða

Samandregið má um umsögn Samtaka eigenda sjávarjarða segja að rétt sé að dýptarregla Jónsbókar hafi ekki verið felld úr gildi. Það er heldur ekki gert með þessu frumvarpi og frumvarpið breytir engu um þau réttindi sem í henni felast, enda varðar hún einungis rétt til veiði sjávarfiska. Ef netlög samkvæmt dýptarreglu Jónsbókar ná lengra en 115 m netlög nær veiðiréttur landeigenda einfaldlega lengra út í sjó en beinn eignarréttur landeigenda að sjávarbotni.

Viðfangsefni óbyggðanefndar utan meginlands Íslands og tengsl við 115 m netlög

Gildissvið þjóðlendulaga er allt land innan íslenskrar lögsögu. Allt land er samkvæmt þjóðlendu- lögum annaðhvort eignarland eða þjóðlenda og hlutverk óbyggðanefndar er að greina þar á milli. Hugtakið „landsvæði utan strandlengju meginlandsins“ í 5. gr. frumvarpsins vísar til eyja, skerja og annarra landfræðilega eininga umhverfis landið, sbr. greinargerð með frumvarpinu. Vegna með- ferðar á þjóðlendumálum utan strandlengju meginlandsins er nauðsynlegt að greina hvað sé land og hvar því landi sem fjalla ber um sleppir.

Svæði utan 115 m netlaga er samkvæmt lögum hafsbotn og íslenska ríkið er eigandi auðlinda hans, sbr. 1. og 3. mgr. 1. gr. laga um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, nr. 73/1990. Hafsbotn utan 115 m netlaga tilheyrir því ekki landi og er þar með utan gildissviðs þjóðlendulaga.

Hafsbotn innan 115 m netlaga tilheyrir hins vegar aðliggjandi landi og fellur því undir gildissvið þjóðlendulaga, sbr. sérstaklega 1. og 3. mgr. 2. gr. laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu nr. 57/1998. Um þetta er fjallað í athugasemdum við 5. gr. frumvarpsins í þeim tilgangi að útskýra hvers vegna umfjöllun óbyggðanefndar um svæði takmarkast við 115 m netlög. Hins vegar er ekki verið að breyta neinum reglum um réttindi innan eða utan 115 m netlaga.

Nánari skýringar á hugtakinu netlög

Til nánari skýringar á hugtakinu netlög er rétt að hafa hugfast að í íslenskum lögum eru þrjár mismunandi skilgreiningar á netlögum. Hugtakið hefur því mismunandi merkingu eftir því hvaða réttindi eiga í hlut, sem gera verður greinarmun á.

Dýptarregla 2. kapítula rekabálks Jónsbókar frá 1281 gildir einungis um rétt til veiði sjávarfiska, sem eru takmörkuð eignarréttindi, innan netlaga samkvæmt dýptarreglunni. Í reglu Jónsbókar- ákvæðisins felst því ekki beinn eignarréttur landeigenda. Í veiðitilskipun frá 1849 og lögum um beititekju nr. 39/1914 eru netlög skilgreind sem 60 faðmar (um 113 m) frá stórstraumsfjörumáli og um þau réttindi sem þar er kveðið á um gildir því sú skilgreining netlaga. Í nýrri löggjöf eru netlög skilgreind sem 115 m frá stórstraumsfjörumáli, m.a. í áðurnefndum lögum nr. 57/1998 og fleiri lögum sem kveða á um að landi fylgi beinn eignarréttur í netlögum. Um beinan eignarrétt landeigenda innan netlaga gildir því 115 m reglan. Frumvarpið breytir engu um framangreind réttindi landeigenda.

Samandregið um efni 5. gr. frumvarpsins:

 • Greinin hefur ekki að geyma skilgreiningu á netlögum.
 • Greinin hefur ekki að geyma ákvæði um brottfall réttinda af neinu tagi.
 • Greinin hefur ekki að geyma ákvæði um afmörkun réttinda.
 • Greinin fellir ákvæði rekabálks Jónsbókar ekki úr gildi.
 • Greinin takmarkar ekki gildissvið rekabálks Jónsbókar.

Réttindi sem eru til staðar standa óhögguð, enda varðar greinin einungis málsmeðferð en ekki inntak eða afmörkun réttinda.

Umsögn Samtaka eigenda sjávarjarða

Í umsögn Samtaka eigenda sjávarjarða koma fram ýmsar fullyrðingar sem vert er að fjalla um:

 • Skilgreining á hugtakinu netlög í frumvarpinu sé röng.
  Rangt. Hugtakið netlög er ekki skilgreint í frumvarpinu heldur er til útskýringar vísað til skilgreininga þeirra laga sem eiga við um efni frumvarpsins í athuga- semdum við 5. gr.
 • Frumvarpið brjóti í bága við 2. kap. rekabálks Jónsbókar og 72. gr. stjórnarskrár.
  Rangt. Réttindi eru ekki felld niður eða takmörkuð með frumvarpinu.
 • Ákvæði 2. kap. rekabálks Jónsbókar hafi aldrei verið fellt úr gildi.
  Rétt. Það er ekki heldur gert með frumvarpinu.
 • Höfundar frumvarpsins kjósi að fjalla um sumar skilgreiningar netlaga en ekki aðrar.
  Rétt, enda eru það mörk lands/netlaga gagnvart hafsbotni sem skipta máli í þessu sambandi en ekki mörk veiðiréttar.
 • Í uppsiglingu sé bótalaus eignaupptaka.
  Rangt. Réttindi eru ekki felld niður eða takmörkuð með frumvarpinu.
 • Við ákvörðun netlaga með hliðsjón af fiskveiðirétti landeigenda beri að miða við dýptarreglu Jónsbókar.
  Rétt, en frumvarpið snýr ekki að því og hefur engin áhrif á þann rétt landeigenda.

Óbyggðanefnd · Skuggasundi 3 · 101 Reykjavík · s. 563-7000 · postur@obyggdanefnd.is · www.obyggdanefnd.is


Upprunaskjal.

Uppunaskjal á vef Alþingis.

Scroll to Top