Mismunandi skýring á orðinu „Netlög“

Mismunandi skýringar á hugtakinu “NETLÖG” í íslenska lagasafninu. (Tekið saman af Bjarna M. Jónssyni, sérfræðingi í haf og strandsvæðastjórnun)

Netlög er sá hluti sjávarjarða sem er í einkaeign og er með lögvarin atvinnu- og eignarréttindi. Sjá nánari skýringar um netlögin hér á heimasíðunni.

Skúli Magnússon  lektor við lagadeild Háskóla Íslands vann í september árið 2001 álit að beiðni nefndar um enduskoðun laga um stjórn fiskveiða, um stjórnskipulega vernd fiskveiðiréttar sjávarjarða.

Í áliti Skúla á bls. 8 er eftirfarandi grein:

Samkvæmt framangreindu er ótvírætt að við ákvörðun netlaga með hliðsjón af fiskveiðirétti landeiganda ber að miða við dýptarreglu Jónsbókar, en ekki fjarlægðarreglu veiðitilskipunarinnar og síðari laga. Hvað varðar ýmis önnur mikilvæg réttindi landeiganda innan netlaga gildir hins vegar almennt reglan um 115 metra frá stórstraumsfjörumáli. Samkvæmt framangreindu ber að afmarka netlög sjávarjarðar með hliðsjón af fiskveiðirétti samkvæmt reglu 2. kapítula rekabálks Jónsbókar.”

Mismunandi skýringar á hugtakinu “NETLÖG” í lagasafninu.

1281 nr.  Jónsbók.

Jónsbók er hluti af íslensku lagasafni og er í fullu gildi í dag sem lög. Í rekaþætti Jónsbókar segir „En það eru netlög yst er selnót stendur grunn tuttugu möskva djúp að fjöru og komi þá flár upp úr sjó.”

<Þetta þýðir að landamerki sjávarjarða út í sjóinn nær út að sama dýpi og 20  möskva selnet afmarkar ef það er í sjó og stendur með sökkurnar á botninum og flotholtin fljótandi á yfirborðinu á stórstraumsfjöru.

Hvernig er hægt að yfirfæra dýptarviðmiðið 20 selnets-möskva í metrakerfið?

Samkvæmt rannsóknum dr. Ole Lindquist (1994), má þakka Páli Vídalín lögmanni (1667-1727) fyrir að það er mjög auðvelt, því hann hefur nú þegar leyst þessa gátu. Hann útskýrir að „selanótar-möskvi sé þá hæfilegur, er han má komast yfir mannshöfuð niður að eyrum; svo hefir að fornu verið, og svo er enn.”  Það er um 60 cm að ummáli.

Páll nefnir að í Jónsbókarhandriti standi eftirfarandi:

„þat eru netlög utaz, er selnót stendur grunn 20 möskva djúp ath fjöru, oc komi þá flár uppúr sjó, þat er fjögra faðma djúp.”

í öðru handriti  stendur: „það eru netlög utarst, er selnet stendur grunn 20 möskva djúp að fjöru sjóar, og koma þá flár uppúr sjó, en það er 12 álna djúp að fjöru.”

Samkvæmt skýringum Páls lögmanns gefa 12 álnir eða 4 faðmar sömu niðurstöðu (57,3 cm × 12 =)  6,88 m. Ystu mörk netlaga samkvæmt Jónsbók er því við 7 m dýpi á stórstraumsfjöru. Eftir stendur að augljóst er að miða á fiskveiðar í netlögum við dýptarviðmiðið. Skilgreining Páls Vídalín um dýpt selneta annað hvort 4 faðmar eða 12 álnir er það sem á að miða við og í metrakerfinu eru það 6,88 m. (Ole Lindquist, PhD).

 

1849 nr. 20. júní. Tilskipun um veiði á Íslandi. (Á aðeins við um veiðar á fuglum og dýrum með heitu blóði).

Í Tilskipun um veiði á Íslandi, 20. júní 1849, segir í „3. gr. Á landi skulu veiði ráða rétt landamerki jarðar hverrar. Ef jörð liggur að sjó, á eigandi veiði á haf út, 60 faðma (eða 115 metra) frá stórstraumsfjörumáli, og eru það netlög hans.” Nú liggja eyjar eða hólmar undir jörð, þá skal mæla lóðhelgi jarðar á sama hátt frá landi og jafnt í allar áttir frá eyjum og hólmum.

Í 21. gr. og jafnframt síðustu grein veiðitilskipunarinnar segir að:

„Með þessari tilskipun er allt það af tekið, sem lög hafa verið hingað til um fuglveiði og dýraveiði og selveiði, en allar greinir laganna um fiskveiði, sem ekki er breytt í þessari tilskipun, og um hvalveiði skulu fyrst um sinn standa óraskaðar.

Í Þingbókum alþingis frá 1847 til 1849 má lesa umræður þingmanna um frumvarp veiðitilskipunarinnar. Þar kemur meðal annars fram mjög skýrt að stuðst er við þýðingu úr dönskum lögum og að danska orðið „Jagt“ vefst fyrir mönnum þar sem það þýðir í Danmörku veiðar á fuglum og dýrum en ekki fiskum, en íslenska orðið „veiði“ þýðir allar veiðar þ.e. bæði fugla, dýra og fiskveiðar. Einmitt vegna þessa var ákveðið að bæta við 21. gr. til þess að taka af allan vafa um að veiðitilskipunin frá 20. júní 1849 gilti alls ekki um fiskveiðar í netlögum og að þar sé Jónsbók enn í fullu gildi. Þar með verður stærð netlaga varðandi fiskveiðar að miðast við dýpt.

(Jónsbókarákvæðið sem segir „En það eru netlög yst er selnót stendur grunn tuttugu möskva djúp að fjöru og komi þá flár upp úr sjó” hefur verið sleppt úr Jónsbókartexta núverandi lagasafns án lagabreytinga. Einnig var 21. gr. laga frá 20. júní 1849 feld út með lögunum nr. 116/1990. Þessi grein skýrði út að lögin giltu ekki um fiskveiðar.

1914 nr. 39 2. nóvember. Lög um beitutekju.

Netlög eru 60 faðmar á sjó út frá stórstraumsfjörumáli.

1923 nr. 15 20. júní. Vatnalög.

Almenningur: Sá hluti vatns, sem liggur fyrir utan vatnsbelti landareignanna.

1990 nr. 73 18. maí. Lög um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins.

Hugtakið netlög merkir í lögum þessum sjávarbotn 115 metra út frá stórstraumsfjöruborði landareignar.

1994 nr. 64 19. maí. Lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

Netlög: hafsvæði 115 m út frá stórstraumsfjörumáli landareignar eða 115 m út frá bakka stöðuvatns sem landareign liggur að. Netlög fylgja einnig eyjum, hólmum og skerjum í sjó og stöðuvötnum.

1998 nr. 57 10. júní. Lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu.

Netlög merkir í lögum þessum vatnsbotn 115 metra út frá bakka stöðuvatns sem landareign liggur að, svo og sjávarbotn 115 metra út frá stórstraumsfjöruborði landareignar.

2004 nr. 33 7. maí. Lög um varnir gegn mengun hafs og stranda.

Netlög: Sjávarbelti 115 m frá stórstraumsfjöruborði.

2004 nr. 81 9. júní. Jarðalög.

Netlög merkja í lögum þessum vatnsbotn 115 metra út frá bakka stöðuvatns sem landareign liggur að, svo og sjávarbotn 115 metra út frá stórstraumsfjöruborði landareignar.

2006 nr. 20 31. mars. Vatnalög.

Netlög: Vatnsbotn 115 metra út frá bakka stöðuvatns eða vatnsfalls sem fasteign liggur að.

2006 nr. 58 14. júní. Lög um fiskrækt.

Netlög: Vatnsbotn 115 metra út frá bakka landareignar að stöðuvatni, svo og sjávarbotn 115 metra út frá stórstraumsfjöruborði landareignar.

2006 nr. 61 14. júní. Lög um lax- og silungsveiði.

Netlög: Vatnsbotn 115 metra út frá bakka landareignar að stöðuvatni, svo og sjávarbotn 115 metra út frá stórstraumsfjöruborði landareignar.

2008 nr. 71 11. júní. Lög um fiskeldi.

Netlög: Vatnsbotn 115 metra út frá bakka landareignar að stöðuvatni, svo og sjávarbotn 115 metra út frá stórstraumsfjöruborði landareignar.

Þskj. 218  —  201. mál. Frumvarp til laga um skeldýrarækt.

(Lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)

Netlög: Sjávarbotn 115 metra út frá stórstraumsfjöruborði landareignar.

Bréf til sjávarútvegsráðherra

Óskað hefur verið eftir því við sjávarútvegsráðherra að skipuð verði nefnd til þess að skilgreina eignarhlutdeild sjávarjarða í sjávarauðlindinni.

Samtök eigenda sjávarjarða.
Pósthólf 90,
780 Hornafirði.

 

Hr. Jón Bjarnason, sjávarútvegsráðherra,
sjávarútvegsráðuneytinu,
Skúlagötu 4,
101 Reykjavík.

27. september 2010.

 

Skipun nefndar um skilgreiningu á eignarhlutdeild sjávarjarða í sjávarauðlindinni.

Ég vísa í bréf stjórnar Samtaka eigenda sjávarjarða til þín, dags. 8. júlí 2010.

Nú hefur starfshópur um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða lokið stöfum sínum, sbr. skýrslu, dags. 6. september 2010.  Eftirfarandi urðu málalok starfshópsins hvað viðvíkur ósk eigenda sjávarjarða um að skipuð yrði nefnd (starfshópur) til að skoða lögvarða eignarréttarlega stöðu sjávarjarða í sjávarauðlindinni:

„Það er mat meirihluta starfshópsins að skynsamlegt og gagnlegt gæti reynst að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipaði slíka nefnd sem fengi það eina hlutverk að draga fram öll þau gögn sem kunna að varða þetta einstaka en um leið flókna mál, og vinna með þau á þann hátt að komast megi nær niðurstöðu í málinu“.

Lagafyrirmæli eru frá Alþingi um eignarrétt eigenda sjávarjarða í sjávarauðlindinni og í stjórnarskránni er ákvæði um friðhelgi eignarréttarins.  Mannréttindadómstóll Evrópu hefur komið með eftirfarandi orðrétt álit sitt:

„Ennfremur er það niðurstaða dómsins að réttur kæranda til þess að stunda fiskveiðar í netlögum úti fyrir sjávarjörðinni sem um ræðir hafi lögformlega stofnað til „eignar“ í skilningi 1. gr.  samningsviðauka 1“.

Auk þess þarf að gæta að því í allri umfjöllun að samkvæmt lögum og mannréttindasáttmálum má ekki mismuna fólki vegna eigna eða þjóðernis.

Hér með er óskað eftir fundi með þér sem allra fyrst um skipun þessarar nefndar.

 

Virðingarfyllst,

f.h Samtaka eigenda sjávarjarða (www.ses.is).

 

________________________________
Ómar Antonsson, formaður

Bréf til utanríkisráðherra

Eignarréttindi sjávarjarða í sjávarauðlindinni.

 

Hr. Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, utanríkisráðuneytinu,
Rauðarárstíg 25,
105 Reykjavík.

13 . október 2010.

 

Eignarréttindi sjávarjarða í sjávarauðlindinni.

Ég vísa í grein þína í Fréttablaðinu 11. október 2010 „Við tryggjum ekki eftir á“, þar sem þú segir að þú leggir mikla áherslu á að samtök þeirra sem eiga mikilla hagsmuna að gæta komi ríkulega að undirbúningi samnings um aðild að Evrópusambandinu og að það gildi um bændur jafnt sem aðra.

Samtök eigenda sjávarjarða voru stofnuð 2001 og voru stofnaðilar um 500 (margir þeirra bændur).

Áhersluatriði sem samþykkt voru á aðalfundi samtakanna eru eftirfarandi:

  • Að fá útræðisrétt sjávarjarða virtan á ný og staðfestan í gildandi lögum um stjórn fiskveiða.
  • Að vinna að því að eignarréttindi sjávarjarða innan netlaga, sem og tiltöluleg eignarhlutdeild í sjávarauðlindinni í heild, verði virt og í heiðri höfð.

Samtökin eru einu eigendur sjávarauðlindarinnar samkvæmt lögum.

Lagafyrirmæli eru frá Alþingi um eignarrétt eigenda sjávarjarða í sjávarauðlindinni og í stjórnarskránni er ákvæði um friðhelgi eignarréttarins.  Mannréttindadómstóll Evrópu hefur komið með eftirfarandi orðrétt bindandi álit sitt:

„Ennfremur er það niðurstaða dómsins að réttur kæranda til þess að stunda fiskveiðar í netlögum úti fyrir sjávarjörðinni sem um ræðir hafi lögformlega stofnað til „eignar“ í skilningi 1. gr.  samningsviðauka 1“.

Auk þess þarf að gæta að því í allri umfjöllun að samkvæmt lögum og mannréttindasáttmálum má ekki mismuna fólki vegna eigna eða þjóðernis.

Samtökin hafa þegar verið í sambandi við Evrópusambandið.  Þau rituðu bréf til Franz Fischler, sjávarútvegsráðherra sambandsins 7. nóvember 2002 og áttu síðar fund með honum og til Timo Summa, sendiherra sambandsins 1. febrúar 2010 og áttu svo einnig fund með honum.

Þar sem samtökin eiga mikilla eignarréttarlegra hagsmuna að gæta þá er óskað eftir því að þú komir því í kring að þau geti komið ríkulega að undirbúningi samnings við Evrópusambandið í sambandi við sjávarauðlindina.

 

Virðingarfyllst,

 

f.h. Samtaka eigenda sjávarjarða   (heimasíða:  www.ses.is).

 

________________________________

Ómar Antonsson, formaður

 

Starfshópur um endurskoðun laga um fiskveiðistjórnun

Björn Erlendsson, ritari í stjórn SES, var valinn fyrir hönd félagsins til setu í starfshóp um endurskoðun laga um fiskveiðistjórnun

Þau gleðilegu tíðindi urðu nýlega að Jón Bjarnason, ráðherra ákvað að heimila Samtökum eigenda sjávarjarða að eiga fulltrúa í starfshópi um endurskoðun laga um fiskveiðistjórnun. Björn Erlendsson, ritari í stjórn SES var fyrir hönd félagsins valinn í starfshópinn.

Með þessu undirstrikar ríkisstjórnin að hún vinnur í anda samvinnu við hagsmunaaðila til að leysa umfangsmikið deilumál. Þessi samvinnuhugsun er nú á tímum allsráðandi í þroskuðum vestrænum ríkjum eins og Kanada og Noregi þar sem mikil áhersla er lögð á að draga fulltrúa allra hagsmunaaðila að borðinu, líka þögla meirihlutans.

Það eru auðvitað aldrei allir sammála en að lokum ná menn niðurstöðu þar sem menn hafa fengið að segja sína skoðun og hlustað hefur verið á þá.

Þeir sem eru hræddir við skoðanaskipti vilja ákveða hlutina í völdum hóp á sem skemmstum tíma og oftar en ekki eru þeir með óhreint mjöl í pokahorninu.

Útræðisréttur sjávarjarða er frumbýlisréttur og hlunnindi eins og æðardúnstekja og varið í lögum. Þess vegna er brýnt að seinni tíma lög sem alþingismenn hafa samþykkt um fiskveiðistjórnun komi ekki í veg fyrir þessi réttindi landsbyggðarfólks séu nýtanleg eins og nú er staðan.

Frumbyggjar Íslands t.d á Vestfjörðum byggðu jarðir sínar á sjósókn og má sem dæmi um mikilvægi möguleikans til sjósóknar taka verðmat jarða. Sambærilegar jarðir að stærð og landgæðum voru t. d metnar, annars vegar jörð sem ekki átti land að sjó var metin á 12 hundruð að fornu mati en sjávarjörðin var metin á 60 hundruð að fornu mati. Af þessu verðmati voru og eru síðan borgaðir skattar.

Réttindi eigenda í Netlögum eru ljós og í þessum mikilvægasta hluta hafsins sem á Íslandi var ákveðinn árið 1281 eru fyrstu drög að strandsvæðaskipulagi, hugsanlega á heimsvísu.

Þegar þessi réttur eigenda sjávarjarða verður endurheimtur úr klóm auðlindabraskara mun það hafa mjög jákvæð áhrif á strandsamfélög og næra og styrkja nærsamfélöginn þar sem þessi réttur fer ekki neitt frekar en önnur hlunnindi jarða. Þetta tryggir einnig stöðu Íslands mun betur í samningum við ESB þar sem ESB er með yfirlýsta stefnu um að þeir virði eignarréttinn.

 

Grein eftir Jón Bjarnason birt 17.09.03 í Bæjarins besta

„Orð skulu standa“

Í fyrstu grein laga um stjórn fiskveiða stendur: „Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.“ Vinstrihreyfingin – grænt framboð krefst þess að markmið laganna standi og nýtingaréttur sjávarbyggðanna sé virtur. Sanngirni í skiptingu þjóðarauðs og vistvæn sjónarmið í veiðum og vinnslu ráði ferð í íslenskum sjávarútvegi. Framsal eða brask með kvóta verði óheimil. Sjávarjarðir fái skilgreindan útræðisrétt.

Löndun og vinnsla í heimabyggð 

Með því að byggðatengja hluta fiskveiðiréttindanna tryggjum við framtíð sjávarplássanna og atvinnuöryggi fiskverkafólks og sjómanna. Búseta við sjávarsíðuna hefur byggst upp vegna nálægðar við gjöful fiskimið og íbúum þeirra ber réttur til að nýta þau. Fiskveiðistjórnun sem beitt er til styrkingar búsetu verður að fela í sér byggðatengingu auðlindarinnar og kröfu um að aflinn fari til vinnslu í byggðunum sem njóta þessara réttinda.

Með því að efla strandveiðiflotann og auka fullvinnslu og bæta nýtingu þess hráefnis sem kemur að landi treystum við búsetu í sjávarbyggðunum. Þannig getum við einnig stuðlað að bættri umgengi við auðlindina og notkun vistvænna veiðarfæra.

Vistfræði og veiðarfæri

Það er fyrir löngu tímbært að taka aukið mið af líffræðilegum forsendum við stjórn fiskveiða og val á veiðarfærum. Sorgleg er sú staðreynd að sáralitlar rannsóknir liggja fyrir sem byggja má líffræðilega stjórnun fiskveiða á. Vitað er um vistfræðileg áhrif mismunandi veiðiaðferða og veiðarfæra en deilt er um hver þau áhrif eru. Afar brýnt er að stórauka rannsóknir á þessum þáttum.

Háskólasetrið á Ísafirði má efla til þessara verkefna og yrði það eitt sérsviða þess á landsvísu. Til þess að svo megi verða er nauðsynlegt að Háskólasetrið á Ísafirði fái sjálfstæði og eigin fjárhag til að sinna þessum verkefnum. Væri vel til fallið að hluti þess fjár sem nú fæst fyrir meðafla fiskiskipaflotans renni til Háskólasetursins á Ísafirði til þessara verkefna.

Vinstri-Grænir leggja til að línuívilnun verði einn liður í endurskoðun til vistvænni veiða. En mikilvægt er að sú aukning veiðiheimilda verði byggðatengd og auki atvinnuöryggi sjómanna, beitningamanna og annars landverkafólks, svo og fiskvinnslunnar í viðkomandi byggðarlögum. Framseljanlegur kvóti, sem flakka má með milli verstöðva þó aukinn sé með línuívilnun, eykur lítið öryggi byggðanna.

Trollveiði uppsjávarfisks

Við verðum að huga betur að vistvænni umgengni við auðlindir okkar
Hvaða vistfræðilegar forsendur liggja fyrir sem réttlæta það að „trolla“ uppsjávarfisk eins og nú er gert? Dæmi eru um að opin á þessum stóru trollum nálgist stærð tveggja fótboltavalla.

Engar óyggjandi rannsóknir liggja fyrir um áhrif þessara stóru flottrolla á lífríkið eða sundurgreint magn þess meðafla sem berst að landi og fer beint í bræðslu. Í tali manna eru nefnd þúsundir ef ekki tugir þúsunda tonna af bolfiski sem meðafla á trollveiðum uppsjávarfisks á ári.

Í einni höfn á Austurlandi var skip nýverið að landa 1.500 tonnum af kolmunna. Á bryggjunni var látið að því liggja að a.m.k. 50-75 tonn væri bolfiskur sem hvergi er talinn í kvóta og fer í bræðslu. Enginn getur fullyrt neitt. Og svo bítumst við um nokkur hundruð tonn í byggðakvóta eða línuívilnun. Á sama tíma er Strandamönnum meinað að ná sér í síld til beitu sem þeir hafa gert áratugum saman. Það er ekki heil brú í svona vinnubrögðum og þeim verður að breyta.

Loforð og efndir

Allt of margir létu glepjast af óljósum kosningaloforðum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks nú fyrir kosningar. Taugaveiklun í herbúðum þessara flokka og óskammfeilni í loforðum var meiri en nokkur dæmi eru um. Á Siglufirði var lofað jarðgöngum alveg fram á síðasta dag fyrir kosningar, leikið á tilfinningar fólks í erfiðri stöðu. Á Vestfjörðum var lofað línuívilnun, sem kæmi til framkvæmda í haust, sem nánast engar líkur eru á að staðið verði við.

Kjósendur máttu sjá þetta fyrir. Hverjum getur í alvöru dottið það í hug að forysta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks breyti í grundvallaratriðum því rangláta fiskveiðistjórnunarkerfi sem við nú búum við, kerfi, sem hefur tryggt þeim áframhaldandi stjórnarsetu? Þeir sem tóku þátt í þeim blekkingarleik fyrir kosningar eiga hér sömu ábyrgð og forysta þessara flokka. Það breytir litlu þótt einstakir frambjóðendur tali fyrir annarri stefnu í sjávarútvegsmálum og byggðamálum en forysta þessara flokka gerir. Það er forystan og þeir hagsmunahópar sem að henni standa sem ráða ferð.

Það var kosið um sjávarútvegsmál í kosningunum fyrir fjórum árum og lofað bót og betrun. Hvað hefur gerst?
Núverandi kvótakerfi hefur verið fest enn frekar í sessi. Tilfærsla aflaheimilda og samþjöppun veiðiheimilda hefur aldrei verið meiri en þessi ár. Kvótasetning smábátaflotans, fækkun daga hjá dagabátum, eru verk þessarar ríkistjórnar.

Mun ríkisstjórnin falla í haust?
Það er lofsvert að halda fund um sjávarútvegsmál og láta í ljós óánægju sína eins og gert var á Ísafirði sunnudaginn 14. september. Þar var þess krafist að stjórnmálamenn standi við orð sín. Það ætti samt að vera okkur öllum ljóst, að aðeins í kosningum getum við breytt stöðu mála. Reynist svo að þessi ríkisstjórn styðjist við falskan meirihluta og hafi þingmenn dug til að standa við sannfæringu sína eins og hún birtist kjósendum fyrir síðustu kosningar, ætti að vera í lófa lagið að fella þessa ríkisstjórn strax í haust. Að því skulum við vinna.

Jón Bjarnason,
þingmaður Vinstri-Grænna í Norðvesturkjördæmi.

Starfshópur um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða

Samtök eigenda sjávarjarða, sem meginn hagsmunaaðilar, fara fram á að fá fulltrúa  í starfshóp um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða.

Samtök eigenda sjávarjarða.
Pósthólf 90,
780 Hornafirði.

Alþingi.
Starfshópur um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða.
Hr. Guðbjartur Hannesson, formaður,
gudbjarturh@althingi.is
Austurstræti 8-10,
150 Reykjavík.

 

Reykjavík, 10. júlí  2009.

Málefni:  Samtök eigenda sjávarjarða, sem meginn hagsmunaaðilar, fara fram á að fá fulltrúa  í starfshóp um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða.

Sæll Guðbjartur.
Ég vísa í samtal við þig.
Ég hef margítrekað reynt að ná sambandi við sjávarútvegsráðherra undanfarið, út af lagalegum rétti sjávarjarða, en það hefur ekki tekist.
Til að byrja með vil ég upplýsa þig lítillega um Samtök eigenda sjávarjarða.

Formáli:

Hinn 5. júlí 2001 voru Samtök eigenda sjávarjarða stofnuð á fundi sem haldinn var í Reykjavík.  Félagar í SES eru um 400.  Jarðir með skráðan útræðisrétt eru rúmlega 1.000.  Heildarfjöldi jarða sem eiga land að sjó eru taldar vera 2.240.

Markmið Samtakanna er eftirfarandi:

  • Að fá útræðisrétt sjávarjarða virtan á ný og staðfestan í lögum um stjórn fiskveiða.
  • Að vinna að því að eignarréttindi sjávarjarða innan netlaga, sem og tiltöluleg eignarhlutdeild í sjávarauðlindinni í heild, verði virt og í heiðri höfð.

Frá því að Samtökin voru stofnuð hafa ofangreind markmið ítrekað verið kynnt á opinberum vettvangi.
Nú liggur fyrir að stefnumál Samtakanna hafa ekki fengið framgang við hefðbundna umræðu við lagasetningu á Alþingi þegar lög um stjórn fiskveiða hafa verið endurskoðuð.

Í nýlegu áliti Mannréttindadómstóls Evrópu, í máli grásleppubónda, kemur eftirfarandi fram:  “Ennfremur er það niðurstaða dómsins að réttur kæranda til þess að stunda fiskveiðar í netlögum úti fyrir sjávarjörðinni sem um ræðir hafi stofnað til “eignar” í skilningi 1. gr. samningsviðauka 1” (undirstrikun bréfritara).  Refsimál þetta er sérmál grásleppubóndans en er ekki mál sjávarjarða í heild.
Hluti auðlindarinnar, svo nefnd netlög, eru í einkaeign samkvæmt Mannréttindasáttmála Evrópu.  Sjór, dýralíf og plöntulíf er á ferð milli netlaga og ytra svæðis og er því sjávarauðlindin óskipt og á flakki.

Eigendur sjávarjarða eru meðeigendur að sjávarauðlindinni og eigendur eins mikilvægasta hluta hennar, þ.e. grunnsævisins næst landi.

Samtök eigenda sjávarjarða eru fjölmenn hagsmunasamtök um sjávarauðlindina, auk þess sem stefnumál þeirra er stærsta og umfangsmesta byggða- og réttlætismál síðari tíma.

Samtökin eru með heimasíðu.  Slóðin er: www.ses.is

Samkvæmt skilgreiningu í Lögbókin þín eftir Björn Þ. Guðmundsson, prófessor í lögum, þá eru netlög eftirfarandi:  ”Netlög nefnist ákveðið belti meðfram landi í sjó og vötnum sem tiltekin eignarréttindi eru bundin við.  Netlög eru talin falla undir eignarrétt eiganda → landareignar“.  Ennfremur er vísað í meðfylgjandi auglýsingu frá 3. október 2003.

Misjafnt er hvernig þetta belti í sjó er skilgreint.  Annars vegar er um að ræða netlög 115 metra út frá stjórstraumsfjöruborði þar sem aðdjúpt er og hins vegar netlög út á dýpi 20 möskva selnótar eða út á um 7,5 metra dýpi miðað við stórstraumsfjöruborð þar sem grunnsævi er meira (skýringar Páls Vídalín, lögmanns 1667-1727).

Eins og kemur fram í formála, þá er sjórinn, dýralíf og plöntulíf á ferð milli netlaga og ytra svæðis.  Engin bein skil eru á milli þessara svæða.  Sjávarauðlindin er því óskipt sameign.  Í því sambandi mætti vísa í svonefnda deilistofna, flökkustofna, sem eru á ferð milli svæða og semja þarf um.

Tveir sjávarlíffræðingar við Háskóla Íslands og Hafrannsóknarstofnun segja eftirfarandi í grein sinni í Morgunblaðinu 13. apríl 2008:   “Grunnsævið gulls ígildi.  Færa má rök fyrir því að grunnu hafsvæðin við Ísland séu ein mikilvægasta auðlind þjóðarinnar.  Þar er vagga fjölmargra nytjastofna og þaðan streyma nýliðarnir út á miðin.  Meðal annars hafa réttindi sjávarjarða verið í umræðunni”.  Svo segir:  “Grunnsævið í kringum Ísland (grynnra en 50 m) gegnir veigamiklu hlutverki sem uppeldisslóð fyrir okkar helstu nytjafiska”.  Fleiri vísindamenn taka í sama streng svo sem dr. Veerle Vanderweeld, framkvæmdastjóri alheimsáætlunar um varnir gegn mengun hafsins frá landi, en hún segir í viðtali í Morgunblaðinu 27. október 2000:  “Skilgreind strandsvæði eru einnig hýbýli 90% fiska og skeldýra”.  Vísað er í viðtal við dr. Kenneth Sherman, forstjóra Narragansett hafrannsóknarstofnunarinnar á Rhode Island í Fréttablaðinu 31. janúar 2002 en hann segir m.a.:  “Vistkerfi óháð landamærum og efnahagslögsögu.  Hann vísar í strandsvæði, frá árkerfum að landgrunnsmörkum og ytri mörkum helstu straumkerfa.  Tvö eða fleiri samliggjandi lönd deila oft eina og sama vistkerfinu”.  Höfðað er til hlutdeildar í deilistofnum.  Vísað er í viðtal í Morgunblaðinu 4. júlí 2005 við dr. Kathy Sullivan, geimfara og könnuð í Explorers Club, en hún segir:  “Strandsvæðin skipta miklu máli fyrir fiskveiðar og eru mikilvægar fiskuppeldisstöðvar.  Umhverfisgæði almennt taka mið af ástandi strandsvæðanna sem eru lungu og lifur jarðarinnar”. Að lokum ber að nefna í þessu sambandi tvo þætti dr. David Attenboroughs “Hafið bláa hafið” en þeir voru sýndir í íslenska sjónvarpinu 16. og 23. nóvember 2003.  Þættir 7 og 8 fjalla um strandsvæði sem má segja að hér á landi séu oft nefnd netlög.  Þættirnir skýra vel hversu mikilvæg netlögin eru.  Þeir sýna hvað dýra- og plöntulíf er fjölskrúðugt á strandsvæðunum og hvað það er einnig mikilvægt fyrir lífið utar í hafinu.

Landhelgi er skilgreind út frá landi og eru því netlög í landhelgi Íslands og innan efnahagslögsögunnar.

Nú er ljóst að mannréttindadómstóll Evrópu lítur svo á að netlög séu eign sjávarjarða í skilningi 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu.  Alþingi getur því ekki lengur hundsað þennan eignarrétt og ber að virða hann við umfjöllun og lagasetningar.

Þátttaka í starfshópnum.

Um starfshópinn segir í frétt í Fréttablaðinu 3. júlí 2009:  ”Hópurinn samanstendur af fólki úr öllum stjórnmálaflokkum og hagsmunaaðilum.  Verkefni starfshópsins verður að skilgreina helstu álitaefni, sem fyrir hendi eru í löggjöfinni og lýsa þeim.  Hann láti vinna nauðsynlegar greiningar og setji að því loknu fram valkosti um leiðir til úrbóta svo að sem víðtækust sátt náist um fiskveiðistjórnunina meðal þjóðarinnar”.

Það er krafa eigenda sjávarjarða, sem meðeigenda að óskiptri sjávarauðlindinni, að þeir verði hafðir með í ráðum um lagasetningar er tengjast sjávarauðlindinni og sérstaklega þegar um er að ræða lagasetningar sem tengjast strandsvæðum en lög um stjórn fiskveiða tengjast að sjálfsögðu strandsvæðum og netlögum.

Samtök eigenda sjávarjarða eru mestu eignarréttarlegu hagsmunaaðilar um sjávarauðlindina fyrir utan íslenska ríkið.  Samtökin fara því fram á að fá fulltrúa í starfshópnum.

Virðingarfyllst,

Samtök eigenda sjávarjarða.

______________________________
Ómar Antonsson, formaður.

Meðfylgjandi er til upplýsinga:

  1. Auglýsing, dags. 3. október 2003 er skilgreinir rétt og eign sjávarjarða í auðlindinni samkvæmt íslenskum lögum.
  2. Bréf, dags. 7. nóvember 2002 til Dr. Franz Fischlers, ráðherra Evrópusambandsins.

Hvað eru netlög?

Netlög er sá hluti jarða sem nær út í sjó. Stærð þessa hlutar jarðarinnar er skilgreindur á tvo mismunandi vegu. Samkvæmt rannsóknum dr. Ole Lindquist (1994), segir Páll lögmaður Vídalín að í Jónsbókarhandriti standi eftirfarandi skýring á netlögum: „það eru netlög utarst, er selnet stendur grunn 20 möskva djúp að fjöru sjóar, og koma þá flár uppúr sjó, en það er 12 álna djúp að fjöru“ og í öðru má lesa „þat eru netlög utaz, er selnót stendur grunn 20 möskva djúp ath fjöru, oc komi þá flár uppúr sjó, þat er fjögra faðma djúp“. Þetta gefur okkur dýptarviðmiðið 6,88 metra. Þetta er í fullu gildi og getur því verið um talsvert hafsvæði að ræða þar sem aðgrunnt er.

Tilskipunin um veiðar á Íslandi, 20. júní 1849 segir í 3. gr. „ á landi skulu veiði ráða rétt landamerki jarðar hverrar. Ef jörð liggur að sjó, á eigandi veiðar á haf út, 60 faðma frá stórstraumsfjörumáli, og eru það netlög hans.“ (í dag er talað um 115 metra) 115 metrana á að nota þar sem aðdjúpt er en dýptarviðmiðið þar sem er aðgrunnt. Veiðitilskipunin gildir þó ekki um fiskveiðar heldur eingöngu um veiðar á fuglum og dýrum.

Það er mjög mikilvægt að landeigendur verji netlög sín af fullri hörku því þarna er um gríðarlega auðlind að ræða sem á bara eftir að vaxa að verðgildi. Óviðkomandi vilja nota ströndina og netlög í mörgum tilgangi, eins og fyrir skolplosun, landtök fyrir strengi, námuvinnslu, fiskveiðar, fiskeldi, orkuvinnslu, ferðaþjónustu, vegagerð, hafnir, varnargarða og jafnvel til ferskvatnsvinnslu, til að nefna nokkur dæmi.

„Undirstrikar að eignarréttur eigenda sjávarjarða er varinn“

Frétt úr Bændablaðinu 11. júní 2009. Eftir MÞÞ

Hæstiréttur hefur dæmt Íslenska gámafélagið ehf. til að greiða Sigurði Baldurssyni bónda á Sléttu við Reyðarfjörð 6,3 milljónir króna auk dráttarvaxta, að líkindum 13 til 14 milljónir króna í allt, en sanddæluskip á vegum félagsins dældi jarðefnum af botni fjarðarins undan bænum og innan netlaga hans.

„Undirstrikar að eignarréttur eigenda sjávarjarða er varinn“

Hæstiréttur hefur dæmt Íslenska gámafélagið ehf. til að greiða Sigurði Baldurssyni bónda á Sléttu við Reyðarfjörð 6,3 milljónir króna auk dráttarvaxta, að líkindum 13 til 14 milljónir króna í allt, en sanddæluskip á vegum félagsins dældi jarðefnum af botni fjarðarins undan bænum og innan netlaga hans. Félagið hélt því fram að efnistaka hefði öll farið fram utan netlaga Sléttu og benti á að Sigurður hefði veitt samþykki fyrir efnistöku en ekki hefði verið samið um verð.

Fram kom í dómi Hæstaréttar, sem féll á dögunum, að gámafélagið hefði ekki haldið til haga eða lagt fram gögn í málinu um hvar efni hefði verið tekið, þrátt fyrir að því hefði verið það í lófa lagið til að styðja þá staðhæfingu að jarðefni hefði ekki verið tekið innan netlaga Sléttu.

Karl Axelsson hæstaréttarlögmaður og lögmaður Sigurðar segir að dómurinn sé stefnumarkandi og að hann auki mjög öryggi bænda og eigenda jarða við sjó. „Þessi dómur undirstrikar að eignaréttur eigenda sjávarjarða er varinn,“ segir hann og bendir á að samkvæmt netlögum hafi eigandi jarðar við sjó eða vatn umráðarétt yfir 115 metra breiðu belti frá stórstraumsfjörumáli og á sjó út.

Forsaga málsins er að við byggingu stórskipahafnar við Reyð arfjörð í tengslum við byggingu álvers tók verktaki, Íslenska gámafélagið, efni úr sjó vegna framkvæmdanna. Benti félagið á, sem fyrr segir, að Sigurður hefði veitt samþykki fyrir efnistöku en ekki hefði verið samið um verð. Sigurð tók að lengja eftir uppgjöri vegna efnistökunnar og innti forsvarsmenn félagsins eftir stöðu mála hvað það varðaði, en fékk þá þau svör að ekkert efni til hafnargerðarinnar hefði verið tekið á svæði sem tilheyrði jörð hans. Féllst Hæstiréttur ekki á þessa staðhæfingu Íslenska gámafélagsins, að efni hefði aðeins verið tekið utan netlaga Sléttu á svæði sem tilheyrði landi Fjarðabyggðar, enda báru vitni í málinu því við að hafa séð sanddæluskip við efnistöku nálægt landi og innan netlaga. Í yfirliti vegna efnistökunnar frá forsvarmönnum Arnarfells, sem um hana sá, kom fram að alls hefðu 126 þúsund rúmmetrar af sandi og möl verið fluttir í land með sanddæluskipinu til hafnargerðarinnar. Hæstarétti þótti jarðeigandi hafa sýnt fram á að gámafélagið hefði tekið efni úr landi hans og hann því eiga rétt á sanngjörnu endurgjaldi fyrir. Mótmælti gámafélagið kröfu Sigurðar um greiðslu á 75 krónur fyrir hvern rúmmetra af jarðefni og bar því við að kostnaður við vinnslu efna úr sjó væri hærri en þar sem þau væru tekin úr efnisnámu úr landi. Engin gögn voru þó lögð fram til stuðnings þessari málsástæðu.

Í úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta, þar sem metin voru jarðefni sem tekin voru eignarnámi úr námu í landi Sléttu, sagði að ágreiningslaust væri að verðmæti þeirra hefði verið 50 krónur fyrir hvern rúmmetra og að nefndinni þætti það verð hæfilegt. Með hliðsjón af því var Íslenska gámafélagið ehf. dæmt til að greiða Sigurði Baldurssyni 50 krónur fyrir hvern rúmmetra með dráttarvöxtum frá því mánuði eftir að hann sendi félaginu bréf þar sem tiltekið var magn jarðefna, sem krafist var greiðslu fyrir, auk einingaverðs.

Karl Axelsson segir að í málinu hafi Hæstiréttur snúið sönnunarbyrði við; Íslenska gámafélagið hafi verið krafið um að sýna með óyggjandi hætti fram á að það hefði engin efni tekið í landi er tilheyrði Sigurði. Það hafi félagið ekki gert. „Þessi dómur er að mínu mati góður, hann undirstrikar rétt eigenda sjávarjarða um landið og hann hefur varnaðaráhrif. Ég tel að verktakar og aðrir hafi oft farið frjálslega um eign bænda og eigenda sjávarjarða hvað jarðefni varðar. Þetta er eign sem skiptir sífellt meira máli nú, þegar torveldara verður að afla jarðefna til framkvæmda í landi. Í þessari eign eru því fólgin mikil verðmæti,“segir Karl. Hann fagnar því þessari niðurstöðu Hæstaréttar og telur dóminn stefnumarkandi hvað varðar réttindi eigenda sjávarjarða innan netlaga.

Á útgerðin eftir að gera upp við bændur?

Undanfarin ár hafa síldveiðar upp í landssteina og innan netlaga jarða aukist verulega. Skip frá fjarlægum landshlutum hafa mokað upp síld í Grundarfirði og siglt með hana til sinnar heimahafnar til frekari vinnslu. Til eru lög sem segja fyrir um greiðslu vegna síldveiða innan netlaga jarða og fara þau hér á eftir. Bændur eigið þið kanski útistandandi skuld? Hvernig væri að kanna málið?

Lagasafn. Íslensk lög 15. maí 2009. Útgáfa 136b.

Tilskipun fyrir Ísland um síldar- og upsaveiði með nót 1872 12. febrúar

Breytt með l. 54/1935 (tóku gildi 30. jan. 1935), l. 4/1936 (tóku gildi 1. febr. 1936), l. 116/1990 (tóku gildi 31. des. 1990) og l. 19/1991 (tóku gildi 1. júlí 1992 nema 1. og 3. mgr. 29. gr. sem tóku gildi 17. apríl 1991).

1. gr. Sérhverjum þeim, sem heimilt er að fiska í landhelgi, skal leyft að króa af síld eða upsa með nót upp að landi annars manns, og draga veiðina þar á land; svo má hann og setja þar báta, nætur og önnur veiðarfæri á land upp til aðgerðar og þerris, og salta þar niður aflann; en gjalda skal hann fyrir allt þetta landshlut, 4 af hundraði af veiðinni.

[Heimilt er að veiða með herpinót í netlögum annars manns, og skal þá gjalda landshlut, 3 af hundraði af veiðinni, enda sé nótinni ekki fest við land né lagt við festar í netlögum. Nótinni telst ekki lagt við festar, þótt skip, sem er að háfa veiði úr herpinót liggi fyrir akkeri. Nú er slíkri nót fest við land eða lagt við festar innan netlaga, og skal þá gjalda landshlut 4 af hundraði.]1) L. 4/1936, 1. gr.

2. gr. Geri nótarmenn með þessu skaða á túni, engjum eða haga, eða á friðlýstu æðarvarpi eða selalögnum, eða það verði almennum afnotum landeignarinnar til fyrirstöðu, skulu fyrir það koma sanngjarnar skaðabætur, sem óvilhallir menn er rétturinn nefnir þar til, skulu meta, ef mönnum kemur ekki saman.

3. gr. Landshlutur fellur undir ábúanda þeirrar jarðar, þar sem gjalda skal landshlut, þótt eigi sé hann eigandi jarðarinnar, nema öðruvísi sé um samið milli hans og landsdrottins.

4. gr. Hafi fleiri en einn tilkall til landshlutar af landi, þar sem landshlut skal greiða, er nótarformanninum heimilt að borga landshlut allan og skaðabætur fyrir skemmdir, sem kunna að hafa orðið á landeigninni, til einhvers þeirra, nema umboðsmaður gefi sig fram af hendi allra hinna, sem hlut eiga að máli.

5. gr. Þegar nót er upp dregin, er formaður skyldur til, áður en nótarmenn fara burt, að segja til veiðarinnar þeim, sem eftir næstu grein á undan á hlut að máli, og svo framarlega sem mönnum ekki hefir komið saman um annað, skal þá þegar gjalda landshlut með þeim parti af veiðinni, sem lögákveðinn er, og í því, sem veiðst hefir. Sé ekki farið eftir ákvörðun þessari, eða ef rangt er sagt til veiðarinnar, skal landshlutur goldinn tvöfalt. Sé rangt sagt til veiðarinnar í sviksamlegum tilgangi, kemur það þar að auk undir hin almennu hegningarlög.

6. gr. Bátar, veiðarfæri og afli nóteigenda skulu standa í veði fyrir landshlut og skaðabótum eftir 2. gr.

Sjá lögin í heild á vef Alþingis.