Bréf til ráðherra

Samtök eigenda sjávarjarða.

Pósthólf 90,

780 Hornafirði.

 Hr. Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegsrráðherra,

sjávarútvegsráðuneytinu,

Skúlagötu 4,

101 Reykjavík.

Hornafirði, 27. maí 2013.

Hér með óskar stjórn Samtaka eigenda sjávarjarða (Ses) eftir fundi með sjávarútvegs-, landbúnðar- og umhverfisráðherra sem allra fyrst.

 Meðfylgjandi eru nokkrar upplýsingar um eignarrétt sjávarjarða sem lagafyrirmæli eru um, sem stjórnin kynnti fyrir  formanni og varaformanni atvinnuveganefndar á fundi 31. október 2011.

 Ég vísa í fétt í Fréttablaðinu og einnig ummæli höfð eftir þér 24. maí s.l.:  Í viðtali við Fréttablaðið segir Sigurður Ingi Jóhannsson, nýr sjávarútvegsráðherra, að leitast verði við að ná sem víðtækastri sátt um atvinnugreinina.  Samráð verði aukið verulega.  „Við leggjum áherslu á víðtækt samráð við sem flesta enda er sátt útilokuð ef ekki er talað saman í undafara breytinga“.

 Vísað er í fund í sjávarútvegsráðuneytinu 18. febrúar 2013.  Þar var samþykkt að fundur yrði haldinn fljótlega aftur þar sem lausn þessa máls yrði rædd áfram.  Sá fundur hefur ekki farið fram enn.  

 Það eru engir eins mikilir hagsmunaaðilar og eigendur sjávarjarða, sem eru stjórnarskrárvarðir eigendur í sjávarauðlindinni, en lítið sem ekkert samráð hefur verið haft við þá sem mikilvæga hagsmuna- og eignaraðila. Við vekjum athygli á áliti Mannréttindadómstóls Evrópuráðsins:

„Ennfremur er það niðurstaða dómsins að réttur kæranda til þess að stunda fiskveiðar í netlögum úti fyrir sjávarjörðinni sem um ræðir hafi lögformlega stofnað til „eignar“ í skilningi 1. gr.  samningsviðauka 1“.  Álit þetta er bindandi og því verður ekki breytt af íslenskum stjórnmála- eða embættismönnum eða dómurum.

 Erindi okkar á fundi með þér er eftirfarandi:

 1. Að ræða það að réttur sjávarjarða til útræðis verði virtur.
 2. Að netlög verði virt með tilliti til Jónsbókarlaga og skýringa Páls Vídalín, lögmanns (7m), Grágásar og veiðitilskipunar frá 1849 ásamt skýringum sem koma fram í þingskjölum frá þeim tíma.
 3. Að fá svar við því hvort Alþingi og ríkisstjórn Íslands hyggist fara að lögum í þessu sambandi og sjái til þess að löglegur réttur sjávarjarða verði virtur í lagasetningum um stjórn fiskveiða.
 4. Stofnsetning nefndar til að skilgreina eignarhlutdeild sjávarjarða í sjávarauðlindinni eins og kveðið er á um í skýrslu nefndar um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða.
 5. Hlutdeild í auðlindagjaldinu.  Áætla þyrfti þessa hlutdeild á meðan ekki hefur fengist endanleg niðurstaða sbr. lið 4.
 6. Til að jafnræði sé í heiðri haft þá verði veittur fjárstuðningur til Ses (hlutaðeigenda í sjávarauðlindinni), sambærilegur við þann stuðning sem félög útgerðaraðila fá nú þegar.

 Virðingarfyllst,

Samtök eigenda sjávarjarða.

Ómar Antonsson, formaður.

 Meðfylgjandi er til upplýsinga:

 1. Upplýsingar um réttindi sjávarjarða sem lagafyrirmæli eru um, 15 síður (15 glærur).
 2. Upplýsingar um réttindi sjávarjarða sem lagafyrirmæli eru um, 10 erindi.

Fundur Samtaka eigenda sjávarjarða í sjávarútvegsráðuneytinu 18. febrúar 2013.

Minnisatriði. 

Eftirfarandi tóku þátt í fundinum:

Frá ráðuneytinu: Valdimar Halldórsson, aðstoðarmaður ráðherra, Ingvi Már Pálsson, sérfræðingur, Arnór Snæbjarnarson, lögfræðingur.

Frá SES: Ómar Antonsson, formaður, Björn Erlendsson, ritari, Bjarni Jónsson, stjórnarmaður og Pétur Guðmundsson, stjórnarmaður

Eftirfarandi atriði voru fyrst og fremst rædd á fundinum:

 1. Að stofnsett verði nefnd til að skilgreina betur eignar- og nýtingarréttindi sjávarjarða í samræmi við ályktun nefndar um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða.  Mið verði einnig tekið af áliti Mannréttindadómstóls Evrópu um að stofnað hafi verið lögformlega til eignarréttar sjávarjarða í sjávarauðlindinni.
 2. 40 miljón króna greiðsla á ári til LÍÚ og samtaka smábátaeigenda og að jafnræði verði í heiðri haft og hlutaðeigendur sjávarauðlindarinnar, þ.e. eigendur sjávarjarða, fá samskonar greiðslu.
 3. Eigendur sjávarjarða og hlutaðeigendur í auðlindinni fái sinn hlut í auðlindagjaldi.

Málin voru rædd vítt og breitt.

Bjarni sýndi glærur um rétt sjávarjarða.

Niðurstaða:

Fulltrúar ráðuneytisins sýndu málinu áhuga og virtust vera vel aðsér í réttindum sjávarjarða og þeirri klemmu sem skapast hefur varðandi skipulagsmál haf og strandsvæða á Íslandi með því að ætla að sniðganga eignarrétt landeigenda og munu þeir hafa samband við fulltrúa SES fljótlega með framhald á málinu.

Aðalfundarboð

Samtök eigenda sjávarjarða
Pósthólf 90
780 Hornafjörður

11. mars 2013.

Aðalfundarboð

Aðalfundur Samtaka eigenda sjávarjarða, Ses, verður haldinn fimmtudaginn 21. mars 2013 á Hótel Sögu (Radisson, SAS hótel) í salnum Keilir á 2. hæð Bændahallarinnar í Reykjavík og hefst hann kl. 15:00 og er þetta bréf fundarboð.
Fram fara venjuleg aðalfundarstörf.
Væntum við þess að sem flestir mæti og sýni þar með samstöðu í þessu mikilvæga máli.
Stjórn Ses.

Ágæti félagi
Sendum þér hér með gíróseðil vegna árgjalds til Samtakanna fyrir árið 2012 að upphæð kr. 4.500. Þar sem rukkun fór inn á heimabanka um leið og seðlarnir voru prentaðir þá eru þegar margir búnir að greiða. Þökkum við hröð viðbrögð.
Við vonum að félagsmenn bregðist vel við og greiði félagsgjöldin sem fyrst, þau eru einu tekjur samtakanna og án þeirra er ekkert hægt að gera.
Frá síðasta aðalfundi hefur stjórnin haldið nokkra stjórnarfundi auk annarra samskipta. Mörg bréf hafa verið send til nefnda Alþingis með athugasemdum við lagafrumvörp. Upplýsingum var komið til stjórnlagaráðs um eignarrétt sjávarjarða sem lagafyrirmæli eru um.
Sem fyrr hefur stjórnin reynt að kynna málstað samtakanna, bæði innanlands og utan. Nú síðast eða 21. mars 2012, voru samtökin boðuð á fund hjá Evrópusambandinu á Íslandi og fengu samtökin ágætis tækifæri til að kynna hagsmunamál sín þar. Þann 15. febrúar s.l. komu samtökin upplýsingum um eignarréttarhagsmuni sína í sjávarauðlindinni til tveggja aðalfulltrúa Evrópusambandsins á fundi um makrílstofnin.
Á árinu 2011 og 2012 hafa samtökin sent nokkur bréf til sjávarútvegsráðherra og til nefndarsviðs Alþingis þar sem skorað er á stjórnvöld að virða skýran rétt sjávarjarða og vísað er til laga um eignarrétt sjávarjarða, sem svo kemur í ljós að er einnig varinn af ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópuráðsins sem Íslendingar samþykktu 1953.
Sjávarútvegsráðherra hefur ekki svarað bréfunum en ljáði loks máls á því að fulltrúar samtakanna fengju fund í ráðuneytinu um lögleg hagsmunamál sín.
Fundur var með þremur fulltrúum sjávarútvegsráðuneytisins 18. febrúar 2013. Þar voru eignarréttindi sjávarjarða rædd og krafa gerð um að stofnsett yrði nefnd til að skilgreina þennan eignarrétt í auðlindinni í samræmi við niðurstöðu nefndar um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða.
Samtökin hafa margítrekað, bæði við ráðherra og Alþingi, að álit hefur komið frá Mannréttindadómstól Evrópu um að eigendur sjávarjarða eiga eignarrétt í sjávarauðlindinni. Þetta er ráðandi álit og því verður ekki breytt af íslenskum aðilum, hvorki alþingismönnum, embættismönnum eða dómurum:
3. Álit dómstólsins
„Ennfremur er það niðurstaða dómsins að réttur kæranda til þess að stunda fiskveiðar í netlögum úti fyrir sjávarjörðinni sem um ræðir hafi lögformlega stofnað til „eignar“ í skilningi 1. gr. samningsviðauka 1“.

Á síðasta ári hafa fulltrúar samtakanna verið boðaðir bæði til sjávarútvegsnefndar Alþingis og til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis til skýrslugjafar. Þeir hafa átt fund með formanni og varaformanni atvinnuveganefndar Alþingis.
Samtökin lögðu tvisvar fram lögbannsbeiðni á nýtt frumvarp til laga um stjórn fiskveiða. Sýslumaður sinnti ekki beiðnunum, vísaði þeim frá og kom vægast sagt með afar vafasaman rökstuðning fyrir því. Það er spurning hvort það þurfi að leggja aftur inn lögbannskröfu núna vegna nýja kvótafrumvarpsins.
Á fjölmennum aðalfundi samtakanna haustið 2008, nokkru eftir hrun, kom fram það álit nokkurra fundarmanna að eigendur sjávarjarða segðu jarðirnar formlega úr lýðveldinu. Nú heyrist ítrekað aftur þetta sjónarmið frá mörgum og er það orðið háværara í ljósi þess að hart er sótt að lagalegum eignarrétti sjávarjarða til náttúruauðlinda sem tilheyra jörðunum. Ef af yrði fengju jarðirnar sína landhelgi og fiskveiðilögsögu út að miðlínu og fulla eignarhlutdeild í svo nefndum deilistofnum. Engin fyrirmæli eru um það í lögum eða samningum sem menn hafa undirgengist að þetta sé ekki framkvæmanlegt eða bannað. Það eru mannréttindi eigenda sjávarjarða að geta slitið sig frá þeim aðilum sem sýna þeim valdníðslu og yfirgang. Margt mælir með því að þetta verði gert.
Undanfarið hafa samtökin sent inn fjölda umsagna við frumvörp til laga og þingsályktunartillögur sem að einhverju leyti koma inn á eignarrétt sjávarjarða. Ennfremur kom stjórnin tvisvar sinnum upplýsingum skriflega til Stjórnlagaráðs. Nokkrar umsagnir hafa verið gerðar við nýtt frumvarp til laga um stjórnarskrá, þingsályktunartillögu um skilgreiningu auðlinda og athugasemdir voru gerðar við nýtt kvótafrumvarp og vísað til eignarréttar sjávarjarða sem lagafyrirmæli eru um. Í nýju kvótafrumvarpi vísar sjávarútvegsráðherra til sömu laga um almenningsrétt til sjávarauðlindarinnar utan netlaga og sjávarjarðir vísa til með eignarrétt sinn innan netlaga. Eins og mál liggja nú fyrir í byrjun mars 2013 virðist nokkuð óljóst hvort í nýju stjórnarskrárfrumvarpi (uppkasti að sjálfri stjórnarskránni), auðlindakaflanum, sé tekið tillit til löglegra eignarréttinda sjávarjarða sem Mannréttindadómstóll Evrópu hefur gefið það álit sitt á að séu lögformleg eignarréttindi.
Ítrekað hefur verið bent á að rétturinn til sjávarins, sem er stjórnarskrárvarin og lagafyrirmæli eru um, er mikið réttlætismál og eitt stærsta byggðamál síðari tíma. Málarekstur Ses er kostnaðarsamur og fyrir liggur að halda verður áfram með málið. Samtökin treysta því á að félagsgjöldin skili sér.
Þeim sem vilja gerast félagsmenn, og styðja þar með baráttu Samtakanna, er bent á heimasíðu félagsins; www.ses.is Heimasíðan er svo einnig með hinar ýmsu upplýsingar.

Með bestu kveðjum, f.h. Samtaka eigenda sjávarjarða.

Ómar Antonsson, formaður
ses.netlog@gmail.com
omarantons@gmail.com

Svarbréf SES til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis vegna bréfs þeirra frá 7. mars 2013.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis,
bréf til allra nefndarmanna,
Nefndasvið Alþingis,
150 Reykjavík.

Reykjavík, 10. mars 2013.

Vísað er í tölvu svarpóst (feitletrað) frá Álfheiði Ingadóttur fyrir hönd stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, dagsett 7. mars 2013.
…………………
„Tillaga meirihlutans er skýrari að því leyti að í henni er fylgt lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu nr. 57/1998 1998, þar sem segir að sjávarbotninn innan netlaga, fylgi eignarhaldi á sjávarjörðinni sjálfri:
…………………….
Fyrra orðalag mátti túlka á þann hátt að eignarhaldi sjávarjarða fylgdi ekki aðeins botninn innan netlaga heldur einnig nytjastofnar sjávar og aðrar auðlindir hafsins innan netlaga.

Með tillögunni er þannig fylgt gildandi lögum og enginn réttur af mönnum tekinn. Tekið er fram í nefdnaráliti og skýringum með 35. gr. að deilur sem uppi kunna að vera um eignarhald og óbein eignarréttindi leysast ekki með nýrri stjórnarskrá heldur aðeins fyrir dómstólum. Að öðru leyti vísa ég til skýringa við ákvæðið, sjá bls. 59 í meðf. áliti á þingskjali 1112:“ …..

Við (SES) vísum í skýrslu sem Skúli Magnússon, dósent í lögum við Háskóla Íslands, vann fyrir Sjávarútvegsráðuneytið að beiðni nefndar um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða, dagsett 4. september 2001.

Heiti skýrslunnar er „Um stjórnskipulega vernd fiskveiðiréttar sjávarjarða.“
Þetta er löng skýrsla og því aðeins gripið niður í tvær greinar.

Gr. 2.6. Niðurstaða um heimildir eigenda sjávarjarða til veiða úr nytjastofnum innan netlaga jarða sinna.
„Samkvæmt því sem að framan greinir njóta landeigendur ótvírætt einkaréttar til fiskveiða innan netlaga sinna. Samkvæmt fordæmum hæstaréttar verða netlög jarða ekki ákveðin með hliðsjón af fjarlægðarreglu veiðitilskipunar fyrir Ísland frá 1849 eða síðari lagasetningu sem miðast við 115 metra frá stórstraumsfjöruborði þegar um er að ræða fiskveiðirétt. Verður því enn sem fyrr að ákveða netlög í þessu sambandi á grundvelli dýptarreglu 2. kapitula rekabálks Jónsbókar.“

Gr. 3. Verður fiskveiðiréttur landeiganda í netlögum takmarkaður með áskilnaði um veiðiheimildir samkvæmt lögum nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða?
„Fiskveiðiréttur eiganda í netlögum sjávar fyrir landi hans felur í sér sjálfstæð fjárhagslega verðmæt réttindi. Þessi réttindi eru þó svo nátengd umráðum og afnotum viðkomandi fasteignar að þau má kalla fasteignatengd. Réttindi sem þessi teljast ótvírætt til eignarréttar í skilningi 72. Gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. 10 gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995. Nægir því til stuðnings að benda á að almennt er viðurkennt að veiðiréttur í ám og vötnum, sem tengdur er fasteignum með sambærilegum hætti, njóti verndar eignaréttarákvæðis stjórnarskrárinnar.“

Það er nákvæmlega þannig sem þetta er, að nytjastofnar og aðrar auðlindir hafsins innan netlaga tilheyra sjávarjörðum og hafa gert síðan Jónsbókarlögin voru sett árið 1281. Hvort sem ykkur líkar það betur eða verr þá eru nytjastofnar sjávar óskipt sameign eigenda sjávarjarða og þjóðarinnar.

Það er mjög furðulegt afstaða hjá nefndarmönnum að grundvallarlöggjöf eins og stjórnarskrá skuli aðlöguð að umdeildum lögum eins og „kvótalögunum“ eða lögum nr. 57/1998, sem þið vísið í. Væri þá ekki nær að miða við Jónsbókarlöginn frá 1281 sem hafa dugað vandræðalaust í meira en 700 ár.

Breytingartillagan er fljótfærnislega unnin. Það er ekki hægt að setja afturvirk lög, lög sem eru í andstöðu við Jónsbókarlögin, sem eru meginreglur.

Það er sorglegt til þess að hugsa hvað nefndarmenn eru illa upplýstir um íslensk lög. Þið hefðuð betur gefið ykkur tíma til að hlusta á það sem við höfðum fram að færa þegar fulltrúar okkar komu fyrir nefndina sem þið berið ábyrgð á, í stað þess að sýna þeim hroka. (Þetta á aðeins við formann nefndarinnar).

Við erum í langan tíma búnir að iðka svokallað „samtal“ við yfirvöld í þessu landi með litlum árangri. Það vaknaði von þegar félagshyggjuflokkarnir komust til valda en niðurstaðan í samskiptum við þá er sýnu verri en við forverana.

Samkvæmt gildandi íslenskum lögum er eignarréttur sjávarjarða á öllum auðlindum innan netlaga lögvarinn, þar með talið fiskar, skeldýr og þari. Það er krafa eigenda sjávarjarða að stjórnarskrá lýðveldisins verði í samræmi við það.

Virðingarfyllst,
f.h. Samtaka eigenda sjávarjarða

Ómar Antonsson, formaður,

Svar við bréfi SES frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, 7. mars 2013

Góða kvöldið – og takk fyrir erindi Samtaka eigenda sjávarjarða.
Af því tilefni vil ég benda á eftirfarandi:

Í tillögu stjórnsk og eftirlitsnefndar á þingskjali 1112 segir:

Til þjóðareignar skv. 1. mgr. teljast nytjastofnar og aðrar auðlindir hafsins innan íslenskrar lögsögu, auðlindir á, í eða undir hafsbotninum utan netlaga svo langt sem fullveldisréttur ríkisins nær, vatn, þó að gættum lögbundnum réttindum annarra til hagnýtingar og ráðstöfunar þess, og auðlindir og náttúrugæði í þjóðlendum. …

Fyrra orðalag frá sérfræðihópnum, sem vitnað er til í bréfi ykkar var svohljóðandi:

Til þjóðareignar skv. 1. mgr. teljast nytjastofnar og aðrar auðlindir hafs og hafsbotns innan íslenskrar lögsögu utan netlaga, vatn og önnur þau náttúrugæði sem ekki eru háð einkaeignarrétti, svo sem vatnsafl, jarðhiti og jarðefni í þjóðlendum….

Tillaga meirihlutans er skýrari að því leyti að í henni er fylgt lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu nr. 57/1998 1998, þar sem segir að sjávarbotninn innan netlaga, fylgi eignarhaldi á sjávarjörðinni sjálfri:

2. gr. Eignarland merkir í lögum þessum landsvæði, þar með talið innan netlaga í stöðuvötnum og sjó, sem er háð einkaeignarrétti þannig að eigandi landsins fer með öll venjuleg eignarráð þess innan þeirra marka sem lög segja til um á hverjum tíma.

Netlög merkir í lögum þessum vatnsbotn 115 metra út frá bakka stöðuvatns sem landareign liggur að, svo og sjávarbotn 115 metra út frá stórstraumsfjöruborði landareignar.

Fyrra orðalag mátti túlka á þann hátt að eignarhaldi sjávarjarða fylgdi ekki aðeins botninn innan netlaga heldur einnig nytjastofnar sjávar og aðrar auðlindir hafsins innan netlaga.

Með tillögunni er þannig fylgt gildandi lögum og enginn réttur af mönnum tekinn. Tekið er fram í nefdnaráliti og skýringum með 35. Gr. að deilur sem uppi kunna að vera um eignarhald og óbein eignarréttindi leysast ekki með nýrri stjórnarskrá heldur aðeins fyrir dómstólum. Að öðru leyti vísa ég til skýringa við ákvæðið, sjá bls. 59 í meðf. áliti á þingskjali 1112: http://www.althingi.is/altext/141/s/pdf/1111.pdf

M.kv. Álfheiður Ingadóttir,
þingmaður VG og varaformaður stjórnskipunar- og eftirltisnefndar.

„Um 3. mgr.
Ákvæði 1. mgr. 35. gr. felur í sér almenna yfirlýsingu um auðlindir í þjóðareign. Í 3. mgr.
eru nánar tilgreindar þær auðlindir sem teljast munu til þjóðareigna verði frumvarpið samþykkt.
Samkvæmt þessu felur 35. gr. í sér sjálfstæða ákvörðun um að þær auðlindir sem tilgreindar eru í 3. mgr. teljist til þjóðareigna. Jafnframt er áréttað að löggjafinn geti ákveðið að lýsa fleiri auðlindir og náttúrugæði þjóðareign, þ.e. að uppfylltu skilyrði 1. málsl. 1. mgr.
að þau séu ekki háð einkaeignarrétti. Hér má t.d. nefna erfðaauðlindir í náttúru Íslands og rafsegulbylgjur til fjarskipta. Í lögum mundu þá verða útfærð frekar markmið stjórnarskrárákvæðisins gagnvart þeim auðlindum eða náttúrugæðum.
Samkvæmt 3. mgr. teljast til þjóðareignar í fyrsta lagi nytjastofnar og aðrar auðlindir hafsins innan íslenskrar lögsögu og er þar miðað við sömu skilgreiningu fiskveiðilögsögu Íslands og gert er í 2. mgr. 2. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, og 2. mgr. 2. gr. laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 79/1997, þ.e. hafsvæðið frá fjöruborði að ytri mörkum efnahagslögsögu Íslands eins og hún er skilgreind í lögum nr. 41/1979, um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn. Með þessu er þó ekki haggað við rétti til fiskveiða og annarrar nýtingar lífrænna auðlinda sem í íslenskum rétti hefur verið viðurkennt að fylgi eignarrétti að sjávarjörðum en sá réttur hefur þó sætt verulegum takmörkunum á grundvelli löggjafar um veiðistjórnun.
Í öðru lagi teljast auðlindir á, í eða undir hafsbotninum svo langt sem fullveldisréttur ríkisins nær til þjóðareignar en þó aðeins utan netlaga. Er þetta í samræmi við afmörkun 1. gr.
laga um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, nr. 73/1990, sbr. og 1.–3. gr.
auðlindalaga.“ …

Umsögn, upplýsingar og athugasemdir vegna frumvarps til laga um stjórn fiskveiða, mál nr. 570.

Alþingi nefndasvið,
101 Reykjavík.
nefndasvid@althingi.is

24. febrúar 2013.

Umsögn, upplýsingar og athugasemdir vegna frumvarps til laga um stjórn fiskveiða, mál nr. 570. (Lagt fyrir Alþingi á 141. Löggjafarþingi 2012-2013).

Vísað er í meðfylgjandi fylgigögn Samtaka eigenda sjávarjarða (Ses) sem áður hafa verið send til nefndasviðs Alþingis svo og athugasemdir í bréfum sem send hafa verið sem skilgreina lagalegan eignarrétt sjávarjarða í sjávarauðlindinni.

Vísað er í umsögn til nefndasviðs Alþingis, ásamt fylgigögnum , dags. 20. apríl 2012 vegna frumvarps til laga um stjórn fiskveiða, mál nr. 657. Ennfremur er vísað sérstaklega í meðfylgjandi umsögn til nefndasviðs Alþingis ásamt fylgigögnum, dags. 14. febrúar 2013 við tillögu til þingsályktunar um skilgreiningu auðlinda, mál nr. 35. Umsögn skýrir eignarréttindi sjávarjarða til sjávarauðlindarinnar.

Hér með legg ég fram umsögn, upplýsingar og athugasemdir til Alþingis fyrir hönd Ses vegna fyrrgreindrar þingsályktunartillögu.

Í I. KAFLA Markmið, yfirstjórn, gildissvið og orðskýringar segir:
„Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameiginleg og ævarandi eign íslensku þjóðarinnar. Íslenska ríkið veitir tilskilin leyfi og fer með og ráðstafar hvers kyns heimildum til nýtingar. Slík veiting eða ráðstöfun myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir þeim“.

Þessi yfirlýsing er að hluta til rétt. Það verður hins vegar að benda á að eigendur sjávarjarða eru hlutaðeigendur í sjávarauðlindinni þar sem þeir eiga hluta af sjónum sem nefnist netlög . Hluti nytjastofna er því séreign eigenda sjávarjarða. Fram að því að lög um stjórn fiskveiða voru sett fyrir þremur áratugum þurftu eigendur sjávarjarða ekki leyfi íslenska ríkisins til að veiða í eign sinni, þ.e. netlögunum. Síðan þá hefur íslenska ríkið ekki öðlast neinn frekari eignarrétt í netlögum.

Í frumvarpi til stjórnarskipunarlaga 415. mál., sem byggir á tillögum stjórnlagaráðs að stjórnarskrá og kosið var um auðlindaákvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu, segir um þjóðareignina:

Til þjóðareignar skv. 1. mgr. teljast nytjastofnar og aðrar auðlindir hafs og hafsbotns innan íslenskrar lögsögu utan netlaga, vatn og önnur þau náttúrugæði sem ekki eru háð einkaeignarrétti, svo sem vatnsafl, jarðhiti og jarðefni í þjóðlendum. (feitletrun og undirstrikun frá bréfritara).
Eðlilegt er að samræmi sé í lögunum og ætti þá loka málsgrein í 1. gr. að vera svona: „Nytjastofnar á Íslandsmiðum, utan netlaga, eru sameiginleg og ævarandi eign íslensku þjóðarinnar. Íslenska ríkið veitir tilskilin leyfi og fer með og ráðstafar hvers kyns heimildum til nýtingar. Slík veiting eða ráðstöfun myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir þeim“.

Landhelgi miðast við landið sem hún er undan sem oft er í einkaeigu. Netlög eru innan landhelgi og fiskveiðilögsögu Íslands.

Í 4. gr. Orðskýringar eru ýmsar skýringar á hugtökum í sambandi við lögin. Þar eru m.a. skýringar á svæði svo sem fiskveiðilögsögu Íslands sem nær yfir netlög sem víða eru í einkaeigu.

Hér vantar skilgreiningu á hugtakinu netlög og að þar sé um að ræða séreignarrétt sjávarjarða til sjávarauðlindarinnar. Netlög eru skilgreind á tvo vegu, með fjarlægðarreglu (115m) og varðandi fiskveiðar gildir dýptarviðmið (6,88m) hvoru tveggja miðað við stórstraumsfjöru.

Eftirfarandi er umsögn um „Athugasemdir við lagafrumvarp þetta“.

Vísað er í 2. Meginefni frumvarpsins. Það er ekki sagður nema hálfur sannleikurinn í þessum athugasemdum. Það er verið að reyna að blekkja menn og er það ekki samboðið Alþingi Íslendinga.
Í 2.2 Yfirlýsing um sameiginlega og ævarandi eign þjóðarinnar segir:
„Elstu lög íslensk hafa að geyma ákvæði um frelsi manna til að nýta hafið. Í Jónsbók segir: Allir menn eigu at veiða fyrir utan netlög að ósekju.7Þannig hefur réttur til að nýta fiskstofnana við Ísland frá fornu fari verið almennur, þ.e. landsmönnum öllum var jafnheimilt að stunda fiskveiðar í sjó utan netlaga eignarjarða. Nýtingarrétturinn var þannig almannaréttur sem og rétturinn til að hafa atvinnu af fiskveiðum“.

Þessar athugasemdir eru mótsagnakenndar og þarfnast leiðréttingar. Nýtingarrétturinn var meira en almannaréttur, sem öll áhersla virðist vera lög á í þessu frumvarpi, hann var einnig séreignarréttur þeirra sem áttu netlögin.

Til staðfestingar á rétti þá vísar Alþingi í sömu lög og eigendur sjávarjarða vísa til með sinn rétt. Hér er um að ræða elstu lög sem hafa að geyma m.a. séreignarrétt landeigenda til sjávarauðlindarinnar, þ.e. netlög og nýtingarréttinn þar.

Stjórn Ses vísar til 65. gr. stjórnarskrárinnar um að allir skulu vera jafnir fyrir lögunum bæði almenningur svo og þeir sem eiga séreignarréttindi. Ennfremur er vísað í 14. gr. mannréttindasáttmála Evrópuráðsins og 2. gr. mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna um jafnræði og að ekki megi mismuna mönnum vegna eigna.

Svo segir: ”Varast ber þó að gera of mikið úr þessum rétti enda lagði hið íslenska landeigenda- og embættismannasamfélag miðalda margs kyns bönd á athafnafrelsi manna”.

Þarna er um skoðun viðkomandi á m.a. embættismannasamfélagi miðalda að ræða og kemur hún málinu á engann hátt við og ættu men að halda sig við staðreyndir eins og lög, stjórnarskrá og eignarrétt. Réttur þessi er samkvæmt fornum lagafyrirmælum og gat embættismannasamfélag miðalda ekki sett hvaða bönd sem er á rétt manna.

Vísað er í grein í Morgunblaðinu, 13. október 1996 um hæstaréttardóm, sem ekki síður er um útræðisrétt og atvinnufrelsi á sjávarjörðum: „Hæstiréttur hefur kveðið upp stefnumarkandi dóm um afskipti ríkisvaldsins af atvinnufrelsi manna. Er vísað í ákvæði stjórnarskrárinnar þess efnis, að ekki megi takmarka atvinnufrelsi nema almenningsþörf krefjist og þá með lagaboði. Á það er bent í dómnum, að löggjafarvaldið, Alþingi, geti ekki falið framkvæmdavaldinu óhefta ákvörðun, sem takmarkar atvinnufrelsið, og í löggjöfinni verði að vera settar meginreglur um takmörk og umfang þeirrar réttindaskerðingar, sem nauðsynleg er talin“.

Alþingismenn þurfa að hafa í huga að það er ekki hægt að svipta eigendur sjávarjarða eignarrétti sem lagafyrirmæli eru um. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur komið með það álit sitt að þessi réttur sé lögformlega til staðar. Alþingismenn minnist þess að þeir hafa unnið drengskaparheit að eignarréttarákvæði sjórnarskrár Íslands og ber því að virða hana.

Að öðru leyti er vísað í margar umsagnir og fylgigögn með þeim sem Samtök eigenda sjávarjarða hafa sent til nefndasviðs Alþingis.

Virðingarfyllst,
f.h Samtaka eigenda sjávarjarða

Ómar Antonsson, formaður. ses.netlog@gmail.com omar@litlahorn.is
Heimasíða Samtaka eigenda sjávarjarða er: www.ses.is

Meðfylgjandi:
1. Ses upplýsingar 12 erindi vegna sjávarjarða.
2. Ses atvinnuveganefnd glærur 31okt2011.
3. Umsögn vegan tillögu til þingsályktunar um skilgreiningu auðlinda, mál nr. 35.

Jónsbókarlög 1281 (Til upprifjunar)

Lagasafn. Íslensk lög 1. október 2007. Útgáfa 134. Prenta í tveimur dálkum.
________________________________________
Jónsbók
1281
________________________________________

Rekabálkr.
Kap. 1.
Hverr maðr á reka allan fyrir sínu landi viðar ok hvala, sela ok fiska, fugla ok þara, nema með lögum sé frá komit. Ef við rekr á fjöru manns, þá skal hann marka viðarmarki sínu, því er hann hefir sýnt áðr grönnum sínum … Eigi er lögmark ella. Rétt er at maðr vaði til ok marki þar tréit, ef hann kemr því eigi ór flæðarmáli, ef þat er við þá fjöru er festa má reka á, ok á hann þá, þó at á annars fjöru komi. En hinn er fjöru á skal gera honum orð, ef hann veit hverr á, eða lýsa at kirkju. … Ef við eða hval rekr í gegnum merkiósa upp á land, ok á sá maðr þat er land á fyrir ofan. Ef vötn eða lón ganga fyrir ofan fjöru manns, ok kasti þar hval eða viði yfir malarkamb eða eyrartanga upp í vatnit, þá á sá maðr er vatn á eða jörð fyrir ofan, ef á land rekr; helgar þar festr hval, en við mark sem annars staðar. Nú brýtr nýja ósa út í gegnum fjöru manns, ok rekr þar hval eða við upp á jörð, ok á sá er fjöru á fyrir utan. En þó at brjóti nýja ósa í gegnum fjöru manns, þá skal hinn forni ráða. Nú verpr tré eða hval á jörð upp, ok á sá bæði er reka á. En ef þar er jörð gróin yfir viði eða beinum, þá á sá er jörð á. Þar er tré eru í jörðu hálf ofarr en nú gengr flóð til, ok á sá maðr þar tré ok bein er jörð á fyrir ofan. En ef tré eða bein eða tálkn er í flæðarmáli, þó at sandi sé yfir orpit eða í grjóti fast, þá á sá þat allt er fjöru á. Nú eru ósar at merkjum, þá á hvárr þeira reka allan til miðs óss. Ef rekann festir í miðjum ósinum, þá á hálfan hvárr þeira. Nú rekr við eða hval upp eptir þeim ósi ok kastar á svarðfast land, eða festir í vatnsbökkum fyrir ofan rekamark, þá á sá er jörð á eða eyrar, ef þar festir, nema festi í miðju vatninu, þá skal jafnt hverfa rekinn til hvárs tveggja lands, allt þat er þar rekr. Ef birkivið rekr út at merkiósum, ok á sá þann við er jörð á fyrir ofan reka þann er tréit kemr á. Ef við rekr at á ofan ok festir í eyrum eða rekr á land upp, þá á sá þann við er jörð á, nema einn maðr eigi allan skóg, þá á sá.

Kap. 2. Um viðreka ok veiði fyrir útan netlög.
Hverr maðr má flytja ok fénýta sér við þann allan er hann finnr fljótanda fyrir annars landi út frá rekamarki. Taka má maðr við ok hval þar við annars land at flytja er eigi er ván at festi, nema svá sé nær þeiri fjöru er festa má reka á, at sjá mundi mega þaðan fisk á borði, ef eigi bæri land fyrir. Svá á allar flutningar at taka. Ef maðr flytr við sinn á annars fjöru, ok skal sá viðr eigi þar lengr liggja en þrjár nætr, ef þat er rekafjara, nema nauðsyn banni, ella bæti … skaðabót þeim er reka á. Rétt er honum at færa upp á land ór fjöru ok hafa þaðan flutt innan tólf mánaða þaðan frá. Allir menn eigu at veiða fyrir utan netlög at ósekju. … Ef maðr kaupir reka af landi manns at lögmáli réttu, ok skilja þeir þat eigi gjörr en svá, þá á landeigandi af fjöru þeiri alnarlöng kefli öll ok smæri, en rekamaðr á þar við allan annan útelgdan er þar rekr upp, ok svá hvali alla er þar hlaupa kvikir á land, nema menn valdi, ok svá á hann þá hvali er þar rekr. Sá maðr, er land á, hann á þara allan ok fugla alla, sela alla ok rostunga, ok svá ef maðr drepr sel. Hann á þar at hafa hnísur ok háskerðinga, ok fiska alla, nema þar reki fleiri senn í land en fimm, þá á rekamaðr. Landeigandi á ok flutningar allar ok at varðveita skotmannshlut … ok hvali þá alla er fyrir mönnum hlaupa á land, ok veiðar allar í netlögum ok í fjörunni. Ef viðr flýtur í netlögum, þann á rekamaðr. En ef útar er viðrinn, ok má þó sjá fisk á borði, þá á sá maðr, er jörð á, ok allt þat er þar flýtr. En fjörumaðr þat, sem í netlögum er, hvárt sem net er lagit af landi eða skeri. Ef sker eða eyjar liggja fyrir landi manns, ok á sá þat ok reka þann, er fylgir, er meginland á næst, nema með lögum sé frá komit.

Kap. 3. Um festing á hval.
Ef hval rekr á fjöru manns, þá skal sá er á landi býr þar næst festa hval þann, hverr sem fjöru á, ok hafa slíkt af hval sem fyrr skilr leiguliða, þó at landsdrottinn búi sjálfr á jörðu. Hann skal festa hval þeim festum at eigi sé ósterkari en reip þau tíu er tveggja manna afli haldi hvert, ok sé þá borinn annarr endir um stokk eða stein. Rétt er honum at skera festar af sjálfum hvalnum. Ok ef svá er festr, þá ábyrgist hann eigi, þó at út taki hvalinn ef sumr er festarstúfr á landi, en sumr í hval, ok á hann hvalinn er áðr átti, þó at á annars fjöru komi. Hann skal flytja brott hvalinn, hvárt er hann vill á skipi eða eykjum, ok neyta engis þar, nema vatns ok haga. En ef sex skynsamir menn sanna þat með eiðum, at hvalr sé verr festr en nú var talt, þá á sá ekki í, þó at út taki, er festi, ok ábyrgist at öllu, ef annarr á hval. Hann á þegar at senda mann þann er fari fullum dagleiðum þeim er reka á. En landbúi skal þá skera hval ok þeir menn er hann fær til, til fjórðungs, þar til er rekamaðr kemr til eða hans umboðsmaðr, þá skulu þeir ráða þeim er óskorinn er. En ef þar eigu fleiri í reka, þá skal hann þeim orð gera er mest á í, en hinna hlut skal hann varðveita ok selja sem hann eigi sjálfr, ok ábyrgist við sínum handvömmum. Nú skerr maðr hval á fjöru sinni ok rekr þar fjósir út, tálkn eða bein, ok rekr á annars fjöru, þá á sá þat er fjöru á, ef lengra er frá fjörumarki hins en tvau hundruð faðma. Svá er ok um garnar ok seymi ok allt þat er fémætt slítr út af hval. En ef urgur eru í hvalfjósum þeim er út sleit, þá helga þær þeim er átti í fyrstu. Nú þó at hvalr sé minni en festingarhvalr eigi af at takast, þá er sá jafnskyldr er á jörðu býr at festa hinn minna sem hinn meira. Allt skal hann þat færa ór flæðarmáli er fémætt rekr á fjöru þá, sem hann ætti land ok reka, ella ábyrgist hann at öllu við rekamann. Lauss er sá maðr við reka varðveislu er á jörðu býr, ef rekamaðr hefir öðrum umboð fengit, ok skal sá þá fyrir sjá ok ábyrgjast svá sem hinn skyldi. Ef nokkurr maðr kallar sá til meira hvals en fyrr hefir haft, er menn vitu þó at nokkut á í reka, þá skal honum þó til handa skipta þeim hval er hann kallar til yfir þat er rekamaðr veit, hálfu minna en hann kallar til. Nú prófast sem annar hvárr hafi logit, gjaldi sá hval tvennum gjöldum þeim er á ok kostnað sinn allan þann sem hann hefir fyrir haft. … Nú kemr hvalr eða tré á rekamark, þá eigi svá hverr sem reka á undir.

Kap. 4. Um skot, ef þat finnst í hval, ok ef leynt er skotinu.
Ef hval rekr á fjöru manns, ok á fjörumaðr þann allan, ef eigi er skot í. En ef skot finnst í þat er þingborit mark er á, þá á skotmaðr hálfan, ef hann kemr til áðr hans hlutr er virðr ok veginn ok af fjöru fluttr. En svá skal maðr skots leita sem hann ætti skots ván í hval á annars fjöru. En sá á vætt spiks af skotmannshlut er finnr skot. Ef fjörumaðr veit hverr skot á, þá skal hann gera honum orð, ef hann er svá nær at fara má tvívegis þangat þann dag er þá er, ef hann færi árdegis. En ef hann gerir eigi skotmanni orð þegar skot finnst, — því at svá mikit skal hafa af síðarra degi sem þá var af fyrra er maðr var sendr, — þá sekist hann mörk, hafi hálfa konungr, en hálfa skotmaðr, ok slíkan hval sem honum væri at lögum orð ger. Landeigandi á at skera til fjórðungs skotmannshlut, þar til er skotmaðr kemur til, ok ábyrgjast þann hval við skotmann. Síðan skal skotmaðr ráða sínum hval hinum óskorna ok ábyrgjast sjálfr þann. …

Kap. 5. Um skotmannshlut, hversu fara skal.
Hvervetna þess er skotmaðr kemr svá til skothvals at sumr er óskorinn, þá skal hann ráða hinum óskorna jafnan, en hinn er skar skal hafa fjórðung af þeim er hann skar, ok svá skal jafnan fara, ef hann kemr til fyrr en hans hlutr sé allr virðr ok veginn ok af fjöru fluttr. Nú kemr engi at kalla til skots þess er þar er fundit, þá skal landeigandi varðveita skotit ok hafa þá hálfan skotmannshlut, hversu sem hann kemr kaupi við skurðarmenn. Skothval skulu virða … skynsamir menn … Nú eru fleiri skot í hval en eitt, þá á sá hvalinn er fyrstr kom banaskoti á ok þingborit mark hafi. Ekki sakar, ef í spik kemr. Ef maðr veiðir hval þann er áðr er helvænn af þingbornu skoti, ok á sá þó skotmannshlut, er fyrri skaut hvalinn, en hinn fyrir starf sitt. … Þeir skulu æ skothval virða er næstir búa því er skot finnst. Sá maðr á at varðveita skotmannshlut er land á, ef annarr á reka, en hálft á hvárr þeirra bein ok tálkn. Landeigandi á heimting við rekamann, ef hvalr er seldr áðr skot finnst, en skotmaðr við hann. Ef hval slítr út þann er menn hafa skorit ok finnst skot í, hvar sem á land rekr, þá á skotmaðr heimtu at öllum þeim er fjöru áttu þar er sá hvalr kom, ok svá þó at menn skeri á floti eða skeri, ok skeri til helmingar, ef lögliga er virðr, en æ til fjórðungs, ef eigi er virðr. Sá maðr er skot hefir at varðveita skal sýna ok segja til marks á skotinu eða umboðsmaðr hans, ok svá til nafns síns, ok svá hve mikit fé skoti fylgir.

Kap. 6. Um fiskhelgi ok ábyrgð á flutningarhval.
Ef maðr finnr hval á floti, þá skal hann flytja hvert er hann vill, ef þat er útar fyrir annars landi en fisk sér á borði. Þat skal þorskr vera flattr, álnar í öxarþærum. Á því borði skal sjá er til lands veit þaðan sem fjarar lengst. Ef menn koma til þá er hann hefir festar í borit hval, þá er hann eigi skyldr við þeim at taka, ef hann fær fluttan hval. En þó at þeir beri festar í, þá eigu þeir eigi at heldr. En ef þeir koma eigi hval til lands er níttu liði hinna, þá skulu þeir ábyrgjast hvalinn við þá. …

Kap. 7. Um flutningarhval ok griðmenn finna.
Þess hvals er fluttr er eigu flytjendr þriðjung, en landeigandi tvá hluti, nema skot finnist í, þá á skotmaðr þriðjung. Skal skotmannshlutr svá fara at öllu sem um rekahval. En þeir menn sem fyrst bera festar í hval eigu at hafa finnanda spik, þótt fleiri sé at flutningu. Þat eru þrír tigir átta fjórðunga vætta, hálft hvárt spik ok rengi, ef hann er tvítugr eða lengri óskerðr, eða svá skerðr at hann sé þá eigi minni en tvítugr þess kyns heill. Þat skal allt af flutningarþriðjungi takast. Ok ef þeir hafa nokkut skorit á skip sitt, en flytja þat er eptir er, þá skulu þeir þat fyrir finnandaspik hafa, en skipta sem öðrum hval þat sem meira er. Ef landeigandi er at flutningu, þá á hann kost at flytja á sitt land. En ef þangat er lengra, þá ábyrgist hann hval við sína lagsmenn, ef þeir missa fyrir þat. Ef landeigendr eru fleiri at flutningu, þá skal á þess manns land flytja er næst á land. … Ef griðmenn manns finna hval á floti ok á bóndi verk þeira allt, þá á hann hvalinn. En ef hann átti, fiski þeira at eins, þá á hann eigi meira í hval en sýslan dvaldist, sú er hann átti eptir því sem bændr virða, ok skiphlut sinn, ok ábyrgist þeir þó skip sem áðr. Nú flytja menn hval ór almenning, ok eignast þeir eigi, nema þeir beri fyrr festar á land en þeir láti hval lausan ok festi sem fyrr segir, ella er þat rekahvalr. Nú rekr hval svá mjök fyrir veðri eða straumi at hann ræðr skipinu, en eigi skipit honum, þá er sem þeir hafi ófundit hval.

Kap. 8. Um rangfluttan hval ok ef í fiskhelgi er.
Ef menn flytja hval þaðan frá landi manns er sjá má fisk á borði, þá á sá hval er áðr átti. … Í fjörðum eða sundum, þar er maðr flytr hval svá at sjá má fisk á borði frá fleirum löndum en einu, þá eigu þeir allir jafnt, er svá nær eigu lönd, þó at einn flyti á sitt land, nema af einhvers landi standi svá mikit veðr, at þangat mátti eigi flytja. Ef menn reka hvali á land manns, þá eigu þeir tvá hluti, en landeigandi þriðjung. Ef menn finna hval í vökum útar en fisk sér á borði, þá á sá er fyrstr finnr allan þann er hann kemr á ís upp. Nú koma menn til ok bera vápn á hvali þá ok festa við ísbrún svá at eigi má sökkva, þá eigu þeir er veiða, en þeir sem síðarr koma til, ok neitta hinir þeira liði ok sökkr hvalr, þá ábyrgist þeir er fyrr kómu við þessa eptir manntali þenna hval. Ok hvatki er þeir fá svá, þá skulu þeir þar á land bera er þeir vilja. En ef landsdrottinn telr at, at þeir spilla þar eng hans eða haga, bæti skaða … þeim er gras á. En ef leggr á hölkn eða fjöru, þar sem engi er skaði at, flyti brott at ósekju. Nú finnr maðr hval í ísum nær landi, ok þó fyrir útan netlög, þá á hann hálfan ef kvikr er, en landeigandi allan ef dauðr er. Nú gengr vök allt at landi sú er menn sæfa hvali í fyrir útan netlög, ok renna þeir á land upp, þá á svá at fara um eiginorð þeira sem menn reki upp með skipum. Ef menn skjóta þingbornum skotum hvali í vökum, þá eigu þeir eigi heldr en aðrir menn, nema dauða reki á land, þá eigu þeir skothlut. Hverr maðr á veiði sína fyrir útan netlög. Þat er veiðr, ef maðr flytr á skipi til lands, en flutning ella. Ef maðr veiðir hval í rekamarki, þar er fisk sér á borði ok fyrir útan netlög, þá á sá allan er veiðir.

Kap. 9. Um selveiðar ok skot þat eigi er þingborit.
Ef maðr hittir net í látrum sínum ok sel í, þá á hann net ok svá sel, þar til er hinn leysir … net út … Nú lýstr maðr sel ok finna þann aðrir menn, þá á hálfan sá er laust, en hálfan sá er finnr á floti, en sá skutil sinn er skaut, ef skutill fylgir. Nú rekr á land hafrhval, björn, rostung, sel eða hnísu ok finnst skot í, þá á sá þriðjung er skaut, … ok skal sá er á landi býr því er á rekr lýsa því skoti … innan mánaðar. Nú hittir maðr á sel eða hnísu eða aðra fiska, útan hval, fyrir ofan marbakka, ok færir þeim er á jörðu býr, hafi fimmtung af, en jörð fjóra hluti. En ef hann færir brott, þá færi hann aptr. …

Kap. 10. Um helgra daga veiði og flutning hvala.
Ef hvalur er fluttur eða skorinn á löghelgum degi, þá skal gefa af hinn fimmta hlut, ef fluttur er, og að svo miklu sem skorið er á löghelgum degi, en eigi er meira skylt nema fluttur sé. Af selaveiði og allri fyrri er löghelgan dag er veitt, skal gefa hinn fimmta hlut fátækum mönnum innan hrepps, þar sem á land kemur, er eigi gera tíund, og skulu hreppstjórnarmenn þessa skipta milli fátækra, því að svo hafa verið forn lög og venja, en hver eigi vill þetta greiða er sekur sex aurum.

Kap. 11. Um almenningshval, ef fluttr er, hverir eigu.
Ef menn flytja hval ór almenning, þá skulu þeir fylgja festum til lands, ef þeim er óhætt fyrir stormi eða brimi. Nú skiljast þeir fyrir þat við at þeim er eigi óhætt, þá eigu þeir þó hval, ef á þat land rekr er þeir vildu flytja. En ef annars staðar kemr, þá er þat rekhvalr.

Lögbannsbeiðni SES á frumvarp sjávarútvegsráðherra.

Samtök eigenda sjávarjarða
Pósthólf 90
780 Hornafjörður

Til sýslumannsins í  Reykjavík,
Skógarhlíð 6,
105 Reykjavík.

Reykjavík, 20. maí 2011.

Lögbannsbeiðni

Lögbannsbeiðandi Stjórn Samtaka eigenda sjávarjarða, kt. 581001-2150, pósthólf 90, 780 Hornafirði, Ómar Antonsson, formaður, f.h. eigenda sjávarjarða leggur fram þessa beiðni um lögbann í samræmi við lög nr. 31/1990.

Lögbannskröfunni er beint að stjórnvaldi eða Jóni Bjarnasyni, sjávarútvegsráðherra vegna frumvarps til laga um stjórn fiskveiða nr. 1475, mál nr. 827.  Hér er því um að ræða lögbannsbeiðni vegna gerðar frumvarps en ekki vegna stjórnarathafnar eða stjórnsýsluákvörðunar.

Heimilisvarnarþing gerðarþola, sjávarútvegsráðherra, Jóns Bjarnasonar er í Reykjavík og er því málið lagt fyrir sýslumanninn í Reykjavík, sbr. 26. gr. laga um kyrrsetningu og lögbann nr. 31 frá 1990.

Gerðarbeiðandi vísar til þess að frumvarp þetta gengur alveg gegn og tekur ekkert tillit til stjórnarskrárvarinna eignarréttinda sjávarjarða sem fyrirmæli eru um í lögum, en sjávarjarðir eiga belti sjávar í sjávarauðlindinni, sjá sem dæmi  meðfylgjandi auglýsingu, og upplýsingar sem þar er að finna um lagafyrirmæli, frá 8. apríl 2011, sem er endurskoðun á auglýsingu samtakanna frá 3. október 2003, álit Mannréttindadómstóls Evrópu um eignarrétt sjávarjarða, úrtak úr fundargerð frá starfshópi um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða frá 7. fundi nefndarinnar 19. febrúar 2010 og minnisatriði vegna fundar með formanni stjórnarskrárnefndar 4. júlí 2005.

Marg ítrekað hefur íslenskum stjórnvöldum verið bent á þennan grundvallareignarrétt sjávarjaða, en hann hefur samt verið algjörlega hundsaður s.l. tæplega 3 áratugi.  Auk þess eiga sjávarjarðir atvinnurétt svo nefndan útræðisrétt.

Eigendur sjávarjaða eru því ekki jafnir öðrum borgurum þessa lands fyrir lögunum, sbr. 65. gr. stjórnarskrárinnar.

Netlög sjávarjarða eru þinglýst eign, í ljósi atvika er eignarréttur tvímælalaus, og enginn vafi leikur á því að eigendur sjávarjaðra eru réttir og löglegir eigendur en verða sviptir áfram eign sinni með væntanlegu frumvarpi.  Eigendur sjávarjarða hafa takmörkuð fjárráð, en vilja verja eignarrétt sinn.  Því er þess óskað að málinu verði lokið án tryggingar, sbr.  30. gr., 3. mgr. 26. gr, 3. mgr. 8. gr. og 3. mgr. 16. gr. 3. og 5. tl. laga um kyrrsetningu og lögbann nr. 31 frá 1990.  Allir mega sjá að brotið er gegn löglegum grundvallar mannréttindum eigenda sjávarjarða.

Um aðild málsins er það að segja, að með lögbannsbeiðni sinni leitast eigendur sjávarjaðra við að verja eignarrétt sinn, sem er þinglýstur og viðurkenndur í lögum og Mannréttindadómstóll Evrópuráðsins segir að eignarréttur þessi sé lögformlega í samræmi við eignarréttarákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu.  Eigendur sjávarjarða eiga því sjálfstæða hagsmuni, sem þeir eru bærir um að fylgja eftir með lögbannsbeiðni þessari.

Eigendur sjávarjarða eiga þau eignarréttindi sem nefnd eru netlög.  Rétti þessum hefur aldrei verið afsalað af eigendum sjávarjarða og látinn í hendur annarra.  Þessi réttur er forn og hefur löglega fylgt sjávarjörðum frá ómunatíð.   Eigendur sjávarjarða eru einu eigendur sjávarauðlindarinnar samkvæmt lögum.

Eigendur sjávarjarða hafa aldrei heimilað íslenskum stjórnvöldum að ráðstafa eign sinni á nokkurn hátt.  Slíkar ráðstafanir, hvort sem er með fyrri lögum eða með fyrrgreindu frumvarpi til laga eru því ólöglegar og heimildarlausar með öllu.

Athöfn gerðarþola brýtur gegn lögvörðum eignarrétti gerðarbeiðanda.  Augljóst er að um mikilvægan eignarrétt er að ræða á verðmætri hlutdeild í sjávarauðlindinni, sem ekki verður tekinn af eigendum nema almenningsþörf kerfjist þess, þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.  Á meðan löglegar heimildir og umboð eru ekki fyrir hendi krefjast eigendur sjávarjarða þess að fá að njóta eigna sinna í friði í samræmi við 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu, sem samþykkt var af Íslandi 18. maí 1954.

Lögbannsbeiðni þessari fylgja ljósrit af eignarheimildum, þ.e. upplýsingar um lagafyrirmæli um eignarrétt sjávarjarða o.fl.

Eignarréttur gerðarbeiðanda, eigenda sjávarjarða, er glöggur og skýr og sönnunargögn alveg tæmandi, sbr. m.a. álit Mannréttindadómstóls Evrópu. Gerðarþoli er að undirbúa lög með frumvarpi ólöglega og án heimilda.  Gerðarbeiðandi telur að sú staða sé í málinu, að hann eigi rétt á því, að hægt sé að ljúka málinu án tryggingar af hans hálfu.

Til upplýsinga eru send meðfylgjandi skjöl:

 1. Auglýsing, dags. 8. apríl 2011 (endurskoðun á auglýsingu frá 3. október 2003).
 2. Álit Mannréttindadómstóls Evrópu 2. desember 2008, mál nr. 40168/05.
 3. Úrtak úr fundargerð 7. fundar starfshóps um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða 19. febrúar 2010.
 4. Minnisatriði vegna fundar með formanni stjórnarskrárnefndar 4. júlí 2005.
 5. Bréf, dags. 22. janúar 2008 til Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna frá Samtökum eigenda sjávarjarða.
 6. Bréf, dags. 11. júní 2009 til sjávarútvegsnefndar Alþingis frá Samtökum eigenda sjávarjarða.
 7. Bréf, dags.  23. október 2009 frá lögmannstofunni Réttur til sjávarútvegsráðherra.
 8. Bréf, dags. 8. júlí  2010 til sjávarútvegsráðherra frá Samtökum eigenda sjávarjarða.
 9. Bréf, dags. 27. september 2010 til sjávarútvegsráðherra frá Samtökum eigenda sjávarjarða.

10.  Bréf, dags. 13. október 2010  til utanríkisráðherra frá Samtökum eigenda sjávarjarða.

11.  Svar við fyrirspurn  í 421. máli á Alþingi.

12.  Bréf, dags. 19. febrúar 2011 til fulltrúa Evrópusambandsins frá Samtökum eigenda sjávarjarða.

13.  Bréf, dags. 29. apríl 2011 til sjávarútvegsráðherra frá Samtökum eigenda sjávarjarða.

Heimasíða Samtaka eigenda sjávarjarða er:    www.ses.is

Virðingarfyllst,

Ómar Antonsson, formaður

f.h. stjórnar Samtaka eigenda sjávarjarða

Minnisatriði vegna fundar með formanni stjórnarskrárnefndar 4. júlí 2005 (Sett á vefinn í apríl 2011)

Minnisatriði vegna fundar með formanni stjórnarskrárnefndar 4. júlí 2005, kl. 14.00.

Efni fundar:

Upplýsingum komið á framfæri frá stjórn Samtaka eigenda sjávarjarða til formanns stjórnarskrárnefndar um rétt sjávarjarða til sjávarins.

Mættir:

Formaður stjórnarskrárnefndar, Jón Kristjánsson.

Ómar Antonsson, formaður Samtaka eigenda sjávarjarða.

Björn Erlendsson, ritari,

Árni Snæbjörnsson, hlunnindaráðunautur Bændasamtaka Íslands.

Stjórn Samtaka eigenda sjávarjarða vill með fundi þessum vekja athygli stjórnarskrárnefndar á eftirfarandi atriðum:

 1. Sjávarjarðir eru flestar í einkaeign og er eignarréttur þeirra varinn, samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar.
 2. Í einkaeigu sjávarjarða eru svo kölluð netlög sem er ræma sjávarins utan stórstraumsfjöruborðs.
 3. Netlögin eru hluti fiskveiðilandhelginnar.  Netlögin eru talin einn frjósamasti hluti sjávarins.  Sjórinn þar og lífríkið er á ferð milli netlaganna og ytra svæðis þar sem íslenska ríkið fer með umráð.  Sjávarauðlindin er því óskipt sameign og er nauðsynlegt að taka tillit til allra eigenda, sbr. aðrar óskiptar sameignir.
 4. Margar sjávarjarðir eiga fornan rétt til veiða utan netlaga, þ.m.t. í fiskhelgi.
 5. Landhelgi Íslands er miðuð út frá landi, þ.e. stórstraumsfjöruborði sjávarjarða, en margar sjávarjarðir eru í einkaeign og er því hluti landhelginnar í einkaeign.
 6. Atvinnuréttur tilheyrir sjávarjörðum, svo kallað útræði og heimræði.

 

Stjórn Samtaka eigenda sjávarjarða fer fram á, að við umfjöllun stjórnarskrárnefndar um eignarrétt og atvinnurétt sjávarjarða og hugsanlegar stjórnarskrárbreytingar, þá taki nefndin fullt tillit til réttinda sjávarjarða og virði eignarrétt þeirra.

Vísað er í heimasíðu samtakanna:       ses.is

Meðfylgjandi:

 1. Auglýsing um rétt sjávarjarða frá 3. október 2003.
 2. Bréf, dags. 7. nóvember 2002 frá formanni stjórnar Samtaka eigenda sjávarjarða til Dr. Franz Fischler, ráðherra sjávarútvegsmála hjá Evrópubandalaginu.

Tillaga til þingsályktunar um rannsóknir á umfangi og nýtingarmöguleikum sjávarorku á Íslandi

139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1168  —  657. mál.

Tillaga til þingsályktunar

um rannsóknir á umfangi og nýtingarmöguleikum sjávarorku á Íslandi.

Flm.: Skúli Helgason, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Sigmundur Ernir Rúnarsson,
Gunnar Bragi Sveinsson, Þráinn Bertelsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir,
Birgitta Jónsdóttir, Siv Friðleifsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Birkir Jón Jónsson, Oddný G. Harðardóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Vigdís Hauksdóttir,
Sigurður Ingi Jóhannsson, Guðmundur Steingrímsson, Kristján L. Möller,
Ólafur Þór Gunnarsson, Björgvin G. Sigurðsson, Magnús Orri Schram,
Margrét Tryggvadóttir, Tryggvi Þór Herbertsson, Þór Saari.

    Alþingi ályktar að fela iðnaðarráðherra að hefja vinnu við mat á umfangi og nýtingarmöguleikum sjávarorku við strendur Íslands, með áherslu á greiningu nýtingarkosta á þeim svæðum landsins sem ætla má að uppfylli hagkvæmnikröfur; jafnframt að byggja upp gagnagrunn um nýtingu sjávarorku og stuðla að framgangi tækniþróunar á þessu sviði. Einnig yrði kannað með hvaða hætti Ísland gæti orðið aðili að alþjóðlegu samstarfi um nýtingu sjávarorku.

Greinargerð.

    Leiða má getum að því að sjávarorka sé ein stærsta ónýtta orkulind Íslands. Þá ályktun má draga af niðurstöðum rannsókna í nágrannalöndunum. Má þar t.d. nefna skýrslu sem SEI (Sustainable Energy Ireland) hefur gefið út á Írlandi. Niðurstöður hennar eru m.a. að heildarorka sjávarfallastrauma við Írland sé 230 TWh/a, en til samanburðar álítur Orkustofnun að samanlagt heildarumfang vatnsafls og jarðvarma hér á landi sé um 123 TWh/a. Rétt er að hafa í huga að hvorug talan segir til um nýtingarmöguleika. Ekki er hægt að fullyrða að aðstæður við Írland séu að fullu sambærilegar við Ísland, en sé tekið tillit til þess að Írland er 70% af flatarmáli Íslands rennir það stoðum undir þá skoðun að virkjun sjávarorku geti orðið framtíðargrein í orkubúskap Íslendinga. Í sömu átt benda rannsóknir við Bretland, Noreg og víðar.
    Hér við land hafa litlar rannsóknir farið fram á hafstraumum og þar með sjávarorku við strendur utan fjarða á þeim stöðum þar sem straumar eru stríðir, svo sem í röstum undan annesjum. Jafnframt hefur engin stefna verið um slíkar rannsóknir til að meta orkumagn og nýtingarmöguleika. Vissulega má tilgreina þau rök annars vegar að Íslendingar hafa haft næga orku frá vatnsföllum og jarðvarma og hins vegar að hingað til hefur tækni skort til hagkvæmrar nýtingar sjávarorku. Hvort tveggja kann þó að vera að breytast.
    Ísland er auðugt að hreinni og endurnýjanlegri orku og hafa Íslendingar einkum nýtt tvær tegundir þessara auðlinda, vatnsföll og jarðvarma, og verið í fremstu röð þjóða hvað varðar nýtingarhlutfall hreinnar, endurnýjanlegrar orku. Lítið sem ekkert hefur verið hugað að öðrum endurnýjanlegum orkulindum landsins, enda álitið að ekki væri unnt að nýta þær með hagkvæmum hætti.
    Fyrirliggjandi drög að rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma leiða í ljós að í þessum tveimur endurnýjanlegu orkugjöfum eiga Íslendingar enn mjög miklar orkulindir sem nýtanlegar væru út frá tæknilegum og hagrænum sjónarmiðum. Þessir nýtingarmöguleikar minnka þó verulega þegar tekið er tillit til umhverfissjónarmiða og annars verndargildis. Vaxandi almenn umhverfisvitund veldur því að sérhver nýr virkjanakostur er nú umdeildari en áður var. Íslendingar geta því ekki treyst eingöngu á nýtingu þessara tveggja orkugjafa til framtíðar. Næstu kynslóðir munu þurfa að leita nýrra leiða um orkuöflun, og núlifandi kynslóð hlýtur að leggja sitt af mörkum til að svo megi verða, t.d. með rannsóknum og gagnaöflun er tengist nýjum orkukostum.
    Ísland býr yfir miklum hreinum og endurnýjanlegum orkulindum, auk vatns- og jarðvarma. Þar má nefna vindorku, ölduorku og sjávarfallaorku. Sífellt fleiri ríki og ríkjabandalög beina nú sjónum sínum að nýjum lausnum í stað jarðefnaeldsneytis, og síaukin áhersla er lögð á leit að nýjum lausnum. Tækniþróun hefur því fleygt fram í heiminum varðandi nýtingu endurnýjanlegrar orku á mörgum sviðum. Mörg Evrópulönd eru þar framarlega í flokki. Nægir þar að nefna hina miklu vindmylluvæðingu í Danmörku og Þýskalandi og áherslu Breta á sjávarorkutækni. Ný tækniþekking og aukin fjöldaframleiðsla gerir nýtingu óhefðbundinna orkulinda sífellt arðbærari.
    Sjávarorka er væntanlega mjög mikil við Íslandsstrendur og má telja líklegt að þar sé orkukostur sem hagkvæmt væri að virkja við tilteknar aðstæður. Til þess liggja nokkrar ástæður. Í fyrsta lagi er ljóst að víða er mikla orku að finna skammt undan ströndum og má leiða líkum að því að heildarforði sjávarorku sé talsvert meiri en samanlögð virkjanleg vatnsfalla- og jarðvarmaorka eins og hér kom fram í upphafi. Í öðru lagi er um stöðuga og fyrirsjáanlega orkuöflun að ræða. Þetta á einkum við um sjávarfallastrauma sem fylgja reglulegum gangi tungls um jörðu. Þar yrði framleiðslustöðvun fjórum sinnum á sólarhring á fallaskiptum, en brúa má það m.a. með tveimur leiðum: annars vegar með því að keyra vatnsorkuver á fallaskiptum en spara í lónum á milli, en hins vegar með því að nýta misjafnan sjávarfallatíma kringum landið. Í þriðja lagi er tækni til nýtingar sjávarorku sífellt að þróast og verða hagkvæmari. Í heiminum eru nú um 60 tegundir hverfla komnar í tilraunakeyrslu, og áætlanir eru um umfangsmiklar sjávarfallavirkjanir í nokkrum ríkjum. Í fjórða lagi eru líkur á að Íslendingar gætu náð góðum árangri í þróun tækni á þessu sviði, ekki síður en á sviði jarðvarmanýtingar. Íslensk þróun sjávarorkutækni er þegar hafin. Nú er verið að þróa nokkrar gerðir hverfla á vegum fyrirtækisins Valorku ehf. og þegar hefur verið tryggt einkaleyfi fyrir íslenskum sjávarfallahverfli, uppfinningu Valdimars Össurarsonar. Kerprófanir hafa staðið yfir og fyrstu niðurstöður lofa góðu.
    Sjávarorka kemur fyrir í nokkrum myndum en sumar þeirra koma varla til álita hér. Það gildir t.d. um hitastigulsvirkjun (OTEC), en þá er virkjaður hitamunur lagskipts sjávar á mismunandi dýpi. Önnur tegund er seltuvirkjun (osmose), en þá eru virkjuð áhrif mismunandi seltustigs vatns og sjávar við árósa með gegndræpum himnum. Tæknin er nú á tilraunastigi og skammt komin, en hugsanlega gæti hér verið um mikilvægt orkuform að ræða fyrir okkur í framtíðinni. Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur haft forgöngu um rannsóknir á osmósuvirkjunum og hefur byggt upp tilraunaaðstöðu til að meta fýsileika þess að nota íslenskar jökulár til að framleiða orku með osmósutækni. Þær rannsóknir hafa nú leitt til samstarfs Nýsköpunarmiðstöðvar og Orkubús Vestfjarða um að setja á fót osmósuorkuver í smáum stíl við Mjólkárvirkjun til að vekja athygli ferðamanna og almennings á þessum vistvæna orkukosti. Um er að ræða umhverfisvænan orkukost þar sem ekki er um að ræða neina losun gróðurhúsalofttegunda eða mengandi vökva, engin þörf er fyrir stíflur eða uppistöðulón og áhrif á gróður og lífríki ár og sjávar eru í lágmarki. Þriðja form sjávarorku er ölduvirkjanir. Hér er um mjög áhugaverðan orkukost að ræða þar sem ölduhæð getur orðið mjög mikil við Íslandsstrendur, einkum sunnanlands. Ölduorka er þó mjög óstöðug orkulind; enn eru óleyst vandamál við nýtingu hennar og virkjanatækni á langt í land með hagkvæmni. Fjöldamargar hugmyndir hafa komið fram um tækni til virkjunar á ölduorku, en enn hefur engin fundist sem staðist hefur mestu átök við raunaðstæður. Að minnsta kosti ein íslensk hugmynd hefur verið lögð fram en hún er enn á þróunarstigi.
    Á sviði virkjunar sjávarfalla hefur Nýsköpunarmiðstöð Íslands í samvinnu við Háskólasetur Vestfjarða og Orkubú Vestfjarða komið að rannsóknum á möguleikum slíkra virkjana á Vestfjörðum. Lengst var gengið með rannsóknir á Þorskafirði þar sem gert var líkan af samnýtingu brúar yfir fjörðinn og hverfla undir brúnni, sem virkjað gætu orku sem nemur að meðaltali um 35 MW, en það mundi gera Vestfirði sjálfa sér næga um raforku.
    Fjórða form sjávarorku er virkjun hafstrauma sem mætti skipta í nokkra flokka: stífluvirkjanir nýta sjávarfallastrauma í ósum og fjörðum sem þá eru stíflaðir og straumurinn leiddur gegnum hverfla. Hætt er við að slíkar virkjanir verði umdeildar vegna mikilla umhverfisáhrifa, en á móti kann að koma hagkvæmni vegna annarra þátta, svo sem þar sem þvera þarf firði vegna vegagerðar. Sundavirkjanir eru hér nefndar sjávarfallavirkjanir þar sem hverflar eru staðsettir í straumhörðum sundum og álum án stíflugerðar. Hverflarnir geta ýmist verið alveg á kafi, marandi í yfirborðinu eða festir á turn sem nær frá botni upp fyrir yfirborð. Flestir sjávarfallahverflar sem nú eru í þróun teljast til þessa flokks, en sumir þeirra eru komnir á það stig að vera farnir að framleiða rafmagn í einhverjum mæli inn á neyslunet. Hagkvæmni sjávarfallahverfla eykst hröðum skrefum. Nefna má t.d. að EPRI (Electric Power Research Institute, Bandaríkjunum), sem hefur gert áætlanir um stóra sjávarfallavirkjun í Fundy-flóa, telur að raforkuverð þaðan verði sambærilegt við annað heildsöluverð raforku. Ókostur sundavirkjana er sá að hverflarnir þurfa mikinn straumhraða til að skila hagkvæmri orkuframleiðslu, um og yfir 2,5 m/sek. Sá hraði er ekki algengur og kemur helst fyrir í nokkrum sundum en lítt utanfjarða. Hér er hann að finna í Hvammsfjarðarröstinni og sennilega í fleiri álum Breiðafjarðar.
    Þá er ótalinn sá flokkur sjávarfallavirkjana sem e.t.v. mun hafa mesta þýðingu fyrir Íslendinga til framtíðar en þær má nefna strandvirkjanir. Þá er virkjaður sjávarfallastraumur í röstum við annes, og til þess notaðir hverflar sem eru alveg á kafi, en festir við botn. Straumur er yfirleitt mun minni en í innfjarðasundum, og má reikna með að hann geti víða orðið yfir 1 m/sek. Mælingar kunna að leiða í ljós meiri straumhraða. Þar sem orkan eykst í þriðja veldi við aukningu straumhraða þurfa hverflar fyrir hægari straum að hafa nokkuð mikið flatarmál. Þeir þurfa að vera á töluverðu dýpi til að forðast yfirborðskviku, eða sennilega meira en 20 m dýpi, og vel yfir botni. Hér við land eru töluvert stór svæði sem líklega búa yfir nýtanlegri orku af þessum tagi. Umfangsmest er líklega svæðið við sunnanverða Austfirði. Við Vestfirði er einnig víða að finna miklar rastir við annes, svo sem Látraröst, Straumnesröst o.fl. Þar fyrir utan má nefna Langanesröst, Reykjanesröst og Snæfellsnes. Hér er mögulega um allnokkrar orkulindir að ræða, orku sem getur orðið nýtanleg innan fárra ára vegna hinnar öru tækniþróunar. Um stærð hennar verður þó ekkert fullyrt þar sem skortir frekari upplýsingasöfnun og í framhaldinu rannsóknir á þeim svæðum á landinu þar sem mestar líkur eru á hagkvæmri nýtingu.
    Nýting sjávarorku hefði ýmsa þýðingu fyrir Íslendinga. Með henni fengist aðgangur að mjög stöðugri og öflugri orkulind sem unnt væri að nýta án nokkurra þekktra umhverfisáhrifa og ætti því ekki að verða umdeild. Þessi nýting mundi hafa verulega þýðingu varðandi orkuöryggi þar sem orkuna er víða að finna við svæði sem hingað til hafa búið við óöryggi í orkumálum.
    Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið varðandi takmarkað framboð hefðbundinna orkulinda er augljós ávinningur þess að meta umfang nýrra orkulinda, svo sem við strendur landsins. Það er ekki unnt nú þar sem áreiðanlegar mælingar skortir nær algjörlega, einkum varðandi sjávarfallastraum á virkjanlegum stöðum. Hafrannsóknastofnunin býr yfir mikilli reynslu af straummælingum og er stofnunin reiðubúin til að nýta sína reynslu til þeirra mælinga sem hér um ræðir. Notaðir hafa verið dopplermælar sem lagðir eru á botn í nokkra mánuði. Mælirinn safnar þar upplýsingum í minni um straumhraða í súlu sjávar frá botni til yfirborðs. Hann er síðan endurheimtur og unnið úr niðurstöðum.
    Rétt er að taka fram að enn hafa ekki komið fram óyggjandi vísbendingar um að virkjun sjávarfalla fullnægi almennt þeim kröfum sem gerðar eru um hagkvæmni og arðsemi. Hins vegar eru líkur á því að sjávarfallavirkjanir geti verið hagkvæmar við tilteknar aðstæður. Slíkar aðstæður er t.d. að finna í mynni Hvammsfjarðar þar sem fallastraumar eru miklir og hafa verið veitt rannsóknarleyfi vegna hugsanlegrar nýtingar þar. Á Vestfjörðum og hugsanlega fleiri stöðum á landinu þar sem afhendingaröryggi raforku er takmarkað gæti staðbundin raforkuframleiðsla komið í stað framkvæmda við að styrkja og eða tvöfalda flutningslínur til meginlandsins. Framkvæmdir við vegagerð og þverun fjarða gætu nýst sem hluti fjárfestingar í sjávarfallavirkjun.

Áform um rannsóknamiðstöð sjávarorku.
    Nokkrir einkaaðilar hafa beitt sér fyrir rannsóknum á sjávarorku. Valorka ehf. hefur beitt sér fyrir stofnun rannsóknamiðstöðvar sjávarorku í samstarfi við Hafrannsóknastofnunina og Verkís. Fyrirtækið Sjávarorka hefur rannsakað röstina í Hvammsfirði, hópur aðila rannsakar fjarðavirkjanir í austanverðri Barðastrandasýslu og annar til rannsakar nýtingu sjávarorku í Hornafirði. Vonir manna hafa staðið til að þessir aðilar bindist samtökum um að koma á fót rannsóknamiðstöð sjávarorku með fulltingi Nýsköpunarmiðstöðvar, Siglingastofnunar, Hafrannsóknastofnunarinnar og annarra opinberra aðila. Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Rarik vinna nú að áætlunum um slíka miðstöð við Breiðafjörð.

Uppbygging gagnagrunns.
    Ekki hefur verið byggður upp gagnagrunnur til almennra nota á þessu sviði þó að ýmsir hafi viðað að sér upplýsingum. Gagnagrunnur af þessu tagi er nauðsynlegur í ýmsu tilliti, svo sem við mat á orkuauðlindum sjávar, til að fylgjast með tækniþróun og rannsóknum, til nota við íslenska tækniþróun, til kennslu o.fl. Leggja þarf áherslu á að gögnin séu aðgengileg og opin öllum.

Stuðningur við tækniþróun.
    Hér er um óhefðbundin verkefni að ræða og þegar sótt er um stuðning fyrir verkefni á þessu sviði til samkeppnissjóða er mikilvægt að skilningur og þekking sé fyrir hendi á sjávarorku og nýtingarmöguleikum hennar. Ef árangur á að nást er nauðsynlegt að stofnanir og sjóðir hins opinbera séu vakandi fyrir öllum tækifærum sem gefast og fylgist vel með framförum í þessu efni.

Alþjóðasamstarf.
    Aðild að alþjóðasamtökum á sviði sjávarorkunýtingar gæti reynst Íslendingum mjög gagnleg, svo sem við uppýsingaöflun og verkefnasamstarf. Ísland er nú þegar aðili að Alþjóðaorkuráðinu og alþjóðasamstarfi á sviði endurnýjanlegrar orku, sem gæti nýst að einhverju marki í þessum efnum. Rétt væri að skoða einnig aðild að IEA-OES sem er alþjóðasamstarf um nýtingu sjávarorku á vegum Alþjóðaorkumálastofnunarinnar.