Bréf frá félaga – veiðar á sjógöngusilung í netlögum

Til umhugsunar fyrir íslenska þjóð !

Megin tilgangur þessara skrifa er, hve almennt er orðið í íslensku samfélagi, að settar séu athöfnum einstaklinga sem og atvinnulífi einhverskonar reglur og lagabókstafir. Oftar en ekki eru reglur þessar studdar lagabókstöfum Evrópusambandsins ellegar bara alþjóðalögum. Stundum þykir mér sem stjórnvöld hreinlega gangist upp í því að sækja sér lagafyrirmyndir út fyrir landsteinana og tjóir þá lítið vesölum almúgamanni að þverskallast við. Það er að verða ískyggilega stór hluti vinnandi fólks á íslandi sem hefur af því atvinnu að gæta þess að granni hans fari að settum lögum og reglugerðum.

Alveg sérstaka furðu vekur undirrituðum þó nýlega sett reglugerð Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis No 449/2013, „um búnað og frágang neta vegna veiða göngusilungs í sjó“. Nú er undirritaður ekki beint hagsmunaaðili sem eigandi né lögbýlingur á sjávarjörð, en hef þó komið að veiðum sem liðsmaður veiðirétthafa á Meyjarhóli í Svalbarðsstrandarhreppi. Ómælt hagræði hefur verið að fyrirkomulagi veiðanna með tildrætti sem nú er bannaður með öllu samkvæmt hinni nýju reglugerð. Veiðarnar hafa stundað tvær háaldraðar manneskjur og gengið vel. Svo fullorðið fólk sinnir ekki lengur veiðum eftir gildistöku hinna nýju laga. Undirritaður hóf veiðar fyrir landeiganda við annan aðstoðarmann í byrjun júlímánaðar sl. Eftir að hafa gert tilskipaðar breytingar á veiðifyrirkomulaginu fengum við leigðan lítinn og hentugan vatnabát til vitjana. Flestir bátar landeigenda eru of stórir vélknúnir bátar, sem henta afar illa til vitjana frá fjörum. Netalögnin samanstóð af tveimur 25 metra samtengdum netum, samtals því 50 metra löng. Svo slysalega vildi til í einni vitjuninni, þegar við hugðumst snúa kænunni til lands, að við settumst báðir helst til of langt til sömu hliðar og hvolfdi þá bátnum afar skjótlega. Engin leið er að vega sig um borð í svo lítið far, og því ekki annað í stöðunni en synda til lands. Eftir að hafa losað okkur úr netinu syntum við þessa 50 metra að landi. Í þessu umrædda tilviki áttu í hlut sæmilega syndir karlmenn og því ekki veruleg vá fyrir dyrum, – og þó. Ekki verður í þessari frásögn frekar fjallað um það hættustig sem skapaðist, en 50 metra sjósund kappklæddra og stígvélaðra manna er þéttings áraun. Undirritaður er all vel kunnugur aðstæðum við sjóveiði í silunganet á jörðum í Svalbarðs- og Grýtubakkahreppi og þeim ábúendum sem þær stunda. Sumir þessara ábúenda munu ekki stunda þessar veiðar hér eftir bæði vegna hás aldurs og ekki síður vegna fjárútláta samfara nýjum veiðiaðferðum. þetta er hin ramma staðreynd.

Því verður ekki annað séð en hið nýja fyrirkomulag veiðanna sé í hæsta máta plagandi fyrir flesta veiðirétthafa landið um kring og næsta óskiljanleg tilskipan heilbrigt hugsandi fólki.

Afar ógeðfelldur orðrómur er á kreiki, nefnilega sá, að helstu tillögumenn að breytingunni séu skipaðir eftirlitsmenn veiðanna. Ekkert verður fullyrt í þessum skrifum þar um, en sé svo, ættu viðkomandi að finna sér annan og mannúðlegri starfa en slíka tillögugerð af þessu tagi. Vafalítið reynist eftirlit veiða á silungi í sjó eftirlitsmönnum auðveldari með hinni nýju tilskipan, ekki síst þegar við er að eiga „síbrotamenn“ úr röðum veiðirétthafa, sem einskis láta ófreistað að fara á svig við lög.

Í þessu samhengi skal þó fullyrt, að þessi ævafornu hlunnindi sjávarjarða verða tæplega afnumin þrátt fyrir hina öflugu sveit eftirlits- og reglugerðasmiða í íslensku samfélagi. En í guðanna bænum, þá skulum við ekki missa sjónar á hinum mannlega þætti regluverksins, sem meðal annars er, að setja netaveiðum í sjó viti borið regluverk kringum skemmtilegar og hófsamar nytjar á sjógöngusilungi.

Ritað í byrjun september 2013,
Árni Geirhjörtur Jónsson
Kotabyggð 1
Svalbarðsstrandarhreppi.

Scroll to Top