Kæra send dómsmálaráðherra 21. október 2003

Málskot til æðra stjórnvalds

Samtök eigenda sjávarjarða
Pósthólf 90
780 Hornafirði

Dómsmálaráðuneytið.
Björn Bjarnason, ráðherra,
Arnarhvoli,
101 Reykjavík.

Reykjavík, 21. október 2003

Efni: Málskot til æðra stjónvalds. Kærð er sú ákvörðun ritstjóra Lögbirtingarblaðsins, sem fram kemur í meðfylgjandi bréfi hans dags. 9. október 2003, að synja sóknaraðila um birtingu auglýsingar um lögfestu.

Kært er til dómsmálaráðherra.
Kærandi: Samtök eigenda sjávarjarða kt. 581001-2150.
Kærði: Lögbirtingablaðið Síðumúla 29 150 Reykjavík.

Kröfur sóknaraðila: Að dómsmálaráðherra ákvarði að rétt sé að birta í Lögbirtingablaðinu auglýsingu frá Samtökum eigenda sjávarjarða dags. 3. október 2003 “um einkaeign á hafsvæðinu í netlögum og að sjávarjörðum fylgir eignarhlutdeild í sjávarauðlindinni í heild”, en sókaraðila hefur verið synjað um birtingu slíkrar auglýsingar.

Fylgiskjöl:
1.         Umrædd auglýsing.
2.         Bréf ritstjóra Lögbirtingablaðs dags. 9. okt. 2003 þar sem hina kærðu ákvörðun er að finna.

Málavextir eru þeir, að sóknaraðili óskaði birtingar á auglýsingunni á fskj. 1, en  ritstjóri Lögbirtingablaðs synjaði, með þeim rökstuðningi sem er að finna á fskj. 2.

Um lagarök vísar sóknaraðili einkum til:
1.         Landsleigubálks Jónsbókar, 16. og  17. kapítula.
2.         Laga nr. 64/1943 um birtingu laga og annarra stjórnvaldserinda, bæði til laganna í heild sinni og sérstaklega til niðurlagsákvæðis 3. gr. þar sem segir: “Einnig skal heimilt vera að birta í Lögbirtingablaði auglýsingar og tilkynningar einstakra manna”.

Í landsleigubálki Jónsbókar er mælt fyrir um réttarúrræðið lögfestur. Í 16. kapítula er efnisregluna að finna,  þ.e. við hvaða aðstæður er hægt að grípa til þessa réttarúrræðis og hver er þýðing eða réttaráhrif lögfestu:
“Nú ganga menn á landamerki ok verða eigi á sáttir, þá eigu þeir at lögfesta til þeira merkja, er þeir segja rétt er þar eigu lönd við fyrir utan … Ef maðr lögfestir haga sinn, þá skal sá er þar á land næst reka láta bú sitt allt í þat horn landsins er first er lögfestu hins. Nú hafa fleiri menn lögfest, þá skal hann láta reka í miðjan haga sinn um aptna. Hann skal hafa rekit fé sitt ór haga hins þá er sól er í austri miðju, þat er hann mátti finna. Þat heita hirðis rismál. Hann skal láta sitja at um dag, ok ef svá er gert, þá er hann sýkn saka, þó at hagi hins beitist. Hvergi á maðr at bæta fyrir hagabeit nema lögfest sé, nema hann láti reka at landi eða í land hins, svá at hann vildi at hagi hins beittist. Þá bæti fyrir skaða … þeim er gras á, ok svá ef hann varðar minnr við, þar er lögfest er, en fyrr var skilt, ok svá ef hann fær eigi þann mann til hirðis at skynsömum mönnum virðist at vel megi gæta ef hann vill.”

Þetta Jónsbókarákvæði snertir ekki kæruefnið í máli þessu að öðru leyti en því að efni hinnar umþrættu auglýsingar er lögfesta.

Réttarfarsákvæðið um lögfestur er að finna í næsta ákvæði landsleigubálks:
Kap. 17. Um lögfesting, hver rétt er. “Ef maðr lögfestir holt eða haga eða veiðistaðir, þá skal lögfesta at kirkju eða á þingi, þar sem jörð liggr. Hann skal svá segja: Ek lögfesti hér í dag eign mína er N. heitir, akra ok töður, engjar ok skóga, haga ok allar landsnytjar er því landi fylgja, til ummerkja þeira er aðrir eigu í móti mér, bæði at orðfullu ok lögmáli réttu. Fyrirbýð ek heðan af hverjum manni sér at nýta eða í at vinna, nema mitt sé lof eða leyfi til, at vitni þínu N. ok þínu N. ok allra þeira er orð mín heyra. En sá er lögfestir, hann skal tala svá hátt, at allir heyri þeir er þar eru, ef þeir vilja. En sú lögfesta skal standa tólf mánuði hina næstu eptir, ef eigandi lögfestir eða hans umboðsmaðr.”

Nú er það svo um hin tilvitnuðu réttarfarsákvæði Jónsbókar, sem óumdeilt er að enn eru landsréttur og því að finna í lagasafni, að  þau verður að skýra með samræmistúlkun og að breyttu breytanda. Þar til á seinni tímum voru þingin og kirkjurnar hinn nothæfi  og þess vegna lögboðni vettvangur til þess að koma tilkynningum til almennings á framfæri. Lög og tilskipanir bar að birta á þingum. Lýst var með hjónaefnum að kirkju, og svo mætti áfram telja.

Við breyttar aðstæður var horfið að því ráði að lögbjóða útgáfu sérstakra rita, stjórnartíðinda og lögbirtingablaðs, þar sem lög og stjórnvaldserindi skyldu birt. Birting í þessum ritum kom beinlínis í stað birtingar á þingum og í kirkjum. Það er því varla unnt að túlka ákvæði 17. kap landsleigubálks Jónsbókar á annan veg en þann, að tilkynningar þær er þar um ræðir eigi að birta í Lögbirtingablaði.

Þar, í 17. kap., er ekki um neitt heimildarákvæði að ræða, heldur skýrt og ljóst lagaboð, sem Lögbirtingablaðið getur ekki vikið sér undan. Hin skást frambærilega röksemd fyrir synjun um birtingu væri þá væntanlega einna helst sú, að viðkomandi auglýsing ætti sér ekki lagastoð í framangreindum 16. kap. og félli því ekki undir birtingarákvæði 17. kap. Slíkri túlkun er fyrirfram mótmælt.

Nærtækt dæmi um framangreinda réttarþróun um birtingar er aðferðin við  friðlýsingar æðarvarpa. Lögum samkvæmt bar að birta þær friðlýsingar á manntalsþingum. Manntalsþingin voru haldin allt til 1992. Þegar hætt var að halda þau fóru sýslumenn að birta þessar friðlýsingar í Lögbirtingablaði án sérstakrar lagaheimildar. Þetta var eina leiðin og eðlileg lögskýring sem enginn vefengdi. Þegar lögin um fuglafriðun voru næst endurskoðuð  og reglugerð með þeim, var þessi framkvæmd staðfest þar. Nú lög nr. 64/1994 og rgj. nr. 252/1996, en þar segir í 2. mgr. 2. gr. “Ákvörðun um friðlýsingu æðarvarps skal birt í Lögbirtingablaðinu og gildir í 10 ár frá birtingu.”

Athugasemdir við bréf ritstjóra Lögbirtingarblaðsins, dags. 9. október 2003.

Í bréfinu segir að Lögbirtingarblaðið sé fyrst og fremst vettvangur fyrir lögboðnar auglýsingar stjórnvalda o.s.frv.

Í þessu sambandi er vísað í lög nr. 64 frá 1943, 3. gr. þar sem segir: „Einnig skal heimilt vera að birta í Lögbirtingablaði auglýsingar og tilkynningar einstakra manna”.
Það er því ljóst að Lögbirtingarblaðið getur verið vettvangur fyrir meira en lögboðnar auglýsingar stjórnvalda og skal raunar, skv. lögum vera vettvangur einstakra manna.

Ritstjórinn segir að þessi heimild hafi mjög sjaldan verið notuð.

Það er ekki hægt að sjá að það eigi að koma í veg fyrir birtingu, sem lagaheimild er til, þótt heimildin sé sjaldan notuð.

Þá segir að litið hafi verið svo á, að það sé einkum þegar um er að ræða efni sem varðar almenning eða sérstaka hagsmuni almennings, t.d. umhverfisréttarlegs eðlis, að rétt sé að heimila birtingu í Lögbirtingarblaði

Varðandi auglýsingu Samtaka eigenda sjávarjarða, þá er um að ræða tilkynningu frá stjórn félags, sem ætluð er til upplýsingar fyrir félagsmenn sjálfa um tilkallsrétt þeirra og einnig til þess að fá fram viðbrögð hugsnlegra krefjenda eignarréttar og loks til íhugunar og upplýsingar fyrir almenning um mikilvægt þjóðfélagslegt málefni. Það má þannig til sanns vegar færa að hér sé um að ræða efni sem varðar “almenning eða sérstaka hagsmuni almennings” og að hagsmunirnir séu að einum þræði “umhverfisréttarlegs eðlis”.

Enn segir í bréfi ritstjóra:  “Í auglýsingu yðar er verið að halda fram sérstökum eignarréttindum einstakra manna (eigenda sjavarjarða) sem réttaróvissa ríkir um eða ekki eru óumdeild eða óumdeilanleg að lögum.”

Því er mótmælt að réttaróvissa ríki um að netlög séu hluti af  sjávarjörð og undirorpin beinum og fullkomnum eignarrétti. Beinn eignarréttur jarðareiganda að netlögum er óumdeildur. Það er margdæmt mál og Ólafur Lárusson og Gaukur Jörundsson kenna báðir í ritum sínum að svo sé.

Svo segir ritstjórinn:  “Ef þessi sérstöku eignarréttindi, sem haldið er fram í auglýsingunni, lægju fyrir með staðfestum hætti, s.s. eins og þinglýsing á almennum eignarréttindum, væri væntanlega ekki þörf á birtingu í Lögbirtingarblaði, né í öðrum blöðum.”

Benda má á að þinglýsta friðlýsingu æðarvarpa ber að birta í Lögbirtingablaði, svo sem áður er að vikið. Á því hefur þótt þörf. Þá er það staðreynd, að Lögbirtingarblaðið birtir t.d. stefnur einstakra manna, auglýsingar um að skipulag liggi frammi og aðrar þessháttar tilkynningar, þar sem kallað er eftir viðbrögðum þeirra er kynnu að vilja mótmæla eða telja til réttinda.

Enn segir ritstjórinn:  “Slík birting væri aðeins til þess fallin að valda misskilningi lesenda.”

Hér virðist í raun fullyrt að sjávarjörðum fylgi ekki þær eignarréttarlegu aðildir sem í auglýsingunni greinir, texti auglýsingarinnar sé rangur og villandi að efni til. Sóknaraðili heldur því fram að það sé verkefni dómstóla en ekki ritstjórnar Löbirtingablaðs að skera úr um eignarrétt.

Ritstjórinn segir síðan:  Að lokum má benda á að á sínum tíma var auglýsingum um aðalfundi hlutafélaga úthýst úr Lögbirtingablaði ….. .

Ekki er sambærilegt að líkja auglýsingu og lögfestu Samtaka eigenda sjávarjarða við auglýsingu um fund.

Að lokum: Hér er um mjög mikilvægt hagsmunamál allra sjávarjarða landsins að ræða, þ.e. eigenda/ábúenda þeirra. Þess má geta að sjávarjarðir á Íslandi eru á þriðja þúsund.  Því er brýnt að málið fái sem skjótasta afgreiðslu.

Virðingarfyllst,
f.h. Samtaka eigenda sjávarjarða

________________________________________
Ómar Antonsson, formaður

Scroll to Top