Frétt í RUV – Niðurstaða Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna

Ríkisútvarpið frétt 17. janúar 2008, kl. 16:00.

Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður samtaka eiganda sjávarjarða, segir að niðurstaða Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um óréttlæti í íslenska kvótakerfinu styðji málflutning umbjóðenda sinna.

Þeir reka nú mál fyrir mannréttindadómstóli Evrópu eftir að jarðeigandi var dæmdur til að greiða sektir og sæta því að grásleppuhrogn voru gerð upptæk þótt veiðarnar hefðu verið stundaðar innan netalaga jarðar hans. Svokölluð netalög ná hundrað og fimmtán metra út í sjó og hafa margir eigendur sjávarjarða talið að sér væri heimilt að róa til fiskjar og leggja net innan netalaganna án kvóta.

Íslenskir dómstólar komust hinsvegar að þeirri niðurstöðu að til þess þyrftu þeir kvóta. Ragnar telur að umfjöllun og niðurstaða Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna styrkji málflutning eigenda sjávarjarða enda komi þar fram að undirstöður kvótakerfisins séu óréttlátar og andstæðar jafnréttisreglu þjóðarréttarins.

Scroll to Top