Bréf til ráðherra

Samtök eigenda sjávarjarða. 
Pósthólf 90, 
780 Hornafirði. 

Hr. Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegsrráðherra,
sjávarútvegsráðuneytinu,
Skúlagötu 4,
101 Reykjavík.

Hornafirði, 27. maí 2013.

Hér með óskar stjórn Samtaka eigenda sjávarjarða (Ses) eftir fundi með sjávarútvegs-, landbúnðar- og umhverfisráðherra sem allra fyrst.

 Meðfylgjandi eru nokkrar upplýsingar um eignarrétt sjávarjarða sem lagafyrirmæli eru um, sem stjórnin kynnti fyrir  formanni og varaformanni atvinnuveganefndar á fundi 31. október 2011.

 Ég vísa í fétt í Fréttablaðinu og einnig ummæli höfð eftir þér 24. maí s.l.:  Í viðtali við Fréttablaðið segir Sigurður Ingi Jóhannsson, nýr sjávarútvegsráðherra, að leitast verði við að ná sem víðtækastri sátt um atvinnugreinina.  Samráð verði aukið verulega.  „Við leggjum áherslu á víðtækt samráð við sem flesta enda er sátt útilokuð ef ekki er talað saman í undafara breytinga“.

 Vísað er í fund í sjávarútvegsráðuneytinu 18. febrúar 2013.  Þar var samþykkt að fundur yrði haldinn fljótlega aftur þar sem lausn þessa máls yrði rædd áfram.  Sá fundur hefur ekki farið fram enn.  

 Það eru engir eins mikilir hagsmunaaðilar og eigendur sjávarjarða, sem eru stjórnarskrárvarðir eigendur í sjávarauðlindinni, en lítið sem ekkert samráð hefur verið haft við þá sem mikilvæga hagsmuna- og eignaraðila. Við vekjum athygli á áliti Mannréttindadómstóls Evrópuráðsins:

„Ennfremur er það niðurstaða dómsins að réttur kæranda til þess að stunda fiskveiðar í netlögum úti fyrir sjávarjörðinni sem um ræðir hafi lögformlega stofnað til „eignar“ í skilningi 1. gr.  samningsviðauka 1“.  Álit þetta er bindandi og því verður ekki breytt af íslenskum stjórnmála- eða embættismönnum eða dómurum.

 Erindi okkar á fundi með þér er eftirfarandi:

  1. Að ræða það að réttur sjávarjarða til útræðis verði virtur.
  2. Að netlög verði virt með tilliti til Jónsbókarlaga og skýringa Páls Vídalín, lögmanns (7m), Grágásar og veiðitilskipunar frá 1849 ásamt skýringum sem koma fram í þingskjölum frá þeim tíma.
  3. Að fá svar við því hvort Alþingi og ríkisstjórn Íslands hyggist fara að lögum í þessu sambandi og sjái til þess að löglegur réttur sjávarjarða verði virtur í lagasetningum um stjórn fiskveiða.
  4. Stofnsetning nefndar til að skilgreina eignarhlutdeild sjávarjarða í sjávarauðlindinni eins og kveðið er á um í skýrslu nefndar um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða.
  5. Hlutdeild í auðlindagjaldinu.  Áætla þyrfti þessa hlutdeild á meðan ekki hefur fengist endanleg niðurstaða sbr. lið 4.
  6. Til að jafnræði sé í heiðri haft þá verði veittur fjárstuðningur til Ses (hlutaðeigenda í sjávarauðlindinni), sambærilegur við þann stuðning sem félög útgerðaraðila fá nú þegar.

 Virðingarfyllst,

Samtök eigenda sjávarjarða.

Ómar Antonsson, formaður.

 Meðfylgjandi er til upplýsinga:

  1. Upplýsingar um réttindi sjávarjarða sem lagafyrirmæli eru um, 15 síður (15 glærur).
  2. Upplýsingar um réttindi sjávarjarða sem lagafyrirmæli eru um, 10 erindi.
Scroll to Top