Bréf til sjávarútvegsráðherra

Hr. Árni Mathiesen, sjávarútvegsráðherra.

Samtök eigenda sjávarjarða.
Pósthólf 90,
780 Hornafirði.

Hr. Árni Mathiesen, sjávarútvegsráðherra,
sjávarútvegsráðuneytinu,
Skúlagötu 4,
150 Reykjavík.

8. mars 2005.

Málefni:  Réttindi sjávarjarða til útræðis og eignarhlutdeildar í landhelginni og sjávarauðlindinni.

Samtök eigenda sjávarjarða vísa til ráðstefnu um íslenskan sjávarútveg sem sjávarútvegsráðuneytið stóð fyrir 4. mars s.l. undir yfirskriftinni „Fiskurinn og framtíðin”.  Það er engu líkara en á þessari opinberu ráðstefnu hafi verið samankominn hópur fólks sem telur sig þess umkominn að vera að ræða um og ráðskast með eignir annarra.  Vísað er til þess að sjávarútvegsráðherra hefur ekki umboð eða heimildir til að ráðstafa eignarhlutdeild sjávarjaðra í sjávarauðlindinni.

Samtökum eigenda sjávarjarða eða eigendum þeirra var ekki boðið á ráðstefnuna, þótt þessir aðilar séu beinir eigendur að sjávarauðlindinni sem er meira en hægt er að segja um alla aðra ráðstefnugesti.
Eigendum sjávarjarða finnst það óviðkunnanlegt og óviðeigandi og í raun ákveðin ókurteisi að slík ráðstefna sé haldinn af opinberum aðilum og þangað boðið ýmsum aðilum sem ekki eru eigendur að auðlindinni en sjálfum eigendunum ekki.

Eigendur sjávarjarða óska skýringa sjávarútvegsráðherra á þessari framkomu.
Í framtíðinni er það krafa eigenda sjávarjarða að þeir, sem hlutaðeigendur að sjávarauðlindinni, verði hafðir með í ráðum og þeir kallaðir til sem löglegir eigendur ef slíkar ráðstefnur verða haldnar af opinberum aðilum.

Vísað er í svo kallað auðlindaböl (the resource curse) sem hagfræðingar um allan heim fjalla nú um.  Í því sambandi er vísað í grein George Soros, eins þekktasta fjármálamanns heims, í íslenskri þýðingu í Morgunblaðinu 24. júlí 2003.  Morgunblaðið var svo með leiðara um greinina 26. sama mánaðar.  Auðlindabölið er tilkomið vegna spilltra ráðamanna sem stela auðlindunum af borgurunum til að ráðskast með þær sjáfir og afhenda þær sínum vinum og flokksbræðrum.  Stundum gerist þetta jafnvel með löggjöf hjá löggjafarsamkomu þjóða en það er afar sjaldgæft.

Samtökin eru með heimasíðu.  Slóðin er:   www.ses.is

Virðingarfyllst,
Samtök eigenda sjávarjarða.

_______________________
Ómar Antonsson, formaður.

Afrit:
Sent rafrænt til allra alþingismanna.

Meðfylgjandi:
Yfirlýsing er skilgreinir rétt og eign sjávarjarða samkvæmt íslenskum lögum.

Scroll to Top