Óskipt sameign, auðlindagjaldið (bréf frá 2009)

Sjávarútvegsráðuneytið
Hr. Jón Bjarnason, sjávarútvegsráðherra
Skúlagötu 4
150 Reykjavík.

Reykjavík, 23. október 2009.

Efni: Eignarréttur sjávarjarða og hlutdeild í veiðigjaldi (auðlindagjaldi).

I.

Til Réttar hafa leitað, Samtök eigenda sjávarjarða, pósthólf 90, 780 Hornafirði, en þau eru samtök þeirra sem eiga og/eða nytja sjávarjarðir, svo og þeirra sem eru áhugamenn um hlunnindarétt jarða. Stór hluti eigenda sjávarjarða eiga aðild að samtökunum.

Vísað er til bréfs samtakanna til sjávarútvegsráðherra 13. september 2004, en þar var farið fram á að hluti auðlindagjaldsins rynni til eigenda sjávarjarða. Sjávarútvegsráðuneytið svaraði bréfinu án alls rökstuðnings þann 21. september 2004, en um kröfur eigenda sjávarjarðar til hlutdeildar í auðlindagjaldi sagði einfaldlega:

„Með bréfi þessu vill ráðuneytið árétta, að það hafnar þeim hugmyndum og óskum sem settar eru fram í bréfi yðar.“

II.

Samtök eigenda sjávarjarða una ekki þessu svari ráðuneytisins og krefjast þess að stjórnvöld endurskoði afstöðu sína til þessara mála ellegar rökstyðji með ítarlegum hætti hvers vegna þau telji að eigendur sjávarjarða eigi ekki rétt á hlutdeild í auðlindagjaldinu. Til stuðnings fyrrgreindum kröfum er vísað til áðurgreinds bréfs samtakanna 13. september 2004 auk eftirfarandi sjónarmiða:

Óumdeilt er að nytjastofnar þeir á Íslandsmiðum, sem lög um stjórn fiskveiða ná til, eiga uppruna sinn m.a. í netlögum sjávarjarða. Því til stuðnings er vísað til skrifa tveggja sjávarlíffræðinga við Háskóla Íslands og Hafrannsóknunarstofnun í Morgunblaðinu 13. apríl 2008:

„Grunnsævið er gulls ígildi. Færa má rök fyrir því að grunnu hafsvæðin við Ísland séu ein mikilvægasta auðlind þjóðarinnar. Þar er vagga fjölmargra nytjastofna og þaðan streyma nýliðarnir út á miðin. Meðal annars hafa réttindi sjávarjarða verið í umræðunni. […] Grunnsævið í kringum Ísland (grynnra en 50 m) gegnir veigamiklu hlutverki sem uppeldisslóð fyrir okkar helstu nytjafiska.“

Samtök eigenda sjávarjarða vekja jafnframt athygli ráðuneytisins á því að eignarréttur eigenda sjávarjarða til netlaga nýtur verndar 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands sem og 1. gr. 1. viðauka Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. l. nr.  62/1994. Fjallað var um þetta atriði í áliti Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Björns Guðna Guðjónssonar nr. 40169/05 gegn íslenska ríkinu en þar segir:

„Ennfremur er það niðurstaða dómsins að réttur kæranda til þess að stunda fiskveiðar í netlögum úti fyrir sjávarjörðinni sem um ræðir hafi myndað „eign“ í skilningi 1. gr.  samningsviðauka 1.“

Að lokum vísa samtökin sérstaklega til þingsályktunar frá júní 1998 (465. mál, þskj. 1504. Alþingi 1997-98, 122. löggjafarþing) um skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald, en þar má greina vilja löggjafans til þess hvert auðlindagjaldið skuli renna. Þar segir:

„Nefndin kanni möguleika á að nota auðlindagjald til að tryggja að afrakstur sameiginlegra auðlinda skili sér á réttmætan hátt til þeirra sem hagsmuna hafa að gæta.“

III.

Með vísan til framangreinds er þess krafist að stjórnvöld endurskoði afstöðu sína til þessara mála og hefji formlegar viðræður um lausn fyrrgreinds máls eigi síðar en 6. nóvember nk. ellegar rökstyðji með ítarlegum hætti hvers vegna þau telji að eigendur sjávarjarða eigi ekki rétt á hlutdeild í auðlindagjaldinu. Berist ekki svar við bréfi þessu innan þess frests verður litið svo á að stjórnvöld hafni viðræðum við eigendur netlaga um lausn málsins og hyggist þar með halda áfram að innheimta gjald af þeim sem nýta auðlindina án tillits til löglegra réttinda eigenda sjávarjarða í nytjastofnunum og þar með rökréttri kröfu til hlutdeildar í umræddu gjaldi.

Virðingarfyllst,

Ragnar Aðalsteinsson, hrl.

Fylgiskjöl:

  1. Bréf Samtaka eigenda sjávarjarða til sjávarútvegsráðuneytisins, 13. september 2004.
  2. Bréf sjávarútvegsráðuneytisins til Samtaka eigenda sjávarjarða, 21. september 2004.
  3. Jónas Páll Jónasson og Björn Gunnarsson: „Grunnsævið gulls ígildi?“. Birtist í Morgunblaðinu 13. apríl 2008.
  4. Þingsályktun um skipan opinberrar nefndar um auðlindgjald, 465. mál, þskj. 1504. Alþingi 1997-98, 122. löggjafarþing.
Scroll to Top