1990–91. — 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. — 328 . mál.
Nd.
578. Frumvarp til laga
um breyting á lögum nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði.
Flm.: Jón Sæmundur Sigurjónsson, Ragnar Arnalds……..
(Innskot ritstjóra SES) Hér að neðan er greinargerðin með þessu frumvarpi, skýrir hún margt í þankagangi manna.
Greinargerð.
Allt frá fyrstu öldum byggðar á Íslandi hafa það verið lög hér á landi að landeigendur við sjó eigi einkarétt til veiða fyrir sínu landi. Í lögum frá þjóðveldistímanum segir að almenningur megi aðeins veiða fyrir utan netlög. ,,En það eru netlög yst er 20 möskva djúp selanót nær til botns á fjöru og komi þá flár upp.„ Þetta er óbreytt í Jónsbókarlögum og var þetta lagaákvæði Jónsbókar í gildi allt fram um miðja 19. öld. Það mun svo hafa verið með tilskipun konungs um veiði á Íslandi frá 20. júní 1849 að stærð netlaga var ákveðin tiltekin fjarlægð út frá stórstraumsfjöruborði, án tillits til aðdýpis, 60 faðmar, sbr. 3. gr. tilskipunarinnar. Þessu lagaákvæði, um að hverri jörð fylgi réttur til veiða 60 faðma út frá stórstraumsfjöruborði, hefur löggjafinn ekki enn þá séð sér fært að breyta. Hins vegar hafa á seinni árum verið hafðir í frammi ýmsir tilburðir til þess að skerða þennan veiðirétt landeigenda í netlögunum. Þær aðgerðir hafa oft verið réttlættar með því að hagsmunir almennings krefðust þess að svo væri gjört. Þessar skerðingar hefjast fyrst árið 1933. Þá ganga í gildi lög sem banna laxveiði í sjó. Þó fengu nokkrir bændur, er þessar veiðar höfðu stundað, að halda þeim áfram en aðrir fengu einhverjar bætur fyrir að hætta þessum veiðiskap. Þar sem laxveiði hafði ekki verið talin til tekna misstu landeigendur laxveiðiréttinn um alla framtíð. Er þetta upphaf þess sjónarmiðs margra þeirra er ráðið hafa veiðimálum að veiðiréttur falli niður ef veiði er ekki stunduð á jörðinni. Varla getur það staðist að réttindi, sem fylgt hafa jörð um margar aldir, falli niður þó þau hafi ekki verið notuð um tíma. Flestum bændum er það mikið áhugamál að réttindi jarða þeirra séu í engu skert og á það ekki síst við um hlunnindi sem fylgt hafa jörðunum frá ómunatíð. Lögunum um bann við laxveiði í sjó var á sínum tíma ekki svo mjög mótmælt þar sem fáir stunduðu þá veiði. Suma mun þó hafa grunað að þetta væri aðeins upphaf frekari skerðingar. Það kom líka á daginn því að árið 1970 var bannað með lögum að veiða silung í sjó hálfa vikuna, þ.e. frá föstudagskvöldi til þriðjudagsmorguns. Þeir sem stóðu að þessari lagasetningu og þar með skerðingu veiðiréttar sögðu þetta gert til þess að hindra ofveiði silungsstofnsins og einnig til að minnka líkur á ólöglegri laxveiði í sjó. Landeigendur við sjóinn álíta á hinn bóginn þetta helgarbann gróflega eignaupptöku og að það geti varla staðist vegna ákvæðis 67. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttar.
Í lögunum frá 1970 var landbúnaðarráðherra heimilað að setja reglur um silungsveiði í sjó. Þessa heimild nýtti ráðherra sér þó ekki fyrr en 2. ágúst 1989. Þá voru settar reglur sem veiðiréttareigendur við sjóinn töldu mjög óhagstæðar sínum hagsmunum. Var reglunum harðlega mótmælt og mótmælalistar með nöfnum 347 manna, sem flestir eru búsettir á Norðurlandi og eiga veiðirétt í sjó, afhentir landbúnaðarráðherra. Þessar reglur voru að margra áliti nokkuð fljótfærnislega gerðar og sum ákvæði þeirra óskýr. Það ásamt mótmælum landeigenda við sjóinn mun hafa orðið til þess að ráðherra sá sér ekki annað fært en nema reglurnar úr gildi 4. maí 1990. Sama dag voru settar aðrar reglur um sama efni. Þær voru að vísu heldur skárri en þær fyrri en þrengja þó svo mjög veiðimöguleika í netlögunum að mönnum, sem þessa veiði stunda, finnst hart við þær að búa. Einkum er megn óánægja með það að mega ekki stunda veiði í öllum netlögunum. Þá er og gerð netanna, sem nota má, og útbúnaður þeirra þyrnir í augum margra.
Hver skyldi nú vera ástæðan fyrir því að löggjafinn hefur lagt svo mikið kapp á að rýra möguleika til silungsveiði í sjó?
Fyrst er þess að geta að löngum hafa þeir sem átt hafa veiðirétt í ánum verið hræddir um að strandbúar veiddu fisk sem annars mundi ganga í árnar. Áreigendur hafa, einkum á síðari árum, haft vel skipulögð samtök og mikið fjármagn er þeim hefur hlotnast með sölu á veiðileyfum sem stöðugt hafa hækkað í verði. Þessir menn hafa ekki heldur þurft að greiða virðisaukaskatt af seldum veiðileyfum og búmark þeirra bænda, sem hafa miklar tekjur af laxveiðihlunnindum, hefur ekki verið skert. Á hinn bóginn hafa þeir sem veiðirétt eiga með ströndum landsins verið sundraðir og forustulitlir og skort fé.
Frá sjónarmiði margra veiðiréttareigenda við sjóinn er nú mælirinn fullur og ekki um annað að ræða en reyna að endurheimta töpuð réttindi.
Svo er nú komið mjög víða við strendur landsins að silungurinn er það eina sem hægt er að veiða í netlögunum. Hrognkelsin eru mjög víða hætt að ganga upp að ströndinni þar sem áður var góð veiði. Selveiði er tilgangslaust að stunda vegna aðgerða ofstækissamtaka úti í löndum sem gert hafa selskinnin verðlaus.
Eins og öllum er kunnugt hafa miklir erfiðleikar gengið yfir íslenskan landbúnað síðari árin, aðallega vegna sölutregðu og verðfalls á afurðum hans erlendis. Vegna þess hefur orðið að skerða mikið framleiðslurétt bænda. Reynt hefur verið að koma á fót nýjum búgreinum, svo sem loðdýrarækt og fiskeldi, og voru nokkrar vonir bundnar við að sú starfsemi gæti að einhverju leyti komið í stað hinna hefðbundnu greina. Skemmst er frá því að segja að þessi starfsemi hefur algerlega brugðist vonum manna.
Betur hefur tekist til með þjónustu við ferðamenn og aukna nýtingu hlunninda. Þetta hvort tveggja lofar góðu þó enn sé í smáum stíl.
Þetta frumvarp, ef að lögum verðum, gæti orðið þessum tveim síðarnefndu greinum til nokkurs framdráttar. Má í því sambandi benda á þann möguleika að bændur við sjóinn kæmu sér upp sumarhúsum sem þeir síðan leigðu ferðamönnum og fylgdi veiði í netlögunum, t.d. í eitt net. Með hliðsjón af þessum möguleika er í þessu frumvarpi lagt til að veiðitími í netlögunum verði lengdur frá því sem nú er.
Varðandi f-lið 6. gr. frumvarpsins (nýja 32. gr.), sem er um löggæslu, skal vísað til skýringa á einstökum greinum er því fylgja. Eins og þar kemur fram hefur það tíðkast nokkuð á síðustu árum að veiðifélög við ár ráði til sín veiðieftirlitsmenn og fái landbúnaðarráðuneytið til að gefa út fyrir þá starfsleyfi sem ná langt út fyrir vatnasvæði ánna. Ekki verður annað séð en þessi starfsleyfi séu háð því skilyrði að veiðifélagið greiði kaup eftirlitsmanna að fullu. Það samrýmist illa réttlætiskennd flestra Íslendinga að fjársterkir aðilar geti þannig í skjóli fjármagns keypt sér það sem þeir sjálfir kalla löggæslu. Ekki þarf að útskýra frekar að hér þarf að stemma á að ósi.
Ragnar Arnalds er meðflutningsmaður að þessu frumvarpi þar sem hann hefur lagt áherslu á að réttarstaða þeirra, sem eiga land að sjó, þurfi að vera skýrari en hefur þó fyrirvara um viss atriði í frumvarpinu og greinargerð þess, enda gafst skammur tími til að samræma sjónarmið áður en frumvarpið var lagt fram.