Svar Jóns Bjarnasonar við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur

Svar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur um réttindi sjávarjarða.

Fyrirspurnin hljóðar svo:

1.      Verður útræðisréttur sjávarjarða virtur og staðfestur við þá endurskoðun laga um stjórn fiskveiða sem núverandi ríkisstjórn hyggst ráðast í?
2.      Verða eignarréttindi sjávarjarða innan netlaga tryggð við endurskoðunina?

Tvær einfaldar spurningar voru lagðar fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á Alþingi. Þessu hefði mátt svara með einföldu;  já auðvitað,  við þingmenn förum auðvitað og ávallt eftir gildandi lögum við okkar vinnu í þjónustu við landsmenn.

En lesið endilega svarið.

Eigendur sjávarjarða eru búnir að berjast fyrir því í yfir 15 ár að lögvarin réttindi þeirra séu virt og í heiðri höfð, án árangurs. Þessi barátta hefur verið við stjórnkerfið sem setti „Kvótalögin“. Ráðherrar, alþingismenn, ráðuneytisstjórar og aðrir mögulegir og ómögulegir hafa verið upplýstir um þessi mál og geta því ekki skálkað í skjóli fávisku.

Það er verið að brjóta lög á eigendum sjávarjarða og Alþingi er bara alveg sama.

139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 919  —  421. mál.
Svar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur um réttindi sjávarjarða.

Fyrirspurnin hljóðar svo:
1.      Verður útræðisréttur sjávarjarða virtur og staðfestur við þá endurskoðun laga um stjórn fiskveiða sem núverandi ríkisstjórn hyggst ráðast í?
2.     Verða eignarréttindi sjávarjarða innan netlaga tryggð við endurskoðunina?

Hentugt er að svara þessari fyrirspurn í einu lagi. Í upphafi er rétt að gera nokkra grein fyrir þeim réttindum sem hér er um að tefla. Í fornlögum segir að svo skuli almenningar vera sem að fornu hafa verið, bæði hið efra og hið ytra. Veiðar í svonefndum hafalmenningum, þ.e. í sjó utan netlaga, voru um aldir taldar frjálsar. Á hinn bóginn átti landeigandi einn alla veiði í netlögum.Sjá neðanmálsgrein 1 1 Á 20. öld voru reistar margvíslegar takmarkanir við veiðum innan fiskveiðilandhelgi Íslands, sem hafa gengið nærri því að afnema hina fornu meginreglu um almannarétt til fiskveiða. Alkunna er að árin 1984–1991 var komið á fót svonefndu aflamarkskerfi (kvótakerfi). Um eignarheimildir í netlögum sjávarjarða, m.a. í ljósi þessara breytinga, hefur gerst fjallað Skúli Magnússon í grein í Lögbergi árið 2003.Sjá neðanmálsgrein 2 2 Nokkur réttarþróun hefur orðið síðan greinin var skrifuð, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar frá 31. október 2007 í máli nr. 554/2007 og frávísunarúrskurð fjórðu aðaldeildar Mannréttindadómstóls Evrópu um kæru nr. 40169/05 í máli Björns Guðna Guðjónssonar gegn Íslandi.
Vegna fyrirspurnarinnar verður bent á það að ráðherra ákvað að veita Samtökum eigenda sjávarjarða aðild að starfshópi um endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða sem skilaði skýrslu dags. 6. september 2010. Í skýrslunni segir að frá upphafi hafi áherslur og málflutningur fulltrúa samtakanna í starfshópnum verið „sjálfstætt mál sem þarfnaðist sérstakrar umfjöllunar og afgreiðslu“. Helstu sjónarmiðum samtakanna er lýst í skýrslunni. Meiri hluti starfshópsins áleit að „skynsamlegt og gagnlegt gæti reynst“ að ráðherra skipaði sérstaka nefnd sem fengi það eina hlutverk að draga fram öll þau gögn sem „kunna að varða þetta einstaka en um leið flókna mál, og vinna með þau á þann hátt að komast megi nær niðurstöðu í málinu. Tekið verði tillit til þeirrar niðurstöðu sem fæst við endurskoðun laga um stjórn fiskveiða.“ Málefnið væri „of sérhæft og umfangsmikið til að leiða það til lykta innan [hópsins].“ Í bókun stjórnar Samtaka eigenda sjávarjarða, sem prentuð er sem fylgiskjal við skýrsluna, er nánar greint frá sjónarmiðum samtakanna.Sjá neðanmálsgrein 3 3
Ráðherra hefur ekki skipað sérstaka nefnd samkvæmt ábendingu meiri hluta starfshópsins og að beiðni Samtaka eigenda sjávarjarða. Að því leyti sem endurskoðunin snertir skýrlega málefni eigenda sjávarjarða verður engu að síður leitast við að hlýða á sjónarmið þeirra og taka tillit til þeirra. Með vísan til framangreinds getur ráðuneytið ekki að svo stöddu gefið frekari svör um afstöðu til sjónarmiða þeirra.

Neðanmálsgrein: 1
1     Sjá t.d.: Óbyggðanefnd: Almennar niðurstöður óbyggðanefndar með viðaukum. Reykjavík 8. janúar 2010, bls. 42–46.

Neðanmálsgrein: 2
2     Skúli Magnússon: „Íslensk fiskveiðistjórn og réttur eigenda sjávarjarða.“ Lögberg. Rit Lagastofnunar Háskóla Íslands. Ritstjórar Stefán Már Stefánsson og Viðar Már Matthíasson. Reykjavík 2003, bls. 683–730.

Neðanmálsgrein: 3
3     Skýrsla starfshóps um endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða. Álitamál, greiningar, skýrslur og valkostir við breytingar á stjórn fiskveiða. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið gaf út. Reykjavík 2010, bls. 66 og 90–91 .

Scroll to Top