Bréf boðsent til allra alþingismanna 8. mars 2007

Ætlar Alþingi að sniðganga eignarréttinn aftur?


Samtök eigenda sjávarjarða.
Pósthólf 90,
780 Hornafirði.

Bréf til alþingismanna, ráðherra og stjórnarskrárnefndar íslenska lýðveldisins.

Málefni:  Eignarréttur sjávarjarða í sjávarauðlindinni og landhelginni.

Meðfylgjandi er auglýsing um eignarrétt sjávarjarða í sjávarauðlindinni.
Töluverð umræða hefur undanfarið verið um það að setja í stjórnarskrá ákvæði um að sjávarauðlindin sé sameign íslensku þjóðarinnar.

Í því sambandi upplýsist að hluti sjávarauðlindarinnar umhverfis Ísland er í einkaeign og hefur verið það frá ómunatíð.  Svo nefnd netlög eru í eigu þeirra jarða sem liggja að sjó.  Netlögin eru einn frjósamasti hluti hafsins.  Stór hluti seiða nytjastofna á uppvaxtarskeið sitt í netlögum.  Sjórinn og lífríkið er á ferð milli netlaga og ytra svæðis.  Auðlindir sjávar og fiskistofnar eru því óskipt sameign eigenda netlaga og ytra svæðis þar sem ríkið fer með umráð.

Í 72. gr. stjórnarskrárinnar segir:  “Eignarrétturinn er friðhelgur.  Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji.  Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir”.
Eitthvert nýtt geðþóttaákvæði í stjórnarskránni, sem kvæði á um að sjávarauðlindin sé sameign íslensku þjóðarinnar, án fyrirvara um aðra sem fyrir eiga einkaeignarrétt í auðlindinni, bryti því alveg í bága við fyrrgreint núverandi ákvæði stjórnarskrárinnar.  Auk þess væri það ekki í samræmi við gildandi meginreglur laga:  Prior tempore potior jure (lengri gerð: Qui prior est tempore, potior est jure – sá sem fyrr er í tíma gengur framar lögum).  Réttur manna ræðst af tímaröð; sá sem er fyrri til öðlast meiri rétt.

Þegar lög nr. 38 um stjórn fiskveiða voru sett 15. maí 1990 var eignarréttur sjávarjarða fullkomlega virtur að vettugi en þessi eignarréttur hins vegar afhentur öðrum óviðkomandi aðilum án lagafyrirmæla og án þess að fullt verð kæmi fyrir.  Við fyrrgreinda lagasetningu braut Alþingi Íslendinga auk þess 1. gr. 1. viðauka eignarréttarákvæðis mannréttindasáttmála Evrópuráðsins.

Eigendur sjávarjarða gera kröfu um að löggjafarsamkoman leiðrétti þau lögbrot sem þegar hafa átt sér stað og sjái til þess að farið verði að lögum íslenska lýðveldisins og alþjóðalögum við ákvarðanir í sambandi við auðlindir sjávarins.

Samtökin eru með heimasíðu.  Slóðin er:    www.ses.is

8. mars 2007

Virðingarfyllst,
Samtök eigenda sjávarjarða.
Ómar Antonsson, formaður.

Auglýsing
um einkaeign á hafsvæðinu í netlögum og að sjávarjörðum fylgir eignarhlutdeild í sjávarauðlindinni í heild

Með vísan til meginreglna íslensks réttar um réttaráhrif friðlýsinga og lögfestna, sbr. m.a. 16. og 17. kap. landleigubálks Jónsbókar, og með vísan til samkvæmrar dómiðkunar frá ómunatíð og neðangreindra tilvitnana í sett lög, þá kunngjörist hér með og tilkynnist:

  • Eigendur sjávarjarða eiga eignarréttarlega hlutdeild sjávarauðlindinni og   beinan eignarrétt að fiskveiði í netlögum sem er varinn af 72. gr. stjórnarskrárinnar.
  • Eigendur sjávarjarða eiga ítaksrétt til veiða í fiskhelgi utan netlaga og á hefðbundnum miðum, sem jafna má til afréttarréttinda og er því eignarréttarlegs eðlis og varinn af  72. gr. stjórnarskrárinnar.
  • Útræði/heimræði og útræðisréttur, er einnig varinn af  75. gr. stjórnarskrár, enda jafnframt atvinnuréttarlegs eðlis.
  • Sjórinn og sjávarbotninn í netlögum er víða mikilvæg uppeldisstöð og þar er oft mikil fiskgengd. Lífríkið og sjórinn innan og utan netlaga er ein hreyfanleg og óskipt heild. Þetta staðfestir séreignarhlutdeild sjávarjarða í sameign íslensku þjóðarinnar sem nefnd er í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða.

Sjávarjarðir á Íslandi  eiga og hafa frá ómunatíð átt hlutdeild í sjávarauðlindinni.  Eignarhlutdeild þessi byggist í fyrsta lagi á netlögum, sem er ákveðið svæði í einkaeign í sjó út af landi  (samanber meðal annars 3. kapítula rekabálks Jónsbókar frá 1281, 3. gr. tilskipunar um veiði á Íslandi frá 20. júní 1849, 1. gr. laga nr. 39/1914 um beitutekju, 4. og 5. gr. vatnalaga nr. 15/1923, 14., 72., 77., og 96. gr. laga nr 76/1970 um lax og silungsveiði, 1. og 2. gr. laga nr. 73/1990 um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, 1. gr. laga nr. 64/1994 um fuglaveiðar, 1. og 2. gr. laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu og 1. gr. laga nr. 13/2001 um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis).  Í öðru lagi eiga sjávarjarðir fornan atvinnurétt, svokallað útræði/heimræði, sem metið hefur verið í fasteignamati og einnig hvalveiðiréttindi.

Fiskveiðilandhelgi Íslands, sem miðast út frá landi, víðast út frá landi sem er í einkaeign, nær einnig yfir netlög og er því þessi séreignarréttur hluti af landhelginni, sbr. 1. gr laga nr. 41/1979 um landhelgi Íslands.  Hafið og lífríkið í netlögum, ásamt öllum gögnum og gæðum, fylgir sjávarjörðum og er eign eigenda sjávarjarða.  Einn frjósamasti hluti hafsins er í netlögum og er lífríkið ásamt sjónum sjálfum á hreyfingu milli netlaga í einkaeign og ytra svæðis þar sem ríkið fer með umráð.  Auðlindin er því óskipt sameign.

Vísað er til þess, að með lögum um stjórn fiskveiða hefur eigendum sjávarjarða verið einhliða meinað að nýta þessa eign sína, án þess að fullt verð hafi komið fyrir, samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar og án þess að friðunarástæður eða önnur haldbær lagarök fyrir takmörkun eignarréttinda séu fyrir hendi.

Scroll to Top