Hlunnindi jarða og ýmsar aðgerðir sem takmarka nýtingu þeirra

Erindi á ráðstefnu Samtaka eigenda sjávarjarða 22. nóvember 2002
Árni Snæbjörnsson, hlunnindaráðunautur BÍ

Ágætu fundarmenn.

Í eftirfarandi erindi mun ég rekja stuttlega hver eru helstu hlunnindi jarða. Einnig verða tilgreind nokkur atriði þar sem réttur landeigenda til hlunnindanytja er takmarkaður m.a. með ýmsum aðgerðum löggjafans.

Hver á réttinn til hlunnindanytja

Hlunnindi jarða voru um aldir stór þáttur í afkomu fólks í byggðum landsins. Með búseturöskun og breyttum lífsháttum á síðari tímum breyttist þetta, sumt féll í gleymsku og annað hefur komið í staðinn, en margt hefur þó haldið gildi sínu. Sem lítið dæmi um breyttar áherslur má nefna að sportveiði margs konar hefur komið í stað þess að veiða sér til bjargar og jafnvel til að bjarga fólki frá hungri. Því má ekki gleyma að það sem í dag er talið til verðmæta getur verið einskis nýtt á morgun. Eins geta ný eða breytileg viðhorf eða aðstæður í þjóðfélaginu gert hlunnindi úr því sem áður var ekki talið eða mælt sem verðmæti. Þess vegna er ekki réttmætt að réttlæta ákveðnar nytjar með því að ganga á aðra þætti og hindra nýtingu þeirra eða jafnvel eyðileggja, því hugsanlega er þá verið að eyðileggja verðmæti framtíðarinnar. Þá hafa hlunnindanytjar alla tíð verið hinum dreifðu byggðum mjög mikilvægar og stuðlað að búsetujafnvægi.

Hér skal á það minnt að á Íslandi hafa gæði landsins alltaf fylgt einstökum jörðum eða afréttum. Því er við hæfi að rifja upp nokkur grundvallaratriði úr veiðitilskipuninni frá 1849, en hún byggir aftur á enn eldri lagaákvæðum. En hún ásamt ýmsum öðrum lagaákvæðum er sá lagagrunnur sem hlunnindanytjar byggja á.

Þar segir m.a. “Á Íslandi skulu héðan í frá jarðeigendur einir eiga dýraveiði…, (fiskur = dýr í þessum skilningi, innskot. ÁS) nema öðruvísi sé ákveðið í tilskipan þessari“. Einnig er í veiðitilskipuninni kveðið á um veiðiítök utan við landareign.

Ennfremur segir, “Á afréttum ,„ sem fleiri eiga saman, ber veiði þeim mönnum sem afrétt heyrir til. Á „almenningum er veiði öllum mönnum jafnheimil“. Að lokum skal vitnað í eftirfarandi; — “Á landi skulu veiði ráða rétt landamerki Jarðar hverrar. Ef jörð liggur að sjó, á eigandi veiði á haf út, 60 faðma frá stórstraumsfjörumáli, og eru það netlög hans“. En þess má geta að samkvæmt skilningi fjölda manna, þar á meðal margra lögfræðinga, afmarka netlögin landamerki jarðanna til sjávarins.

Að fenginni langri reynslu tel ég að full ástæða sé til þess að standa vörð um þau hlunnindi sem enn eru nytjuð og endurheimta önnur.

Hlunnindi jarða

Hér verður gefið stutt en ekki tæmandi yfirlit yfir helstu hlunnindi sem fylgja jörðum hér á landi, enda er hugtakið hlunnindi afar víðtækt og nær til fjölda atriða sem erfitt er að gefa tæmandi skil.

Þótt tilefni fundarins sé fyrst og fremst að fjalla um eina grein hlunninda — rétt sjávarjarða til að draga fisk úr sjó — þá er við hæfi að fjalla einnig um ýmis önnur hlunnindi.

Fjöldi jarða á Íslandi hefur margvísleg og eftirsóknarverð hlunnindi eins og eftirfarandi vísa frá nítjándu öld um Reykhóla í Reykhólasveit vitnar um.

„Söl, hrognkelsi, kræklingur
hvönn, egg, reyr, dúnn, melur
kál, ber, lundi, kolviður.
Kofa „ rjúpa, selur“.
                                                                                      Eiríkur Sveinsson, 1855

Helstu hlunnindi jarða eru:

  • Æðarvarp og dúntekja — 400 jarðir í öllum sýslum landsins nema í Rangárvallasýslu. Umtalsverð verðmæti eða um 200 milljónir á ári í gjaldeyri.
  • Selur — Landselur, útselur. Skinn, kjöt, hreifar, spik og selaskoðun. Vannýtt hlunnindi sem þó eru augljóslega á uppleið.
  • Reki — Smíðaviður, girðingarstaurar, eldiviður, skraut/listmunir. Úrvinnsla í vaxandi mæli.
  • Silungur — Veiðar í ám, vötnum, sjó, kvíar og lón. Vannýttir möguleikar.
  • Lax — Núorðið eru aðalverðmæti laxveiða bundin við stangveiði og veiði í net er að hverfa. Eldi í kvíum fer vaxandi. Lax og laxveiðar eru líklega þau hlunnindi sem gefa mestar tekjur?
  • Jarðhiti — Fjölþætt not.
  • Fjörunytjar — Söl, purpurahimna, marinkjarni (algeng til manneldis). Þang, þari (verksmiðjurekstur). Skeljar og skelfiskur, þ.e. kræklingur, kúfiskur/kúskel, kuðungur/beitukóngur og hörpuskel, ígulker. Strandjurtir, skarfakál, fjöruarfi sæhvönn, marhálmur, sjávarfitjungur, kattartunga, strandsauðlaukur, mura, melur.
  • Grasnytjar — Fjölþætt not. Fjallagrös, ber, sveppir, birki, fjalldrapi, hvönn, heilgrös, hálfgrös, heilsu- og lækningajurtir.
  • Fugla- og eggjataka — Lundi, langvía, stuttnefja, álka, teista, fýll, súla, skarfur, mávur, kría, rita, rjúpa, gæs, endur o.fl.
  • Útræði/heimræði — (Þ.e. aðstaðan og rétturinn til sjávarins innan og utan netlaga). Þorskur, ýsa, hrognkelsi o.s.frv. Hvalur, rostungur, flækingsselir o.fl.
  • Jarðefni — Sandur, möl, steinar, grjót, vikur/gjall, surtarbrandur, skrautsteinar o.fl.
  • Landsréttindi — Eigin not. Sala eða leiga vegna sumarhúsa, skógræktar, beitar, útivistar, ferðaþjónustu, hlunnindanytja eða annarra landnota.

En eins og fyrr greinir þá tilheyra öll hlunnindi sem eru innan landamerkja lögbýla, ásamt landsréttindum, viðkomandi jörð — eiganda/ábúanda.

Aðgerðir sem takmarka hlunnindanýtingu

Ég hef í vaxandi mæli orðið var við áhyggjur bænda og annarra landeigenda varðandi þá þróun, að ýmis hlunnindi eða annar réttur jarða til að nýta auðlindir sínar er ekki virtur eða er dreginn í efa.

Allt frá upphafi byggðar hafa fjölþættar sjávarnytjar fylgt jörðum á Íslandi. Bæði innan landamerkja jarðanna þar með talið innan netlaga sem og ítök og réttindi í almenningum. Með þéttbýlismyndun og atvinnuháttabreytingum hafa ýmsir ekki sætt sig við hina rótgrónu og gömlu eignarréttarreglu jarðanna og nytjar samkvæmt henni. Smátt og smátt hefur réttur jarðanna verið skertur (sjá dæmi síðar) og stundum með lagasetningu. Þetta hefur oft verið það lítið hverju sinni að ekki hefur náðst samstaða um andmæli eða beinar mótaðgerðir. Þá finnst mörgum erfitt að fá viðurkenningu yfirvalda á því að viðkomandi takmarkanir séu bótaskyldar frá samfélaginu eða öðrum. Þannig tapa landeigendur ýmsu af því sem áður var talið til verðmætra hlunninda.

Í þeim tilvikum þegar landeiganda hefur þótt á sér brotið og á það hefur reynt, hefur það gefist illa að fara í málaferli til þess að ná fram rétti landeigenda til hlunnindanytja. Lagaákvæði eru á sumum sviðum þannig að dómsniðurstöður hafa í reynd orðið bændum og öðrum landeigendum lítt hagstæðar. Þeir dómar, sem hafa fallið og tengjast hlunnindanytjum jarða, hafa e.t.v. skapað visst fordæmi sem gæti að óbreyttum lögum haft áhrif í öðrum málum af svipuðum toga. Því þyrfti að taka saman þá efnisþætti úr lögum, þar sem óvissa væri augljós varðandi réttindi landeigenda, og eins þá þætti sem menn væru óánægðir með og reyna síðan að fá lögum og tilheyrandi reglugerðum breytt.

Nokkur dæmi um atriði/tilvik þar sem gengið hefur verið á hlunnindarétt jarða.

Eins og fyrr segir þá finnst mörgum sem réttur jarða til hlunnindanytja hafi verið skertur frá því sem áður var og í mörgum tilvikum út fyrir það sem ásættanlegt er. Hér verða nefnd nokkur tiltæk dæmi um slíkt, þótt alls ekki sé um fullnaðarúttekt að ræða.

  • Þorskveiðar (og veiðar á kvótabundnum tegundum). Bann nema menn hafi veiðiheimild, jafnvel innan netlaga. Þó leyfilegt til eigin nota.
  • Hrognkelsaveiðar. Bann nema að hafa veiðiheimild, einnig innan netlaga. Leyfilegt að veiða til eigin nota. Rauðmagaveiðar leyfilegar. Veiðileyfishafar virða ekki netlög.
  • Selveiðar. Aðgerðir hringormanefndar á sínum tíma þegar veiðimenn voru hvattir til veiða hvar sem var og hvort sem um leyfi landeigenda var að ræða eða ekki. Að friðlýsing sellátra er ekki með sama hætti og áður. Minna á mál Kjartans Magnússonar, þurfa hlunnindabændur að fylgja því fordæmi?
  • Silungsveiði í sjó. Þar hefur réttur landeigenda verið þrengdur með reglugerðarákvæðum og skírskotun til arðmeiri hlunninda.
  • Ígulkeraveiðar og aðrar nytjar botndýra upp í landssteina. Án leyfis landeiganda.
  • Ferðaþjónusta innan landamerkja lögbýla, þar með talið innan netlaga. Aðilar í ferðaþjónustu leita stundum ekki leyfis landeigenda þegar ferðafólki beint inn í lönd bænda hvort sem er á sjó eða landi. Þetta hefur valdið ófriði á varpfuglum, skemmt eða eyðilagt sellátur, spillt gróðurfari o.s.frv.
  • Friðlýsingarmörk æðarvarps ekki virt. En þau ná tímabundið 250m út frá stórstraumsfjöruborði. Oft er óheppileg umferð eða netaveiði innan þessara marka í óþökk landeigenda.
  • Land undir ýmsar framkvæmdir án eða fyrir afar litlar bætur.
  • Efnistaka úr landi fyrir litlar eða jafnvel engar bætur. Lögboðnar bætur ekki alltaf greiddar, þ.e. bændum eða landeigendum ekki alltaf kynntur réttur sinn og þeir eru einnig varnarlausir gagnvart vanskilum (gjaldþroti) verktaka. Einokun verktaka við grjót- eða malarnám. Mismunun Vegagerðarinnar og fleiri aðila á því hvort um s.k. markaðssvæði er að ræða eða ekki.
  • Skipuleg fæling fiska út fyrir netlög og þeir síðan veiddir.
  • Ágangur á fjörur og lönd í nágrenni þéttbýlis og á ferðamannaslóðum.
  • Framkvæmdir sem óbeint draga úr hlunnindum, þ.e. vegur færður til, vatni veitt annað, vatnsmiðlun.
  • Fuglaveiðar innan landamerkja lögbýla án leyfa.
  • Friðun rjúpu á tilgreindum svæðum, en ekki annar staðar (Landnám Ingólfs). Án samráðs við landeigendur og án bóta.
  • Friðlýsing eða sérstök friðun svæða sem takmarka þar með nytjar eða hafa bein áhrif á nytjar og framkvæmdir þeim tengdum (friðun vargdýra, bann við efnistöku, takmörkun verklegra framkvæmda o.fl.).
  • Kröfugerð fulltrúa ríkisins í þjóðlendumálinu er öllum kunn. Við þá kröfugerð eru bændur og landeigendur mjög ósáttir og finnst að með henni sé gróflega gengið á fornan rétt lögbýla og annarra landa í einkaeign.

Að lokum

Framangreind upptalning, er orðin býsna löng og nærri árlega lengist þessi listi. Því er rétt að nefna dæmi um víðtæka hlunnindanýtingu á jörðum þar sem full sátt er um nytjarnar, en hér er átt við þangskurð innan netlaga á Breiðafirði. Þótt fjölmargir aðilar komi að þessum umfangsmiklu nytjum, þá byggist sáttin á því að alltaf er leitað leyfis og samráðs við landeigendur.

Þá er það býsna merkilegt að á sama tíma og eðlilegt er talið að fá leyfi landeiganda til þangskurðar, þá eiga t.d. hrognkelsa- eða fuglaveiðar sér stað innan sama svæðis án leyfis og virðist sem ýmsir geri greinarmun þar á.

Við eigum víðtæk og verðmæt hlunnindi sem í eitt þúsund ár hafa tilheyrt jörðum þ.e. landeiganda eða ábúanda. Á sama tíma og mikilvægt er að viðhalda þeim auðlindum sem í náttúrunni felast og nýta þær á skynsamlegan hátt, þá þarf jafnframt að tryggja nytjarétt þeirra sem hann eiga. Bændum og öðum landeigendum er best treystandi í þessum efnum.

Upprunaskjal.

Scroll to Top