Mismunandi skýringar á hugtakinu “NETLÖG” í íslenska lagasafninu.
(Tekið saman af Bjarna M. Jónssyni, sérfræðingi í haf og strandsvæðastjórnun)
Netlög er sá hluti sjávarjarða sem er í einkaeign og er með lögvarin atvinnu- og eignarréttindi. Sjá nánari skýringar um netlögin hér á heimasíðunni.
Skúli Magnússon lektor við lagadeild Háskóla Íslands vann í september árið 2001 álit að beiðni nefndar um enduskoðun laga um stjórn fiskveiða, um stjórnskipulega vernd fiskveiðiréttar sjávarjarða.
Í áliti Skúla á bls. 8 er eftirfarandi grein:
„Samkvæmt framangreindu er ótvírætt að við ákvörðun netlaga með hliðsjón af fiskveiðirétti landeiganda ber að miða við dýptarreglu Jónsbókar, en ekki fjarlægðarreglu veiðitilskipunarinnar og síðari laga. Hvað varðar ýmis önnur mikilvæg réttindi landeiganda innan netlaga gildir hins vegar almennt reglan um 115 metra frá stórstraumsfjörumáli. Samkvæmt framangreindu ber að afmarka netlög sjávarjarðar með hliðsjón af fiskveiðirétti samkvæmt reglu 2. kapítula rekabálks Jónsbókar.”
Mismunandi skýringar á hugtakinu “NETLÖG” í lagasafninu.
1281 nr. Jónsbók.
Jónsbók er hluti af íslensku lagasafni og er í fullu gildi í dag sem lög. Í rekaþætti Jónsbókar segir „En það eru netlög yst er selnót stendur grunn tuttugu möskva djúp að fjöru og komi þá flár upp úr sjó.”
<Þetta þýðir að landamerki sjávarjarða út í sjóinn nær út að sama dýpi og 20 möskva selnet afmarkar ef það er í sjó og stendur með sökkurnar á botninum og flotholtin fljótandi á yfirborðinu á stórstraumsfjöru.
Hvernig er hægt að yfirfæra dýptarviðmiðið 20 selnets-möskva í metrakerfið?
Samkvæmt rannsóknum dr. Ole Lindquist (1994), má þakka Páli Vídalín lögmanni (1667-1727) fyrir að það er mjög auðvelt, því hann hefur nú þegar leyst þessa gátu. Hann útskýrir að „selanótar-möskvi sé þá hæfilegur, er han má komast yfir mannshöfuð niður að eyrum; svo hefir að fornu verið, og svo er enn.” Það er um 60 cm að ummáli.
Páll nefnir að í Jónsbókarhandriti standi eftirfarandi:
„þat eru netlög utaz, er selnót stendur grunn 20 möskva djúp ath fjöru, oc komi þá flár uppúr sjó, þat er fjögra faðma djúp.”
í öðru handriti stendur: „það eru netlög utarst, er selnet stendur grunn 20 möskva djúp að fjöru sjóar, og koma þá flár uppúr sjó, en það er 12 álna djúp að fjöru.”
Samkvæmt skýringum Páls lögmanns gefa 12 álnir eða 4 faðmar sömu niðurstöðu (57,3 cm × 12 =) 6,88 m. Ystu mörk netlaga samkvæmt Jónsbók er því við 7 m dýpi á stórstraumsfjöru. Eftir stendur að augljóst er að miða á fiskveiðar í netlögum við dýptarviðmiðið. Skilgreining Páls Vídalín um dýpt selneta annað hvort 4 faðmar eða 12 álnir er það sem á að miða við og í metrakerfinu eru það 6,88 m. (Ole Lindquist, PhD).
1849 nr. 20. júní. Tilskipun um veiði á Íslandi. (Á aðeins við um veiðar á fuglum og dýrum með heitu blóði).
Í Tilskipun um veiði á Íslandi, 20. júní 1849, segir í „3. gr. Á landi skulu veiði ráða rétt landamerki jarðar hverrar. Ef jörð liggur að sjó, á eigandi veiði á haf út, 60 faðma (eða 115 metra) frá stórstraumsfjörumáli, og eru það netlög hans.” Nú liggja eyjar eða hólmar undir jörð, þá skal mæla lóðhelgi jarðar á sama hátt frá landi og jafnt í allar áttir frá eyjum og hólmum.
Í 21. gr. og jafnframt síðustu grein veiðitilskipunarinnar segir að:
„Með þessari tilskipun er allt það af tekið, sem lög hafa verið hingað til um fuglveiði og dýraveiði og selveiði, en allar greinir laganna um fiskveiði, sem ekki er breytt í þessari tilskipun, og um hvalveiði skulu fyrst um sinn standa óraskaðar.“
Í Þingbókum alþingis frá 1847 til 1849 má lesa umræður þingmanna um frumvarp veiðitilskipunarinnar. Þar kemur meðal annars fram mjög skýrt að stuðst er við þýðingu úr dönskum lögum og að danska orðið „Jagt“ vefst fyrir mönnum þar sem það þýðir í Danmörku veiðar á fuglum og dýrum en ekki fiskum, en íslenska orðið „veiði“ þýðir allar veiðar þ.e. bæði fugla, dýra og fiskveiðar. Einmitt vegna þessa var ákveðið að bæta við 21. gr. til þess að taka af allan vafa um að veiðitilskipunin frá 20. júní 1849 gilti alls ekki um fiskveiðar í netlögum og að þar sé Jónsbók enn í fullu gildi. Þar með verður stærð netlaga varðandi fiskveiðar að miðast við dýpt.
(Jónsbókarákvæðið sem segir „En það eru netlög yst er selnót stendur grunn tuttugu möskva djúp að fjöru og komi þá flár upp úr sjó” hefur verið sleppt úr Jónsbókartexta núverandi lagasafns án lagabreytinga. Einnig var 21. gr. laga frá 20. júní 1849 feld út með lögunum nr. 116/1990. Þessi grein skýrði út að lögin giltu ekki um fiskveiðar.
1914 nr. 39 2. nóvember. Lög um beitutekju.
Netlög eru 60 faðmar á sjó út frá stórstraumsfjörumáli.
1923 nr. 15 20. júní. Vatnalög.
Almenningur: Sá hluti vatns, sem liggur fyrir utan vatnsbelti landareignanna.
1990 nr. 73 18. maí. Lög um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins.
Hugtakið netlög merkir í lögum þessum sjávarbotn 115 metra út frá stórstraumsfjöruborði landareignar.
1994 nr. 64 19. maí. Lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.
Netlög: hafsvæði 115 m út frá stórstraumsfjörumáli landareignar eða 115 m út frá bakka stöðuvatns sem landareign liggur að. Netlög fylgja einnig eyjum, hólmum og skerjum í sjó og stöðuvötnum.
1998 nr. 57 10. júní. Lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu.
Netlög merkir í lögum þessum vatnsbotn 115 metra út frá bakka stöðuvatns sem landareign liggur að, svo og sjávarbotn 115 metra út frá stórstraumsfjöruborði landareignar.
2004 nr. 33 7. maí. Lög um varnir gegn mengun hafs og stranda.
Netlög: Sjávarbelti 115 m frá stórstraumsfjöruborði.
2004 nr. 81 9. júní. Jarðalög.
Netlög merkja í lögum þessum vatnsbotn 115 metra út frá bakka stöðuvatns sem landareign liggur að, svo og sjávarbotn 115 metra út frá stórstraumsfjöruborði landareignar.
2006 nr. 20 31. mars. Vatnalög.
Netlög: Vatnsbotn 115 metra út frá bakka stöðuvatns eða vatnsfalls sem fasteign liggur að.
2006 nr. 58 14. júní. Lög um fiskrækt.
Netlög: Vatnsbotn 115 metra út frá bakka landareignar að stöðuvatni, svo og sjávarbotn 115 metra út frá stórstraumsfjöruborði landareignar.
2006 nr. 61 14. júní. Lög um lax- og silungsveiði.
Netlög: Vatnsbotn 115 metra út frá bakka landareignar að stöðuvatni, svo og sjávarbotn 115 metra út frá stórstraumsfjöruborði landareignar.
2008 nr. 71 11. júní. Lög um fiskeldi.
Netlög: Vatnsbotn 115 metra út frá bakka landareignar að stöðuvatni, svo og sjávarbotn 115 metra út frá stórstraumsfjöruborði landareignar.
Þskj. 218 — 201. mál. Frumvarp til laga um skeldýrarækt.
(Lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)
Netlög: Sjávarbotn 115 metra út frá stórstraumsfjöruborði landareignar.