Hvað eru netlög?

Netlög er sá hluti jarða sem nær út í sjó.
Stærð þessa hlutar jarðarinnar er skilgreindur á tvo mismunandi vegu. Samkvæmt rannsóknum dr. Ole Lindquist (1994), segir Páll lögmaður Vídalín að í Jónsbókarhandriti standi eftirfarandi skýring á netlögum: „það eru netlög utarst, er selnet stendur grunn 20 möskva djúp að fjöru sjóar, og koma þá flár uppúr sjó, en það er 12 álna djúp að fjöru“ og í öðru má lesa „þat eru netlög utaz, er selnót stendur grunn 20 möskva djúp ath fjöru, oc komi þá flár uppúr sjó, þat er fjögra faðma djúp“Þetta gefur okkur dýptarviðmiðið 6,88 metra. Þetta er í fullu gildi og getur því verið um talsvert hafsvæði að ræða þar sem aðgrunnt er.

Tilskipunin um veiðar á Íslandi, 20. júní 1849 segir í 3. gr. „ á landi skulu veiði ráða rétt landamerki jarðar hverrar. Ef jörð liggur að sjó, á eigandi veiðar á haf út, 60 faðma frá stórstraumsfjörumáli, og eru það netlög hans.“ (í dag er talað um 115 metra) 115 metrana á að nota þar sem aðdjúpt er en dýptarviðmiðið þar sem er aðgrunnt. Veiðitilskipunin gildir þó ekki um fiskveiðar heldur eingöngu um veiðar á fuglum og dýrum.

Það er mjög mikilvægt að landeigendur verji netlög sín af fullri hörku því þarna er um gríðarlega auðlind að ræða sem á bara eftir að vaxa að verðgildi. Óviðkomandi vilja nota ströndina og netlög í mörgum tilgangi, eins og fyrir skolplosun, landtök fyrir strengi, námuvinnslu, fiskveiðar, fiskeldi, orkuvinnslu, ferðaþjónustu, vegagerð, hafnir, varnargarða og jafnvel til ferskvatnsvinnslu, til að nefna nokkur dæmi.

Scroll to Top