Umsögn, upplýsingar og athugasemdir vegna frumvarps til laga um stjórn fiskveiða, mál nr. 570.

Alþingi nefndasvið,
101 Reykjavík.
nefndasvid@althingi.is

24. febrúar 2013.

Umsögn, upplýsingar og athugasemdir vegna frumvarps til laga um stjórn fiskveiða, mál nr. 570. (Lagt fyrir Alþingi á 141. Löggjafarþingi 2012-2013).

Vísað er í meðfylgjandi fylgigögn Samtaka eigenda sjávarjarða (Ses) sem áður hafa verið send til nefndasviðs Alþingis svo og athugasemdir í bréfum sem send hafa verið sem skilgreina lagalegan eignarrétt sjávarjarða í sjávarauðlindinni.

Vísað er í umsögn til nefndasviðs Alþingis, ásamt fylgigögnum , dags. 20. apríl 2012 vegna frumvarps til laga um stjórn fiskveiða, mál nr. 657. Ennfremur er vísað sérstaklega í meðfylgjandi umsögn til nefndasviðs Alþingis ásamt fylgigögnum, dags. 14. febrúar 2013 við tillögu til þingsályktunar um skilgreiningu auðlinda, mál nr. 35. Umsögn skýrir eignarréttindi sjávarjarða til sjávarauðlindarinnar.

Hér með legg ég fram umsögn, upplýsingar og athugasemdir til Alþingis fyrir hönd Ses vegna fyrrgreindrar þingsályktunartillögu.

Í I. KAFLA Markmið, yfirstjórn, gildissvið og orðskýringar segir:
„Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameiginleg og ævarandi eign íslensku þjóðarinnar. Íslenska ríkið veitir tilskilin leyfi og fer með og ráðstafar hvers kyns heimildum til nýtingar. Slík veiting eða ráðstöfun myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir þeim“.

Þessi yfirlýsing er að hluta til rétt. Það verður hins vegar að benda á að eigendur sjávarjarða eru hlutaðeigendur í sjávarauðlindinni þar sem þeir eiga hluta af sjónum sem nefnist netlög . Hluti nytjastofna er því séreign eigenda sjávarjarða. Fram að því að lög um stjórn fiskveiða voru sett fyrir þremur áratugum þurftu eigendur sjávarjarða ekki leyfi íslenska ríkisins til að veiða í eign sinni, þ.e. netlögunum. Síðan þá hefur íslenska ríkið ekki öðlast neinn frekari eignarrétt í netlögum.

Í frumvarpi til stjórnarskipunarlaga 415. mál., sem byggir á tillögum stjórnlagaráðs að stjórnarskrá og kosið var um auðlindaákvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu, segir um þjóðareignina:

Til þjóðareignar skv. 1. mgr. teljast nytjastofnar og aðrar auðlindir hafs og hafsbotns innan íslenskrar lögsögu utan netlaga, vatn og önnur þau náttúrugæði sem ekki eru háð einkaeignarrétti, svo sem vatnsafl, jarðhiti og jarðefni í þjóðlendum. (feitletrun og undirstrikun frá bréfritara).
Eðlilegt er að samræmi sé í lögunum og ætti þá loka málsgrein í 1. gr. að vera svona: „Nytjastofnar á Íslandsmiðum, utan netlaga, eru sameiginleg og ævarandi eign íslensku þjóðarinnar. Íslenska ríkið veitir tilskilin leyfi og fer með og ráðstafar hvers kyns heimildum til nýtingar. Slík veiting eða ráðstöfun myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir þeim“.

Landhelgi miðast við landið sem hún er undan sem oft er í einkaeigu. Netlög eru innan landhelgi og fiskveiðilögsögu Íslands.

Í 4. gr. Orðskýringar eru ýmsar skýringar á hugtökum í sambandi við lögin. Þar eru m.a. skýringar á svæði svo sem fiskveiðilögsögu Íslands sem nær yfir netlög sem víða eru í einkaeigu.

Hér vantar skilgreiningu á hugtakinu netlög og að þar sé um að ræða séreignarrétt sjávarjarða til sjávarauðlindarinnar. Netlög eru skilgreind á tvo vegu, með fjarlægðarreglu (115m) og varðandi fiskveiðar gildir dýptarviðmið (6,88m) hvoru tveggja miðað við stórstraumsfjöru.

Eftirfarandi er umsögn um „Athugasemdir við lagafrumvarp þetta“.

Vísað er í 2. Meginefni frumvarpsins. Það er ekki sagður nema hálfur sannleikurinn í þessum athugasemdum. Það er verið að reyna að blekkja menn og er það ekki samboðið Alþingi Íslendinga.
Í 2.2 Yfirlýsing um sameiginlega og ævarandi eign þjóðarinnar segir:
„Elstu lög íslensk hafa að geyma ákvæði um frelsi manna til að nýta hafið. Í Jónsbók segir: Allir menn eigu at veiða fyrir utan netlög að ósekju.7Þannig hefur réttur til að nýta fiskstofnana við Ísland frá fornu fari verið almennur, þ.e. landsmönnum öllum var jafnheimilt að stunda fiskveiðar í sjó utan netlaga eignarjarða. Nýtingarrétturinn var þannig almannaréttur sem og rétturinn til að hafa atvinnu af fiskveiðum“.

Þessar athugasemdir eru mótsagnakenndar og þarfnast leiðréttingar. Nýtingarrétturinn var meira en almannaréttur, sem öll áhersla virðist vera lög á í þessu frumvarpi, hann var einnig séreignarréttur þeirra sem áttu netlögin.

Til staðfestingar á rétti þá vísar Alþingi í sömu lög og eigendur sjávarjarða vísa til með sinn rétt. Hér er um að ræða elstu lög sem hafa að geyma m.a. séreignarrétt landeigenda til sjávarauðlindarinnar, þ.e. netlög og nýtingarréttinn þar.

Stjórn Ses vísar til 65. gr. stjórnarskrárinnar um að allir skulu vera jafnir fyrir lögunum bæði almenningur svo og þeir sem eiga séreignarréttindi. Ennfremur er vísað í 14. gr. mannréttindasáttmála Evrópuráðsins og 2. gr. mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna um jafnræði og að ekki megi mismuna mönnum vegna eigna.

Svo segir: ”Varast ber þó að gera of mikið úr þessum rétti enda lagði hið íslenska landeigenda- og embættismannasamfélag miðalda margs kyns bönd á athafnafrelsi manna”.

Þarna er um skoðun viðkomandi á m.a. embættismannasamfélagi miðalda að ræða og kemur hún málinu á engann hátt við og ættu men að halda sig við staðreyndir eins og lög, stjórnarskrá og eignarrétt. Réttur þessi er samkvæmt fornum lagafyrirmælum og gat embættismannasamfélag miðalda ekki sett hvaða bönd sem er á rétt manna.

Vísað er í grein í Morgunblaðinu, 13. október 1996 um hæstaréttardóm, sem ekki síður er um útræðisrétt og atvinnufrelsi á sjávarjörðum: „Hæstiréttur hefur kveðið upp stefnumarkandi dóm um afskipti ríkisvaldsins af atvinnufrelsi manna. Er vísað í ákvæði stjórnarskrárinnar þess efnis, að ekki megi takmarka atvinnufrelsi nema almenningsþörf krefjist og þá með lagaboði. Á það er bent í dómnum, að löggjafarvaldið, Alþingi, geti ekki falið framkvæmdavaldinu óhefta ákvörðun, sem takmarkar atvinnufrelsið, og í löggjöfinni verði að vera settar meginreglur um takmörk og umfang þeirrar réttindaskerðingar, sem nauðsynleg er talin“.

Alþingismenn þurfa að hafa í huga að það er ekki hægt að svipta eigendur sjávarjarða eignarrétti sem lagafyrirmæli eru um. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur komið með það álit sitt að þessi réttur sé lögformlega til staðar. Alþingismenn minnist þess að þeir hafa unnið drengskaparheit að eignarréttarákvæði sjórnarskrár Íslands og ber því að virða hana.

Að öðru leyti er vísað í margar umsagnir og fylgigögn með þeim sem Samtök eigenda sjávarjarða hafa sent til nefndasviðs Alþingis.

Virðingarfyllst,
f.h Samtaka eigenda sjávarjarða

Ómar Antonsson, formaður. ses.netlog@gmail.com omar@litlahorn.is
Heimasíða Samtaka eigenda sjávarjarða er: www.ses.is

Meðfylgjandi:
1. Ses upplýsingar 12 erindi vegna sjávarjarða.
2. Ses atvinnuveganefnd glærur 31okt2011.
3. Umsögn vegan tillögu til þingsályktunar um skilgreiningu auðlinda, mál nr. 35.

Scroll to Top