Sérnefnd um stjórnarskrármál

Fulltrúa SES voru boðaðir á fund sérnefndar um stjórnarskrármál.

Minnisatriði vegna fundar hjá nefndarsviði Alþingis, sérnefnd um stjórnarskrármál, 15. mars 2007 kl 9:00.

Efni fundar:  Upplýsingum komið á framfæri frá stjórn Samtaka eigenda sjávarjarða til sérnefndar um stjórnarskrármál um rétt sjávarjarða til sjávarins.

Mættir:
f.h. sérnefndar um stjórnarskrármál:
Birgir Ármannsson, formaður sérnefndar um stjórnarskrármál,
Bjarni Benediktsson, alþingismaður
Guðjón Ólafur Jónsson, alþingismaður (varaformaður)
Sigurður Kári Kristjánsson, alþingismaður
Ögmundur Jónasson, alþingismaður
Össur Skarphéðinsson, alþingismaður
f.h. Samtaka eigenda sjávarjarða:
Björn Erlendsson, ritari stjórnar
Bjarni M. Jónsson, stjórnarmaður
Árni Snæbjörnsson, ráðunautur

Góðir fundarmenn:

Stjórn samtaka eigenda sjávarjarða þakkar fyrir að fá tækifæri til að hitta sérnefnd um stjórnarskrármál.

Samtökin telja að þeirra eigi að vera getið sérstaklega í lögum um eignarrétt í sjávarauðlindinni.

Stjórn Samtaka eigenda sjávarjarða vill vekja athygli stjórnarskrárnefndar á eftirfarandi atriðum:

  1. Sjávarjarðir eru flestar í einkaeign og er eignarréttur þeirra er varinn, samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar.
  2. Í einkaeigu sjávarjarða eru svo kölluð netlög sem er ræma sjávarins utan stórstraumsfjöruborðs.
  3. Netlögin eru hluti fiskveiðilandhelginnar.  Netlögin eru talin einn frjósamasti hluti sjávarins.  Sjórinn þar og lífríkið er á ferð milli netlaganna og ytra svæðis þar sem íslenska ríkið fer með umráð.
  4. Sjávarauðlindin er því óskipt sameign og er nauðsynlegt að taka tillit til allra eigenda, sbr. aðrar óskiptar sameignir.
  5. Margar sjávarjarðir eiga fornan rétt til veiða utan netlaga, þ.m.t. í fiskhelgi.
  6. Landhelgi Íslands er miðuð út frá landi, þ.e. stórstraumsfjöruborði sjávarjarða, en margar sjávarjarðir eru í einkaeign og er því hluti landhelginnar í einkaeign.
  7. Atvinnuréttur tilheyrir sjávarjörðum, svo kallað útræði og heimræði.

Samtökin mótmæla að eigendum netlaga, sem hlutaðeigendum í auðlindinni, hefur verið bannað með lögum að nýta eign sína en öðrum, sem ekki eiga eignarréttindi þar, hefur hins vegar verið heimiluð notkun og um leið í séreignarrétti sjávarjarða.

Félagar í samtökunum eru um 500, víðsvegar af landinu.

Formaður sérnefndar um stjórnarskrármál Birgir Ármannsson spurði að lokum hvort við hefðum eitthvað við stjórnarskrárákvæðið að athuga og hvort við værum sáttir við það.
Við svöruðum því til að eigendur sjávarjarða teldu að sérstaklega ætti að vera getið um séreignarrétt sjávarjarða í auðlindinni í ákvæðinu. Eignarhlutdeild sjávarjarða gæti ekki verið eign þjóðarinnar nema í þeim skilningi að eigendur sjávarjarða væru hluti íslensku þjóðarinnar.

Birgi Ármannssyni, formanni sérnefndarinnar voru afhentar eftirfarandi upplýsingar:
Það er krafa eigenda sjávarjarða, að við gerð stjórnarskrárákvæðis þessa um auðlindir, verði tekið fullt tillit til eignarhlutdeildar sjávarjarða í auðlindinni og þess getið sérstaklega í ákvæðinu.
Ennfremur er það krafa eigenda sjávarjarða, að Alþingi sjái til þess, að lög um stjórn fiskveiða verði leiðrétt og þar verði getið um séreignaréttar sjávarjarða í auðlindinni.

Tveir stjórnarmenn samtakanna áttu stuttan fund með Dr. Franz Fischler, Commissioner for Agriculture, Rural Development and Fisheries og Gerhard Sabathil, head of Delegation of the European Commisson to and , 10. ágúst 2003, þegar hann hélt erindi hjá Háskólanum í Reykjavík.

Eitt af þeim atriðum sem Dr.Fischler var upplýstur um var að sjávarjarðir eiga frá ómunatíð svo nefnd netlög og þ.a.l. hlutdeild í sjónum og lífríkinu sem er á ferð milli netlaga í hreinni einkaeign og ytra svæðis.Fischler var upplýstur um var að sjávarjarðir eiga frá ómunatíð svo nefnd netlög og þ.a.l. hlutdeild í sjónum og lífríkinu sem er á ferð milli netlaga í hreinni einkaeign og ytra svæðis.

Við bentum dr. Fischler á, að miðað við málflutning hans í ræðunni sem hann hélt, þá gæti stjórn ESB tæplega gert þá kröfu um að sjávarauðlindin við Ísland félli til sameigninlegrar stjórnunar Evrópusambandsríkja þegar óskipt hlutdeild í henni væri í einkaeign.

Dr. Fischler fannst þetta afar athyglisverður punktur og sagðist ætla að skoða þetta.  Málið hefur svo hins vegar ekki verið athugað frekar af samtökunum því hér er frekar um að ræða stjórnvaldsákvarðanir.

 

Scroll to Top