„Undirstrikar að eignarréttur eigenda sjávarjarða er varinn“

Frétt úr Bændablaðinu 11. júní 2009. Eftir MÞÞ

Hæstiréttur hefur dæmt Íslenska gámafélagið ehf. til að greiða Sigurði Baldurssyni bónda á Sléttu við Reyðarfjörð 6,3 milljónir króna auk dráttarvaxta, að líkindum 13 til 14 milljónir króna í allt, en sanddæluskip á vegum félagsins dældi jarðefnum af botni fjarðarins undan bænum og innan netlaga hans.

„Undirstrikar að eignarréttur eigenda sjávarjarða er varinn“

Hæstiréttur hefur dæmt Íslenska gámafélagið ehf. til að greiða Sigurði Baldurssyni bónda á Sléttu við Reyðarfjörð 6,3 milljónir króna auk dráttarvaxta, að líkindum 13 til 14 milljónir króna í allt, en sanddæluskip á vegum félagsins dældi jarðefnum af botni fjarðarins undan bænum og innan netlaga hans. Félagið hélt því fram að efnistaka hefði öll farið fram utan netlaga Sléttu og benti á að Sigurður hefði veitt samþykki fyrir efnistöku en ekki hefði verið samið um verð.

Fram kom í dómi Hæstaréttar, sem féll á dögunum, að gámafélagið hefði ekki haldið til haga eða lagt fram gögn í málinu um hvar efni hefði verið tekið, þrátt fyrir að því hefði verið það í lófa lagið til að styðja þá staðhæfingu að jarðefni hefði ekki verið tekið innan netlaga Sléttu.

Karl Axelsson hæstaréttarlögmaður og lögmaður Sigurðar segir að dómurinn sé stefnumarkandi og að hann auki mjög öryggi bænda og eigenda jarða við sjó. „Þessi dómur undirstrikar að eignaréttur eigenda sjávarjarða er varinn,“ segir hann og bendir á að samkvæmt netlögum hafi eigandi jarðar við sjó eða vatn umráðarétt yfir 115 metra breiðu belti frá stórstraumsfjörumáli og á sjó út.

Forsaga málsins er að við byggingu stórskipahafnar við Reyð arfjörð í tengslum við byggingu álvers tók verktaki, Íslenska gámafélagið, efni úr sjó vegna framkvæmdanna. Benti félagið á, sem fyrr segir, að Sigurður hefði veitt samþykki fyrir efnistöku en ekki hefði verið samið um verð. Sigurð tók að lengja eftir uppgjöri vegna efnistökunnar og innti forsvarsmenn félagsins eftir stöðu mála hvað það varðaði, en fékk þá þau svör að ekkert efni til hafnargerðarinnar hefði verið tekið á svæði sem tilheyrði jörð hans. Féllst Hæstiréttur ekki á þessa staðhæfingu Íslenska gámafélagsins, að efni hefði aðeins verið tekið utan netlaga Sléttu á svæði sem tilheyrði landi Fjarðabyggðar, enda báru vitni í málinu því við að hafa séð sanddæluskip við efnistöku nálægt landi og innan netlaga. Í yfirliti vegna efnistökunnar frá forsvarmönnum Arnarfells, sem um hana sá, kom fram að alls hefðu 126 þúsund rúmmetrar af sandi og möl verið fluttir í land með sanddæluskipinu til hafnargerðarinnar. Hæstarétti þótti jarðeigandi hafa sýnt fram á að gámafélagið hefði tekið efni úr landi hans og hann því eiga rétt á sanngjörnu endurgjaldi fyrir. Mótmælti gámafélagið kröfu Sigurðar um greiðslu á 75 krónur fyrir hvern rúmmetra af jarðefni og bar því við að kostnaður við vinnslu efna úr sjó væri hærri en þar sem þau væru tekin úr efnisnámu úr landi. Engin gögn voru þó lögð fram til stuðnings þessari málsástæðu.

Í úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta, þar sem metin voru jarðefni sem tekin voru eignarnámi úr námu í landi Sléttu, sagði að ágreiningslaust væri að verðmæti þeirra hefði verið 50 krónur fyrir hvern rúmmetra og að nefndinni þætti það verð hæfilegt. Með hliðsjón af því var Íslenska gámafélagið ehf. dæmt til að greiða Sigurði Baldurssyni 50 krónur fyrir hvern rúmmetra með dráttarvöxtum frá því mánuði eftir að hann sendi félaginu bréf þar sem tiltekið var magn jarðefna, sem krafist var greiðslu fyrir, auk einingaverðs.

Karl Axelsson segir að í málinu hafi Hæstiréttur snúið sönnunarbyrði við; Íslenska gámafélagið hafi verið krafið um að sýna með óyggjandi hætti fram á að það hefði engin efni tekið í landi er tilheyrði Sigurði. Það hafi félagið ekki gert. „Þessi dómur er að mínu mati góður, hann undirstrikar rétt eigenda sjávarjarða um landið og hann hefur varnaðaráhrif. Ég tel að verktakar og aðrir hafi oft farið frjálslega um eign bænda og eigenda sjávarjarða hvað jarðefni varðar. Þetta er eign sem skiptir sífellt meira máli nú, þegar torveldara verður að afla jarðefna til framkvæmda í landi. Í þessari eign eru því fólgin mikil verðmæti,“segir Karl. Hann fagnar því þessari niðurstöðu Hæstaréttar og telur dóminn stefnumarkandi hvað varðar réttindi eigenda sjávarjarða innan netlaga.

Scroll to Top