Lögbannsbeiðni SES á frumvarp sjávarútvegsráðherra.

Samtök eigenda sjávarjarða
Pósthólf 90
780 Hornafjörður

Til sýslumannsins í  Reykjavík,
Skógarhlíð 6,
105 Reykjavík.

Reykjavík, 20. maí 2011.

Lögbannsbeiðni

Lögbannsbeiðandi Stjórn Samtaka eigenda sjávarjarða, kt. 581001-2150, pósthólf 90, 780 Hornafirði, Ómar Antonsson, formaður, f.h. eigenda sjávarjarða leggur fram þessa beiðni um lögbann í samræmi við lög nr. 31/1990.

Lögbannskröfunni er beint að stjórnvaldi eða Jóni Bjarnasyni, sjávarútvegsráðherra vegna frumvarps til laga um stjórn fiskveiða nr. 1475, mál nr. 827.  Hér er því um að ræða lögbannsbeiðni vegna gerðar frumvarps en ekki vegna stjórnarathafnar eða stjórnsýsluákvörðunar.

Heimilisvarnarþing gerðarþola, sjávarútvegsráðherra, Jóns Bjarnasonar er í Reykjavík og er því málið lagt fyrir sýslumanninn í Reykjavík, sbr. 26. gr. laga um kyrrsetningu og lögbann nr. 31 frá 1990.

Gerðarbeiðandi vísar til þess að frumvarp þetta gengur alveg gegn og tekur ekkert tillit til stjórnarskrárvarinna eignarréttinda sjávarjarða sem fyrirmæli eru um í lögum, en sjávarjarðir eiga belti sjávar í sjávarauðlindinni, sjá sem dæmi  meðfylgjandi auglýsingu, og upplýsingar sem þar er að finna um lagafyrirmæli, frá 8. apríl 2011, sem er endurskoðun á auglýsingu samtakanna frá 3. október 2003, álit Mannréttindadómstóls Evrópu um eignarrétt sjávarjarða, úrtak úr fundargerð frá starfshópi um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða frá 7. fundi nefndarinnar 19. febrúar 2010 og minnisatriði vegna fundar með formanni stjórnarskrárnefndar 4. júlí 2005.

Marg ítrekað hefur íslenskum stjórnvöldum verið bent á þennan grundvallareignarrétt sjávarjaða, en hann hefur samt verið algjörlega hundsaður s.l. tæplega 3 áratugi.  Auk þess eiga sjávarjarðir atvinnurétt svo nefndan útræðisrétt.

Eigendur sjávarjaða eru því ekki jafnir öðrum borgurum þessa lands fyrir lögunum, sbr. 65. gr. stjórnarskrárinnar.

Netlög sjávarjarða eru þinglýst eign, í ljósi atvika er eignarréttur tvímælalaus, og enginn vafi leikur á því að eigendur sjávarjaðra eru réttir og löglegir eigendur en verða sviptir áfram eign sinni með væntanlegu frumvarpi.  Eigendur sjávarjarða hafa takmörkuð fjárráð, en vilja verja eignarrétt sinn.  Því er þess óskað að málinu verði lokið án tryggingar, sbr.  30. gr., 3. mgr. 26. gr, 3. mgr. 8. gr. og 3. mgr. 16. gr. 3. og 5. tl. laga um kyrrsetningu og lögbann nr. 31 frá 1990.  Allir mega sjá að brotið er gegn löglegum grundvallar mannréttindum eigenda sjávarjarða.

Um aðild málsins er það að segja, að með lögbannsbeiðni sinni leitast eigendur sjávarjaðra við að verja eignarrétt sinn, sem er þinglýstur og viðurkenndur í lögum og Mannréttindadómstóll Evrópuráðsins segir að eignarréttur þessi sé lögformlega í samræmi við eignarréttarákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu.  Eigendur sjávarjarða eiga því sjálfstæða hagsmuni, sem þeir eru bærir um að fylgja eftir með lögbannsbeiðni þessari.

Eigendur sjávarjarða eiga þau eignarréttindi sem nefnd eru netlög.  Rétti þessum hefur aldrei verið afsalað af eigendum sjávarjarða og látinn í hendur annarra.  Þessi réttur er forn og hefur löglega fylgt sjávarjörðum frá ómunatíð.   Eigendur sjávarjarða eru einu eigendur sjávarauðlindarinnar samkvæmt lögum.

Eigendur sjávarjarða hafa aldrei heimilað íslenskum stjórnvöldum að ráðstafa eign sinni á nokkurn hátt.  Slíkar ráðstafanir, hvort sem er með fyrri lögum eða með fyrrgreindu frumvarpi til laga eru því ólöglegar og heimildarlausar með öllu.

Athöfn gerðarþola brýtur gegn lögvörðum eignarrétti gerðarbeiðanda.  Augljóst er að um mikilvægan eignarrétt er að ræða á verðmætri hlutdeild í sjávarauðlindinni, sem ekki verður tekinn af eigendum nema almenningsþörf kerfjist þess, þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.  Á meðan löglegar heimildir og umboð eru ekki fyrir hendi krefjast eigendur sjávarjarða þess að fá að njóta eigna sinna í friði í samræmi við 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu, sem samþykkt var af Íslandi 18. maí 1954.

Lögbannsbeiðni þessari fylgja ljósrit af eignarheimildum, þ.e. upplýsingar um lagafyrirmæli um eignarrétt sjávarjarða o.fl.

Eignarréttur gerðarbeiðanda, eigenda sjávarjarða, er glöggur og skýr og sönnunargögn alveg tæmandi, sbr. m.a. álit Mannréttindadómstóls Evrópu. Gerðarþoli er að undirbúa lög með frumvarpi ólöglega og án heimilda.  Gerðarbeiðandi telur að sú staða sé í málinu, að hann eigi rétt á því, að hægt sé að ljúka málinu án tryggingar af hans hálfu.

Til upplýsinga eru send meðfylgjandi skjöl:

  1. Auglýsing, dags. 8. apríl 2011 (endurskoðun á auglýsingu frá 3. október 2003).
  2. Álit Mannréttindadómstóls Evrópu 2. desember 2008, mál nr. 40168/05.
  3. Úrtak úr fundargerð 7. fundar starfshóps um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða 19. febrúar 2010.
  4. Minnisatriði vegna fundar með formanni stjórnarskrárnefndar 4. júlí 2005.
  5. Bréf, dags. 22. janúar 2008 til Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna frá Samtökum eigenda sjávarjarða.
  6. Bréf, dags. 11. júní 2009 til sjávarútvegsnefndar Alþingis frá Samtökum eigenda sjávarjarða.
  7. Bréf, dags.  23. október 2009 frá lögmannstofunni Réttur til sjávarútvegsráðherra.
  8. Bréf, dags. 8. júlí  2010 til sjávarútvegsráðherra frá Samtökum eigenda sjávarjarða.
  9. Bréf, dags. 27. september 2010 til sjávarútvegsráðherra frá Samtökum eigenda sjávarjarða.
  10. Bréf, dags. 13. október 2010  til utanríkisráðherra frá Samtökum eigenda sjávarjarða.
  11. Svar við fyrirspurn  í 421. máli á Alþingi.
  12. Bréf, dags. 19. febrúar 2011 til fulltrúa Evrópusambandsins frá Samtökum eigenda sjávarjarða.
  13. Bréf, dags. 29. apríl 2011 til sjávarútvegsráðherra frá Samtökum eigenda sjávarjarða.

Heimasíða Samtaka eigenda sjávarjarða er:    www.ses.is

Virðingarfyllst,

Ómar Antonsson, formaður
f.h. stjórnar Samtaka eigenda sjávarjarða

Scroll to Top