Athugasemdir SES við frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 58/1998

Samtök eigenda sjávarjarða
Pósthólf 90
780 Höfn í Hornafirði
ses.netlog@gmail.com

Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8 – 10
101 Reykjavík.

 

Reykjavík, 5. desember 2019

Efni: Athugasemdir SES við frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 58/1998

Samtök eigenda sjávarjarða sem eru fulltrúar eigenda um 2300 sjávarjarða (hér eftir nefnt „SES) hafa kynnt sér frumvarp til laga um breytingu á lögum um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, nr. 58/1998 (leyfisveitingar, málsmeðferð, endurupptaka o.fl.), þingskjal 360 – 317. mál, frá forsætisráðherra (stjórnarfrumvarp).

Samtökin gera alvarlegar athugasemdir við 5. gr. frumvarpsins sem heimilar óbyggðanefnd að bæta viðbótarþrepi við málsmeðferð í tengslum við landsvæði utan strandlengju meginlandsins og almenninga stöðuvatna.

Almennt um frumvarpið

Í frumvarpinu er lagðar til 6 breytingar á núverandi lögum um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, nr. 58/1998. Ein breytingin snýr að málsmeðferðarreglum óbyggðanefndar í tengslum við úrlausn um landsvæði utan strandlengju meginlandsins, sbr. 5. gr. frumvarpsins. SES telur að eitthvað hafi misfarist við gerð frumvarpsins, því í lagafrumvarpinu er skilgreining á hugtakinu netlög röng. Er ljóst að þau sem komu að gerð frumvarpsins hafi gert misstök þar sem fjallað er um netlög í greinargerð með frumvarpinu. Ber að leiðrétta skilgreininguna á netlögum svo frumvarpið geti orðið að lögum.

Það er mat SES að frumvarpið í því formi sem það er núna brýtur í bága við 2. kapítula rekabálks Jónsbókar og 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Af framangreindu má ljóst vera að frumvarpið er ekki í samræmi við stjórnarskrá eins og fullyrt er í kafla 4. í greinargerð með frumvarpinu, en þar segja höfundar frumvarpsins að „gætt hefur verið að ákvæðum 70. gr. stjórnarskrárinnar um réttláta málsmeðferð og 72. gr. stjórnarskrárinnar um vernd eignarréttar við útfærslu á ákvæði um breytta málsmeðferð vegna landsvæða utan strandlengju meginlandsins og almenninga stöðuvatna.“ Eins og rakið verður síðar þá stenst þessi fullyrðing enga skoðun.

 SES telur mikilvægt að vandað sé til verka og að breyting á lögum nr. 58/1998 verði ekki til þess að brjóta á stjórnarskrárbundum rétti landeigenda sjávarjarða. SES minnir höfunda frumvarpsins á að framangreint ákvæði 2. kapítula rekabálks Jónsbókar hefur aldrei verið fellt úr gildi og hefur það því fullt gildi í íslenskum rétti. Það er því nauðsynlegt að leiðrétta umfjöllun um 5. gr. framvarpsins er varðar afmörkun netlaga sjávarjarða.  

Athugasemdir við 5. gr. frumvarpsins:

Í 5. gr. segir:

Á eftir 10. gr. laganna kemur ný grein, 10. gr. a, svohljóðandi:
Þegar nefndin tekur landsvæði utan strandlengju meginlandsins til meðferðar er henni heimilt að skora á þá sem kalla til eignarréttinda þar að lýsa réttindum sínum fyrir nefndinni innan tiltekins frests, áður en kröfum ríkisins um þjóðlendur er lýst. Tilkynning um áskorunina skal birt í Lögbirtingablaði og veittur a.m.k. þriggja mánaða frestur til að lýsa réttindum. Eignarréttindi falla ekki niður þótt rétthafar láti hjá líða að lýsa þeim á þessu stigi málsmeðferðarinnar heldur geta þeir eftir sem áður lýst kröfum síðar, sbr. 2. mgr. 10. gr. Að fresti skv. 1. málsl. loknum afhendir óbyggðanefnd hlutaðeigandi ráðherra þau erindi sem borist hafa og veitir honum frest, sbr. 1. mgr. 10. gr., til að lýsa kröfum ríkisins um þjóðlendur. Að öðru leyti fer um málsmeðferð skv. 10. gr.
    Nefndin getur jafnframt ákveðið málsmeðferð skv. 1. mgr. vegna almenninga stöðuvatna, sbr. lokamálsgrein 10. gr.

Í greinargerð sem fylgir frumvarpinu segir m.a. um 5. gr.: „Þá er mælt fyrir um það í 1. mgr. 1. gr. laga um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, nr. 73/1990, að íslenska ríkið sé eigandi allra auðlinda á, í eða undir hafsbotninum utan netlaga og svo langt til hafs sem fullveldisréttur Íslands nær. Skv. 3. mgr. 1. gr. sömu laga, sbr. 1. gr. laga nr. 101/2000, merkir hugtakið netlög í lögunum sjávarbotn 115 metra út frá stórstraumsfjöruborði landareignar. Það er einnig í samræmi við skilgreiningu sama hugtaks í öðrum lögum, sbr. t.d. 3. mgr. 2. gr. laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, nr. 57/1998, 18. mgr. 2. gr. jarðalaga, nr. 81/2004, og 30. tölul. 3. gr. laga um lax- og silungsveiði, nr. 61/2006. Af þessu leiðir að allt land innan íslenskrar landhelgi, sem er ofansjávar á stórstraumsfjöru, getur verið andlag eignarréttinda og þá annaðhvort eignarland eða þjóðlenda í skilningi laga nr. 58/1998. Í því tilliti skiptir ekki máli hvort um er að ræða eyjar, sker, hólma, dranga eða aðrar landfræðilegar einingar sem uppfylla framangreind skilyrði. Því er farin sú leið hér að vísa einfaldlega til þessara svæða sem landsvæða utan strandlengju meginlandsins.“

SES gerir verulega athugasemd við framangreinda skilgreiningu á hugtakinu netlög. Af einhverjum ástæðum kjósa höfundar frumvarpsins að fjalla um sumar réttarheimildir íslensks réttar en aðrar ekki. Það vekur furðu að ekki skuli vera fjallað um ákvæði Jónsbókar, einnar áhrifamestu bókar í réttarsögu Íslendinga, þegar kemur að skilgreiningu á hugtakinu netlög.

Í umfjöllun um 5. gr. frumvarpsins segir að miða eigi landamerki sjávarjarða við fjarlægðarreglu eða 115 metra út frá stórstraumsfjöruborði. Eins og áður segir er þetta alls ekki rétt og ber að leiðrétta. Um afmörkun netlaga er fjallað um í 2. kapítula rekabálks Jónsbókar og þar eru netlög skilgreind á eftirfarandi hátt:

„En þat eru netlög utast er selnet stendr grunn .XX. möskva djúpt at fjöru ok koma þá upp ór sjá“

Líkt og ráðið verður af orðum ákvæðisins miðast netlög við ákveðna dýpt sjávar en ekki fjarlægð frá landi. Netlög fylgja eyjum, hólmum og skerjum jafnt og fastalandi, enda séu þeir háðir einkaeignarétti landeiganda. Efnislega má finna sömu reglur í landbrigðaþætti Staðarhólsbókar en þar segir: „Allir menn eiga að veiða fyrir utan netlög að ósekju ef vilja. Þar eru netlög yst í sæ er selnt stendur grunn, tuttugu möskva djúpt af landi eða af skeri og komi flar upp að fjöru, þá er þinur stendur grunn. En fyrir það utan á hver að veiða að ósekju ef vill.“ (Grágás II, bls. 514).

SES furðar sig á vinnubrögðum þeirra sem standa að baki frumvarpinu. Í raun er verið að fara gegn gildandi rétti Jónsbókarlaga frá 1281 um dýptarviðmiðið 4 faðmar eða 6,88 metra út frá stórstraumsfjöruborði sem miða skal við og eru enn í fullu gildi. Þetta hljóta höfundar frumvarpsins að vita. Í uppsiglingu er bótalaus eignaupptaka af hálfu ríkisins, sem er með öllu óheimil og kemur sérlega illa við landeigendur sjávarjarða, sérstaklega í og við Breiðafjörð, þar sem munur á flóði og fjöru getur verið allt að 6 metrar þegar stórstreymt er og mælt frá þeirri fjöru út á 6,88 metra dýpi er stórt svæði sem getur teigt sig yfir 1000 metra frá fjöruborði. Ef það er vilji löggjafans að skerða eignarrétt landeigenda í netlögum eða að eigna íslenska ríkinu netlög sjávarjarða almennt þá ber að fara aðrar leiðir en að skilgreina vísvitandi rangt hugtök og réttindi landeigenda.

SES vísar til eignarréttar sjávarjarða á netlögum, sem er belti sjávar utan stórstraumsfjöruborðs næst landi. Eignarréttur þessi er friðhelgur, samkvæmt Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Í þessu samhengi er vísað til meðfylgjandi skjals: „Sjávarjarðir. Fundur með atvinnuveganefnd 31. október 2011“. Jafnframt er vísað til álits Skúla Magnússonar, sem unnið var að beiðni nefndar um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða í september 2001 og ber heitið „Um stjórnskipulega vernd fiskveiðiréttar sjávarjarða“. Í kafla 2.3 sem fjallar um afmörkun netlaga segir Skúli að ákvæði Jónsbókar hafi aldrei verið fellt úr gildi, hvorki að því er varðar fiskveiðirétt í netlögum né skilgreiningu á netlögunum sjálfum.“ Þrátt fyrir þessa að ákvæði Jónsbókar hefðu fullt gildi það var það mat Einars Arnórssonar að rétt væri að miða ákvörðun netlaga samkvæmt Jónsbók, að því leyti sem hún taldist enn gilda, einnig við 60 faðma í samræmi við veiðitilskipunina frá 1849. Að sögn Skúla hefur þessari skoðun nú verið hnekkt með dómum Hæstaréttar Íslands í dómasafni 1996, bls. 2518, bls. 2525 og bls. 2532.

Á bls. 2520 í dómasafni Hæstaréttar segir þannig eftirfarandi um afmörkun netlaga með hliðsjón af fiskveiðum:

„Með veiðitilskipun 1849 var tekin upp ný afmörkun netlaga á þann veg, að þau skyldu miðast við tiltekna fjarlægð frá stórstraumsfjörumáli. Innan þeirra, svo markaðra, skyldi fasteignareigandi einn eiga tilteknar heimildir, sbr. 1. gr. tilskipunarinnar. Með löggjöf eftir það hefur fasteignareigendum ekki með ótvíræðum hætti verið veittur einkaréttur til veiði sjávarfiska í netlögum, sem miðist við fjarlægð frá stórstraumsfjörumáli. Ákvæði 2. kapítula rekabálks Jónsbókar um afmörkun netlaga, sem miðast við sjávardýpi, hafa heldur ekki verið felld úr gildi með ákvörðun löggjafans, þótt þau hafi hins vegar ekki verið tekin upp í útgáfu lagasafns 1919 og eftir það. Alls er óvíst um, hvert sjávardýpi er á þeim stað, er ákærði lagði net sín. Ber með vísan til 45. gr. laga nr. 19/1991 að sýkna hann af broti á 3. gr. tilskipunar um veiði á Íslandi frá 1849, sbr. 11. gr. sömu tilskipunar.“

Það er mat Skúla að samkvæmt framangreindum dómi Hæstaréttar sé ótvírætt að við ákvörðun netlaga með hliðsjón af fiskveiðirétti landeiganda ber að miða við dýptarreglu Jónsbókar, en ekki fjarlægðarreglu veiðitilskipunarinnar og síðari laga. Hvað varðar ýmis önnur mikilvæg réttindi landeiganda innan netlaga gildir hins vegar almennt reglan um 115 metra frá stórstraumsfjörumáli, sbr. bls. 7 í áliti Skúla.

Páll Vídalín lögmaður (1667-1727) segist hafa lesið ýmis Jónsbókarhandrit sem virðast hafa verið frá fyrri hluta 16. aldar. Framangreint ákvæði 2. kapítula rekabálks Jónsbókar hljóðar á einum stað þannig: „Þat eru netlög utarst, er selnet stendur grunn 20 möskva djúp að fjöru“. Í öðru handriti stendur eftirfarandi: „þat eru netlög utaz, er selnót stendur grunn 20 möskva djúp ath fjöru, oc komi þá flár uppúr sjó, þat er fjögra faðma djúp“.

Af þessu er augljóst að menn á 16. öld höfðu tekið upp hagnýt dýptarmál við ákvörðun netlaga, sem samsvaraði hinu formlega ákvæði Jónsbókar, þ.e. mælt dýptina með lóði. Páll Vídalín lögmaður segir skýrt að þessar 12 álnir eru „þessa dags alin“ og vorra tíma alin“, nánar tiltekið hamborgaralinin, og dýptin þá (57,3 cm x 12 =)  6,88 m. Málfaðmadæmi Páls gefur (57,3 x 13=) 7,45 m.  Í heild þýðir þetta sð ystu mörk netlaga skv. Jónsbók og Grágás er við 7 m dýpi á stórstraumsfjöru.

Að öllu framangreindu virtu er augljóst að miða netlög við dýptarviðmiðið. Skilgreining Páls Vídalín um dýpt selneta annað hvort 4 faðmar eða 12-13 álnir er það viðmið sem á að nota. Þar sem það er á milli 6,88 m og 7,45 m ber að miða við ítrustu mörkin eða 7,45 metra. 

Nú er ljóst að mannréttindadómstóll Evrópu lítur svo á að netlög séu eign í skilningi 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu. Alþingi ber að virða þennan eignarrétt landeigenda.

Alþingi hefur hvorki umboð né heimild til að ráðstafa eignarrétti sjávarjarða. Alþingi ber að fara að lögum og virða eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og skilgreiningu gildandi réttar um netlög.

Virðingarfyllst,

f.h. Samtaka eigenda sjávarjarða
Bjarni M. Jónsson

Scroll to Top