Samtök eigenda sjávarjarða
Pósthólf 90,
780 Hornafirði.
Matís ohf.
Sveinn Margeirsson, forstjóri,
Vínlandsleið 12,
113 Reykjavík.
sveinnm@matis.is, annak@matis.is
Hornafirði, 18. nóvember 2013.
Sæll Sveinn.
Ég sá frétt í Fréttablaðinu 13. nóvember s.l., fyrirsögnin „Stórir samningar á alþjóðavettvandi“. Í fréttinni segir eftirfarandi: „Markmið þessa verkefnis er að þróa fiskveiðistjórnunarlíkön þar sem tekið er tillit til sjálfbærni, umhverfis-, efnahagslegra og samfélagslegra þátta“.
Ég vísa í símasamtal fulltrúa míns við þig fyrr í dag.
Vöntun virðist jafnvel vera á því að embættismenn, stjórnmálamenn, fræðimenn og aðrir sem fjalla um þessi mál, séu rétt upplýstir um eignarrétt í sjávarauðlindinni. Svo virðist m.a.s. að fræðimenn hjá opinberum háskólum vilji ekki einu sinni afla sér grundvallarþekkingar á málefninu eða þá að menn séu að reyna að viðhalda þögn um ákveðin réttindi í þeim málum og viss sögufölsun á sér stað. Málefni sjávarútvegs verða ekki rædd að neinu viti nema að grundvallaratriði eins og eignarréttur sé þar undirstaðan í umræðunni. Mönnum finnst það eiginlega lágmark að embættis- og fræðimenn, sem eiga að vera sæmilega upplýstir fjalli rétt og óhlutdrægt um mál og dragi engin mikilvæg grundvallarréttindi undan og geti um þau. Það á auðvitað við um fulltrúa ríkisins.
Til fróðleiks fyrir Matís ohf, þá sendi ég ykkur upplýsingar um þessi mikilvægu mál með von um að þið komir þeim á framfæri og að skoðuð verði eignarréttarmál niður í kjölinn.
Eigendur sjávarjarða, sem hafa stofnað Samtök eigenda sjávarjarða, sem eru samtök fyrir allt landið, eru beinir hlutaðeigendur að sjávarauðlindinni samkvæmt reglum frá ómunatíð og gildandi lagafyrirmælum frá Alþingi. Engir aðrir eru löglegir eigendur samkvæmt lögum. Ennfremur eiga sjávarjarðir lögvarinn nýtingarrétt í auðlindinni, svo nefnt útræði sem segja má að sé einn verðmætasti eignarhluti sjávarjarða. Árið 1983 voru eigendur sjávarjarða ólöglega sviptir þessum forna rétti sínum og öðrum afhentur þessi réttur ólöglega til nýtingar. Þess má geta að eigendur sjávarjarða hafa stundað fiskveiðar frá jörðum sínum í gegnum aldirnar bæði í netlögum og fiskhelgi. Réttur þessi er stjórnarskrárvarinn eign og Mannréttindadómstóll Evrópu hefur komið með sitt álit um eignarréttinn sem segir: 3. The Courts´s assessment
“Moreover, the Court finds that the applicant´s right to engage in fishing in the net zone adjacent to the coastal property in question constituted a “possession” within the meaning of Article 1 of protocol No. 1”.
Þessu áliti Mannréttindadómstólsins verður ekki breytt af íslenskum stjórnmálamönnum, embættismönnum eða dómurum. Séreignarrétturinn hefur lagalega tilheyrt sjávarjörðum alla tíð og hefur aldrei verið skilinn frá þeim eða honum afsalað með nokkrum hætti. Grunnsævið, sem er að stórum hluta eign sjávarjarða, er einn mikilvægasti og verðmætasti hluti hafsins. Sjórinn og lífríkið er á ferð milli netlaga í eigu sjávarjarða og ytra svæðis. Auðlindin er því óskipt sameign.
Þar sem álit Mannréttindadómstóls Evrópu liggur fyrir um eignarréttindi þá ber að leiðrétta stöðu eigenda sjávarjarða tafarlaust.
Að lokum vísa samtökin sérstaklega til þingsályktunar frá júní 1998 (465. mál, þskj. 1504. Alþingi 1997-98, 122. löggjafarþing) um skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald, en þar má greina vilja löggjafans til þess hvert auðlindagjaldið skuli renna. Þar segir:
„Nefndin kanni möguleika á að nota auðlindagjald til að tryggja að afrakstur sameiginlegra auðlinda skili sér á réttmætan hátt til þeirra sem hagsmuna hafa að gæta.“
Eigendur sjávarjarða líta svo á að Matís ohf geti ekki unnið að og komið með tillögur að nýju fiskveiðistjórnunarlíkani nema taka tillit til samfélagslegra þátta svo sem eignarréttar sjávarjarða í sjávarauðlindinni.
Það er því ósk samtaka eigenda sjávarjarða að Matís ohf hafi fullt samráð við eigendur auðlindarinnar um málefnið við líkangerðina, ekki síst eigendur sjávarjarða.
Virðingarfyllst,
Ómar Antonsson
formaður Samtaka eigenda sjávarjarða
Meðfylgjandi:
- Auglýsing samtakanna 3. október 2003.
- Letter, dated 7th November 2002 to EU Commissioner Dr. Franz Fischler.
- European Union, 19 February 2011, Mrs. Helena Alvin, Policy Officer-European Integration and Mr. Armando Astudillo, Adviser-Atlantic, Outermost Regions and Arctic.
- Assessment of the European Court of Human Rights, Council of Europe.
- Case no. 40169/05, 2 December 2008.
- Ses upplýsingar 12 erindi vegna sjávarjarða.
- Ses atvinnuveganefnd glærur 31. okt. 2011.
- Bréf, dags. 27. maí 2013 til sjávarútvegsráðherra.
Afrit:
annak@matis.is, sigurdur.ingi.johannsson@anr.is
Stjórn Samtaka eigenda sjávarjarða.