Samtök eigenda sjávarjarða.
Pósthólf 90,
780 Hornafirði.
Skrifstofa Alþingis – nefndarsvið,
Sjávarútvegsnefnd,
Austurstræti 8-10,
150 Reykjavík.
Reykjavík, 11. júní 2009.
Málefni: Athugasemdir Samtaka eigenda sjávarjarða við frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.
(Lagt fyrir Alþingi á 137. löggjafarþingi 2009).
Ég undirritaður, formaður Samtaka eigenda sjávarjarða, vísa í samtal mitt við Gaut Sturluson, lögfræðing nefndarsviðs og tölvupóst hans 9. júní 2009.
Formáli:
Hinn 5. júlí 2001 voru Samtök eigenda sjávarjarða stofnuð á fundi sem haldinn var í Reykjavík. Félagar í SES eru um 400. Jarðir með skráðan útræðisrétt eru rúmlega 1.000. Heildarfjöldi jarða sem eiga land að sjó eru taldar vera 2.240.
Markmið Samtakanna er eftirfarandi:
- Að fá útræðisrétt sjávarjarða virtan á ný og staðfestan í lögum um stjórn fiskveiða.
- Að vinna að því að eignarréttindi sjávarjarða innan netlaga, sem og tiltöluleg eignarhlutdeild í sjávarauðlindinni í heild, verði virt og í heiðri höfð.
Frá því að Samtökin voru stofnuð hafa ofangreind markmið ítrekað verið kynnt á opinberum vettvangi.
Nú liggur fyrir að stefnumál Samtakanna hafa ekki fengið framgang við hefðbundna umræðu við lagasetningu á Alþingi þegar lög um stjórn fiskveiða hafa verið endurskoðuð.
Í nýlegu áliti Mannréttindadómstóls Evrópu, í máli grásleppubónda, kemur eftirfarandi fram: “Ennfremur er það niðurstaða dómsins að réttur kæranda til þess að stunda fiskveiðar í netlögum úti fyrir sjávarjörðinni sem um ræðir hafi myndað “eign” í skilningi 1. gr. samningsviðauka 1” (undirstrikun bréfritara). Refsimál þetta er sérmál grásleppubóndans en er ekki mál sjávarjarða í heild.
Hluti auðlindarinnar, svo nefnd netlög eru í einkaeign, samkvæmt Mannréttindasáttmála Evrópu. Sjór, dýralíf og plöntulíf er á ferð milli netlaga og ytra svæðis og er því sjávarauðlindin óskipt og á flakki. Eigendur sjávarjarða eru meðeigendur að sjávarauðlindinni og eigendur eins mikilvægasta hluta hennar, þ.e. grunnsævisins næst landi.
Samtök eigenda sjávarjarða eru fjölmenn hagsmunasamtök um sjávarauðlindina, auk þess sem stefnumál þeirra er stærsta og umfangsmesta byggða- og réttlætismál síðari tíma.
Samtökin eru með heimasíðu. Slóðin er: www.ses.is
Athugasemdir við frumvarpið:
Samkvæmt skilgreiningu í Lögbókin þín eftir Björn Þ. Guðmundsson, prófessor í lögum, þá eru netlög eftirfarandi: ”Netlög nefnist ákveðið belti meðfram landi í sjó og vötnum sem tiltekin eignarréttindi eru bundin við. Netlög eru talin falla undir eignarrétt eiganda → landareignar“. Ennfremur er vísað í meðfylgjandi auglýsingu frá 3. október 2003.
Misjafnt er hvernig þetta belti í sjó er skilgreint. Annars vegar er um að ræða netlög 115 metra út frá stjórstraumsfjöruborði þar sem aðdjúpt er og hins vegar netlög út á dýpi 20 möskva selnótar eða út á 7,45 metra dýpi út frá stórstraumsfjöruborði þar sem grunnsævi er meira (skýringar Páls Vídalín, lögmanns 1667-1727).
Eins og kemur fram í formála, þá er sjórinn, dýralíf og plöntulíf á ferð milli netlaga og ytra svæðis. Engin bein skil eru á milli þessara svæða. Sjávarauðlindin er því óskipt sameign. Í því sambandi mætti vísa í svonefnda deilistofna, flökkustofna, sem eru á ferð milli svæða og semja þarf um.
Tveir sjávarlíffræðingar við Háskóla Íslands og Hafrannsóknarstofnun segja eftirfarandi í grein sinni í Morgunblaðinu 13. apríl 2008: “Grunnsævið gulls ígildi. Færa má rök fyrir því að grunnu hafsvæðin við Ísland séu ein mikilvægasta auðlind þjóðarinnar. Þar er vagga fjölmargra nytjastofna og þaðan streyma nýliðarnir út á miðin. Meðal annars hafa réttindi sjávarjarða verið í umræðunni”. Svo segir: “Grunnsævið í kringum Ísland (grynnra en 50 m) gegnir veigamiklu hlutverki sem uppeldisslóð fyrir okkar helstu nytjafiska”. Fleiri vísindamenn taka í sama streng svo sem dr. Veerle Vanderweeld, framkvæmdastjóri alheimsáætlunar um varnir gegn mengun hafsins frá landi, en hún segir í viðtali í Morgunblaðinu 27. október 2000: “Skilgreind strandsvæði eru einnig hýbýli 90% fiska og skeldýra”. Vísað er í viðtal við dr. Kenneth Sherman, forstjóra Narragansett hafrannsóknarstofnunarinnar á Rhode Island í Fréttablaðinu 31. janúar 2002 en hann segir m.a.: “Vistkerfi óháð landamærum og efnahagslögsögu. Hann vísar í strandsvæði, frá árkerfum að landgrunnsmörkum og ytri mörkum helstu straumkerfa. Tvö eða fleiri samliggjandi lönd deila oft eina og sama vistkerfinu”. Höfðað er til hlutdeildar í deilistofnum. Vísað er í viðtal í Morgunblaðinu 4. júlí 2005 við dr. Kathy Sullivan, geimfara og könnuð í Explorers Club, en hún segir: “Strandsvæðin skipta miklu máli fyrir fiskveiðar og eru mikilvægar fiskuppeldisstöðvar. Umhverfisgæði almennt taka mið af ástandi strandsvæðanna sem eru lungu og lifur jarðarinnar”. Að lokum ber að nefna í þessu sambandi tvo þætti dr. David Attenborroughs “Hafið bláa hafið” en þeir voru sýndir í íslenska sjónvarpinu 16. og 23. nóvember 2003. Þættir 7 og 8 fjalla um strandsvæði sem má segja að hér á landi séu oft nefnd netlög. Þættirnir skýra vel hversu mikilvæg netlögin eru. Hversu fjölskrúðugt dýra- og plöntulíf er á strandsvæðunum og hvað það er mikilvægt fyrir lífið utar í hafinu.
Landhelgi er skilgreind út frá landi og eru því netlög í landhelgi Íslands og innan auðlindalögsögunnar.
Nú er ljóst að mannréttindadómstóll Evrópu lítur svo á að netlög séu eign í skilningi 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu. Alþingi getur því ekki lengur hundsað þennan eignarrétt og ber að virða hann.
Alþingi hefur ekki umboð eða heimildir til að ráðstafa þessum eignarrétti sjávarjarða. Alþingi ber að fara að lögum sem það hefur sjálft sett svo sem eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og fleiri lögum um netlög.
Lagt hefur verið fram frumvarp sem nefnt hefur verið frumvarp um strandveiðar. Sjávarströndin og netlögin þar fram undan er víða í einkaeign. Það er álit eigenda sjávarjarða að Alþingi geti ekki sett lög um stjórn fiskveiða er varðar strandveiðar og ráðstöfun á auðlindinni án þess að meðeigendur að henni séu hafðir með í ráðum. Annað væri fádæma yfirgangur og sæmir ekki Alþingi.
Það er krafa eigenda sjávarjarða, sem meðeigenda að óskiptri sjávarauðlindinni, að þeir verði hafðir með í ráðum með lagasetningu er tengist sjávarauðlindinni og sérstaklega þegar um er að ræða lagasetningu sem tengist strandsvæðum.
Óskað er eftir fundi með sjávarútvegsnefnd Alþingis um þessi mál sem allra fyrst.
Virðingarfyllst,
Samtök eigenda sjávarjarða.
______________________________
Ómar Antonsson, formaður.
Meðfylgjandi er til upplýsinga:
- Auglýsing, dags. 3. október 2003 er skilgreinir rétt og eign sjávarjarða í auðlindinni samkvæmt íslenskum lögum.
- Bréf, dags. 7. nóvember 2002 til Dr. Franz Fischlers, ráðherra Evrópusambandsins.