Bréf til ráðherra vegna stjórnarskrárvarinna eignarréttinda eigenda sjávarjarða á Íslandi

Hr. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra
og
Hr. Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

 

Erindi: Vegna stjórnarskrárvarinna eignarréttinda eigenda sjávarjarða á Íslandi

Undirritaður er lögmaður Samtaka eigenda sjávarjarða, sem er eins og nafnið gefur til kynna samtök manna sem eru eigendur sjávarjarða í kringum Ísland. Sjávarjarðir kringum landið eru skráðar 2.240 talsins, þar af eru jarðir þar sem útræði er skilgreint sem hlunnindi rúmlega 1.200 og því er ljóst að um mjög stóran hóp hagsmunaaðila er að ræða. Markmið samtakanna er að fá lögbundinn útræðisrétt sjávarjarða virtan á ný og að stjórnarskrárvarin eignarréttindi innan netlaga, sem og að tiltöluleg eignarhlutdeild í sjávarauðlindinni í heild, verði virt og í heiðri höfð. Þessi réttur hefur árum saman verið fótum troðinn, án þess að eigendum hafi svo mikið sem verið boðnar bætur fyrir þá skerðingu sem hefur verið gerð á þessum stjórnarskrárvörðu eignarréttindum þeirra, sem er þess fyrir utan til hagsbóta fyrir utanaðkomandi hóp manna og lögaðila. Slíkar takmarkanir skal ekki framkvæma bótalaust, og þá eigi án þess að fullt verð komi fyrir skerðinguna. Fyrir utan að njóta verndar 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar sem bein eignarréttindi, hefur að auki verið staðfest að eignarréttur eigenda sjávarjarða til netlaga nýtur verndar 1. gr. 1. viðauka Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Um þetta atriði var fjallað í áliti Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Björns Guðna Guðjónssonar nr. 40169/05 gegn íslenska ríkinu.

Umbjóðendur mínir hafa árum saman reynt að fá stjórnvöld að borðinu til að finna leiðréttingu á þessu máli. Haldinn hefur verið fjöldi funda um málið, ítrekaðar bréfaskriftir, auk þess sem eigendur sjávarjarða höfðu fulltrúa í hinni svokölluðu sáttanefnd í sjávarútvegi vegna hagsmuna þeirra. Svo virðist sem hingað til hafi ekki verið neinn raunverulegur áhugi á því af hálfu stjórnvalda að finna leiðréttingu á málinu enda hefur það ætíð dagað uppi í nákvæmlega sömu stöðu, óleyst. Nú er þó svo komið, að ekki verður lengur við það unað að skýlaus réttur umbjóðenda minna verði hundsaður. Leiða þarf mál þetta til lykta í eitt skipti fyrir öll og það mun verða gert með einum eða öðrum hætti.

Þess er því hér með óskað að þið, f.h. ríkisstjórnar Íslands, hlutist til um að hafnar verði viðræður við undirritaðan, f.h. Samtaka eigenda sjávarjarða, sem hafa það að markmiði að finna réttláta og skynsamlega leiðréttingu á málinu.

Þess er óskað að erindi þessu verði svarað eins fljótt og auðið er, en eigi síðar en þann 8. janúar 2016. Berist ekki svar við bréfi þessu innan þess tíma, verður litið svo á að stjórnvöld hafni og hafi ekki áhuga á viðræðum um leiðréttingu málsins.

Reykjavík, 14.12.2015

Virðingarfyllst,

___________________________________

Þórður Már Jónsson hdl.
Hátún 6a | 105 Reykjavík
Sími 693 6666 | tmj@tmj.is

Scroll to Top