Skýrsla starfshóps um endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða. Meðfylgjandi skjal frá SES fór inn í skýrsluna.
Í framhaldi af útkomu skýrslunar hefur LÍÚ snúið rækilega út úr orðinu „samningaleið“ . Sjónarmið SES var að það ættu að eiga sér stað samræður um þessi mál til að komast að niðurstöðu. Það var ekki verið að samþykkja einhverja „samningaleið“ sem LÍÚ hefur snúið sér í hag.
Sjónarmið Samtaka eigenda sjávarjarða
Í ársbyrjun 2010 fjölgaði í starfshópnum þegar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipaði Björn Erlendsson sem fulltrúa Samtaka eigenda sjávarjarða (SES) og tók hann þátt í starfi hópsins frá og með 6. fundi hans. Fyrir tilstilli Björns var ýmsum gögnum sem varða málstað samtakanna dreift á fundum starfshópsins. Ljóst var frá upphafi að áherslur og málflutningur Björns, fyrir hönd Samtaka eigenda sjávarjarða,var sjálfstætt mál sem þarfnaðist sérstakrar umfjöllunar og afgreiðslu. Á fundi þann 16. apríl 2010 lagði Björn Erlendsson fram tillögu, þar sem óskað var eftir því að skipuð yrði sérstök nefnd sem fengi það verkefni að komast að samkomulagi og skýra betur hver lögvarinn réttur sjávarjarða er m.t.t. eignarhalds á sjávarauðlindinni. Áður höfðu samtökin fundað með ráðherra og formanni starfshópsins vegna sama máls. Þessi beiðni var síðan ítrekuð með bréfi til ráðherra þann 8. júlí 2010.
Áhersluatriði sem samþykkt voru á aðalfundi SES eru eftirfarandi:
- Að fá útræðisrétt sjávarjarða virtan á ný og staðfestan í núgildandi lögum um stjórn fiskveiða.
- Að vinna að því að eignarréttindi sjávarjarða innan netlaga, sem og tiltöluleg eignarhlutdeild í sjávarauðlindinni í heild, verði virt og í heiðri höfð.
- Stjórn SES óskar hér með eftir því að skipuð verði nefnd til að skoða lögvarða eignarréttarlega stöðu sjávarjárða í sjávarauðlindinni. Það er álit stjórnar SES að hlutverk hennar verði að komast að samkomulagi og skýra betur hver þessi lögvarði réttur er, þannig að niðurstaðan nýtist við endurskoðun laga um fiskveiðistjórnunina. Ef ekki næst samkomulag um málið í nefndinni verði gerðardómur fenginn til að skera úr álitamálum.
Það er sjónarmið eigenda sjávarjarða að þeir séu einu aðilarnir sem eiga lögvarinn eignarrétt í sjávarauðlindinni samkvæmt lögum frá Alþingi og að sá réttur hafi verið staðfestur í áliti Mannréttindadómstóls Evrópu. Fram kemur í áliti Mannréttindadómstóls Evrópu að það sé niðurstaða dómsins að réttur kæranda til þess að stunda fiskveiðar í netlögum úti fyrir sjávarjörðinni sem um ræðir hafi lögformlega stofnað til „eignar“ í skilningi 1. gr. samningsviðauka 1.
Það er mat meirihluta starfshópsins að skynsamlegt og gagnlegt gæti reynst að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipaði slíka nefnd sem fengi það eina hlutverk að draga fram öll þau gögn sem kunna að varða þetta einstaka en um leið flókna mál, og vinna með þau á þann hátt að komast megi nær niðurstöðu í málinu. Tekið verði tillit til þeirrar niðurstöðu sem fæst við endurskoðun laga um stjórn fiskveiða.
Starfshópurinn taldi málefnið of sérhæft og umfangsmikið til að leiða það til lykta innan þessa hóps.