Bréf til sjávarútvegsráðherra

Óskað hefur verið eftir því við sjávarútvegsráðherra að skipuð verði nefnd til þess að skilgreina eignarhlutdeild sjávarjarða í sjávarauðlindinni.


Samtök eigenda sjávarjarða.
Pósthólf 90,
780 Hornafirði.

Hr. Jón Bjarnason, sjávarútvegsráðherra,
sjávarútvegsráðuneytinu,
Skúlagötu 4,
101 Reykjavík.

27. september 2010.

Skipun nefndar um skilgreiningu á eignarhlutdeild sjávarjarða í sjávarauðlindinni.

Ég vísa í bréf stjórnar Samtaka eigenda sjávarjarða til þín, dags. 8. júlí 2010.

Nú hefur starfshópur um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða lokið stöfum sínum, sbr. skýrslu, dags. 6. september 2010.  Eftirfarandi urðu málalok starfshópsins hvað viðvíkur ósk eigenda sjávarjarða um að skipuð yrði nefnd (starfshópur) til að skoða lögvarða eignarréttarlega stöðu sjávarjarða í sjávarauðlindinni:

„Það er mat meirihluta starfshópsins að skynsamlegt og gagnlegt gæti reynst að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipaði slíka nefnd sem fengi það eina hlutverk að draga fram öll þau gögn sem kunna að varða þetta einstaka en um leið flókna mál, og vinna með þau á þann hátt að komast megi nær niðurstöðu í málinu“.

Lagafyrirmæli eru frá Alþingi um eignarrétt eigenda sjávarjarða í sjávarauðlindinni og í stjórnarskránni er ákvæði um friðhelgi eignarréttarins.  Mannréttindadómstóll Evrópu hefur komið með eftirfarandi orðrétt álit sitt:

„Ennfremur er það niðurstaða dómsins að réttur kæranda til þess að stunda fiskveiðar í netlögum úti fyrir sjávarjörðinni sem um ræðir hafi lögformlega stofnað til „eignar“ í skilningi 1. gr.  samningsviðauka 1“.

Auk þess þarf að gæta að því í allri umfjöllun að samkvæmt lögum og mannréttindasáttmálum má ekki mismuna fólki vegna eigna eða þjóðernis.

Hér með er óskað eftir fundi með þér sem allra fyrst um skipun þessarar nefndar.

Virðingarfyllst,

f.h Samtaka eigenda sjávarjarða (www.ses.is).

________________________________
Ómar Antonsson, formaður

Scroll to Top