Grunnsævið gulls ígildi? Birt með leyfi höfunda.

Kortleggja þarf grunnsævið vandlega og meta verðmæti þess segja Jónas Páll Jónasson og Björn Gunnarsson.

Kortleggja þarf grunnsævið vandlega og meta verðmæti þess segja Jónas Páll Jónasson og Björn Gunnarsson: „Grunnsævið í kringum Ísland (grynnra en 50 m) gegnir veigamiklu hlutverki sem uppeldisslóð fyrir marga okkar helstu nytjafiska.“

FÆRA má rök fyrir því að grunnu hafsvæðin við Ísland séu ein mikilvægasta auðlind þjóðarinnar. Þar er vagga fjölmargra nytjastofna og þaðan streyma nýliðarnir út á miðin. Töluvert hefur verið fjallað um grunnsævið upp á síðkastið. Meðal annars hafa réttindi sjávarjarða verið í umræðunni; kolefnisbinding leira hefur borið á góma en einnig hefur verið rætt um landfyllingar, þveranir fjarða og efnistöku úr sjó. Langar okkur aðeins að minnast á nokkra þætti varðandi síðastnefndu atriðin.

Uppeldisslóðir nytjafiska

Grunnsævið í kringum Ísland (grynnra en 50 m) gegnir veigamiklu hlutverki sem uppeldisslóð fyrir marga okkar helstu nytjafiska. Þó er breytilegt á hvaða dýpi og á hvaða búsvæðum tegundirnar halda sig. Þorskur heldur sig til dæmis á grunnslóð fyrstu æviárin en leitar á dýpra vatn þegar hann nálgast kynþroska. Skarkoli heldur sig á sandbotni ofarlega í fjörunni fyrstu árin en frændi hans sandkolinn liggur nokkru neðar í fjörunni. Þaraskógarnir eru á grunnsævi og mynda oft á tíðum miklar breiður sem innihalda gífurlegan lífmassa og eru skjól fyrir margar fisktegundir. Þá binda þaraskógar og leirur gríðarmikið kolefni en slíkt er núorðið metið til fjár.

Röskun búsvæða

Þegar sótt er um leyfi til þverunar fjarða, efnistöku eða uppfyllinga fer fram ferli sem getur endað í umhverfismati og ræðst það meðal annars af stærð svæðanna. Þá er til dæmis skoðuð botngerð, lífverusamfélög metin og athugað hvort svæðið sé mikilvægt í ljósi nytja eða hafi verndargildi. Hingað til hafa áhrif slíkra framkvæmda á nytjastofna verið talin frekar lítil. Oft er um frekar afmörkuð svæði að ræða þegar horft er til efnistöku eða landfyllingar í sjó en þveranir geta haft áhrif á töluvert stærri svæði. Við efnistöku er sandi eða möl er dælt upp og efnið nýtt í uppfyllingar eða við framkvæmdir uppi á landi. Við það myndast gryfjur og tilfærsla á efni á sér stað sem flókið er að spá um. Hingað til hefur slíkt rask verið talið það lítið að það skipti ekki máli þegar horft er til stærðar alls grunnsævisins í kringum Ísland.

Verðmæti grunnsævis

Hafrannsóknir við Ísland hafa hingað til einkum beinst að landgrunninu þar sem m.a. fást upplýsingar um stærð og samspil nytjastofna. Hins vegar hefur verið stefnt að því um nokkurt skeið að auka vægi rannsókna á fjörðum og öðru grunnsævi. Nýjar rannsóknir Johans Stål og félaga í Svíþjóð hafa sýnt mikilvægi grunnsævis þar við land (http://www.ub.gu.se/sok/dissdatabas/detaljvy.xml?id=7022). Í ritgerðinni var meðal annars lagt mat á framlegð uppeldissvæða. Hluti rannsóknarinnar beindist að samspili nytjafiska við ákveðin búsvæði og fólst í því að meta hversu háðar tegundirnar eru ákveðnu búsvæði. Þorskur sýndi tryggð við svæði sem bæði einkenndust af marhálmi og þaraskógi en fannst síður á sendnum botni. Niðurstöður voru einkar áhugaverðar hvað varðar skarkolann (rauðsprettu) og sýndu fram á sterk tengsl hans fyrstu tvö árin við sendinn botn á grunnsævi. Johan og félagar mátu það svo að eins ferkílómetra aukning af sendnum botni á 0-10 m dýpi við vesturströnd Svíþjóðar gæfi af sér aukin aflaverðmæti upp á um 3-3,5 milljarða króna (300-360 milljónir SEK) þegar horft var fram til 55 ára. Í þessu tilfelli myndi gróðinn reyndar að miklu leyti færast yfir Eyrarsund þar sem veiðislóðin liggur einkum í landhelgi Dana. Hérlendis hefur slíkt mat ekki farið fram en víst er að verðmæti sendins botns á grunnsævi er verulegt. Unnið hefur verið að því um nokkurt skeið að kortleggja útbreiðslu ungviðis skarkola í fjörum við Ísland. Þéttleiki skarkola í einstaka fjörum við Ísland er á við það sem gerist hæst í Evrópu en það gefur til kynna frjósemi grunnsævisins við Ísland þrátt fyrir norðlæga legu. Fyrir liggur að kortleggja þarf grunnsævið vandlega, meta þarf verðmæti þess og gæta þess að halda raski í lágmarki. Með aukinni byggð og vegabótum eykst eftirspurn eftir strandsvæðum og ágangur á grunnsævi og því er nauðsynlegt að efla rannsóknir enn frekar svo unnt sé að stýra framkvæmdum skynsamlega.

Höfundar eru sjávarlíffræðingar við Háskóla Íslands og Hafrannsóknastofnunina.

Scroll to Top